Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 75. máls.

Þingskjal 75.  —  75. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn .

(Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013, frá 15. mars 2013, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, frá 21. október 2009, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013, frá 15. mars 2013, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, frá 21. október 2009, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum.
    Markmiðið með tilskipun 2009/126/EB er að draga úr loftmengun og bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið. Í þeim tilgangi er í tilskipuninni kveðið á um skyldu til uppsetningar gufugleypa á bensíndælur á bensínstöðvum sem selja bensín umfram þau lágmarksmörk sem tilgreind eru í tilskipuninni.
    Hér að aftan er gerð nánari grein fyrir efni gerðarinnar sem um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Vegna þess hve langt er um liðið síðan ákvörðunin var tekin og fyrirséð er að efnisleg innleiðing gerðarinnar mun dragast þykir rétt að leggja málið fyrir Alþingi nú í formi þingsályktunartillögu til staðfestingar ákvörðuninni.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, frá 21. október 2009, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum.
    Sem fyrr segir kveður tilskipun 2009/126/EB á um skyldu til uppsetningar gufugleypa á bensíndælur í því skyni að draga úr loftmengun, og þar með bæta loftgæði og vernda heilsu fólks. Nánar tiltekið er mælt fyrir um að slíka gufugleypa skuli setja upp á nýjar bensínstöðvar og bensínstöðvar sem undirgangast meiri háttar endurnýjun þar sem árleg bensínsala er meiri en 500 þúsund lítrar, eða í þeim tilvikum þegar bensínstöð er staðsett undir íbúðarhúsnæði eða vinnusvæði en í slíkum tilvikum er viðmiðið meira en 100 þúsund lítrar á ári. Þá skal setja upp gufugleypa á allar bensínstöðvar þar sem árleg bensínsala nemur meira en 3 milljónum lítra á ári. Í síðastnefnda tilvikinu skal búnaðurinn vera settur upp fyrir 31. desember 2018. Í tilskipuninni er jafnframt kveðið á um þær lágmarkskröfur sem gufugleyparnir þurfa að uppfylla, sem og reglulegt eftirlit með búnaðinum.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Til þess að innleiða tilskipun 2009/126/EB þarf að setja lagastoð fyrir því að skylda bensínstöðvar til að setja upp II. stigs gufugleypibúnað á bensíndælur.
    Skylda til uppsetningar gufugleypa á grunni tilskipunarinnar verður frekar takmörkuð hérlendis, þar sem árleg sala bensíns á stórum hluta bensínstöðva hérlendis nær ekki 500 þúsund lítrum á ári. Fjórar bensínstöðvar selja meira en 3 milljónir lítra af bensíni á ári og er nú þegar annaðhvort búið að setja upp gufugleypa við þær stöðvar eða þá að uppsetning þeirra er á lokastigum. Á 103 bensínstöðvum nemur árleg bensínsala frá 500 þúsund og upp í 3 milljónir lítra, en einungis verður skylt að setja upp gufugleypa á þessum stöðvum ef þær undirgangast meiri háttar endurnýjun eða ef verið er að byggja nýjar stöðvar. Þá er eingöngu ein bensínstöð á Íslandi undir íbúðarhúsnæði og er talið ólíklegt að fleiri slíkar stöðvar verði reistar. Samráð hefur verið haft við olíufélögin vegna upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn og eru þau upplýst um efni hennar og tímafresti.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 45/2013

frá 15. mars 2013

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN
með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB frá 21. október 2009 um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum ( 1 ).

2)         XX. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.


ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 21ata (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/92/ ESB) í XX. viðauka við EES-samninginn:

    „21au.     32009 L 0126: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB frá 21. október 2009 um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum (Stjtíð. ESB L 285, 31.10.2009, bls. 36).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/126/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 16. mars 2013, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni. ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 15. mars 2013.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

formaður.



