Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 41. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 41  —  41. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna, starfsmannaskipti og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um menntun heilbrigðisstarfsmanna í löndunum og að tryggja möguleika á starfsmannaskiptum milli landanna. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á því að þróa frekara samstarf á sviði geðlæknisþjónustu, bæði hvað varðar menntun starfsmanna og meðferð fyrir sjúklinga.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2013 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi 20. ágúst 2013.
    Vestnorræna ráðið hélt þemaráðstefnu á Ísafirði í janúar 2013 um áskoranir og tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Vestur-Norðurlöndum. Niðurstaða ráðstefnunnar var m.a. sú að þrátt fyrir að allt mælti með náinni samvinnu á sviði heilbrigðismála út frá samgöngu- og hagkvæmnisjónarmiðum, þ.m.t. þjónustukaupum, þá væri samvinnan frekar takmörkuð. Vestnorræna ráðið leggur til að úr því verði bætt.
    Löndin eiga með sér mjög gott samstarf á ýmsum sviðum heilbrigðismála og óskar Vestnorræna ráðið eftir því að samstarfið taki til enn fleiri sviða. Ein meginástæðan fyrir takmörkuðu samstarfi er talin vera skortur á tengslaneti milli þeirra sem starfa á mismunandi sviðum innan heilbrigðiskerfisins í hverju landi fyrir sig. Ein besta leiðin til að auka þessi tengsl er talin vera í gegnum menntakerfið og starfsmannaskipti á milli landa. Menntun á sviði heilbrigðismála á Vestur-Norðurlöndum er almennt mjög góð og aukið samstarf á því sviði mundi í mörgum tilvikum vera efnahagslega hagkvæmt. Innan vestnorræna heilbrigðiskerfisins er mikil þekking og reynsla til staðar sem nýst getur við úrlausn ýmissa þeirra áskorana sem löndin þrjú standa frammi fyrir, ekki síst þeim áskorunum sem kunna að vera sameiginlegar löndunum. Með því að stuðla að formlegum starfsmannaskiptum yrði miðlun þekkingar og reynslu milli starfsmanna innan vestnorræna heilbrigðiskerfisins tryggð. Á sama tíma er stuðlað að uppbyggingu tengslanets og persónulegra kynna á milli vestnorrænna heilbrigðisstarfsmanna.
    Takmarkað samstarf og skortur á tengslaneti á ekki síst við um geðlækningar. Löndin, sem eru á margan hátt lík þegar litið er til landfræðilegrar legu og mannfjölda, standa frammi fyrir úrlausnarefnum sem mörg hver eru áþekk. Þannig getur aukið samstarf stuðlað að betri miðlun upplýsinga, þekkingar og reynslu öllum til gagns, auk þess sem slíkt samstarf getur falið í sér efnahagslegan ávinning vegna aukinnar hagkvæmni og styrkt svæðisbundna samvinnu.
    Hér er því jafnframt skorað á heilbrigðisráðherra Vestur-Norðurlandanna að kanna möguleikann á því að stuðla að auknu samstarfi á sviði menntunar geðheilbrigðisstarfsfólks og meðferðarúrræða.