Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 28  —  28. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

Flm.: Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Elín Hirst, Willum Þór Þórsson,
Silja Dögg Gunnarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir,
Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og hrinda í framkvæmd víðtæku forvarnastarfi vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Markmið verkefnisins verði að miðla upplýsingum um sjúkdóminn, einkenni hans, áhættuþætti, mögulegt eftirlit með áhættuþáttum og bætt meðferðarúrræði.
    Við skipulag verkefnisins verði komið á víðtækri samvinnu allra aðila innan og utan heilbrigðisþjónustunnar sem vinna að málefnum krabbameinssjúkra, svo sem í heilbrigðisþjónustu, við rannsóknir, í forvarnastarfi, fræðslu og stuðningsþjónustu.


Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 141. löggjafarþingi (375. mál). Henni fylgdi eftirfarandi greinargerð:
    „Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein í körlum. Á Íslandi greinast um tvö hundruð ný tilfelli á ári og af völdum meinsins látast árlega um 50 karlmenn á aldrinum 45 ára til 80 ára. Aukin almenn vitund um sjúkdóminn er líkleg til að auka greiningarmöguleika á fyrstu stigum sjúkdómsins og þar með líkur á greiningu.
    Eins og gildir um mörg önnur krabbamein í mannslíkamanum er tiltölulega auðvelt að fjarlægja meinið ef það greinist nógu snemma og áður en það hefur dreift sér út fyrir blöðruhálskirtilinn og valdið meinvörpum. Meinið er einstakt að því leyti að það er byggt upp úr blöðruhálskirtilsfrumum sem eru sértækar og finnast hvergi í líkama mannsins utan blöðruhálskirtilsins. Blöðruhálskirtillinn er þreifanlegur með fingri upp í endaþarm og með ómskoðun um endaþarm er auðvelt að skoða líffærið og taka sýni úr því til skoðunar og greiningar á meininu.
    Blöðruhálskirtilsfrumur gefa frá sér mótefnavaka (antigen) sem er mælanlegur í blóði karlmanna sem PSA og stendur fyrir Prostate Specific Antigen, sem þýða mætti sem sértækur blöðruhálskirtilsmótefnavaki. PSA er mælanlegt í blóði karlmanna, misjafnlega hátt eftir einstaklingum. Ef PSA hækkar skyndilega á 6–12 mánuðum er það merki um aukna virkni blöðruhálskirtilsfrumna og getur þar með verið ábending um krabbameinsæxlisvöxt genginn út frá blöðruhálskirtilsfrumum og eingöngu þeim þar sem engin önnur fruma í mannslíkamanum framleiðir PSA. Með nútímatækni er mæling á PSA tiltölulega einföld og þar af leiðandi ódýr. Hægt er að mæla hundruð blóðsýna daglega með sama tækinu. Hver mæling kostar um það bil 2.000 kr.
    Með því að mæla PSA endurtekið hjá sama karlmanninum og finna hækkuð gildi sæjust hættumerki um krabbameinsvöxt. Viðkomandi ber þá að leita aðstoðar þvagfæraskurðlæknis sem mundi þreifa blöðruhálskirtil viðkomandi og ef hann fyndi hnúta væri tekið sýni úr þeim og sent á vefjarannsóknarstofu. Ef skoðun á sýninu sýndi að um krabbamein væri að ræða lægi sjúkdómsgreiningin fyrir og meðferð yrði síðan ákveðin í samráði þvagfæraskurðlæknisins og sjúklingsins. Einkenni krabbameins í blöðruhálskirtli eru mjög lítil og engin á byrjunarstigi þannig að hægt er að mæla marktæka hækkun á PSA áður en æxlisvöxturinn er þreifanlegur og áður en hann sáir sér út um líkamann. Mælingu á PSA er þannig hægt að nýta til frumgreiningar á meininu sem ætti að auka líkurnar á snemmbærri meðferð og lækningu þess. Þá eru einnig vísbendingar um að erfðaþættir hafi áhrif á líkur á því að meinið greinist í karlmönnum.
    Ef karlmaður greinist með staðbundið krabbamein í blöðruhálskirtli kemur í megindráttum þrennt til greina: vöktuð bið, geislameðferð eða brottnám á blöðruhálskirtlinum. Geislameðferð er í flestum tilvikum veitt með svokölluðum línuhraðli og til þess að geta veitt sem bestu meðferð er kominn tími á að endurnýja eina tækið sem til er á landinu. Skurðmeðferð hefur fleygt fram og nú er við slíkar aðgerðir á Vesturlöndum notaður svokallaður aðgerðarþjarki (robot) sem er stýrt af skurðlækninum. Hann gerir skurðlækninum kleift að nema líffærið á brott án þess að valda skemmdum á mikilvægum nærliggjandi líffærum. Jafnframt er hægt að stytta legutímann og bataferlið allt sé notast við nýjustu tæki sem völ er á. Þjálfun lækna sem nú eru í sérfræðinámi í greininni miðast við slíka tækni og því mikilvægt að búa íslenskum sérfræðingum þau áhöld í hendur sem þeir eru vanir og gera það vænlegra fyrir þá að starfa á Íslandi við bestu mögulegu aðstæður og með sem mesta þekkingu að vopni, notendum þjónustunnar til góða. Því er gríðarlega mikilvægt að nauðsynleg tæki til skilvirkrar meðferðar sjúkdómsins verði til staðar hér á landi.
    Hingað til hefur ekki verið talið tímabært að framkvæma hópleitir vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Það er þó mikilvægt að farið sé reglulega yfir þær forsendur af þar til bærum aðilum enda er mikil reynsla hérlendis af skimun vegna legháls- og brjóstakrabbameins hjá konum sem skilað hefur góðum árangri. Mikilvægt er því að taka, með öllum skynsömum ráðum, á þessum vágesti íslenskra karlmanna.
    Það er von flutningsmanna að þingsályktun þessi hleypi af stað vitundarvakningu í samfélaginu um það mikla mein sem krabbamein í blöðruhálskirtli er. Grundvöllur forvarnastarfs er umræða og þekking um þann vágest sem við er að glíma. Allir karlmenn þurfa því að vera meðvitaðir um meinið og hvernig það lýsir sér og vita hvert þeir geta leitað til að fá skimun eða meðferð.“