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/126/EB
frá 21. október 2009
um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/ 2002/EB frá 22. júlí 2002 um sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála ( 3 ) er kveðið á um nauðsyn þess að draga úr loftmengun að því marki að skaðleg áhrif á heilbrigði manna og umhverfi verði í lágmarki.
2)         Í Genfar-bókuninni um varnir gegn losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda og flæði þeirra yfir landamæri eru sett markmið um að draga úr losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda og í Gautaborgarbókuninni um að draga úr súrnun og ofauðgun og ósoni við yfirborð jarðar ( 4 ) eru ákveðin efri mörk fyrir losun fjögurra mengunarvalda – brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisoxíðs, rokgjarnra lífrænna efnasambanda og ammoníaks – og þess krafist að notuð verði besta, fáanlega tækni til að halda losun í lágmarki.
3)         Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/ EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu ( 5 ) er mælt fyrir um markmið um loftgæði að því er varðar óson við yfirborð jarðar og bensen og í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni ( 6 ) er mælt fyrir um landsbundin efri mörk losunar fyrir rokgjörn lífræn efnasambönd sem stuðla að myndun ósons við yfirborð jarðar. Losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda, þ.m.t. bensíngufu, í einu aðildarríki getur stuðlað að vandamálum tengdum loftgæðum í öðrum aðildarríkjum.
4)         Óson er einnig gróðurhúsalofttegund og stuðlar að hlýnun andrúmslofts og loftslagsbreytingum.
5)         Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/63/EB frá 20. desember 1994 um varnir vegna losunar rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC) við geymslu á bensíni og dreifingu þess frá birgðastöðum til bensínstöðva ( 1 ) (I. áfangi endurheimtar bensíngufu) er kveðið á um markmið um að endurheimta bensíngufu sem losnar við geymslu á bensíni og dreifingu þess á milli birgðastöðva og bensínstöðva.
6)         Losun bensíngufu á sér einnig stað á meðan eldsneytistaka vélknúinna ökutækja fer fram á bensínstöðvum og skal hún því endurheimt í samræmi við ákvæði tilskipunar 94/63/EB.
7)         Ýmsir lagagerningar Bandalagsins hafa verið þróaðir og framkvæmdir til að takmarka losun lífrænna rokefna. Þó eru frekari aðgerðir nauðsynlegar til að ná markmiðunum um heilbrigði og umhverfismál, sem eru sett í sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála og tilskipun 2001/81/EB.
8)        Í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá eldsneyti vegna flutninga á vegum mun, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB frá 13. október 1998 um gæði bensíns og dísileldsneytis ( 2 ), frá 1. janúar 2011 verða heimilt að setja á markað bensín sem inniheldur stærri hluta af lífeldsneytisefnisþáttum en áður var heimilt. Þetta getur haft í för með sér aukna losun lífrænna rokefna vegna möguleika aðildarríkja á því að veita takmarkaðar undanþágur frá kröfunum um gufuþrýsting í þeirri tilskipun.
9)         Þær bensínstöðvar sem fyrir eru geta þurft að aðlaga núverandi innviði og er æskilegt að þær setji upp búnað til endurheimtar gufu þegar þær gangast undir meiriháttar endurnýjun á eldsneytiskerfinu (þ.e. umtalsverðar breytingar eða endurnýjun á innviðum stöðvarinnar, einkum á tönkum og lögnum), þar sem það dregur umtalsvert úr kostnaðinum við nauðsynlegar breytingar. Þó eru stærri stöðvar, sem fyrir eru, betur undir það búnar að aðlagast og skulu setja upp búnað vegna endurheimtar bensíns fyrr, þar sem hlutur þeirra í losun er meiri. Nýjar bensínstöðvar geta fellt inn búnað til endurheimtar bensíngufu á hönnunarstigi og byggingarstigi bensínstöðvarinnar og geta því sett upp slíkan búnað án tafar.
10)         Eldsneytisgeymar nýlega framleiddra vélknúinna ökutækja innihalda engar bensíngufur. Því er viðeigandi að veita undanþágu vegna fyrstu eldsneytisáfyllingar slíkra ökutækja.
11)         Þó að í mörgum aðildarríkjum séu í gildi landsbundnar kröfur varðandi kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga þá er engin löggjöf Bandalagsins til staðar. Því er viðeigandi að setja samræmd lágmarksmörk fyrir endurheimt bensíngufu til að ná miklum umhverfislegum ávinningi og til að greiða fyrir viðskiptum með búnað til endurheimtar bensíngufu.
12)         Framkvæma skal reglubundna skoðun á öllum uppsettum búnaði til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga til að tryggja að búnaður til endurheimtar bensíngufu verði í raun til þess að draga úr losun. Aðildarríkjum er heimilt að ákveða að skoðanir séu framkvæmdar af einum eða fleiri eftirtaldra aðila: opinberri skoðunarþjónustu, rekstraraðilanum sjálfum eða þriðja aðila. Ef um er að ræða opinbera skoðun skulu aðildarríkin taka tillit til tilmæla Evrópuþingsins og ráðsins frá 4. apríl 2001, þar sem kveðið er á um lágmarksviðmiðanir um umhverfiseftirlit í aðildarríkjunum ( 3 ).
13)         Búnaður til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga skal prófaður reglulega. Hvetja skal Staðlasamtök Evrópu til þess að þróa samræmda prófunaraðferð.
14)         Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, og sjá til þess að þessum viðurlögum sé hrint í framkvæmd. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi þar eð brot geta leitt til skaða á heilbrigði manna og umhverfinu.
15)         Í samræmi við 34. gr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 4 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana og að birta þær.
16)         Þar sem þessi tilskipun er samþykkt skv. 175. gr. sáttmálans kemur hún ekki í veg fyrir að aðildarríkin viðhaldi og innleiði strangari verndarráðstafanir sem samræmast sáttmálanum. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um allar slíkar ráðstafanir skv. 176. gr. sáttmálans.
17)         Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ) .
18)         Framkvæmdastjórnin skal einkum hafa vald til að samþykkja framkvæmdarráðstafanir í tengslum við samræmdar aðferðir og staðla. Þar sem þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, m.a. með því að bæta við hana nýjum, veigalitlum þáttum, skulu þær samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
19)         Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, þ.e. að draga úr losun bensíngufu í andrúmsloftið, og vegna þess að loftmengun berst á milli landa, verður þeim betur náð á vettvangi Bandalagsins og af þeim sökum er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna sem kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Efni

Í þessari tilskipun er mælt fyrir um ráðstafanir sem miða að því að draga úr magni bensíngufu sem er losuð út í andrúmsloftið á meðan eldsneytistaka vélknúinna ökutækja á bensínstöðvum á sér stað.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     „bensín“: bensín eins og það er skilgreint í a-lið 2. gr. tilskipunar 94/63/EB,
2.     „bensíngufa“: loftkennt efnasamband sem gufar upp frá bensíni,
3.     „bensínstöð“: bensínstöð eins og hún er skilgreind í f-lið 2. gr. tilskipunar 94/63/EB,
4.     „bensínstöð, sem fyrir er“: bensínstöð sem hefur þegar verið byggð eða sem hefur verið veitt skipulagsleyfi, byggingarleyfi eða rekstrarleyfi fyrir, fyrir 1. janúar 2012,
5.     „ný bensínstöð“: bensínstöð sem er byggð eða sem hefur verið veitt skipulagsleyfi, byggingarleyfi eða rekstrarleyfi 1. janúar 2012 eða síðar,
6.     „kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga“: búnaður sem er ætlaður til að endurheimta bensíngufu sem kemur frá eldsneytisgeymi vélknúins ökutækis á meðan á eldsneytistöku á bensínstöð stendur og sem flytur þessa bensíngufu í geymslutank á bensínstöðinni eða aftur í bensíndæluna til endursölu,
7.     „hremmingargeta bensíngufu“: magn bensíngufu sem kerfið til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga getur tekið upp samanborið við magn bensíngufu sem annars væri losuð í andrúmsloftið ef slíkt kerfi væri ekki fyrir hendi, gefið upp sem hundraðshluti,
8.     „hlutfall á milli gufu og bensíns“: hlutfallið á milli rúmmáls bensíngufu við loftþrýsting, sem fer í gegnum kerfið til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga og rúmmáls bensíns sem er dælt,
9.     „gegnumstreymi“: heildarmagn bensíns á ársgrundvelli, sem er dælt úr flutningsgeymum inn á bensínstöð.

3. gr.
Bensínstöðvar

1.     Aðildarríki skulu tryggja að allar nýjar bensínstöðvar séu útbúnar kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga ef:
    a)     raunverulegt eða áætlað gegnumstreymi er meira en 500 m 3 á ári eða
    b)     raunverulegt eða áætlað gegnumstreymi er meira en 100 m 3 á ári og þær eru staðsettar undir varanlegum vistarverum eða vinnusvæði.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að allar þær bensínstöðvar sem fyrir eru og gangast undir meiriháttar endurnýjun séu búnar kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga við endurnýjun ef:
    a)     raunverulegt eða áætlað gegnumstreymi er meira en 500 m 3 á ári eða
    b)     raunverulegt eða áætlað gegnumstreymi er meira en 100 m 3 á ári og þær eru staðsettar undir varanlegum vistarverum eða vinnusvæði.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að allar bensínstöðvar sem fyrir eru og með gegnumstreymi sem er meira en 3000 m 3 á ári séu búnar kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga eigi síðar en 31. desember 2018.
4.     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. gilda ekki um bensínstöðvar sem eru eingöngu notaðar í tengslum við smíði og afhendingu nýrra vélknúinna ökutækja.

