Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 386  —  2. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur, launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Guðrún Þorleifsdóttir, Ingibjörg Helga Helgadóttir og Maríanna Jónasdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Halldór Árnason og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Elín Alma Arthúrsdóttir, Guðrún Jenný Jónsdóttir, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Jakob Ásmundsson og Magnús Ingi Einarsson frá Straumi fjárfestingarbanka, Jón Gunnar Jónsson frá Bankasýslu ríkisins, Yngvi Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ari Teitsson og Ragnar Birgisson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Reimar Pétursson, Jón Sigurðsson og Eiríkur Svavarsson frá Lögmannafélagi Íslands, Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson frá slitastjórn Glitnis hf., Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Þórarinn Þorgeirsson og Þröstur Ríkharðsson frá slitastjórn Kaupþings hf., Berglind Svavarsdóttir frá slitastjórn Sparisjóðabankans hf., Ólafur Darri Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Georg Brynjarsson frá Bandalagi háskólamanna, Helga Jónsdóttir og Kristinn Bjarnason frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Símon Þór Jónsson frá Deloitte ehf., Runólfur Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Haraldur Ingi Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands og Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá ríkisskattstjóra, Bandalagi háskólamanna, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Samtökum atvinnulífsins, Straumi fjárfestingarbanka hf., Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Jafnréttisstofu, Sambandi íslenskra sparisjóða, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Slitastjórn Glitnis hf., Slitastjórn Kaupþings hf., Slitastjórn Sparisjóðabanka Íslands hf., Bankasýslu ríkisins, Deloitte ehf., Lögmannafélagi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandi Íslands.

Almennt.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í þeim tilgangi að undirbyggja forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014.
    Í inngangskafla frumvarpsins er vitnað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um skattamál. Áhersla verður lögð á að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna og minnka tekjutengingar. Stefnt er að lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu. Fram kemur að horfur í ríkisfjármálum takmarki svigrúm til skattalækkana á næsta ári. Frumvarpið er fyrsti áfangi í heildarendurskoðun íslenska skattkerfisins til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Fyrir nefndinni kom fram ánægja með þessi áform og einnig hve tímanlega frumvarpið væri fram komið.

Lækkun tekjuskattshlutfalls í miðþrepi.
    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt. Lagt er til að skatthlutfall miðþreps tekjuskatts, skv. 2. tölul. 1. mgr. 66. gr., verði 25% í stað 25,8%, þ.e. lækki um 0,8%. Áætlað er að þessi lækkun auki ráðstöfunartekjur heimila um samtals 5 milljarða kr. Megnið af tekjuskatti einstaklinga er innheimt í miðþrepinu og mun aðgerðin hafa jákvæð áhrif á stóran hluta heimila.
    Fyrir nefndinni kom fram að tillagan væri skref í rétta átt og hún væri jákvæð fyrir millitekjuhópa sem hafi tekist á við minnkandi kaupmátt og aukin útgjöld allt frá árinu 2008. Þá var talið að einföldun skattkerfisins samhliða tekjuskattslækkun mundi stuðla að auknu vinnuframboði og bættum skattskilum.
    Nefndinni bárust ábendingar um aðrar mögulegar útfærslur tekjuskattslækkana sem sagt var að hefðu svipuð áhrif á ríkissjóð. Var lagt til að krónutölumörk lægsta skattþreps og miðþreps, skv. 2. tölul. 1. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga, yrðu hækkuð um 1.200.000 kr. á ársgrundvelli eða sem næmi 100.000 kr. á mánuði. Þá kom einnig fram tillaga um að lækkun skattprósentu yrði látin ná til neðsta skattþrepsins. Að lokum kom fram tillaga um að persónuafsláttur skv. 1. mgr. 67. gr. tekjuskattslaga yrði hækkaður um 2.000 kr.
    Skilningur meiri hlutans er að mjög hátt hlutfall skattgreiðenda greiði tekjuskatt samkvæmt miðþrepi 2. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt. Það er þannig ljóst að lækkun skatthlutfalls í því þrepi kemur mjög mörgum til góða. Í því ljósi telur meiri hlutinn tillöguna eðlilega.

Tillögur um breytingar á lögum um virðisaukaskatt.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að virðisaukaskattur af einnota barnableium og lausu bleiufóðri verði lækkaður í 7% sem mun koma barnafjölskyldum til góða.
