Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 267. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 503  —  267. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason,
Guðmundur Steingrímsson, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að beina því til mennta- og menningarmálaráðherra að leggja fram sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára í framhaldi af fjárfestingaráætlun frá árinu 2012 og skýrslunni Skapandi greinar – sýn til framtíðar frá sama ári.

Greinargerð.

    Vorið 2012 var kynnt ný fjárfestingaráætlun sem unnin var af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með þátttöku Bjartrar framtíðar. Áætlunin hvíldi á mörgum stoðum, svo sem stefnumörkuninni Ísland 20/20, þingsályktun um græna hagkerfið, stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs, stefnumótun í samráði við samráðsvettvang skapandi greina og Bandalag íslenskra listamanna og markmiðum í ríkisfjármálum. Fjármögnunin byggðist á þeirri framtíðarsýn sem Bankasýsla ríkisins hafði lagt fram um arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum, nýjum lögum um veiðigjöld og frumvörpum um stjórn fiskveiða.
    Fjárfestingaráætluninni var ætlað að styðja við efnahagsbata og hagvöxt og var ætlunin að verja hluta þeirra fjármuna sem bundnir höfðu verið í bönkum og hluta auðlindagjalda til uppbyggingar innviða samfélagsins. Með áætluninni var lögð fram ný sýn í atvinnumálum þar sem áhersla var lögð á vaxtargreinar sem ekki ganga um of á takmarkaðar auðlindir og fjölbreytni til að efla efnahagslegan stöðugleika. Þannig var lögð áhersla á skapandi greinar, ferðaþjónustu, nýsköpun, rannsóknir og græna hagkerfið. Áherslan á fjölbreytni spratt ekki síst úr því víðtæka samráði sem ráðist var í við gerð sóknaráætlana fyrir landshluta og stefnumótunarinnar Ísland 20/20 en þar var leitað til hagsmunaaðila í ólíkum geirum samfélagsins, haldnir íbúafundir í landshlutum þar sem leitað var eftir hugmyndum innan ólíkra landshluta og haft öflugt samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga. Niðurstaðan varð aðgerðaáætlun til að efla atvinnulíf og samfélag sem byggðist á hugmyndafræðinni um fjölbreytt atvinnulíf, að byggja áfram á grunnatvinnuvegum þjóðarinnar en ekki síður á nýjum tækifærum.
    Núverandi ríkisstjórn ákvað að falla frá þessari áætlun og breytti m.a. lögum um veiðigjöld sem var ein af undirstöðum fjármögnunar áætlunarinnar með þeim afleiðingum að tekjur af veiðigjöldum lækkuðu verulega, eða um 6,4 milljarða kr. á ársgrundvelli. Þá var forgangsraðað með öðrum hætti í fjárlögum ársins 2014 og breytingartillögur annarra flokka um að hlutar fjárfestingaráætlunar kæmu að nýju inn í fjárlög voru felldar af stjórnarmeirihlutanum.
    Mörgum hefur orðið tíðrætt um mikilvægi skapandi greina að undanförnu og því vilja flutningsmenn þessarar tillögu minna á að fyrir liggur ítarleg stefnumótun sem unnin hefur verið í samráði við samtök hinna skapandi atvinnugreina sem og áætlun um hvernig best fari á að styðja við þessar greinar en sú áætlun birtist í fjárfestingaráætluninni þar sem lögð var til efling verkefnasjóða skapandi greina. Þar munaði mestu um myndarlega aukningu í Kvikmyndasjóð en á því sviði hefur hvað mest rannsóknar- og greiningarvinna verið unnin þegar kemur að hagrænum áhrifum. Síðan voru aðrir sjóðir efldir og tveir nýir sjóðir settir á laggirnar, myndlistarsjóður sem stofnaður var með lögum nr. 64/2012 og hönnunarsjóður, en eitt af því sem fram kom í þessari stefnumótun var að hönnun er sú listgrein sem nýtur minnstra opinberra styrkja.
    Öflugasta auðlind hverrar þjóðar er mannvitið. Lokaniðurstöður úttektar, sem gerð var á hagrænum áhrifum skapandi greina, sýndu að þær eru vaxandi stoð í íslensku atvinnulífi með veltu sem nam 191 milljarði kr. árið 2009 og 9.400 ársverkum. Í framhaldinu var svo unnin skýrsla um aðkomu hins opinbera að skapandi greinum á Íslandi sem bar heitið Skapandi greinar – sýn til framtíðar. Hún var unnin af starfshópi sem skipaður var af mennta- og menningarmálaráðherra og starfaði í samræmi við þingsályktun nr. 22/139, um eflingu skapandi greina, sem Alþingi samþykkti með öllum greiddum atkvæðum 7. apríl 2011. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, utanríkisráðuneytis, Íslandsstofu og Samtaka skapandi greina. Skýrslan fjallaði um hvernig hið opinbera, ríki og sveitarfélög, haga stuðningi sínum við skapandi greinar með lagasetningu, stjórnsýslu, fjárveitingum og fjárfestingu í menntun, rannsóknum og innviðum. Þá var gerð grein fyrir þeirri stefnu sem fyrir liggur og fjallað um hvernig hún hefur verið framkvæmd. Á grundvelli þessara upplýsinga lagði starfshópurinn fram 19 tillögur að bættu starfsumhverfi skapandi greina. Í tillögum sínum lagði starfshópurinn áherslu á að skapandi greinar væru atvinnugrein sem snerti mörg svið atvinnulífs, menningarlífs og mannlífs. Því væri mikilvægt að tryggja þverfaglegt samstarf stjórnsýslu, atvinnulífs og menningarlífs til þess að stuðla að uppbyggingu greinarinnar og efla verkefnasjóði skapandi greina. Flutningsmenn leggja til að þessari stefnumótun verði fylgt eftir, aftur verði hafist handa við að efla verkefnasjóði skapandi greina og gerð verði áætlun til þriggja ára til að tryggja öryggi og stöðugleika fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein.