Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 25. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 71  —  25. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007,
og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum
(frítekjumörk, tekjutengingar og eftirlitsheimildir).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


Röng forgangsröðun.
    Minni hlutinn fagnar þeim vilja núverandi ríkisstjórnar sem birtist í frumvarpi þessu til að auka útgjöld til almannatrygginga eins og áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir. Minni hlutinn tekur hins vegar undir með fjölmörgum umsagnaraðilum sem telja að verið sé að byrja á öfugum enda. Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra mun helst gagnast þeim lífeyrisþegum sem hafa hæstu tekjurnar og m.a. þeim sem hingað til hafa ekki fengið neinar greiðslur frá almannatryggingum vegna of mikilla annarra tekna. Minni hlutinn tekur undir með þeim umsagnaraðilum sem telja að eðlilegra hefði verið að grípa til aðgerða sem kæmu tækjulægstu og verst settu lífeyrisþegunum til góða fremur en þeim tekjuhærri. Eðlilegast væri að fyrstu aðgerðir til leiðréttinga næðu til allra lífeyrisþega, svo sem með hækkun grunnlífeyris enda liggur fyrir að hann hefur ekki fylgt verðlagi að fullu síðustu ár.
    Í töflunum hér á eftir má sjá áhrif frumvarpsins á tekjur lífeyrisþega eftir tekjubilum.

Tafla 1. Ellilífeyrisþegar með lífeyrissjóðstekjur.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 2. Ellilífeyrisþegar með atvinnutekjur.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 3. Örorkulífeyrisþegi með lífeyrissjóðstekjur og fyrst metinn öryrki 35 ára.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Ljúka þarf heildarendurskoðun almannatryggingalaga.
    Á síðasta þingi lagði þáverandi velferðarráðherra fram tvö frumvörp sem voru afrakstur mikillar þverpólitískrar vinnu með aðkomu allra helstu hagsmunaaðila. Um var að ræða annars vegar frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og hins vegar frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Upphaf endurskoðunar almannatryggingalaga má rekja til ársins 2007 en þá hófst vinna með það að markmiði að einfalda almannatryggingakerfið með sameiningum bótaflokka, samræmdum skerðingarmörkum vegna tekna og draga úr fátæktargildrum í kerfinu. Frumvörp þau sem velferðarráðherra lagði fram á síðasta þingi eru afrakstur þeirrar vinnu. Öllum er ljóst sem koma með einum eða öðrum hætti að almannatryggingakerfinu að verulegra úrbóta er þörf. Þannig kemur m.a. fram í umsögnum aðila vinnumarkaðarins að fremur hefði átt að halda áfram þeirri vinnu sem unnin hefur verið í starfshópum hjá velferðarráðuneytinu undanfarin ár við heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins fremur en að koma fram með frumvarp sem aðeins er bútasaumur í annars meingallað kerfi. Minni hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og telur veigamikil fagleg rök hníga til þess að halda áfram vinnu við þau frumvörp sem velferðarráðherra lagði fram á síðasta þingi og hafa nú verið endurflutt af þingflokki Samfylkingarinnar (6. og 7. mál). Á fundum nefndarinnar kom fram að verði þetta frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra að lögum óbreytt mun það gera heildarendurskoðun almannatryggingalaga á grunni tillagna starfshóps á síðasta kjörtímabili erfiðari og dýrari en ella þar sem í frumvarpi fyrrverandi velferðarráðherra er gert ráð fyrir því að greiðslur haldist óbreyttar eða hækki í áföngum á meðan nýtt kerfi tekur gildi. Þá kom einnig fram að með þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi er í raun verið að víkja til hliðar allri þeirri vinnu sem unnin hefur verið síðustu ár. Minni hlutinn harmar það. Ljóst er að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar setur þær niðurstöður sem finna má í frumvarpi fyrrverandi velferðarráðherra frá síðasta þingi í uppnám, enda eru hér lagðar til auknar greiðslur sem ekki var gert ráð fyrir og því þarf að meta kostnaðaráhrif heildarendurskoðunarinnar aftur á grundvelli breyttra forsendna. Minni hlutinn leggur því áherslu á að vinnu verði haldið áfram á grundvelli frumvarpa sem velferðarráðherra lagði fram á síðasta þingi og þingflokkur Samfylkingarinnar hefur nú endurflutt og í samræmi við ákvæði til bráðabirgða X í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning (þskj. 7). Þar kemur fram að ráðherra skuli tryggja áframhaldandi umboð starfshóps þess sem vann að gerð frumvarpsins og skuli starfshópurinn vinna að endurskoðun laga er snúa að öryrkjum í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga og skila af sér tillögum að breytingum fyrir 1. október 2013.