    Í 6. gr. er lagt til að framlengd verði til ársloka 2014 bráðabirgðaheimild um endurgreiðslu 2/ 3 virðisauka vegna kaupa hópferðabifreiða. Heimildin hefur verið til staðar allt frá árinu 2001. Fyrir nefndinni komu fram rök bæði með og móti framlengingu heimildarinnar. Skilningur meiri hlutans er að uppi séu áform um heildarúttekt á skattumhverfi ökutækja og einnig hópferðabifreiða.
    Í 7. gr. er lagt til að bráðabirgðaákvæði um endurgreiðslur virðisaukaskatts af íbúðarhúsnæði sem hefur verið í gildi frá 2010 verði framlengt til ársloka 2014. Fram kom ánægja með tillöguna enda sporni hún við atvinnuleysi í byggingariðnaði og svartri vinnu.
    Í 8. gr. er lagt til að bráðabirgðaákvæði um afslátt af virðisaukaskatti, upp að ákveðnum hámörkum, þegar um er að ræða nýjar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar, verði framlengt til ársloka 2014. Fyrir nefndinni kom fram ánægja með tillöguna enda örvi hún eftirspurn eftir umhverfisvænum ökutækjum.
    Að áliti meiri hlutans eru þær tillögur sem finna má í framangreindum greinum frumvarpsins eðlilegar.

Tillögur um breytingar á lögum um tryggingagjald og lögum um Ábyrgðasjóð launa.
    Í III. og IV. kafla eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa. Um er að ræða breytingar á gjaldtöku sem hefur sama gjaldstofn, þ.e. laun í víðu samhengi, reiknað endurgjald, hlunnindi og fleira, þó með tilteknum undantekningum.
    Hækkun almenns tryggingagjalds var sérstaklega gagnrýnd þar sem hún bitnaði illa á litlum fyrirtækjum þar sem launagjöld væru yfirgnæfandi hluti rekstrargjalda. Þá var samspil hækkunar almenns tryggingagjalds og lækkunar á hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tekjum af gjaldinu að sama skapi gagnrýnd.
    Við meðferð málsins kallaði nefndin eftir upplýsingum um fjárhagsstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Ábyrgðasjóðs launa og Fæðingarorlofssjóðs. Að þeim upplýsingum fengnum var það mat meiri hlutans að staða þeirra yrði viðunandi á komandi fjárlagaári. Virðist staða Fæðingarorlofssjóðs það góð að óhætt sé að fallast á tillögur frumvarpsins. Í öllum tilfellum er um tímabundna tilfærslu að ræða.
    Fyrir nefndinni var lýst ánægju með þau skref sem tekin eru í frumvarpinu í átt til lækkunar tryggingagjalds. Meiri hlutinn er sammála því að nauðsynlegt sé að stuðla að enn frekari lækkun til lengri tíma litið.

Tillögur um breytingar á ákvæðum laga um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.
    Í V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Meðal annars er lögð til hækkun á skatthlutfalli og felld niður undanþága fjármálafyrirtækja í slitameðferð.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, er annað meginmarkmið þeirra að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að erfitt væri að réttlæta áframhaldandi undanþágu fjármálafyrirtækja í slitameðferð frá skattinum, einkum í ljósi þess hversu mikið tjón féll á ríkissjóð við fall þeirra. Vera má að undanþága fjármálastofnana í slitameðferð hafi verið skiljanleg á meðan staða þeirra var mjög óljós, en það á ekki lengur við.
    Fyrir nefndinni kom fram að afmörkun skattstofnsins væri ekki nægilega skýr hvað fjármálafyrirtæki í slitameðferð varðaði, og að annmarkar væru á því hvernig fjallað væri um rétthæð skattkröfunnar. Þá var tilgreining skattskylds aðila í a-lið 14. gr. frumvarpsins gagnrýnd enda væri orðalag hennar ekki nægilega skýrt. Að auki var talin ástæða til þess að huga að stöðu smærri fjármálafyrirtækja.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar sem ætlað er að koma til móts við þessar ábendingar. Þannig er lagt til að nýrri grein verði bætt við frumvarpið sem felur í sér sérreglu um afmörkun á skattstofni þegar kemur að lögaðilum skv. 14. gr. frumvarpsins. Er þannig lagt til að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem felur í sér að í tilviki þessara aðila verði skattstofninn samtala viðurkenndra krafna eins og þær standa í árslok árið á undan álagningarári. Afmörkun skattstofnsins ræðst þannig af höfuðstól viðurkenndra krafna við slita- eða skiptameðferð auk vaxta og kostnaðar samkvæmt stöðu þeirra í lok hvers árs. Með viðurkenndum kröfum er átt við samtölu a) þeirra krafna sem eru viðurkenndar af slitastjórn og teljast endanlega samþykktar og b) þeirra krafna sem ágreiningur var um en eru viðurkenndar með endanlegum dómi. Orðalag ákvæðisins miðast við að enginn greinarmunur sé gerður á kröfum eftir stöðu þeirra í kröfuröð.
    Einnig er lagt til að skattkrafan njóti rétthæðar í samræmi við 3. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti en undir þann lið falla kröfur sem hafa orðið til á hendur þrotabúinu eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum. Að auki leggur meiri hlutinn til að a-lið 14. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að í efnishluta hans verði kveðið á um að skylda til greiðslu sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki hvíli á aðilum sem sæta slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þ.m.t. lögaðila sem héraðsdómur hefur úrskurðað að skuli tekinn til gjaldþrotaskipta. Er tillagan lögð fram með skýrleika að leiðarljósi.
    Þau sjónarmið komu fram fyrir nefndinni að skattlagning lögaðila skv. 14. gr. frumvarpsins kynni að fela í sér brot gegn ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar um skattlagningu, ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr.
    Meiri hlutinn telur ekki unnt að fallast á þessi sjónarmið. Í tillögum frumvarpsins felst að lagður er skattur á skuldir skattskyldra aðila eins og þær verða eftir að frumvarpið hefur fengið lagagildi. Við hrun íslenska fjármálakerfisins féll gríðarlegur kostnaður á ríkissjóð. Tjónið, sem hlaust af falli fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð, má rekja til ósjálfbærrar skuldasöfnunar þeirra, sem á sér fáar hliðstæður í sögu landsins sem og á Vesturlöndum. Nú kemur hins vegar í hlut ríkisins að afla tekna til að standa undir kostnaði sem þessu tengist og því er eðlilegt að horfa einnig til þessara aðila sem hafa verið undanþegnir skattinum, enda stendur ríkissjóður enn straum af miklum kostnaði sem rekja má til hruns íslenska fjármálakerfisins haustið 2008. Skiptir í þeim efnum ekki síst máli að um er að ræða fyrirtæki sem halda utan um mikið af eignum sem gefa af sér tekjur, en umfang efnahagsreiknings fjármálafyrirtækja í slitameðferð er mikið í samanburði við þau fjármálafyrirtæki sem ein hafa þurft að standa skil á skattinum hingað til.
    Sú skoðun kom fram fyrir nefndinni að útfærsla sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki sem lögð er til með frumvarpinu og innheimta hans kunni að brjóta gegn stjórnskipulega vörðum réttmætum væntingum kröfuhafa fjármálafyrirtækja í slitameðferð. Var þessi skoðun einkum sett fram með vísan til 72. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.
    Meiri hlutinn telur að þessi skoðun fái ekki staðist og bendir á að skattalegar skyldur fyrirtækja falla ekki niður við upphaf slita- eða gjaldþrotaskiptameðferðar. Þannig er fyrirtækjum í slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð skylt að greiða tilfallandi skatta og gjöld. Þá eru þau tekjuskattsskyld skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og þeim er skylt að telja fram til skatts skv. 90. gr. sömu laga. Samsköttun fellur þó niður með félagi sem tekið hefur verið til gjaldþrotameðferðar eða sætir slitameðferð skv. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lokamálslið 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003. Að minnsta kosti á meðan fyrirtæki bera skattalegar skyldur verða kröfuhafar þeirra að una álagningu nýrra skatta sem miðast við skattstofna eins og þeir ákvarðast á hverjum tíma eftir að frumvarpið fær lagagildi. Eins verða kröfuhafar að una innheimtu slíkra skatta eftir álagningu. Ríkið hefur um langt skeið notið margvíslegra og sérstakra úrræða við heimtu skatta. Með því er lagður grundvöllur að fjárlögum og fyrirsjáanleika í rekstri ríkisins. Kröfuhafar einstakra skattþegna hljóta að þurfa að una því að skattar verði innheimtir með því hagræði sem löggjafinn mælir fyrir í hvert og eitt skipti. Meiri hlutinn fær ekki séð að þetta breytist við það eitt að fyrirtæki sé tekið til slita eða skipta, sem geta varað svo árum skiptir, og þá verði engir nýir skattar lagðir á né mælt fyrir um forgang við innheimtu þeirra. Einnig bendir meiri hlutinn á að miklar breytingar hafi verið gerðar á lagaákvæðum sem varða slitameðferð fjármálafyrirtækja frá falli íslenska fjármálakerfisins. Bendir meiri hlutinn jafnframt á að stjórnvöld og handhafar löggjafarvalds í ýmsum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu hafa ráðist í viðamiklar aðgerðir í kjölfar falls fjármálafyrirtækja sem eflaust hafa haft áhrif á stöðu kröfuhafa þeirra, enda verður réttur stjórnvalda og löggjafa að skoðast í ljósi þeirra miklu almannahagsmuna sem um ræðir. Þess má geta að kröfuhafar fjármálafyrirtækja í slitameðferð hefðu allt eins mátt vænta þess að sú undanþága sem fyrirtækin hafa notið yrði afnumin með lögum. Meiri hlutinn getur þess vegna ekki fallist á að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Meiri hlutinn getur ekki heldur fallist á að breytingarnar brjóti í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar enda er það löggjafinn sem veitir lögum gildi en ekki framkvæmdarvaldshafar með stjórnvaldsfyrirmælum. Af sömu ástæðu er ekki unnt að fallast á að breytingarnar brjóti í bága við bann sömu greinar við afturvirkni skatta.
    Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að fyrirsjáanlegt væri að skattar á skuldir, fremur en eignir, kæmu svo harkalega niður á fjármálafyrirtækjum í slitameðferð samanborið við önnur fyrirtæki að það fæli í sér eignaupptöku, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt kom fram fyrir nefndinni að bankaskattar hefðu verið lagðir á í mörgum löndum og skattstofninn í mörgum tilfellum miðaður við skuldir en ekki eignir.
    Meiri hlutinn telur eðlilegt að skattstofninn miðist við skuldir og að það viðmið standi í beinu efnislegu samhengi við tilefni skattheimtunnar. Af þessu leiðir að fyrirtæki sem skulda mest við álagningu skattsins, en hafa tapað mestu af eignum sínum, greiða hæst hlutfall eigna sinna í skatt. Þá niðurstöðu telur meiri hlutinn fyllilega málefnalega og eðlilega miðað við aðstæður. Er skattlagning skulda, frekar en eigna, einnig í fullu samræmi við síðara markmið laga nr. 155/2010 um að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra vegna þeirrar kerfisáhættu með tilheyrandi kostnaði sem áhættusöm starfsemi þeirra getur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið. Þótt niðurstaðan verði mögulega sú að einstakir kröfuhafar telji tjón sitt aukið miðað við reiknaðar endurheimtur hingað til er sú aukning smávægileg miðað við nafnverð krafnanna, sem hlýtur hér að vera viðmiðið.
    Fyrir nefndinni var bent á að fjármálafyrirtæki í slitameðferð hefðu í mörgum tilvikum ekki starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki. Kom sú skoðun fram að í ljósi þess og að teknu tilliti til ákvæða frumvarpsins gætu slík fyrirtæki ekki orðið skattskyld í skilningi 2. gr. laga um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.
    Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að bregðast við framangreindu með því að leggja til breytingar á 14. gr. frumvarpsins. Eins og fyrirsögn 2. gr. laganna ber með sér hefur ákvæðið að geyma upptalningu á þeim aðilum sem skattskyldir eru samkvæmt lögunum. Það skilyrði 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna að skattskyldan hvíli á þeim aðilum sem fengið hafa þau starfsleyfi sem upp eru talin í ákvæðinu á ekki við um þá aðila sem skattskyldir verða skv. 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. eftir að frumvarpið fær lagagildi.
    Fyrir nefndinni kom sú skoðun fram að ákvæði um kröfulýsingar í 117. og 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. kæmu hugsanlega í veg fyrir að mögulegt yrði að leggja sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki í slitameðferð.
    Þetta telur meiri hlutinn ekki standast enda gilda fyrirmæli laga um tekjuskatt um álagningu skattsins skv. 5. gr. laga um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Af því leiðir m.a. að fjármálafyrirtækjum í slitameðferð ber að telja fram til skatts að viðlagðri ábyrgð. Tilvitnuð ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eiga því ekki við um innheimtu skattsins því að álagningarseðill kemur í stað kröfulýsingar.
    Fyrir nefndinni var því sjónarmiði hreyft að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki muni koma sérstaklega þungt niður á smærri fjármálafyrirtækjum og jafnvel, í einhverjum tilvikum, leiða til þess að einhver þeirra legðu upp laupana. Einnig kom fram það sjónarmið að minni fjármálafyrirtækjum fylgdi lítil kerfislæg áhætta og þau hefðu ekki bakað ríkissjóði jafn mikið tjón í hruninu og stærri fjármálafyrirtæki.
    Að teknu tilliti til framangreindra atriða leggur meiri hlutinn til að tiltekin fjárhæð heildarskulda verði undanþegin sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki. Leggur meiri hlutinn þannig til þá breytingu á 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins að aðeins þær heildarskuldir skattskyldra aðila sem eru umfram 50 milljarða kr. teljist til stofns sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki. Til þess að vega upp á móti breytingunni og treysta forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 leggur meiri hlutinn til að skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki verði hækkað í 0,151%.

Tillaga um lækkun fjársýsluskatts.
    Í VI. kafla frumvarpsins er lagt til að skatthlutfall fjársýsluskatts verði lækkað úr 6,75% af skattstofni í 4,5%.
    Ekki voru gerðar beinar athugasemdir við tillöguna fyrir nefndinni. Þó var lagt til að fjársýsluskatturinn yrði lækkaður enn frekar eða lagður af. Grundvölluðust þessar tillögur á því að fjársýsluskattur legðist þungt á smærri fjármálafyrirtæki.
    Í almennum athugasemdum frumvarpsins kemur m.a. fram að tillaga um lækkun skatthlutfalls fjársýsluskatts sé sett fram sem mótvægi við hækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og í henni felist hliðrun á skattbyrði frá smærri fyrirtækjum til þeirra stærri. Í ljósi framangreindrar tillögu meiri hlutans um frímark frá sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki og fjárþarfar ríkissjóðs vegna viðbótarútgjalda, t.d. á sviði heilbrigðismála, leggur meiri hlutinn til að skatthlutfall fjársýsluskatts verði lækkað úr 6,75% í 5,5%.

Breyting á lægsta þrepi tekjuskatta og hámarksútsvari.
    Meiri hlutinn leggur til að nýjum lið verði bætt við I. kafla frumvarpsins, ný grein komi á eftir 4. gr. Þá leggur meiri hlutinn til að nýjum kafla verði bætt við frumvarpið þar sem kveðið verði á um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Gert er ráð fyrir að hinn nýi kafli innihaldi eina grein sem verði 20. gr. frumvarpsins. Í fyrrgreindri tillögu er lagt til að lægsta þrep tekjuskatts manna lækki um 0,04%, úr 22,9% í 22,86% í staðgreiðslu á árinu 2014 og við álagningu á árinu 2015. Sambærileg breyting er lögð til á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem lagt er til að hámarksútsvar verði hækkað um 0,04%, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014. Breytingartillögurnar eru í samræmi við 4. gr. viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu á þjónustu við fatlaða auk þess sem lagt er til að kveðið verði á um að þessi hækkun renni óskipt til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga.
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XII í lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru sveitarfélög bundin af því til ársins 2014 að 0,25 prósentustig af þeirri hækkun sem þeim er tryggð vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra (það sem eftir stendur eftir að Jöfnunarsjóður hefur fengið sitt) renni beint til þjónustu við fatlaða innan viðkomandi þjónustusvæða. Í tillögu að nýrri 21. gr. er lagt til að ákvæðið verði framlengt til ársins 2015.
    Í tillögu að nýrri 22. gr. er lagt til að frestur sveitarstjórna til að ákveða útsvarshlutfall ársins 2014 verði framlengdur frá 1. desember til 23. desember 2013. Jafnframt verði frestur til að tilkynna fjármála- og efnahagsráðuneytinu um þessa ákvörðun sveitarstjórnar framlengdur til sama tíma.
