Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 356. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 661  —  356. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2013.


1. Inngangur.
    Evrópuráðsþingið hélt áfram að ræða ástandið í Sýrlandi á starfsárinu 2013 og beina sjónum sínum að Mið-Austurlöndum. Í ályktun um Sýrland var notkun efnavopna, sem talið er að stjórnarherinn hafi beitt, fordæmd sem alvarlegt brot á mannúðar- og mannréttindalögum. Um leið var samvinnu bandarískra og rússneskra stjórnvalda fagnað sem og ákvörðun ríkisstjórnar Sýrlands um að gerast aðili að efnavopnasamningi Sameinuðu þjóðanna og láta efnavopn sín af hendi til alþjóðlegra eftirlitsaðila sem munu sjá um eyðingu þeirra.
    Í ályktun sem var samþykkt um ástandið í Mið-Austurlöndum einsetti Evrópuráðsþingið sér að halda áfram að stuðla að samræðum og uppbyggingu trausts milli þingmanna ísraelska þingsins og þess palestínska og að stofna til tengsla við önnur þing á svæðinu, einna helst í Egyptalandi og Jórdaníu, sérstaklega í ljósi möguleika til samstarfs innan ramma samstarfsáætlunarinnar Partner for Democracy. Í því sambandi fagnaði þingið þeim áhuga sem forseti fulltrúadeildar þings Jórdaníu hefði sýnt þeim samstarfssamningum sem eru fyrir hendi á milli Evrópuráðsþingsins annars vegar og þjóðþinga Marokkós og Palestínu hins vegar.
    Ísland var þó nokkuð í kastljósinu samhliða umræðu um skýrslu hollenska þingmannsins Pieter Omtzigt um aðgreiningu pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar. Omtzigt hafði tvö mál til hliðsjónar við vinnslu skýrslu sinnar, annars vegar mál Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi og hins vegar mál Yuliu Tymoshenko, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, sem hefur setið í fangelsi frá því í október 2011 fyrir meint afglöp í starfi sem forsætisráðherra. Þuríður Backman lagði fram sérbókun þar sem lagalegur grundvöllur landsdómsmálsins er útlistaður og athugasemdir gerðar við ýmsa þætti í röksemdafærslu Omtzigt. Evrópuráðsþingið samþykkti síðar ályktun þar sem segir að lýðræðið og réttarríkið krefjist þess að stjórnmálamenn séu verndaðir fyrir ákærum vegna pólitískra ákvarðana, sem skulu lagðar í dóm kjósenda. Að sama skapi er lýst yfir andstöðu við hvers konar friðhelgi, stjórnmálamenn eigi að svara til saka fyrir refsiverða háttsemi fyrir almennum dómstólum. Aðgreining pólitískrar ákvarðanatöku og refsiverðrar háttsemi verði að byggjast á stjórnskipunar- og refsirétti hvers ríkis, sem ber að virða ákveðnar meginreglur, í samræmi við ályktanir Feneyjanefndarinnar. Í ályktun Evrópuráðsþingsins er hvorki minnst á landsdóm né mál Tymoshenko.
    Önnur forgangsmál Evrópuráðsins voru einnig til umræðu á árinu, þar á meðal baráttan gegn spillingu, vernd tjáningar- og fjölmiðlafrelsis, baráttan gegn umburðarleysi og hatursorðræðu og stuðningur við fjölbreytileika og vernd minnihlutahópa. Þá hélt þingið áfram umræðu sinni um umbætur á starfsemi Mannréttindadómstólsins. Í ályktun þingsins um stöðu mála í Bosníu og Hersegóvínu var stjórnvöldum þar í landi gefinn frestur fram að kosningum í landinu 2014 til að gera breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum þannig að allir þegnar landsins, óháð þjóðerni, gætu boðið sig fram til forsetaembættis. Samkvæmt friðarsamningunum frá 1995, sem stjórnarskráin er hluti af, geta eingöngu þeir sem eru opinberlega skilgreindir sem Serbar, Króatar eða Bosníumenn gefið kost á sér. Í máli þingmannasendinefndar Bosníu og Hersegóvínu kom fram að málið væri mun flóknara en lagabreytingar og það þyrfti að taka tillit til þess þegar unnið yrði að úrlausn mála til framtíðar.
    Í ályktun um baráttuna gegn mansali á börnum kallaði Evrópuráðsþingið loks eftir lagalega bindandi aðgerðum og stefnu, sem í fælist m.a. innleiðing á kerfum sem kæmu í veg fyrir að hættulegir kynferðisafbrotamenn ferðuðust á milli landa, aukið alþjóðlegt samstarf við saksókn kynferðisbrotamanna og uppsetning miðlægs gagnagrunns. Samhliða fór fram umræða um herferð Evrópuráðsins gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum Eitt af fimm (e. One in Five). Herferðin hefur það markmið að efla Lanzarote-sáttmála Evrópuráðsins sem snýr að vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi og auka vitund um mikilvægi þess að bregðast við þess konar brotum. Þingið ályktaði að enn væri hægt að efla herferðina og mælti með því við ráðherranefnd Evrópuráðsins að veitt yrði frekara fé til verkefnisins þar til því lýkur í nóvember 2014. Í lok desember sendi framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins, Wojciech Sawicki, bréf til formanna allra landsdeilda þar sem farið er fram á auknar fjárveitingar til herferðarinnar um afnám ofbeldis gegn konum og afnám kynferðisofbeldis gegn börnum.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Frá 2011 starfar þingið í átta fastanefndum en einnig starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefnd fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
     *      eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
     *      hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á, og
     *      vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Á árinu 2011 lauk einnig vinnu við gerð samnings sem tekur á ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en gerð hans er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Á árinu 2013 voru aðalmenn Íslandsdeildar fram til kosninga til Alþingis 27. apríl þau Þuríður Backman, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Mörður Árnason, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingar, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins fram til alþingiskosninga var sem hér segir:
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Þuríður Backman.
     *      Stjórnarnefnd: Þuríður Backman.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Mörður Árnason.
     *      Undirnefnd um málefni Mið-Austurlanda: Mörður Árnason.
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Þuríður Backman.
     *      Undirnefnd um val á dómurum við Mannréttindadómstól Evrópu: Þuríður Backman.
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Þuríður Backman.
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Mörður Árnason.
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Birkir Jón Jónsson.
     *      Jafnréttisnefnd: Birkir Jón Jónsson.
     *      Reglunefnd: Mörður Árnason.
    Í kjölfar alþingiskosninganna 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin 6. júní og gildir sú kosning fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru kosnir Karl Garðarsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru kosin Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Unnur Brá Konráðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar. Skipan Íslandsdeildar var breytt fyrir haustfund Evrópuráðsþingsins, þannig að aðal- og varamaður þingflokks Sjálfstæðisflokks skiptu um sæti – Unnur Brá Konráðsdóttir varð aðalmaður í stað Brynjars Níelssonar sem varð varamaður - og Oddný G. Harðardóttir kom í stað Guðbjarts Hannessonar sem varamaður þingflokks Samfylkingarinnar. Sjá nánar um ástæður þess hér að aftan.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var eftir það sem hér segir:
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Karl Garðarsson.
     *      Stjórnarnefnd: Karl Garðarsson.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Karl Garðarsson
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Ögmundur Jónasson
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Ögmundur Jónasson
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Karl Garðarsson
     *      Jafnréttisnefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir
    Ögmundur Jónasson er jafnframt tengiliður Alþingis við baráttuherferðir Evrópuráðsþingsins um afnám kynferðisofbeldis gegn börnum annars vegar og gegn ofbeldi gegn konum hins vegar.
    Vilborg Ása Guðjónsdóttir var ritari Íslandsdeildar til 1. september þegar Magnea Marinósdóttir tók við starfi alþjóðaritara.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum Evrópuráðsþingsins.
    Eftir kosningar 27. apríl 2013 var Íslandsdeild skipuð að nýju og kjörbréf hennar samþykkt við þingsetningu 6. júní og sent til Evrópuráðsþingsins. Íslandsdeildin var skipuð þremur aðalmönnum, sem voru karlmenn, auk þremur varamönnum, þar af tveimur konum. Sú skipan brýtur hins vegar í bága við reglu þingsins nr. 6.2.a. um kynjajafnvægi sem segir m.a. að sendinefndir allra aðildarríkja skuli vera skipaðar aðalmönnum af báðum kynjum og að kynjahlutfallið eigi að endurspegla kynjahlutfallið á viðkomandi þjóðþingi. Í kjölfarið samþykkti Evrópuráðsþingið kjörbréf Íslandsdeildar með fyrirvara og þar sem ekki náðist að leysa vandinn fyrir sumarfund Evrópuráðsþingsins 24. júní fékk Alþingi tækifæri til að breyta skipan Íslandsdeildar fyrir haustfundinn eða yrði ella svipt atkvæðisrétti. Fyrir haustfundinn hafði skipan Íslandsdeildar verið breytt en þingmennirnir voru samt án atkvæðisréttar fyrstu tvo dagana þar sem ekki hafði verið hægt að staðfesta kjörbréf nýrrar Íslandsdeildar fyrr en Alþingi kom saman 1. október eftir sumarleyfi og samþykkja það í kjölfarið á fundi Evrópuráðsþingsins 2. október. Þann sama dag fékk Íslandsdeildin aftur atkvæðisrétt.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2013.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 21..-25. janúar 2013.
    
Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Þuríður Backman, formaður, Mörður Árnason, varaformaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru skuldbindingar Aserbaídsjan gagnvart Evrópuráðinu, þar á meðal um pólitíska fanga, ástandið í Kósóvó, staða mannúðarmála á átakasvæðum í Georgíu og Rússlandi, gerð samnings Evrópuráðsins gegn ólöglegum viðskiptum með líffæri, vefi og frumur manna, og árleg umræða um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD). Þá fóru fram utandagskrárumræður um ástandið í Malí.
    Að venju hófst fyrsti þingfundur ársins á kjöri forseta þingsins. Sitjandi forseti, Jean- Claude Mignon, var einn í framboði og var endurkjörinn. Í opnunarræðu sinni kynnti Mignon helstu áhersluatriði sín fyrir árið 2013, sem voru m.a. að tryggja að samstarf Evrópuráðsins við Evrópusambandið væri eins hagnýtt og mögulegt væri, og að styrkja hlutverk Evrópuráðsins sem sáttasemjara, ekki síst í þeim aðildarríkjum ráðsins sem standa í deilum eða þar sem innanlandsátök eiga sér stað. Að kosningu varaforseta lokinni flutti hollenski þingmaðurinn Tiny Kox fundinum skýrslu um starfsemi framkvæmdastjórnar þingsins frá síðasta þingfundi. Þá ávarpaði þingið utanríkisráðherra Andorra, Gilbert Saboya Sunye, og sagði m.a. frá komandi átaki undir formennsku Andorra til stuðnings mannréttindasáttmála Evrópu. Átakinu er ætlað að virkja ungmenni og hið borgaralega samfélag með það að markmiði að auka vitund um mannréttindavernd. Loks ávarpaði Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, þingið og hvatti nýja ríkisstjórn Georgíu til að stuðla áfram að lýðræðislegri framþróun.
    Í ályktun sinni um ástandið í Kósóvó undirstrikaði þingið nauðsyn þess að Evrópuráðið viðhéldi beinum vinnutengslum við yfirvöld í Kósóvó, á öllum starfsstigum, til að tryggja snurðulausa framkvæmd samstarfsverkefna. Þingið harmaði hægar framfarir í landinu, sérstaklega þegar kemur að baráttunni gegn skipulögðum glæpum og spillingu, og kallaði eftir endurbótum þar á.
    Í ræðu sinni hvatti framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland, Evrópuríki til að ítreka sameiginlegan stuðning sinn og hollustu við vernd mannréttinda, samstöðu og lýðræði, en varaði jafnframt við því að víðtæk spilling græfi undan trú almennra borgara á réttarríkið. Hann lagði til að Evrópuráðið legði áherslu á fjögur forgangsatriði: baráttuna gegn spillingu og aðstoð við ríkisstjórnir til endurbóta á réttarfari; vernd tjáningar- og fjölmiðlafrelsis; baráttuna gegn umburðarleysi og hatursorðræðu; og stuðning við fjölbreytileika og vernd minnihlutahópa.
    Í ályktun um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu kallaði þingið eftir frekari samræmingu milli starfsemi bankans og þingsins, sem og annarra viðeigandi stofnana, til að þróa samvirkni í viðleitni Evrópu til að styðja við komandi lýðræðisríki í arabaheiminum. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að eiga samvinnu við borgaraleg samtök.
    Þingið hélt áfram umræðu sinni um umbætur á starfsemi Mannréttindadómstólsins. Þuríður Backman tók til máls fyrir hönd síns flokkahóps og lagði í ræðu sinni sérstaka áherslu á að ráðherraráðið, eftirlitsnefnd þingsins og þjóðþing aðildarríkja fylgdu náið eftir tilmælum til þeirra ríkja sem færu ekki að mannréttindasáttmálanum. Sérstakan stuðning ætti þó að veita þeim ríkjum sem væru að takast á við kerfisbundin vandamál, með það að markmiði að leysa undirliggjandi ástæður þess að ríkin færu ekki að sáttmálanum. Þuríður lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að Mannréttindadómstóllinn héldi sjálfstæði sínu, og að þjóðþing tækju þátt í vali á dómaraefnum, til að tryggja að ferlið væri eins lýðræðislegt og faglegt og mögulegt væri.
    Í ályktun um stöðu mála í Georgíu og Rússlandi vakti þingið athygli á langtímaáskorunum á sviði mannúðarmála, og lýsti yfir þeirri trú sinni að daglegt líf þess fólks sem deilan hefði áhrif á gæti batnað með litlum skrefum, eins og til dæmis með því að auka samræður á milli námsmanna, hins borgaralega samfélags og stjórnmálamanna, til að takast á við rótgróið vantraust.
    Þingið ákvað að fylgjast áfram með eftirfylgni Aserbaídsjan við aðildarskuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Í ályktun sinni hvatti þingið Aserbaídsjan til að auka viðleitni sína við innleiðingu löggjafar sem væri nauðsynleg til að lýðræðislegar stofnanir gætu starfað almennilega. Frá upphafi aðildar hafi framfara gætt í Aserbaídsjan en enn þá væru töluverð vandamál til staðar. Það ætti til að mynda við um vernd mannréttinda, réttarríkið, sjálfstæði dómstóla, framkvæmd kosninga, tjáningarfrelsi, fundafrelsi, valdníðslu lögreglunnar, spillingu og skipulagða glæpastarfsemi.
    Í tilmælum sínum til ráðherranefndar Evrópuráðsins um baráttuna gegn ólöglegum viðskiptum með líffæri manna mælti þingið með því að ráðherranefndin lyki gerð samnings sem snýr að því að koma í veg fyrir viðskipti með líffæri. Þingið kallaði einnig eftir stofnun sjálfstæðrar nefndar sem hefði það hlutverk að tryggja strangt eftirlit með eftirfylgni samningsins.
    Þingið undirstrikaði að deila þyrfti ábyrgðinni á þeim vanda sem hefur skapast fyrir botni Miðjarðarhafs vegna straums flóttamanna og hælisleitenda til Grikklands, Tyrklands og annarra ríkja á svæðinu. Vandinn væri sameiginlegur vandi allrar Evrópu. Í því sambandi kallaði þingið eftir að aðildarríki Evrópuráðsins ykju stuðning sinn við Grikkland, Tyrkland og önnur ríki í svipaðri stöðu og íhuguðu flutning flóttafólks og hælisleitenda til annarra ríkja í Evrópu. Þingið kallaði jafnframt eftir því að Grikkland forðaðist að hneppa flóttafólk ósjálfrátt í varðhald og sæi til þess að fangelsum þar sem aðstæður væru óviðunandi yrði tafarlaust lokað.
    Í sameiginlegri yfirlýsingu Mignon og Stefan Füle, framkvæmdastjóra stækkunarmála og evrópsku nágrannastefnu ESB, var lýst yfir vilja til að auka áhrif þjóðþinga á sameiginleg stuðnings- og samvinnuverkefni Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.
    Í utandagskrárumræðu um ástandið í Malí var lýst yfir stuðningi við malíska og franska herinn í viðleitni þeirra til að berjast gegn uppreisnarmönnum í norðurhluta landsins. Í ályktun um málið fordæmdi þingið alvarleg mannréttindabrot róttækra íslamista, en tók fram að mannréttindabrot ættu sér einnig stað á svæðum sem væru undir stjórn stjórnarhersins. Þingið fagnaði þá nýlegri ákvörðun Alþjóðaglæpadómstólsins að rannsaka meinta glæpi í Malí. Mörður Árnason tók þátt í umræðunni og lýsti yfir stuðningi við íhlutun franska hersins í landinu. Að því sögðu lýsti hann yfir þeirri von sinni að franski herinn og afrískir bandamenn hans væru með lokamarkmið íhlutunarinnar skýrt í huga, og eins að þeir hefðu skilgreint á skýran hátt pólitísk markmið, þ.e. að koma aftur á lýðræði í landinu. Þá sagði hann mikilvægt að önnur evrópsk ríki legðu hönd á plóg til stuðnings franska hernum og íbúum Malí til að tryggja að stríðið drægist ekki á langinn líkt og hefði gerst í Afganistan. Loks minnti hann á að hryðjuverk ættu upptök sín í fátækt og vanþróun, skorti á lýðræði, mannréttindabrotum og örvæntingu, sem þyrfti einnig að taka á.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um stöðu fjölmiðlafrelsis í Evrópu, jafnrétti kynjanna og samræmingu starfs og einkalífs, og ólögleg viðskipti með farandverkafólk til nauðungarvinnu.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 22..26. apríl 2013.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Þuríður Backman, formaður, og Vilborg Ása Guðjónsdóttir, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá voru ofbeldi gegn trúarsamfélögum, barátta gegn kynferðislegu ofbeldi og mansali á börnum, og búferlaflutningar og hælisleitendur austan við landamæri Evrópusambandsins. Þá fóru fram utandagskrárumræður um sýrlenska flóttamenn í Jórdaníu, Tyrklandi, Líbanon og Írak.
    Forseti Þýskalands, Joachim Gauck, ávarpaði þingið á fyrsta degi þingfunda og lagði í máli sínu áherslu á mannréttindamál. Hann kallaði eftir að aðildarríki Evrópuráðsins skuldbyndu sig gildum og lagalegum stöðlum ráðsins og virtu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann lofaði hlutverk Evrópuráðsins í baráttunni gegn kynþáttafordómum og mismunun, sem og hlutverk frjálsra félagasamtaka og borgaralegra samtaka í því sambandi.
    Á fundi laga- og mannréttindanefndar þingsins lagði hollenski þingmaðurinn Pieter Omtzigt úr flokki kristilegra demókrata fram skýrslu um aðgreiningu pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar, þar sem mál Geirs H. Haarde fyrir landsdómi var m.a. til umræðu. Þuríður Backman lagði fram sérbókun þar sem lagalegur grundvöllur landsdómsmálsins er útlistaður og athugasemdir gerðar við ýmsa þætti í röksemdafærslu Omtzigt. Samkvæmt skýrslu Omtzigt eiga stjórnmálamenn að vera verndaðir gagnvart refsingu fyrir pólitískar ákvarðanir. Þuríður lýsti yfir öndverðri skoðun, þ.e. að öll ríki ættu að hafa ferli sem tryggir að stjórnmálamönnum sé refsað fyrir gjörðir sem eru ekki einungis pólitískar heldur einnig refsiverðar í eðli sínu. Hún skýrði frá því að á Íslandi stæði nú yfir umræða um að draga úr vægi Alþingis í ákæruferlinu og færa valdið þess í stað yfir til ríkissaksóknara. Nefndin samþykkti skýrslu Omtzigt en felldi m.a. út málsgreinar um landsdómsmálið í ályktun skýrslunnar.
    Í ályktun sinni um ofbeldi gegn trúarsamfélögum kallaði þingið eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins tækju aðstæður og réttindi trúarsamfélaga til greina í samningum sín á milli og við þriðju ríki.
    Í ályktun um baráttuna gegn mansali á börnum kallaði þingið eftir lagalega bindandi aðgerðum og stefnum, sem í fælist m.a. innleiðing á kerfum sem kæmu í veg fyrir að stórfelldir kynferðisafbrotamenn gætu ferðast á milli landa, aukið alþjóðlegt samstarf við saksókn kynferðisbrotamanna sem ferðuðust á milli landa og uppsetning trausts, miðlægs gagnagrunns. Samhliða fór fram umræða um herferð Evrópuráðsins gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum Eitt af fimm (e. One in Five). Herferðin, sem var sett á laggirnar í nóvember 2010, hefur það markmið að efla Lanzarote-sáttmála Evrópuráðsins sem snýr að vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi og auka vitund um mikilvægi þess að bregðast við þess konar brotum. Þingið ályktaði að enn væri hægt að efla herferðina og mælti með því við ráðherranefnd Evrópuráðsins að veitt yrði frekara fé til verkefnisins þar til því lýkur í nóvember 2014. Þuríður Backman tók til máls fyrir hönd síns flokkahóps og lagði í ræðu sinni áherslu á að öll ríki opnuðu fyrir opinbera umræðu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og hræðilegar afleiðingar þess. Hún benti á að það þyrfti að vera skýrt skipulag til staðar til að takast á við brot af þessum toga á skilvirkan hátt. Þar væri m.a. mikilvægt að fólk sem ynni með börnum eða tækist á við mál sem þessi hefði fengið fræðslu um málaflokkinn, allt frá kennurum og heilbrigðisstarfsfólki til lögregluþjóna, lögfræðinga og dómara. Hún benti jafnframt á að þegar opnað væri fyrir umræðu um málaflokkinn væru allar líkur á að mikið af málum kæmi fram, bæði ný og gömul. Það hefði t.d. verið reynslan á Íslandi. Mikilvægt væri að efla dómskerfið til að það væri fært um að sinna öllum málum skilmerkilega. Þuríður minnti einnig á mikilvægi þess að þjóðir lærðu af reynslu hvers annars, t.d. hefði Barnahús á Íslandi tekist mjög vel til og önnur ríki litu nú til þess. Loks benti hún á að ekki væri hægt að líta fram hjá ábyrgð klámiðnaðarins, sem með myndum af börnum í kynferðislegu samhengi normaliseraði kynlíf með börnum. Internetið hefði ýtt undir þessa þróun, sem mikilvægt væri að vera meðvitaður um og berjast gegn.
    Þingið ákvað að fylgjast áfram með eftirfylgni Tyrklands við aðildarskuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Í ályktun sinni kemst þingið að þeirri niðurstöðu að laga- og stofnanalegt umbótaferli standi yfir en sé ekki lokið. Þingið lofaði endurbætur á ýmsum sviðum og efnahagslegar framfarir Tyrklands en benti jafnframt á þau skref sem landið þarf að taka til að ljúka endurbótum á fullnægjandi hátt. Þar á meðal eru frekari endurbætur á stjórnarskránni, lög um meðferð sakamála, tjáningarfrelsi og lausn á deilunni við Kúrda.
    Í ályktun um  búferlaflutninga og hælisleitendur austan við landamæri Evrópusambandsins (ESB) komst þingið að þeirri niðurstöðu að auka þyrfti alþjóðlega samvinnu og deila betur ábyrgðinni með ESB. Bent var á að Tyrkland væri undir sérstöku álagi í þessu sambandi en einnig væru Eystrasaltsríki, Úkraína, Móldóva og Rússland undir álagi. Þingið kallaði eftir að ríki austan landamæra ESB ykju samstarf og bættu getu sína til að takast á við hælisumsóknir.
    Í utandagskrárumræðu um sýrlenska flóttamenn í Jórdaníu, Tyrklandi, Líbanon og Írak minnti þingið alþjóðasamfélagið á ábyrgð sína og lagði áherslu á mikilvægi þess að koma í veg fyrir að flæði flóttamanna ylli frekara ójafnvægi á svæðinu. Þá var í umræðunum lögð áhersla á þörf flóttamanna fyrir aðstoð og rætt um hvernig best væri að skipuleggja og styðja við alþjóðlega viðleitni í því sambandi.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um menntun ungmenna, aðgengi ungmenna að grundvallarréttindum, menningar- og menntamál í Evrópu, landamærastofnun Evrópu, nanótækni og siðfræði tækni og vísinda.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24..28. júní 2013.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Brynjar Níelsson og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Helstu mál á dagskrá voru aðgreining pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar, ástandið í Mið-Austurlöndum, samstarfssamningur Evrópuráðsþingsins og þings Marokkós, spilling sem ógn við réttarríkið, mótmæli almennings og fjölmiðla-, funda- og málfrelsi, og persónunjósnir og afskipti hins opinbera af netnotkun almennings.
    Á fyrsta fundi þingsins var skipan nýrrar Íslandsdeildar mótmælt, þar sem hún braut í bága við kynjareglur þingsins sem segja m.a. að sendinefndir allra aðildarríkja þurfi að vera skipaðar aðalmönnum af báðum kynjum. Kjör í alþjóðanefndir Alþingis fór fram við þingsetningu 6. júní sl. Í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins voru skipaðir þrír karlmenn, þeir Karl Garðarsson fyrir Framsóknarflokk, Brynjar Níelsson fyrir Sjálfstæðisflokk og Ögmundur Jónasson fyrir Vinstri hreyfinguna . grænt framboð. Ekki er vaninn að flokkarnir hafi samráð sín á milli við skipan í nefndir og það uppgötvaðist ekki fyrr en eftir á að skipan Íslandsdeildar bryti í bága við reglur Evrópuráðsins um kynjakvóta. Ekki náðist að leysa vandinn fyrir sumarfund Evrópuráðsþingsins, sem hófst 24. júní sl., en flokkarnir hétu því fyrir fundinn að málið yrði leyst fyrir haustfund. Þingskapanefnd Evrópuráðsþingsins fór yfir málið og lagði til að Alþingi fengi svigrúm fram til haustfundar Evrópuráðsþingsins til að gera breytingar á skipan Íslandsdeildar, sem Evrópuráðsþingið samþykkti.
    Ályktun um aðgreiningu pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar var til umræðu á sumarþingi, en hollenski þingmaðurinn Pieter Omtzigt úr flokki kristilegra demókrata var framsögumaður málsins. Hann hafði skoðað tvö mál við vinnslu skýrslu sinnar, annars vegar mál Geirs H. Haarde fyrir landsdómi og hins vegar mál Yuliu Tymoshenko, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, sem hefur setið í fangelsi frá því í október 2011 fyrir afglöp í starfi sem forsætisráðherra. Evrópuráðsþingið samþykkti ályktun sem segir að lýðræðið og réttarríkið krefjist þess að stjórnmálamenn séu verndaðir fyrir ákærum vegna pólitískra ákvarðana, sem skulu lagðar í dóm kjósenda. Að sama skapi er lýst yfir andstöðu við hvers konar friðhelgi, stjórnmálamenn eigi að svara til saka fyrir refsiverða háttsemi fyrir almennum dómstólum. Aðgreining pólitískrar ákvarðanatöku og refsiverðrar háttsemi verði að byggjast á stjórnskipunar- og refsirétti hvers ríkis, sem ber að virða ákveðnar meginreglur, í samræmi við ályktanir Feneyjanefndarinnar. Meðal þessara meginreglna sé að ekki eigi að höfða sakamál til að refsa fyrir pólitísk mistök eða ágreining, að reglur um ráðherraábyrgð verði að fara að mannréttindasáttmála Evrópu og að túlka skuli þröngt afglöp í starfi. Í ályktuninni hvetur Evrópuráðsþingið ríkisstjórnir aðildarríkja til að stilla sig um að misnota réttarkerfið í ofsóknir á hendur pólitískum andstæðingum og biður þau ríki sem hafa stjórnarskrá sem kveður á um ráðherraábyrgð um að tryggja að ábyrgðin sé skilgreind og ákvæðum hennar beitt af fyllstu varúð og hófsemi eins og Feneyjanefndin mælir með. Í ályktuninni er hvorki minnst á landsdóm né mál Tymoshenko.
    Karl Garðarsson tók til máls í umræðu um mótmæli almennings og funda-, fjölmiðla- og málfrelsi. Hann benti á að þó svo að friðsamlegar samkomur ættu alltaf að vera leyfðar, gætu þær þróast út í ofbeldi og að fólk færi um ránshendi. Skipuleggjendur mótmæla hefðu í þessum tilfellum oft ekki stjórn yfir þúsundum manna og valdbeiting ríkisins væri þá nauðsynleg til að tryggja öryggi almennings og allsherjarreglu. Óhóflega valdbeitingu lögreglu, hers eða ríkisstjórnar væri hins vegar aldrei hægt að líða. Varðandi fjölmiðlafrelsi benti hann á að fjölmiðlar og blaðamenn væru aldrei alveg frjálsir, þar sem eigendur fjölmiðla hefðu alltaf bein eða óbein áhrif á efnistök viðkomandi miðils. Markmið blaðamanna væri iðulega að vera hlutlausir . stundum tækist það, stundum ekki.
    Ögmundur Jónasson tók til máls fyrir hönd síns flokkahóps í umræðu um afskipti hins opinbera af netnotkun og persónuupplýsingum almennings á netinu. Í máli sínu beindi hann athygli að persónunjósnum ríkisstjórna og fyrirtækja, og hvatti aðildarríki Evrópuráðsþingsins til að skjóta verndarskildi yfir uppljóstrurum eins og Edward Snowden. Hann ræddi einnig um alvarleika ofbeldisfulls kláms á netinu og benti á að þingmenn og ríkisstjórnir ættu ekki þann möguleika að leiða slíkt hjá sér og vera hlutlausir, nauðsynlegt væri að bregðast við. Hann hefði sem innanríkisráðherra tekið fyrstu skrefin í að takast á við málið með því að kortleggja tæknilega og lagalega möguleika í því sambandi, en verið sakaður um að vilja koma á ritskoðun, sem hann væri á móti. Að lokum hrósaði hann Evrópuráðinu fyrir vinnu sína til varnar réttindum barna og benti á að herferð ráðsins um vitundarvakningu um misnotkun barna hefði haft mikil áhrif á Íslandi.
    Í ályktun um ástandið í Mið-Austurlöndum einsetti Evrópuráðsþingið sér að halda áfram að stuðla að samræðum og uppbyggingu trausts milli þingmanna ísraelska þingsins og palestínska þingsins, einna helst innan ramma undirnefndar um málefni Mið-Austurlanda. Þá ákvað þingið að leitast við að stofna til tengsla við önnur þing á svæðinu, einna helst í Egyptalandi og Jórdaníu, sérstaklega í ljósi möguleika til samstarfs innan ramma samstarfsáætlunarinnar Partner for Democracy. Í því sambandi fagnaði þingið þeim áhuga sem forseti fulltrúadeildar þings Jórdaníu hefði sýnt þeirri samstarfsáætlun, sem bæði þing Marokkós og Palestínu eru hluti af.
    Samstarfssamningur við þing Marokkós var tekinn til fyrstu endurskoðunar. Í ályktun um málið undirstrikaði Evrópuráðsþingið mikilvæg skref sem þing Marokkós hefur tekið á sviði lýðræðislegra endurbóta með nýrri stjórnarskrá sem hefur að geyma ákveðin grundvallaratriði, eins og stuðning við mannréttindi, bann við mismunun, aðgreiningu valds og styrkingu stofnana, sérstaklega marokkóska þingsins. Á sama tíma ítrekuðu þingmenn mikilvægi áframhaldandi endurbóta með setningu nauðsynlegra stjórnskipunarlaga og uppbyggingu stofnana. Þeir kölluðu einnig eftir því að þing Marokkós afnæmi dauðarefsingu, og tryggði funda- og málfrelsi borgaralegra félagasamtaka. Samstarfssamningurinn verður endurskoðaður á ný innan tveggja ára.
    Í ályktun um spillingu sem ógn við réttarríkið kallaði þingið eftir því að aðildarríki þess efldu alþjóðlega samvinnu og endurskoðuðu löggjöf sína þegar kæmi að baráttunni gegn spillingu. Þá hét þingið því að halda áfram að fylgjast með nýjum straumum varðandi gagnsæi og hættu á spillingu í þjóðþingum. Þingið ítrekaði einnig að nauðsynlegum lagaumbótum þyrfti að fylgja þróun á menningu sem fordæmdi spillingu og benti á hlutverk fjölmiðla í því sambandi, sem og við að rekja slóð spillingar.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynsamsömunar, jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og viðleitni til að binda enda á þvingaðar ófrjósemisaðgerðir og vananir.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 30. september – 4. október 2013.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Unnur Brá Konráðsdóttir, nýr aðalmaður í stað Brynjars Níelssonar áður, og Ögmundur Jónasson, auk Magneu Marinósdóttur, alþjóðaritara.
    Það sem bar hæst á haustfundinum var umræða um ástandið í Sýrlandi, þar sem Karl Garðarsson og Ögmundur Jónasson tóku til máls, og stjórnmálaástandið í Bosníu og Hersegóvínu þar sem Unnur Brá Konráðsdóttir var með framsögu fyrir hönd síns flokkahóps. Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, gerð grein fyrir og svaraði spurningum þingmanna um umbætur sem verið er að framkvæma á starfsemi Evrópuráðsins og Mannréttindadómstóls Evrópu og hafa það að markmiði að gera stofnanirnar skilvirkari auk þess sem mannréttindastarfsemi Evrópusambandsins var til umræðu en mörgum þykir sambandið vera komið of langt inn á svið kjarnastarfsemi Evrópuráðsins.
    Á fyrsta degi þingsins voru þingmenn Íslandsdeildar sviptir atkvæðisrétti í samræmi við ályktun þingsins nr. 1944 sem hafði verið samþykkt á sumarfundi Evrópuráðsþingsins, þar sem kjörbréf Íslandsdeildar braut í bága við reglu þingsins nr. 6.2.a. um kynjajafnvægi sem segir m.a. að sendinefndir allra aðildarríkja skuli vera skipaðar aðalmönnum af báðum kynjum og að kynjahlutfallið eigi að endurspegla kynjahlutfall á viðkomandi þjóðþingi. Breytt skipan nefndarinnar hafði verið samþykkt fyrir haustfundinn en þar sem ekki var hægt að staðfesta hana fyrr en eftir að Alþingi kom saman til þingsetningar 1. október höfðu þingmenn Íslandsdeildar ekki atkvæðisrétt fyrr en eftir að kjörbréfið hafið verið samþykkt fyrst á Alþingi og síðan á fundi Evrópuráðsþingsins 2. október.
    Í umræðunni um Sýrland var mörgum hugleikið máttleysi alþjóðasamfélagsins við að stöðva átökin, hversu flókin átökin eru orðin með tilkomu margra vopnaðra hópa með mismunandi hugmyndafræði og trúarskoðanir, og örlög milljóna almennra borgara sem hafa lagt á flótta vegna stríðsástandsins. Í ræðu sinni gagnrýndi Karl Garðarsson alþjóðasamfélagið fyrir að hafa brugðist skyldu sinni gagnvart borgurum Sýrlands. Árásir á óbreytta borgara, þar með talið kynferðisofbeldi, hefði ekki dugað til íhlutunar. Það hefði þurft efnavopnaárás til að fá alþjóðasamfélagið til að grípa til aðgerða. Á sama tíma héldu stríðsátökin áfram. Spurði hann í lokin hvers konar skilaboð alþjóðasamfélagið sendi með þessu. Ögmundur Jónasson benti á skyldur alþjóðasamfélagsins til að vernda almenna borgara gegn brotum á mannréttinda- og mannúðarlögum. Hann varaði við hernaðaríhlutun en talaði fyrir alþjóðlegum þrýstingi og fagnaði aukinni aðkomu þjóðþinga Vesturlanda að ákvarðanatöku um íhlutun. Á sama tíma benti hann á tvískinnung alþjóðasamfélagsins og nefndi að bæði Bretland og Þýskaland hefðu selt efni sem hægt er að nota til efnavopnagerðar til Sýrlands allt fram til ársins 2011. Að lokum varaði hann við neyðarástandi meðal flóttamanna sem búa við margvíslegan skort og minnti á að vetur væri að ganga í garð. Margir þingmenn tóku í sama streng og skoruðu á ríkisstjórnir Evrópuráðsins til að taka á móti flóttamönnum á meðan unnið væri að aðgerðum til að stöðva stríðið með vísan í fyrirhugaðar friðarviðræður í Genf samhliða vopnahléi.
    Mikil umræða átti sér einnig stað um afdráttarlausa ályktun eftirlitsnefndar þingsins um Bosníu og Hersegóvínu þar sem lagt er til að Evrópuráðsþingið geri að tillögu sinni við ráðherraráð Evrópuráðsins að Bosnía og Hersegóvína yrði gerð brottræk sem aðildarríki ef breytingar á stjórnarskrá landsins og kosningalögum til að innleiða dóm Mannréttindadómstólsins frá 2009 verða ekki komnar til framkvæmda fyrir kosningar í landinu 2014. Innleiðing dómsins á að koma því til leiðar að borgarar landsins geti, óháð uppruna, boðið sig fram til forseta, en ekki eingöngu Bosníumenn, Króatar og Serbar, eins og verið hefur eftir að stríðsátökunum í landinu lauk árið 1995 með gerð friðarsamninga kenndra við Dayton. Í ræðu sinni benti Unnur Brá Konráðsdóttir á að stjórnarskrá landsins, sem er hluti af friðarsamningunum sem gerðir voru til að binda enda á blóðug átök, hefði í raun fest í sessi stjórnmálakerfi sundrungar frekar en einingar og því þyrfti að huga að gerð nýrrar stjórnarskrár til að leysa þann vanda sem Bosnía og Hersegóvína glímir við. Á fundinum kom m.a. fram að formenn stærstu stjórnmálaflokkanna í Bosníu og Hersegóvínu hefðu átt neyðarfund með stækkunarstjóra ESB daginn áður þar sem samkomulag náðist um að gera nauðsynlegar breytingar fyrir kosningarnar í landinu 2014. Ályktunin hafði því umsvifalaust áhrif. Í kjölfarið vildu sumir bíða átekta og senda ályktunina aftur til eftirlitsnefndarinnar til frekari vinnslu en var sú tillaga felld í atkvæðagreiðslu.
    Í umræðu um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu frá 2012 til 2013 ávarpaði framkvæmdastjóri stofnunarinnar þingmenn og sat fyrir svörum. Í ræðu sinni var Karl Garðarsson sammála skýrsluhöfundi Evrópuráðsþingsins um nauðsyn þess að koma í veg fyrir að alþjóðafyrirtæki gætu komist upp með að borga enga skatta og fjallaði um þörfina á að koma á skilvirkara samráði til að koma í veg fyrir skattundanskot en eins og staðan er núna þá væri það bæði flókið og tímafrekt að afla upplýsinga þrátt fyrir 800 tvíhliða skattasamninga á heimsvísu, auk þess sem skattalöggjöf væri mismunandi á milli landa.
    Ögmundur Jónasson flutti framsögu fyrir hönd síns flokkahóps um ályktun þar sem aðgerðir á börnum gerðar af trúarlegum eða annars konar ástæðum, eins og umskurður á kynfærum barna, voru gagnrýndar með hliðsjón af sjónarmiðum um velferð barna og skilyrðislausan rétt þeirra til verndar gegn neikvæðum líkamlegum og andlegum afleiðingum þess konar aðgerða. Í umræðu sem fram fór um mörk eða markaleysi hvað varðar aðgang stjórnvalda að persónulegum upplýsingum í nafni þjóðaröryggis vísaði Ögmundur í afstöðu sína þegar hann gegndi embætti innanríkisráðherra og neitaði samstarfi við bandarísku alríkislögregluna (FBI) við rannsókn á Julian Assange, stofnanda WikiLeaks. Hann spurði í lokin á hversu margar ríkisstjórnardyr í Evrópu alríkislögreglan hefði bankað fyrir utan þær íslensku og hvatti til þess að öll aðildarríki Evrópuráðsins stæðu vörð um „lýðræðislega uppljóstrara“ eins og Bradley Manning og Edward Snowden. Ögmundur Jónasson var einnig framsögumaður síns flokkahóps í umræðu sem sneri að mikilvægi þess að leiða í ljós sannleikann um örlög einstaklinga sem horfið hafa sporlaust í átökum í Evrópu þar sem í forgrunni voru réttindi aðstandanda þeirra og hvernig sannleikurinn getur átt þátt í að stuðla að sátt og friði innan samfélaga særðum djúpum sárum eftir átök. Í ræðu sinni benti hann sérstaklega á erfiðleikana sem skapast þegar einstaklingar sem hafa átt þátt í mannshvarfi eru hugsanlega þeir einu sem geta upplýst um örlög viðkomandi og á mikilvægi þess að koma á stofn kerfi sem hvetur einstaklinga til að láta af hendi slíkar upplýsingar á sama tíma og komið er í veg fyrir algert refsileysi með vísan í skilyrtar sakaruppgjafir í skiptum fyrir upplýsingar.
    Í umræðu um fæðuöryggi sagði Ögmundur Jónasson fæðuöryggi mannréttindi og vék síðan sérstaklega að mótsögninni sem felst í nútímalandbúnaðartækni sem hefur það að markmiði að auka framleiðni en stuðlar jafnframt að því að spilla frjósemi jarðvegs og jarðvegsrofi. Ögmundur tók að lokum til máls í umræðu um aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun í garð eldri borgara á vinnumarkaði þar sem hann studdist við langa reynslu sína af verkalýðsstarfi.
    Eftir ávörp Sergey Naryshkin, forseta rússneska þingsins, og Tomislav Nikolic, forseta Serbíu, sem voru gestir þingsins, sátu þeir fyrir svörum, m.a. um afstöðu þarlendra stjórnvalda til gleðigangna samkynhneigðra sem hafa verið bannaðar sl. ár í báðum löndum með vísan til trúarlegra eða öryggissjónarmiða. Sumir gagnrýndu forseta Evrópuráðsþingsins eftir á fyrir að leyfa forseta rússneska þingsins að komast upp með að svara ekki spurningum þingmanna.
    Að lokum má nefna að mannréttindaviðurkenning Evrópuráðsþingsins, kennd við Vaclav Havel, var veitt í fyrsta sinn en þau hlaut Hvít-Rússinn Ales Bialiatski. Eiginkona hans tók við verðlaununum fyrir hans hönd þar sem Bialiatski situr í fangelsi.

Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins í Vín 22. nóvember 2013
    Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn í austurríska þinghúsinu. Karl Garðarsson, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sótti fundinn auk Sigrúnar Brynju Einarsdóttur, starfandi ritara Íslandsdeildar.
    Á fundinum voru fjölmörg málefni til umfjöllunar. Í upphafi ávarpaði Marit Nybakk, forseti Norðurlandaráðs, fundinn og gerði grein fyrir starfsemi ráðsins, markmiði þess og hlutverki og helstu áherslum. Hún ræddi um Norðurlöndin sem fyrirmynd annarra Evrópuríkja varðandi lýðræði og mannréttindi og tæpti m.a. á málefnum á borð við mansal, vændi og réttindi samkynhneigðra. Í framhaldinu sköpuðust umræður þar sem m.a. var rætt um Hvíta- Rússland og mikilvægi þess að lýðræði kæmist á í ríkinu. Þá var sérstaklega rætt um norðurskautið og mikilvægi þess, hvort sem til lengri eða skemmri framtíðar væri litið. Marit Nybakk lagði áherslu á að norðurskautið byggi yfir gríðarlegum náttúruauðlindum en væri jafnframt víða mjög viðkvæmt fyrir ágangi ferðamanna. Karl Garðarsson tók til máls og sagðist sammála Marit Nybakk um mikilvægi norðurskautsins, það væri eitt af stóru málunum sem biði Norðurlandaráðs að fjalla um og það sama gilti um Evrópuráðsþingið. Mörg ríki gerðu kröfur til réttinda á Norðurskautinu og því væri mikilvægt að Evrópuráðsþingið væri meðvitað um hvað væri að gerast í málefnum norðurskautsins og hvaða áhrif opnun siglingaleiða muni hafa.
    Robert Walter frá Bretlandi gerði grein fyrir kosningaeftirliti í forsetakosningunum í Aserbaídsjan í október. Hann sagði að greinilega hefði verið vilji til að endurkjósa sitjandi forseta þrátt fyrir að hann hefði ekki rekið opinbera kosningabaráttu, en hann fékk 85% atkvæða. Helstu vonbrigðin í ferlinu hefðu verið þau að kosningaeftirlitsmenn sem komu frá nokkrum stofnunum náðu ekki saman um yfirlýsingu að kosningunum loknum þar sem ÖSE klauf sig frá Evrópuráðinu og Evrópuþinginu. Þá hefði Feneyjanefndin gert nokkrar athugasemdir varðandi kosningalöggjöf landsins auk þess sem það virtist vanta skipulagða stjórnarandstöðu í landinu og greinilegt að vinna þyrfti betur í að skapa umhverfi fyrir stjórnarandstöðu í ungum lýðræðisríkjum. Töluverðar umræður sköpuðust um skýrsluna og töldu nokkrir fundarmanna að hún væri of jákvæð í garð Aserbaídsjan og endurspeglaði ekki það sem hefði í raun og veru gerst. Fulltrúar Aserbaídsjan mótmæltu því og sögðu þetta vera bestu kosningar í sögu landsins þar sem þær hefðu verið bæði gagnsæjar og lýðræðislegar. Þá gerði Meritxell Mateu i Pi frá Andorra grein fyrir forsetakosningunum í Georgíu í október. Fram kom í máli hennar að lýðræðið þar væri þroskað og ODIHR, ÖSE og Evrópuþingið hefðu unnið sameiginlega að eftirlitinu án þess að alvarlegar athugasemdir kæmu upp. Karl Garðarsson tók til máls og sagði varðandi kosningar í Aserbaídsjan að það væri leitt að tvær yfirlýsingar hefðu verið birtar, það sýndi einna helst ákveðið skipulagsleysi sem þyrfti að skoða. Hann kvaðst hafa tekið þátt í kosningaeftirlitinu í Georgíu af hálfu ODIHR og var sammála því að kosningarnar þar hefðu verið sanngjarnar og Georgíu til sóma. Til umræðu kom að tveimur fulltrúum Evrópuráðsþingsins hefði verið meinaður aðgangur að landinu, en tekið fram að það væri réttur hvers lands að setja lög um ráðstafanir gegn þeim sem að mati yfirvalda hefðu komið ólöglega inn í landið.
    Utanríkisráðherra Austurríkis, sem jafnframt er formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Michael Spindelegger, tók til máls á fundinum í krafti formennsku Austurríkis í Evrópuráðinu. Hann ítrekaði mikilvægt hlutverk ráðsins og að það væri ekki síst samstarfsvettvangur ESB-ríkja og annarra ríkja í Evrópu og nágrenni. Meðal forgangsatriða austurrísku formennskunnar væru m.a. tjáningarfrelsi, gagnavernd og síðast en ekki síst baráttan gegn ofbeldi gegn konum. Hann sagði að einungis 10 ríki til viðbótar þyrftu að fullgilda Istanbúl- samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi til að hann öðlaðist gildi, en þegar hefðu sjö ríki fullgilt hann. Þá minntist Spindelegger á að árið 2014 yrði haldið upp á 65 ára afmæli Evrópuráðsins en þá yrðu jafnframt liðin 100 ár frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar. Evrópuráðið þyrfti að gæta þess að sú minning fyrntist ekki til að koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig.
    Þá voru tekin fyrir og rædd skýrsludrög á ýmsum sviðum, m.a. um það þegar flökkufólk og flóttamenn eru send úr landi og eftirlit með hvernig staðið væri að því í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þá voru skýrsludrög um ofsóknir eltihrella rædd, og mikilvægi þess að aðildarríki hefðu ákvæði í löggjöf sinni sem gerði slíka hegðun refsiverða. Jafnframt þyrfti að styðja við gerendur ekki síður en þolendur til að koma í veg fyrir endurtekin brot að refsingu lokinni. Einnig voru á dagskránni skýrsludrög um ofbeldi gegn konum í Evrópu þar sem Istanbúl- samningurinn kom aftur til umræðu. Af öðrum skýrslum sem voru ræddar má nefna skýrslu um drög að samningi Evrópuráðsins gegn ólöglegri líffærasölu, skýrslu um þátttöku ríkja sem ekki eiga aðild að Evrópuráðinu í sáttmálum þess, skýrslu um takmörkun á því hversu mörg kjörtímabil kjörnir fulltrúar geta setið í lýðræðisríkjum og skýrsla varðandi hegðun og aga fulltrúa á Evrópuráðsþinginu. Öll skýrsludrögin voru borin upp til atkvæða og samþykkt.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Fyrir kosningar sótti Mörður Árnason fund stjórnmála- og lýðræðisnefndar í Marokkó og Birkir Jón Jónsson fund jafnréttisnefndar í Varsjá í mars. Eftir kosningar sótti formaður Íslandsdeildar, Karl Garðarsson, fund stjórnmála- og lýðræðisnefndar í september, nóvember og desember auk stjórnarnefndarfundarins í Vín í nóvember. Ögmundur Jónasson sótti fund félagsmálanefndar í september og fundi flóttamannanefndar í september, október og nóvember, auk þess sem að hann sótti fund nefndar um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun í Genf í nóvember og fund sem haldinn var í tengslum við herferð Evrópuráðsþingsins um afnám kynferðisofbeldis gegn börnum. Brynjar Níelsson sótti fund jafnréttisnefndar og fund laga- og mannréttindanefndar í desember.

Alþingi, 26. febrúar 2014.



Karl Garðarsson,


formaður.


Unnur Brá Konráðsdóttir,


varaformaður.


Ögmundur Jónasson.

Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2013.

    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2013:

Fyrsti hluti þingfundar 21..25. janúar:
     *      Ályktun 1912 um ástandið í Kósóvó og hlutverk Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1913 um starfsemi Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) árin 2010- 2012.
     *      Ályktun 1914 um að tryggja lífvænleika Mannréttindadómstóls Evrópu: skipulagslegir annmarkar í aðildarríkjum.
     *      Ályktun 1915 um viðræður við Búlgaríu í kjölfar athugunar á eftirfylgni landsins við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1916 um stöðu mannúðarmála á átakasvæðum í Georgíu og Rússlandi.
     *      Ályktun 1917 um það hvernig Aserbaídsjan hefur staðið við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1918 um fólksflutninga og hælisleit: vaxandi spenna austan við Miðjarðarhaf.
     *      Ályktun 1919 um nýlega þróun í Malí og Alsír og ógn við öryggi og mannréttindi við Miðjarðarhaf.
     *      Ályktun 1920 um stöðu fjölmiðlafrelsis í Evrópu.
     *      Ályktun 1921 um kynjajafnrétti, afstemmingu einkalífs og vinnu, og samábyrgð.
     *      Ályktun 1922 um mansal farandfólks til nauðungarvinnu.
     *      Tilmæli 2006 um ástandið í Kósóvó og hlutverk Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 2007 um að tryggja lífvænleika Mannréttindadómstóls Evrópu: skipulagslegir annmarkar í aðildarríkjum.
     *      Tilmæli 2008 um stöðu mannúðarmála á átakasvæðum í Georgíu og Rússlandi.
     *      Tilmæli 2009 um gerð samnings Evrópuráðsins gegn ólöglegum viðskiptum með líffæri, vefi og frumur manna.
     *      Tilmæli 2010 um fólksflutninga og hælisleit: vaxandi spenna austan við Miðjarðarhaf.
     *      Tilmæli 2011 um mansal farandfólks til nauðungarvinnu.

Stjórnarnefndarfundur 8. mars:
     *      Ályktun 1923 um að styrkja ferla sem snúa að vali á sérfræðingum sem starfa við megineftirlitskerfi á sviði mannréttindamála innan Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1924 um iðnaðararfleifð Evrópu.
     *      Tilmæli 2012 um að styrkja ferla sem snúa að vali á sérfræðingum sem starfa við megineftirlitskerfi á sviði mannréttindamála innan Evrópuráðsins.

Annar hluti þingfundar 22.–26. apríl:
     *      Ályktun 1925 um viðræður við Tyrkland í kjölfar athugunar á eftirfylgni landsins við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1926 um baráttuna gegn barnakynlífsferðaþjónustu.
     *      Ályktun 1927 um að binda enda á mismunun gegn róma-börnum.
     *      Ályktun 1928 um að vernda mannréttindi í tengslum við trúarbrögð og trúarskoðanir, og trúarsamfélög gegn ofbeldi.
     *      Ályktun 1929 um menningu og menntun í gegnum þjóðþing: evrópskar stefnur.
     *      Ályktun 1930 um unga Evrópubúa: aðkallandi áskorun á sviði menntamála.
     *      Ályktun 1931 um vefengingu ósamþykkts kjörbréfs Andriy Shevchenko (Úkraínu, EPP/CD).
     *      Ályktun 1932 um Landamærastofnun Evrópu (Frontex): ábyrgð á sviði mannréttinda.
     *      Ályktun 1933 um meðhöndlun áskorana vegna fólksflutninga og hælisleitar austan við landamæri Evrópusambandsins.
     *      Ályktun 1934 um siðferði í vísindum og tækni.
     *      Tilmæli 2013 um sameiginlega baráttu þjóðþinga gegn kynferðisofbeldi gegn börnum: endurskoðun á herferðinni eitt af fimm (ONE in FIVE) þegar tímabil hennar er hálfnað.
     *      Tilmæli 2014 um unga Evrópubúa: aðkallandi áskorun á sviði menntamála.
     *      Tilmæli 2015 um aðgang ungs fólks að grundvallarréttindum.
     *      Tilmæli 2016 um Landamærastofnun Evrópu (Frontex): ábyrgð á sviði mannréttinda.
     *      Tilmæli 2017 um nanótækni: jafnvægi milli ávinnings og áhættu fyrir lýðheilsu og umhverfið.
     *      Álit 283 um drög að bókun nr. 15 sem breytir Mannréttindasáttmála Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 31. maí:
     *      Ályktun 1935 um útgjöld þingsins fyrir árin 2014 og 2015.
     *      Ályktun 1936 um samhæfingu ákvæða reglugerða þegar kemur að eftirliti með eftirfylgni aðildarríkja við skuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1937 um lengd kjörtímabils og endurkjör formanna nefnda.
     *      Ályktun 1938 um að efla annars konar valkosti en fangelsisvist.
     *      Ályktun 1939 um foreldraorlof sem leið til að auka kynjajafnrétti.
     *      Tilmæli 2018 um að efla annars konar valkosti en fangelsisvist.
     *      Álit 284 um fjárhagsáætlanir og forgangsatriði Evrópuráðsins fyrir árin 2014 og 2015.

Þriðji hluti þingfundar 24.–28. júní:
     *      Ályktun 1940 um ástandið í Mið-Austurlöndum.
     *      Ályktun 1941 um beiðni um að hefja skoðun á eftirfylgni Ungverjalands við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1942 um mat á samstarfi við þing Marokkós um lýðræðismál (e. partnership for democracy).
     *      Ályktun 1943 um spillingu sem ógn við réttarríkið.
     *      Ályktun 1944 um vefengingu ósamþykktra kjörbréfa þingnefndar Íslands.
     *      Ályktun 1945 um að binda enda á þvingaðar ófrjósemisaðgerðir og geldingar.
     *      Ályktun 1946 um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
     *      Ályktun 1947 um mótmæli almennings og áskoranir þegar kemur að funda-, fjölmiðla- og málfrelsi.
     *      Ályktun 1948 um að taka á mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynsamsömunar.
     *      Ályktun 1949 um viðræður við Makedóníu í kjölfar athugunar á eftirfylgni landsins við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1950 um að aðgreina pólitíska ábyrgð og refsiábyrgð.
     *      Tilmæli 2019 um spillingu sem ógn við réttarríkið.
     *      Tilmæli 2020 um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
     *      Tilmæli 2021 um að taka á mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynsamsömun.
     *      Tilmæli 2022 um viðræður við Makedóníu í kjölfar athugunar á eftirfylgni landsins við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Álit 285 um drög að bókun nr. 16 sem breytir Mannréttindasáttmála Evrópu.

Fjórði hluti þingfundar 30. september–4. október:
     *      Ályktun 1951 um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) 2012-2013.
     *      Ályktun 1952 um rétt barna til líkamlegra heilinda (e. physical integrity).
     *      Ályktun 1953 um framvindu eftirlitsferlis þingsins (júní 2012 . september 2013).
     *      Ályktun 1954 um þjóðaröryggi og aðgang að upplýsingum.
     *      Ályktun 1955 um eftirfylgni Moldóvu við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1956 um fólk sem er saknað eftir átök í Evrópu: hinn langi vegur að mannúðarlausnum.
     *      Ályktun 1957 um matvælaöryggi . varanleg áskorun fyrir okkur öll.
     *      Ályktun 1958 um baráttuna gegn mismunun gegn eldra fólki á atvinnumarkaði.
     *      Ályktun 1959 um eflingu stofnunar umboðsmanns Evrópu.
     *      Tilmæli 2023 um rétt barna til líkamlegra heilinda (e. physical integrity).
     *      Tilmæli 2024 um þjóðaröryggi og aðgang að upplýsingum.
     *      Tilmæli 2025 um virkni lýðræðislegra stofnana í Bosníu og Hersegóvínu.
     *      Tilmæli 2026 um ástandið í Sýrlandi.
     *      Tilmæli 2027 um mannréttindaáætlanir Evrópusambandsins og Evrópuráðsins: samvirkni en ekki tvíverknaður!

Stjórnarnefndarfundur 22. nóvember:
     *      Ályktun 1960 um eiturlyfjasmygl frá Afganistan sem ógn við evrópskt öryggi.
     *      Ályktun 1961 um þátttöku ríkja utan Evrópuráðsins í sáttmálum þess.
     *      Ályktun 1962 um ofsóknir eltihrella (e. stalking).
     *      Ályktun 1963 um ofbeldi gegn konum í Evrópu.
     *      Ályktun 1964 um góða stjórnunarhætti í stórborgum.
     *      Ályktun 1965 um agareglur þingmanna Evrópuráðsþingsins.
     *      Tilmæli 2028 um eftirlit með endurkomu flökkufólks og hælisleitenda sem hafa ekki haft erindi sem erfiði, á landi, sjó og í lofti.
     *      Tilmæli 2029 um þátttöku ríkja utan Evrópuráðsins í sáttmálum þess.
     *      Tilmæli 2030 um ofbeldi gegn konum í Evrópu.
     *      Álit 286 um drög Evrópuráðsins að sáttmála gegn ólöglegum viðskiptum með líffæri manna.