Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 496. máls.

Þingskjal 857  —  496. mál.



Frumvarp til laga

um leigu skráningarskyldra ökutækja.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)



1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um leigu á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns.
    Lög þessi taka þó ekki til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að eigi þurfi leyfi til leigu á tilteknum flokkum ökutækja eða fyrir tiltekinni leigustarfsemi.

2. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Föst starfsstöð er húsnæði þar sem starfsemi leigusala fer sannanlega fram að nokkru eða öllu leyti. Starfsstöð þarf að vera bundin við ákveðna staðsetningu eða heimilisfang og tiltekinn varanleika. Útibú frá ökutækjaleigu telst einnig vera föst starfsstöð.
     2.      Leigusamningur er samningur milli leigusala og leigutaka um leigu á skráningarskyldu ökutæki án ökumanns og til afnota gegn gjaldi.
     3.      Notkunarflokkur vísar til flokkunar Samgöngustofu á ökutækjum.
     4.      Skráningarskyld ökutæki eru þau ökutæki sem vísað er til í umferðarlögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
     5.      Starfsleyfi er leyfi til reksturs ökutækjaleigu í samræmi við skilyrði laga þessara.
     6.      Ökutækjaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki án ökumanns, að jafnaði um skemmri tíma, sbr. þó 2. mgr. 6. gr.

3. gr.
Starfsleyfi.

    Hver sá sem hyggst reka ökutækjaleigu skal hafa til þess starfsleyfi frá Samgöngustofu.
    Starfsleyfi skal veitt til fimm ára í senn að fenginni jákvæðri umsögn sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem ökutækjaleiga mun hafa fasta starfsstöð, þar með talið þar sem útibú verður starfrækt. Í umsögn skal sveitarstjórn m.a. taka afstöðu til staðsetningar ökutækjaleigu og þess hvort aðkoma henti fyrir þá starfsemi sem áætluð er. Umsagnir skulu vera skýrar og rökstuddar. Heimilt er með reglugerð að kveða nánar á um þau atriði sem umsögn skal lúta að sem og um tímafresti.
    Heimilt er leyfishafa að leggja inn til Samgöngustofu starfsleyfi sitt. Honum er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni skv. 4. gr. fyrr en hann hefur tilkynnt Samgöngustofu um innlögn leyfisins. Óski leyfishafi eftir að endurvekja starfsleyfi sitt skal hann leggja inn umsókn þess efnis til Samgöngustofu sem er þá heimilt að óska eftir að leyfishafi skili nýjum gögnum skv. 4. gr.
    Gjald fyrir útgáfu og gjald fyrir endurútgáfu starfsleyfis skal vera samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Starfsleyfisgjald skal standa undir kostnaði við meðferð og umsýslu umsókna auk þess að standa undir eftirliti með leyfishöfum en endurútgáfugjald skal standa undir kostnaði við meðferð og umsýslu umsókna um endurútgáfu.
    Samgöngustofa skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti.
    Ökutækjaleiga skal rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma. Afgreiðslutími skal auglýstur á skýran og ótvíræðan hátt. Á fastri starfsstöð skal framkvæmdastjóri eða yfirmaður fullnægja skilyrðum 4. gr. Ökutækjaleiga getur á grundvelli starfsleyfis sett á fót útibú. Þar skal starfa forsvarsmaður sem fullnægir skilyrðum 4. gr.
    Leyfishafa er heimilt að reka starfsemi sína á rafrænan hátt en leyfishafi skal þó alltaf hafa fasta starfsstöð sem opin er almenningi. Um rafræna þjónustu leyfishafa skal fara eftir lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu þar á meðal um hvað koma skal fram á vefsíðu leyfishafa.
    Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um kröfur varðandi starfsleyfi, leyfisumsóknir og framkvæmd leyfisveitinga.
    

4. gr.
Skilyrði starfsleyfis.

    Umsækjandi um starfsleyfi getur verið hvort sem er einstaklingur eða lögaðili. Ef leyfishafi er lögaðili skal starfa hjá honum forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum. Einnig skal í hverju útibúi leigu starfa forsvarsmaður viðkomandi útibús.
    Til að öðlast starfsleyfi þarf umsækjandi eða forsvarsmaður umsækjanda ef hann er lögaðili að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Hafa búsetu innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
     2.      Hafa náð tuttugu ára aldri.
     3.      Vera lögráða og hafa ekki á síðustu þremur árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl., staðgreiðslu opinberra gjalda eða lögum þessum.
     4.      Hafa ekki misst starfsleyfi á grundvelli laga þessara á síðustu þremur árum.
     5.      Hafa forræði á búi sínu.
     6.      Hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá ríkisskattstjóra.
     7.      Skulda ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr.
     8.      Hafa gilda starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðra tryggingu sem Samgöngustofa metur gilda til að bæta leigutökum tjón er hann kann að baka þeim. Nánari ákvæði um starfsábyrgðartryggingu, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingarskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
    Í umsókn um starfsleyfi skal koma fram heiti leigu og skal geta um öll hjáheiti sem aðili hyggst nota í starfsemi sinni. Óheimilt er að reka starfsemina undir öðrum heitum en þeim sem leyfi hljóðar um. Heimilt er að bæta við hjáheitum í þegar útgefið starfsleyfi með sérstakri umsókn til Samgöngustofu sem gefur þá út nýtt starfsleyfi, án endurgjalds.
    Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 2. mgr. Þó er stjórnarmaður sem er ríkisborgari aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og búsettur í einhverju þessara ríkja undanþeginn búsetuskilyrðum 1 tölul. 2. mgr. sem og stjórnarmaður sem er Færeyingur og búsettur í Færeyjum.

5. gr.
Skyldur ökutækjaleigu.

    Ökutækjaleigu er óheimilt að leigja út ökutæki nema það sé skráð hjá Samgöngustofu sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleigu.
    Ökutækjaleiga verður að vera skráður eigandi skráningarskylds ökutækis eða skráð fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki.
    Óheimilt er að leigja út skoðunarskyld ökutæki sem ekki hafa lögbundna aðalskoðun samkvæmt umferðarlögum.
    Óheimilt er að leigja út ökutæki án lögbundinnar ábyrgðartryggingar samkvæmt umferðarlögum.
    Leyfishafi skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að skráningarskyld ökutæki til útleigu, hvort sem er skoðunarskyld ökutæki eða ekki, séu ætíð í góðu ásigkomulagi, hljóti gott viðhald og eftirlit og fullnægi kröfum sem gerðar eru um þau í lögum eða reglugerðum. Einnig skal leyfishafi gæta að því að ökutæki séu í ásigkomulagi sem tekur mið af árstíma og færð.
    Leyfishafi skal tryggja að leigutaka séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Leyfishafi ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við leigu ökutækja sem væru þau verk hans sjálfs.
    Skylt er að leyfisbréf til starfseminnar liggi frammi á starfsstöð og afrit þess í útibúum.
    Leyfishafi skal bjóða upp á ökutæki til útleigu jafnt til almennings sem fyrirtækja.

6. gr.
Leigusamningur.

    Leyfishafi skal sjá um að gengið sé frá leigusamningi. Leigusamningur skal vera undirritaður af báðum aðilum og skal hvor halda sínu eintaki. Í samningnum skal greina helstu atriði varðandi leigu ökutækisins eftir því sem nánar skal ákveðið í reglugerð.
    Taki leigusamningur milli ökutækjaleigu og leigutaka til ökutækis sem hefur notið lægri vörugjalda samkvæmt ákvæðum laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, fer um lengd leigusamnings eftir ákvæðum umræddra laga og reglugerða settum á þeim grundvelli.
    Leyfishafi skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðarmerki og reglur um bann við umferð utan vega. Jafnframt skal leyfishafi vekja sérstaka athygli á hættu sem stafar af dýrum á vegum.
    Varðveita skal leigusamning í a.m.k. þrjú ár frá undirritun hans.

7. gr.
Leigutaki.

    Óheimilt er að leigja ökutæki öðrum en þeim sem hafa réttindi til að stjórna ökutækinu sem leigja á. Leyfishafa er þó heimilt að gera leigusamning við aðila sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann skriflega og má sá aka ökutækinu. Skal ökumaður uppfylla framangreind skilyrði.

8. gr.
Eftirlit.

    Samgöngustofa skal hafa eftirlit með því að ákvæðum laganna sé fylgt.
    Samgöngustofa getur athugað svo oft sem þurfa þykir hvort starfsemi leyfishafa er í samræmi við ákvæði laga þessara og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra.
    Í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum þessum getur Samgöngustofa gert vettvangskannanir.
    Samgöngustofu er heimilt að fela faggiltum skoðunarstofum að sinna eftirlitshlutverki sínu, í heild eða að hluta, samkvæmt lögunum.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um eftirlit Samgöngustofu.

9. gr.
Niðurfelling leyfis og önnur úrræði.

    Samgöngustofu er heimilt að fella niður leyfi til reksturs ökutækjaleigu ef leyfishafi eða forsvarsmaður hans fullnægir ekki lengur skilyrðum 4. gr. og jafnframt ef leyfishafi eða forsvarsmaður hans verður uppvís að misnotkun á leyfi eða brýtur á annan hátt gegn ákvæðum laganna.
    Ökutækjaleigu er skylt að veita Samgöngustofu allar upplýsingar er varða starfsemina og rekstur leigunnar, svo sem um starfsleyfi, leigusamninga og ökutæki í eigu eða undir yfirráðum ökutækjaleigu. Samgöngustofa getur fellt niður starfsleyfi ökutækjaleigu veiti hún Samgöngustofu ekki umbeðnar upplýsingar eða hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar til að fá starfsleyfi.
    Áður en leyfi er fellt niður skv. 1. eða 2. mgr. skal Samgöngustofa senda skriflega viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar. Veita skal leyfishafa hæfilegan frest til að bæta úr annmörkum.
    Sé ökutækjaleiga rekin án tilskilins leyfis ber lögreglustjóra, að beiðni Samgöngustofu, þegar í stað að stöðva starfsemi ökutækjaleigu, þar á meðal með lokun starfsstöðvar eða lokun rafrænnar þjónustu, svo sem vefsíðu.

10. gr.
Dagsektir.

    Samgöngustofa getur lagt dagsektir, allt að 500.000 kr. á dag, á hvern þann sem brýtur gegn:
     1.      6. mgr. 3. gr. um skyldu til að framkvæmdastjóri eða yfirmaður uppfylli skilyrði 4. gr.
     2.      3. mgr. 4. gr. um skyldu til að reka starfsstöð eða útibú undir nafni sem leyfi hljóðar um.
     3.      1. mgr. 5. gr. um skyldu leyfishafa til að hafa ökutæki skráð sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleigu.
     4.      2. mgr. 5. gr. um skyldu leyfishafa til vera skráður eigandi ökutækis eða fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki.
     5.      3. mgr. 5. gr. um skyldu til að leigja aðeins út ökutæki sem hafa lögbundna aðalskoðun.
     6.      4. mgr. 5. gr. um skyldu til að leigja aðeins út ökutæki sem hafa lögbundna ábyrgðartryggingu.
     7.      7. mgr. 5. gr. um skyldu til að leyfisbréf liggi frammi á starfsstöð og afrit þess í útibúum.
    Samgöngustofa skal því aðeins leggja á dagsektir skv. 1. mgr. að aðila hafi verið veittur hæfilegur frestur til að bæta úr vanefndum og uppfylla skyldur sínar.
    Ráðherra getur í reglugerð breytt hámarksupphæð dagsekta í samræmi við verðlagsþróun. Við ákvörðun sektar skal höfð hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Ákvarðanir Samgöngustofu um dagsektir eru aðfararhæfar. Sé sekt samkvæmt þessari grein ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun Samgöngustofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Óinnheimtar dagsektir, sem lagðar eru á fram að efndadegi, falla ekki niður þótt aðili efni síðar viðkomandi kröfu nema Samgöngustofa ákveði það sérstaklega. Sektir samkvæmt þessari grein renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu.
    Ákvörðun Samgöngustofu um dagsektir samkvæmt þessari grein má skjóta til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um dagsektir eru aðfararhæfir.

11. gr.
Refsiúrræði.

    Brot gegn 3., 5., 6. og 7. gr. og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum, og skal farið með mál út af slíkum brotum að hætti sakamála.

12. gr.
Stjórnsýslukæra.

    Ákvörðunum Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum verður skotið til ráðherra. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

13. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda að liðnum þremur mánuðum frá gildistöku. Frá sama tíma falla brott lög um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir 13. gr. skulu lög þessi ekki koma til framkvæmda hvað varðar önnur skráningarskyld ökutæki en bifreiðar fyrr en 1. janúar 2015.
    Leyfishafar sem hafa útgefin og gild leyfi til reksturs bílaleigu þegar þessi lög taka gildi, skulu sækja um ný leyfi til Samgöngustofu innan þriggja mánaða frá gildistöku þessara laga. Að öðrum kosti falla þau niður.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði í ágúst 2013. Málefni bílaleiga höfðu þá um vorið flust til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis frá innanríkisráðuneytinu. Frá árinu 2000 þegar núgildandi lög um bílaleigur voru sett hefur fjöldi ferðamanna sem sækja landið heim aukist gríðarlega og samhliða hefur aðilum sem bjóða upp á ökutæki til leigu fjölgað verulega. Þá hafði umræða um skort á eftirliti með bílaleigufyrirtækjum verið hávær auk umræðu um öryggismál í tengslum við leigu ökutækja.
    Ljóst var að fara þyrfti gaumgæfilega yfir regluverkið í kringum bílaleigur og höfðu hagsmunaaðilar, svo sem Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), kallað eftir slíkri endurskoðun í þó nokkurn tíma. Helst þótti ástæða til þess að taka afstöðu til þess að bílaleigur voru orðnar fjölbreyttari en áður hafði verið auk þess sem á skorti að nægilegar heimildir og úrræði væru til staðar fyrir eftirlitsaðila til að fylgjast með starfseminni.
    Í áðurnefndum starfshóp áttu sæti Brynhildur Pálmarsdóttir, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Marta Jónsdóttir, lögfræðingur og fulltrúi Samgöngustofu, Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Hölds bílaleigu og fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, og Helena Þ. Karlsdóttir, lögfræðingur og fulltrúi Ferðamálastofu. Einnig tók Hendrik Berndsen þátt í vinnu hópsins sem varafulltrúi SAF. Starfshópurinn hefur unnið að gerð frumvarpsins frá september 2013 og fundað reglulega.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frá árinu 2010 hefur straumur ferðamanna til landsins vaxið um tæp 20% á ári hverju og árið 2013 komu 781.016 ferðamenn til landsins (ferðamenn sem fóru gegnum Leifsstöð á árinu). 1 Þessi gríðarlega fjölgun ferðamanna hefur leitt af sér mikla aukningu í fjölda ferðaþjónustuaðila á Íslandi og eru bílaleigur þar enginn eftirbátur. Árið 2006 voru 58 bílaleigur starfandi á landinu en í lok árs 2013 voru þær orðnar 143.
    Samhliða hefur sú þróun orðið á starfsemi bílaleiga að hún er nú fjölbreyttari. Eftirspurn er eftir bæði dýrum og ódýrum bílaleigubílum og hafa því verið settar á fót bílaleigur sem sinna þessari eftirspurn. Þá er einnig orðið algengara að mögulegt sé að leigja ýmis önnur skráningarskyld ökutæki, svo sem fjórhjól, vélsleða og fleiri tæki.
    Á síðustu árum hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að taka löggjöf um bílaleigur til endurskoðunar m.a. með tilliti til aukinnar fjölbreytni í geiranum og eins með tilliti til breytinga sem orðið hafa á ferðaþjónustu á liðnum árum.
    Eins og í núgildandi lögum kveður frumvarpið á um að það taki til leigu á öllum skráningarskyldum ökutækjum en samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 751/2003 eru þau bifreið, bifhjól, torfærutæki, dráttarvélar, eftirvagnar bifreiða eða dráttarvélar sem gerðar eru fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, svo og hjólhýsi og tjaldvagnar. Núgildandi reglugerð með lögum um bílaleigur afmarkaði hins vegar gildissvið laganna við bifreiðar. Tillaga hópsins er að við smíði nýrrar reglugerðar verði áðurnefnd afmörkun felld niður þannig að ný lög um ökutækjaleigur taki til allra skráningarskyldra ökutækja. Eðlilegt er talið að eftirlit og kröfur sem frumvarpið felur í sér taki til allra skráningarskyldra ökutækja sem leigð eru út án ökumanns en í dag lúta annars konar leigur en bílaleigur engu eftirliti.
    Var það því niðurstaða starfshópsins að leggja skyldi fram frumvarp til nýrra laga um leigu skráningarskyldra ökutækja. Frumvarpið byggir á grunni laga um bílaleigur frá 2000, með síðari breytingum, en töluverðar breytingar hafa þó verið gerðar. Verður hér á eftir farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Að meginstefnu til er frumvarp þetta byggt á núgildandi lögum um bílaleigur en markmið frumvarpsins er að styrkja lagaramma um starfsemi bílaleiga og skerpa á réttindum og skyldum bæði leigusala og leigutaka. Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Skráningarskyld ökutæki.

    Eins og áður segir tekur frumvarp þetta til leigu allra skráningarskyldra ökutækja án ökumanns samkvæmt nánari skilgreiningu í frumvarpinu. Er þannig um að ræða útvíkkun á gildissviði núgildandi laga um bílaleigur en reglugerð um bílaleigur afmarkaði gildissvið þeirra. Er þannig gert ráð fyrir að með nýrri reglugerð muni bifhjól, torfærutæki, dráttarvélar, eftirvagnar bifreiða eða dráttarvélar sem gerðar eru fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, hjólhýsi og tjaldvagnar falla undir regluverkið, sbr. nánari tilgreiningu í umferðarlögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Með þessari breytingu er settur rammi utan um leigu skráningarskyldra ökutækja sem ekki er til staðar í dag. Þykir þarft að reglur gildi um slíka starfsemi, m.a. til þess að tryggja öryggi leigutaka og eftirlit með starfseminni.

Skilyrði starfsleyfis.
    Smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á ákvæði um skilyrði starfsleyfis ökutækjaleigu frá því sem er í núgildandi lögum um bílaleigur. Má þar nefna skilyrði um að umsagnar sveitarstjórnar sé aflað í því umdæmi þar sem ökutækjaleiga mun hafa fasta starfsstöð en ekki umsagnar frá lögreglu í viðkomandi umdæmi eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.
    Að auki er umsækjanda um starfsleyfi gert að leggja fram gögn sem sýna fram á að starfsemi ökutækjaleigu hafi verið tilkynnt til ríkisskattstjóra og eins að viðkomandi aðili skuldi ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nemur hærri fjárhæð en 500.000 kr.
    Þá er nýmæli að Samgöngustofa hafi heimild til þess að kalla eftir gögnum um starfsemi leyfishafa þegar hann hyggst endurvekja starfsleyfi sem lagt hefur verið inn skv. 3. gr. frumvarpsins og eins mun þurfa að greiða fyrir endurvakningu leyfis.

Ríkari kröfur um starfsemi ökutækjaleiga.
    Í frumvarpinu eru gerðar ríkari kröfur til ökutækjaleiga á ýmsa lund. Má þar helst nefna ófrávíkjanlega kröfu um að ekki sé leyfilegt að leigja út ökutæki án ökumanns nema það sé skráð hjá Samgöngustofu sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleiga.
    Þá er einnig skylda að ökutækjaleiga með starfsleyfi sé eigandi allra ökutækja sem leigð eru út eða að ökutækjaleiga sé skráð sem fyrsti umráðamaður ef umrætt ökutæki er í eigu kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtækis. Er þannig gert óheimilt að leigja út í atvinnuskyni ökutæki sem tilheyra einstaklingi persónulega.
    Að auki kemur skýrlega fram að óheimilt sé að leigja út ökutæki nema það hafi lögbundna aðalskoðun. Þetta á við um þau skráningarskyldu ökutæki sem eru skoðunarskyld samkvæmt umferðarlögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Einnig er skýrlega óheimilt að leigja út ökutæki sem ekki hefur gilda ábyrgðartryggingu samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987.
    Auk þess er aukið við ákvæði núgildandi laga um bílaleigur varðandi upplýsingagjöf og ástand ökutækja.

Auknar eftirlitsheimildir og aukin úrræði Samgöngustofu.
    Heimildir Samgöngustofu til þess að hafa eftirlit með ökutækjaleigum hafa verið styrktar frá því sem er í núgildandi lögum um bílaleigur. Er þar m.a. um að ræða heimild Samgöngustofu til að gera vettvangskannanir og ríkar kröfur um upplýsingagjöf til Samgöngustofu.
    Þá er nýmæli í frumvarpinu að tiltaka sérstaklega heimildir Samgöngustofu til þess að fella niður starfsleyfi, svo sem ef skilyrðum 4. og 5. gr. laganna er ekki fullnægt lengur eða ef leyfishafi verður uppvís að því að brjóta gegn öðrum ákvæðum laganna. Þó skal fyrst senda skriflega viðvörun til viðkomandi leyfishafa og veita frest til að gera úrbætur áður en til niðurfellingar kemur.

Dagsektir og niðurfelling starfsleyfis.
    Einnig er nýmæli í frumvarpinu að Samgöngustofu sé fengin heimild til þess að leggja á dagsektir sem beita má ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði frumvarpsins og lætur undir höfuð leggjast að sinna skyldum sínum samkvæmt frumvarpinu. Er gert ráð fyrir að sektir geti numið mest 500.000 kr. á dag og að fjárhæð sekta taki mið af alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvörðunum Samgöngustofu um niðurfellingu leyfa og stjórnvaldssektir verður skotið til ráðherra þess sem fer með málaflokk ökutækjaleiga, þ.e. til ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Gildistaka.
    Áætlað er að lögin taki þegar gildi en komi til framkvæmda þremur mánuðum eftir gildistöku. Að sama skapi er gerð krafa um að innan þriggja mánaða sæki núverandi leyfishafar um leyfi að nýju en að öðrum kosti falli útgefin leyfi niður.
    Þá er gert ráð fyrir ákvæði til bráðabirgða sem tiltekur að lögin komi ekki til framkvæmda gagnvart öðrum skráningarskyldum ökutækjum en bifreiðum fyrr en 1. janúar 2015.
    Nauðsynlegt þykir að tryggja að starfsemi aðila sem leigja út bifreiðar án ökumanns verði komið í gott horf og er frestur til að sækja um að nýju takmarkaður við þrjá mánuði en rýmri kröfur gerðar til aðila sem reka starfsemi sem áður var ekki leyfisskyld.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki þótti ástæða til þess að meta samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar í málaflokknum.