    Í 1. mgr. tillögu að nýrri 23. gr. er lagt til að hámarksútsvar verði hækkað um 0,04%, úr 14,48% í 14,52%. Er það í samræmi við 4. gr. viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu á þjónustu við fatlaða. Í 2. mgr. er lagt til að þessi hækkun renni óskipt til Jöfnunarsjóðsins, sbr. sömu grein viðaukans.

Framlenging heimildar til að fá greiddan út séreignarsparnað.
    Meiri hlutinn leggur til að ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997, sem fyrst var sett með lögum nr. 13/2009, síðan breytt með lögum nr. 130/2009, þá lögum nr. 164/2010 og lögum nr. 164/2011 og síðast með lögum nr. 146/2012, verði framlengt og að rétthöfum verði heimilt að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað að ákveðnu marki á tímabilinu 1. janúar 2014 fram til 1. janúar 2015, samanlagt allt að 9.000.000 kr., sem er 2.750.000 kr. hækkun frá núgildandi heimild. Sú fjárhæð sem heimilt verður að greiða út samkvæmt þessari viðbótarheimild verður miðuð við stöðu á samanlögðum séreignarsparnaði rétthafa þann 1. janúar 2014. Breytingin er gerð að höfðu samráði fjármála- og efnahagsráðuneytisins við Landssamtök lífeyrissjóða, vörsluaðila og skattyfirvöld.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2014 er reiknað með frekari heimildum til úttektar á séreignarsparnaði sem muni skila ríkissjóði nálægt 2 milljörðum kr. í tekjuskatt umfram tekjuáhrif fyrri heimilda. Það þýðir samkvæmt lauslegu mati að um 6 milljarðar kr. verði greiddir út á grundvelli nýrrar heimildar til viðbótar þeim nálægt 90 milljörðum kr. sem þegar hafa verið greiddir út. Í ljósi þeirra áforma er lagt til að hverjum rétthafa verði heimilt að taka út allt að 9 millj. kr. af séreignarsparnaði sínum sem greiddar verði út á næstu 12 mánuðum. Fyrir þá einstaklinga sem sækja um 9 millj. kr. útgreiðslu nú og hafa ekki nýtt hana áður nemur mánaðarleg útgreiðsla að frádregnum tekjuskatti og útsvari 450 þús. kr. næstu tólf mánuði. Þá er miðað við að staðgreiðsluhlutfall á útgreiðslu sé að jafnaði 40%.
    Með tillögu að nýrri 24. gr. er lagt til að heimild til úttektar á séreignarsparnaði verði framlengd frá 1. janúar 2014 til 1. janúar 2015. Þá er jafnframt lagt til að samanlögð heimild til úttektar á séreignarsparnaði verði hækkuð úr 6.250.000 kr. í 9.000.000 kr., eða um 2.750.000 kr.
    Til samræmis við breytingar í 1. gr. frumvarpsins er í tillögu að nýrri 25. gr. lagt til að vörsluaðila séreignarsparnaðar verði heimilt að fresta útgreiðslum séreignarsparnaðar til 1. janúar 2015 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hækkun gjalda vegna útgáfu vegabréfa.
    Efniskostnaður vegna útgáfu vegabréfa hefur hækkað umtalsvert frá árinu 2008. Í upphafi árs 2013 var gildistími vegabréfa lengdur úr 5 í 10 ár. Í þessu ljósi leggur meiri hlutinn til hækkanir á gjöldum vegna útgáfu vegabréfa sem fram koma í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs. Eru þau gjöld sem talin eru upp í a–c-liðum 1. tölul. hækkuð um u.þ.b. 25% en þau gjöld sem talin eru upp í a–c-liðum 2. tölul. hækkuð um u.þ.b. 50%. Þetta þýðir m.a. að almennt gjald fyrir vegabréf hækkar úr 8.200 kr. í 10.250 kr. Þess má geta að sambærileg gjöld eru u.þ.b. 14.000 kr. í Bretlandi og u.þ.b. 13.000 kr. í Danmörku.
    Áætlar meiri hlutinn að gjaldhækkanirnar skili um 100 millj. kr. tekjum í ríkissjóð á árinu 2014.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 16. desember 2013.Frosti Sigurjónsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Willum Þór Þórsson.Líneik Anna Sævarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Vilhjálmur Bjarnason.