Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 46. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 264  —  46. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur
um viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.


     1.      Hver er refsiramminn fyrir ölvunar- og vímuefnaakstur, þ.e. sektir og önnur refsiákvæði?
    Í 14. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, er að finna viðurlagakafla laganna. Þar vísast til reglugerðar nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.
    Refsirammi vegna ölvunaraksturs, fyrsta brots, sbr. 45. gr. reglugerðarinnar, er sekt frá 70.000–160.000 kr. og svipting ökuleyfis frá tveimur mánuðum til tveggja ára. Þyngd refsingar ræðst af vínandamagni í blóði þess brotlega. Akstur undir áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna er brotlegur og varðar einn og sér 30.000 kr. sekt. Þetta er óháð ákvæðum sem kveða á um vínandamagn í blóði. Brjóti ökumaður af sér í annað skipti er refsiramminn þyngri eða sektir á bilinu 180.000–240.000 kr. og svipting ökuleyfis frá tveimur árum til fjögurra ára. Að sama skapi er um að ræða þyngri refsingar eftir því sem vínandamagn í blóði mælist hærra.
    Þegar um er að ræða stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur er mögulegt að gera ökutæki þess brotlega upptækt á grundvelli 107. gr. a í umferðarlögum.
    Á grundvelli 45. gr. a umferðarlaga er refsirammi fyrir ávana- og fíkniefnaakstur sektir á bilinu 70.000–140.000 kr. vegna fyrsta brots auk sviptingar ökuleyfis frá fjórum mánuðum til eins árs. Þyngd refsingar ræðst af því hvaða efni finnst í blóði og í hvaða magni.
    Framangreindir refsirammar miðast við núgildandi reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum samkvæmt þeim nr. 930/2006.

     2.      Hvernig hefur refsiramminn verið nýttur í dómum sem fallið hafa undanfarið?
    Ráðuneytið hefur ekki undir höndum samantekt á því hvernig dómar hafa fallið í þessum málum. Það skýrist að mestu leyti af því að dómar vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs hafa í fjölmörgum tilvikum fallið samhliða öðrum brotum viðkomandi einstaklinga.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að refsiramminn verði nýttur betur en nú er gert?
    Ráðherra getur ekki beitt sér fyrir því að refsirammi laga sé nýttur með öðrum hætti en dómstólar kjósa. Flestum ber að auki saman um að refsirammi íslenskra laga hvað varðar brot af þessu tagi sé nægilega rúmur en skoða eigi frekar aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir til að fækka slíkum brotum.

     4.      Telur ráðherra ástæðu til að lækka viðmiðunarmörk áfengis í blóði úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill til að reyna að draga úr ölvunar- og vímuefnaakstri?
    Innan ráðuneytisins er nú unnið að gerð frumvarps til nýrra umferðarlaga. Þar er m.a. til umfjöllunar hvort lækka beri viðmiðunarmörk áfengis í blóði og má ætla að það komi til kasta Alþingis að taka ákvörðun um slíkt á næsta ári.
     5.      Telur ráðherra þörf á skilvirkari aðgerðum gegn ölvunar- og vímuefnaakstri?
    Alltaf er rétt að stefna að því að bæta það sem gert er og meta hvað reynist vel. Það er mikilvægt að senda þau skýru skilaboð að áfengi og akstur fara aldrei saman og akstur undir áhrifum er ólöglegur, óháð magni áfengis eða vímuefna. Nú þegar hefur ýmislegt verið gert til að sporna við þessum vanda. Sérhæfð námskeið og meðferðarúrræði eru aðferðir sem hefur verið beitt víða með ágætum árangri. Sérstökum námskeiðum var komið á hér á landi 2007 fyrir unga ökumenn með bráðabirgðaskírteini sem brutu af sér í umferðinni. Reynslan af þessum námskeiðum hefur verið góð og full ástæða til að skoða hvort tímabært sé að vera með slíkt úrræði fyrir ökumenn almennt sem brjóta af sér í umferðinni. Á sama hátt má skoða reynslu annarra þjóða af meðferðarúrræðum við endurteknum akstri undir áhrifum.
    Þá er rétt að hvetja og virkja einkaaðila til frekari þátttöku í forvarnastarfi, t.d. tryggingafélög sem hafa hag af því að fækka bæði slysum á fólki og skemmdum á ökutækjum. Það má gera í auknu samstarfi opinberra aðila og einkaaðila.

     6.      Telur ráðherra rétt að hækka sektir og láta hluta þeirra renna í forvarnasjóð?
    Ráðherra hefur þetta atriði til skoðunar samhliða vinnu við frumvarp að nýjum umferðarlögum. Þó skal tekið fram að slík vinna, þ.e. að merkja tekjur af sektum ákveðnum málaflokkum, þarf að fara fram í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

     7.      Hyggst ráðherra endurskoða refsiákvæði er snúa að ölvunar- og vímuefnaakstri?
    Endurskoðun á refsiákvæðum fer fram samhliða vinnslu við gerð nýs frumvarps að umferðarlögum. Rétt er þó að ítreka mikilvægi þess að vinna að forvörnum er snúa að ölvunar- og vímuefnaakstri. Hér þarf að eiga sér stað vitundarvakning með þátttöku fjölmargra aðila.