Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 232. máls.

Þingskjal 337  —  232. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991,
með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 1. júlí 2014 töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem er ætlað til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 1. júlí 2014.
    Tímabil sem nauðungarsölu er frestað skv. 1. mgr. skal undanskilið þeim fresti sem um ræðir í 2. mgr. 27. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðaáætlun sína um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Er í áætluninni gert ráð fyrir að þær tillögur sem þar eru settar fram verði komnar til framkvæmda um mitt ár 2014. Því er lagt til í þessu frumvarpi að nauðungarsölum verði frestað fram yfir mitt næsta ár svo að skuldurum gefist tími til að leggja mat á aðgerðirnar og þau áhrif sem þær hafa á skuldastöðu viðkomandi. Er lagt til að óski skuldari eftir að ákvörðun um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði verði frestað fram yfir 1. júlí 2014 beri sýslumanni að verða við þeirri beiðni án þess að leitað sé eftir afstöðu gerðarbeiðanda til beiðninnar. Í þeim tilvikum að ákveðið hefur verið hvenær byrjun uppboðs eða framhald þess eða sala á almennum markaði skuli fara fram en uppboð hefur ekki farið fram eða boð á almennum markaði samþykkt skal sýslumaður á sama hátt verða við ósk gerðarþola um frest. Séu gerðarþolar fleiri en einn verður beiðni um frestun að koma frá þeim sameiginlega. Áskilið er að um sé að ræða húsnæði sem er ætlað til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda, gerðarþoli eigi þar lögheimili og haldi þar heimili. Þá er kveðið á um að það tímabil sem nauðungarsölu er frestað á þennan hátt teljist ekki til þess frests sem er kveðið á um í 2. mgr. 27. gr. laganna.
    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi þegar í stað.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).

    Tilgangur með frumvarpi þessu er að veita heimild í lögum til að fresta nauðungarsölum á fasteignum fram yfir 1. júlí 2014 fari gerðarþoli fram á slíkt. Miðað er við fasteignir þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Í þeim tilfellum þar sem ráðstöfun slíkra fasteigna liggur þegar fyrir en uppboði eða sölu á almennum markaði er ekki lokið verður samkvæmt frumvarpinu einnig hægt að fara fram á frestun aðgerða fram yfir 1. júlí 2014. Frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna sem kynnt var í lok nóvember síðastliðinn og er markmiðið með frumvarpinu að gefa skuldurum tíma til að leggja mat á aðgerðirnar og þau áhrif sem þær hafa á skuldastöðu viðkomandi.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð.