Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 6. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 6  —  6. mál.
Tillaga til þingsályktunarum leikskóla að loknu fæðingarorlofi.

Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Bjarkey Gunnarsdóttir,
Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa í samráði við innanríkisráðherra nefnd með þátttöku sveitarfélaganna, sérfræðinga, hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka er geri tillögu að áætlun um hvernig sveitarfélögin standi að því að bjóða leikskólaúrræði strax og fæðingarorlofi lýkur. Miðað verði við að þegar fæðingarorlofið hefur verið lengt í 12 mánuði árið 2016 verði sveitarfélög um landið reiðubúin að veita þjónustuna. Nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 142. þingi (37. mál).
    Leikskólinn er fyrsta skólastigið í íslenska menntakerfinu og ætlaður börnum undir sex ára aldri. Skólaskylda hefst við sex ára aldur og eru leikskólabörn því ekki skólaskyld. Eigi að síður blandast fáum hugur um mikilvægi dvalar á góðum leikskóla fyrir þroska og velferð á bernskuskeiði. Í lögfestri markmiðslýsingu íslenskra leikskóla í lögum nr. 90/2008 segir: „Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.“
    Undanfarin ár hefur margoft verið rætt á opinberum vettvangi um þá staðreynd að yngstu börnin eiga að jafnaði ekki kost á að njóta þeirra gæða sem leikskólinn hefur upp á að bjóða. Þetta stafar af því að milli loka fæðingarorlofs, sem nú stendur í 9 mánuði, og þar til leikskóladyr ljúkast upp fyrir börnum getur liðið alllangur tími, enda algengt að leikskólar sveitarfélaganna veiti börnum ekki viðtöku fyrr en þau eru orðin 18–24 mánaða gömul. Foreldrar og forráðamenn ungbarna hafa því þurft að leita annarra leiða, sem oftast felast í því að vista börnin hjá dagmæðrum eða á einkareknum ungbarnaleikskólum.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað lagt áherslu á mikilvægi leikskólastigsins og bæði á þingi og í sveitarstjórnum lagt fram mál þess efnis að skólastigið verði gjaldfrjálst og skilgreint sem hluti grunnþjónustu sem íbúar njóti óháð búsetu.
    Með lögum nr. 143/2012, um breytingu á lögum nr. 95/2000, var réttur til fæðingarorlofs lengdur í áföngum og verður 12 mánuðir frá 1. janúar 2016 að telja. Mjög mikilvægt er að samhliða þeirri breytingu verði létt af ungbörnum og foreldrum þeirra óvissunni sem nú ríkir um dagvistunarmál þessa aldurshóps með því móti að sveitarfélögin sjái til þess að leikskólar þeirra standi ársgömlum börnum opnir. Einungis með því móti er unnt að tryggja að velferðar- og uppeldismarkmið samfélagsins nái fram að ganga.