4. gr.
Lágmarksendurheimt bensíngufu

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að frá og með þeim degi sem kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga verður lögboðið skv. 3. gr., sé hremmingargeta slíkra kerfa fyrir bensíngufu a.m.k. 85%, eins og það er vottað af framleiðanda í samræmi við viðeigandi evrópska tæknistaðla eða gerðarviðurkenningaraðferðir, sem um getur í 8. gr. eða, ef slíkir staðlar eða aðferðir eru ekki til staðar, þá viðeigandi landsstaðla.
2.     Frá og með þeim degi sem kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga verður lögboðið skv. 3. gr., skal hlutfallið á milli gufu og bensíns vera a.m.k. 0,95 en að hámarki 1,05 þegar endurheimta bensíngufan er flutt frá geymslutanki á bensínstöðinni.

5. gr.
Reglubundnar skoðanir og upplýsingar til neytenda

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að hremmingargeta bensíngufu kerfa til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga, sem eru í notkun, sé prófuð a.m.k. einu sinni á ári, annaðhvort með því að skoða hvort hlutfall gufu og bensíns við flæðiskilyrði sem líkt er eftir sé í samræmi við 2. mgr. 4. gr. eða með hvers kyns annarri viðeigandi aðferðafræði.
2.     Þar sem sjálfvirkt vöktunarkerfi hefur verið sett upp skulu aðildarríkin tryggja að hremmingargeta bensíngufu sé prófuð a.m.k. á þriggja ára fresti. Hvers kyns sjálfvirk vöktunarkerfi skulu sjálfvirkt greina bilanir á eðlilegri starfsemi kerfis til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga og í sjálfvirka vöktunarkerfinu sjálfu, og gefa rekstraraðila bensínstöðvarinnar upplýsingar um bilunina og stöðva með sjálfvirkum hætti bensínflæði frá biluðu dælunni ef bilunin er ekki löguð innan sjö daga.
3.     Hafi bensínstöð sett upp kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga skulu aðildarríkin tryggja að skilti, sjálflímandi miði eða önnur tilkynning, sé sýnileg á eða í grennd við bensíndæluna, þar sem neytandanum er gert viðvart um slíkt.

6. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að sjá til þess að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, hófleg og hafa letjandi áhrif. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði fyrir 1. janúar 2012 og skulu tilkynna henni, án tafar, um hvers konar breytingar sem síðar verða á þeim.

7. gr.
Endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 31. desember 2014, endurskoða framkvæmd þessarar tilskipunar og einkum:
    a)     þröskuldinn um 100 m 3 á ári, sem um getur í b-lið 1. mgr. og b-lið 2. mgr. 3. gr. þessarar tilskipunar og 3. mgr. 6. gr. tilskipunar 94/ 63/EB,
    b)     skrár um að kerfi til endurheimtar bensíngufu í II. áfanga sem eru í notkun uppfylli kröfur og
    c)     nauðsyn þess að til staðar sé sjálfvirkur vöktunarbúnaður.
Hún skal kynna niðurstöður þessarar endurskoðunar fyrir Evrópuþinginu og ráðinu ásamt tillögu að nýrri löggjöf, ef við á.

8. gr.
Tæknileg aðlögun

Heimilt er að samþykkja samræmdar aðferðir og staðla að því er varðar 4. og 5. gr. Til að tryggja samræmi við alla viðeigandi staðla sem Staðlasamtök Evrópu setja, má aðlaga þessar greinar að tækniframförum, ef nauðsyn krefur, að undanskilinni hremmingargetunni fyrir bensíngufu og hlutfallinu á milli gufu og bensíns, sem tilgreint er í 4. gr., og tímabilunum sem tilgreind eru í 5. gr.
Samþykkja skal þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, m.a. með því að bæta við hana, í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 9. gr.

9. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/ 468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

10. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 1. janúar 2012. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ráðstafana.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

11. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi þegar hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

12. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 21. október 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK C. MALMSTRÖM
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 285, 31.10.2009, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 2
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Álit frá 13. maí 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 4
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 5. maí 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 24. september 2009.
Neðanmálsgrein: 5
(3)    Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(4)    Stjtíð. ESB L 179, 17.7.2003, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 7
(5)    Stjtíð. ESB L 152, 11.6.2008, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(6)    Stjtíð. EB L 309, 27.11.2001, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB L 365, 31.12.1994, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Stjtíð. EB L 350, 28.12.1998, bls. 58.
Neðanmálsgrein: 11
(3)    Stjtíð. EB L 118, 27.4.2001, bls. 41.
Neðanmálsgrein: 12
(4)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.