Ekki gætt að jafnrétti kynjanna.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ekki verði séð að frumvarpið hafi bein áhrif á jafnrétti kynjanna, þar sem sömu skilyrði gilda fyrir karla og konur gagnvart réttindum úr almannatryggingum. Hins vegar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að frumvarpið leiði til fjölgunar þeirra sem fá greiðslur og að karlar séu þar í meiri hluta þrátt fyrir að vera minni hluti lífeyrisþega. Minni hlutinn bendir á að ástæðan er m.a. sú að frumvarpið gagnast aðallega þeim sem hafa hæstu tekjurnar og að konur á ellilífeyrisaldri eiga minni uppsöfnuð réttindi í lífeyrissjóðum en karlar, m.a. af því að konur hafa í gegnum tíðina unnið ólaunuð heimilisstörf en einnig vegna langvarandi kynbundins launamunar. Sýnt þykir að karlar séu í meiri hluta þeirra sem hafa ekki fengið greiðslur en munu fá greiðslur verði frumvarpið að lögum, þ.e. þeir sem hafa yfir 350 þús. kr. á mánuði í aðrar tekjur. Þetta er og athyglisvert í ljósi þess að konur eru meiri hluti ellilífeyrisþega. Minni hlutinn tekur því undir athugasemdir í umsögn Jafnréttisstofu þar sem lagt er til að frumvarpið verði skoðað ítarlega með það fyrir augum að tryggja að bæði konur og karlar njóti betri réttar eftir lögfestingu frumvarpsins.
    Minni hlutinn leggur til breytingar á skerðingarhlutfalli sérstakrar framfærsluuppbótar sem mundu koma konum sérstaklega vel en þær eru tæplega 70% þeirra sem fá hærri greiðslur ef breytingartillagan verður samþykkt. Breytingin mun fjölga þeim lífeyrisþegum sem fá hærri greiðslur eins og sjá má í töflu 4.

Tafla 4. Fjöldi lífeyrisþega sem fá hærri greiðslur frá Tryggingastofnun
við lækkun skerðingarhlutfalls sérstakrar uppbótar til framfærslu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar.
    Minni hlutinn tekur undir með meiri hluta nefndarinnar um 2. gr. frumvarpsins. Minni hlutinn telur að Tryggingastofnun þurfi á auknum eftirlitsheimildum að halda en tekur jafnframt fram að um vandmeðfarnar heimildir er að ræða sem krefjast þess að lagaákvæðin séu vel útfærð. Í ljósi þeirra athugasemda sem komu fram við meðferð málsins telur minni hlutinn að fresta eigi afgreiðslu 2. gr. frumvarpsins en leggur áherslu á að þegar til þess kemur að lögfestar verði auknar eftirlitsheimildir verði jafnframt gætt að réttaröryggi viðskiptavina Tryggingastofnunar. Að öðru leyti vísar minni hlutinn til álits meiri hlutans um eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar.

Breytingartillögur.
    Minni hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu í þeim tilgangi að mæta athugasemdum umsagnaraðila og koma til móts við þá sem lægstar tekjur hafa. Þannig er lagt til sem fyrsta skref að skerðing á sérstakri framfærsluuppbót sem er króna á móti krónu verði lækkuð úr 100% í 80% frá og með 1. júlí 2013 og 70% frá og með 1. janúar 2014. Er það í samræmi við tillögu um fyrstu skref í frumvarpi fyrrverandi velferðarráðherra og tillögu starfshóps um endurskoðun laga um almannatryggingar. Þá er einnig lögð til sú breyting að frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega verði fært varanlega til þess horfs sem það er nú skv. 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og verði áfram 1.315.200 kr. á ári til samræmis við frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna.
    Að öllu framansögðu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 3. júlí 2013.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Freyja Haraldsdóttir.


Katrín Júlíusdóttir.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.