Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 123  —  120. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum,
með síðari breytingum (endurskoðun matsskýrslu).


Flm.: Katrín Jakobsdóttir.


1. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Ef framkvæmdir hefjast ekki innan sjö ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Þá geta frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála óskað eftir slíkri endurskoðun í samræmi við ákvæði Árósasamningsins um þátttöku almennings í ákvörðunum á sviði umhverfismála.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 12. gr. laganna er fjallað um í hvaða tilvikum endurskoða skuli matsskýrslu að hluta eða í heild og þar með að málsmeðferð vegna matsskýrslu fari fram að nýju, sbr. 9.–11. gr. laganna. Hér er einvörðungu verið að vísa til þess að um sömu framkvæmd sé að ræða. Sé framkvæmdinni breytt í veigamiklum atriðum fer að sjálfsögðu um hana sem um nýja framkvæmd. Einnig kann að vera nauðsynlegt í þessum tilvikum að endurskoða matsáætlun. Þau skilyrði sem sett eru fyrir slíkri endurskoðun í gildandi lögum eru í fyrsta lagi að framkvæmdir hafi ekki hafist innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir. Í slíkum tilvikum ber sá leyfisveitandi sem tók afstöðu til matsskýrslu framkvæmdarinnar og álits Skipulagsstofnunar að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða skuli matsskýrslu í heild eða að hluta hafi verið lögð fram umsókn um leyfi til framkvæmda. Hér getur því annaðhvort verið um að ræða sveitarstjórn eða leyfisveitanda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun tíminn til að hefja framkvæmdir styttast um þrjú ár, þannig að hafi þær ekki hafist innan sjö ára í stað tíu eins og er í gildandi lögum skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu. Telja verður að tíu ár séu of langur tími án þess að fram fari mat á því hvort endurskoða þurfi matsskýrslu í heild sinni eða að hluta. Miklar breytingar geta átt sér stað sem áhrif gætu haft á niðurstöðu matsskýrslu á tíu árum og því má færa rök fyrir því að æskilegt sé að endurskoða mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda. Má hér nefna niðurstöður nýrra rannsókna og aukna þekkingu, breytingar á náttúrufari, landnotkun og áhrif manna á áhrifasvæði framkvæmdar, breytingar á löggjöf, nýjar alþjóðlegar skuldbindingar og margt fleira.
    Einnig er lagt til að frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfismála verði veitt heimild til að óska eftir endurskoðun í samræmi við ákvæði Árósasamningsins. Árósasamningurinn er í grunninn svæðisbundinn umhverfissamningur. Aðild að honum er opin öllum ríkjum efnahagsnefndar Evrópu (United Nations Economic Commission for Europe). Segja má að samningurinn tengi saman umhverfismál og mannréttindi þar sem hann byggist á því að fullnægjandi verndun umhverfisins sé nauðsynleg fyrir velferð mannsins og til að hann geti notið grundvallarmannréttinda. Sérhver kynslóð eigi rétt á því að lifa í umhverfi sem sé fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hennar. Öllum beri skylda til að vernda og bæta umhverfið til hagsbóta fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Á þessum grunni leggur samningurinn skyldur á ríkin að tryggja almenningi ákveðin réttindi svo að hann geti haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið.
    Þau réttindi sem ríkin eiga að tryggja almenningi eru þríþætt og mynda þrjár stoðir samningsins. Fyrsta stoðin mælir fyrir um skyldur ríkja til að tryggja að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar ríkin til að tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi að ákvörðunum sem snerta umhverfið. Þriðja stoðin snýr svo að skyldu ríkja til að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð í málum sem varða umhverfið. Ákvæði samningsins hvað þessi réttindi snertir fela í sér lágmarksreglur. Þau eru mörg hver almenns eðlis og gefa aðildarríkjunum talsvert svigrúm við innleiðingu þeirra. Á það einkum við um þriðju stoð hans.
    Mikilvægt er að félagasamtök og almenningur komi að ákvörðunum er varða umhverfismál líkt og sjá má af þróun lagasetningar á því sviði, m.a. með lögfestingu Árósasamningsins. Slík löggjöf nær ekki markmiði sínu nema samtök almennings hafi möguleika á því að taka virkan þátt í ákvarðanaferlinu. Á það ekki síst við um náttúruverndarsamtök og mál er varða umhverfismat áætlana og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.