V. Samráð.
    Frumvarpið var unnið af starfshópi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði haustið 2013. Í hópnum áttu sæti aðilar frá áðurnefndu ráðuneyti, Samgöngustofu, Ferðamálastofu og Samtökum ferðaþjónustunnar en einnig fundaði hópurinn með aðilum frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunni á Suðurnesjum, lögreglunni á Hvolsvelli ásamt aðilum frá Landsbjörg til þess að ræða stöðu málaflokksins. Þá var frumvarpið sent til umsagnar til Sambands íslenskra sveitarfélaga en það gerir ráð fyrir nýju hlutverki sveitarfélaga við veitingu starfsleyfis til ökutækjaleigu.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum má búast við töluverðum breytingum á starfsemi bílaleiga á Íslandi þar sem í því eru gerðar ríkari kröfur til leyfishafanna en nú er gert. Þá er Samgöngustofu veitt heimild til þess að leggja dagsektir á aðila sem ekki sinna skyldum sínum samkvæmt frumvarpinu eða brjóta gegn ákvæðum þess. Auk þess er eftirlitshlutverk stofnunarinnar styrkt töluvert. Þá hefur frumvarpið þau áhrif að aðilar sem leigja út skráningarskyld ökutæki önnur en bifreiðar þurfi að sækja um starfsleyfi og uppfylla skilyrði í frumvarpinu. Um mat á áhrifum vísast að öðru leyti til kostnaðarumsagnar fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fylgir frumvarpinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um gildissvið laganna. Í 1. mgr. kemur fram að frumvarpið tekur til skráningarskyldra ökutækja sem leigð eru út í atvinnuskyni án ökumanns. Í umferðarlögum og reglugerðum á grundvelli þeirra kemur fram hvaða ökutæki eru skráningarskyld, sbr. lög nr. 50/1987 og reglugerð nr. 751/2003 um skráningu ökutækja. Þá er í 2. mgr. kveðið á um að lögin taki ekki til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja né heldur til leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila. Ef ökutæki er leigt út með ökumanni gilda ákvæði laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi fyrir viðkomandi starfsemi.
    Í 3. mgr. er síðan gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt með reglugerð að ákveða að ekki þurfi leyfi fyrir tiltekinni leigustarfsemi. Slík heimild er til staðar í núgildandi lögum og tiltekur núgildandi reglugerð að ekki þurfi leyfi til reksturs bílaleigu ef um er að ræða útleigu annars konar skráningarskyldra ökutækja en bifreiða. Eins og fram kemur hér að framan er ráðgert að með nýrri reglugerð verði þessi afmörkun felld niður og að lögin taki þannig til allra skráningarskyldra ökutækja.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Í greininni er fjallað um starfsleyfi og segir í 1. mgr. að nauðsynlegt sé að sækja um starfsleyfi ætli aðilar að reka ökutækjaleigu.
    Í 2. mgr. segir að starfsleyfi skuli veitt til fimm ára í senn að fenginni jákvæðri umsögn sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem ökutækjaleiga mun hafa fasta starfsstöð. Í núgildandi lögum um bílaleigur er skilyrði fyrir útgáfu leyfis að aflað hafi verið umsagnar frá lögreglu í viðkomandi umdæmi þar sem bílaleiga mun starfa. Rétt þótti að breyta þessu fyrirkomulagi þar sem lögreglan teldist ekki rétti aðilinn til þess að meta starfsemi ökutækjaleiga. Þar að auki er lögreglan einn af eftirlitsaðilum með starfsemi bílaleiga/ökutækjaleiga. Var því ákveðið að betur færi á því að aflað skyldi umsagnar hjá viðkomandi sveitarfélagi. Áðurnefndur starfshópur telur eðlilegt að umsögn um rekstur ökutækjaleigu feli í sér mat á staðsetningu ökutækjaleigu innan sveitarfélags, mat á aðstæðum við starfsstöð og mat á staðsetningu með tilliti til skipulagsákvæða auk þess sem ákjósanlegt væri að fram kæmi í umsögn hversu mörg ökutæki leyfishafi geti haft á viðkomandi starfsstöð. Nauðsynlegt þykir að skýrlega komi fram til hvaða atriða sveitarstjórnir skuli horfa og er því í ákvæðinu að finna heimild til þess að kveða nánar á um framkvæmd umsagnar í reglugerð.
    Þá kemur fram í 3. mgr. að leyfishafi geti lagt starfsleyfi sitt inn til Samgöngustofu en sérstaklega er tiltekið að ekki sé heimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en tilkynnt hefur verið um innlögn leyfis til Samgöngustofu. Þegar leyfishafi óskar eftir að endurvekja leyfi sitt þarf að leggja fram umsókn þess efnis hjá Samgöngustofu sem getur kallað eftir nýjum gögnum skv. 4. gr. Innlögn starfsleyfis framlengir ekki gildistíma leyfisins auk þess sem gert er ráð fyrir að með innlögn starfsleyfis verði ekki um neina starfsemi að ræða af hálfu leyfishafa meðan á innlögn stendur, þar með talið að hafa opna vefsíðu til bókunar á ökutækjum.
    Í 4. mgr. er miðað við að gjald fyrir starfsleyfi og endurvakningu þess komi fram í gjaldskrá Samgöngustofu á hverjum tíma. Við ákvörðun gjaldsins skal taka mið af kostnaði við umsýslu og meðferð umsókna ásamt kostnaði við eftirlit með starfseminni. Við ákvörðun endurútgáfugjalds skal horfa til kostnaðar við umsýslu og meðferð umsókna. Þá skal einnig taka mið af launum og launatengdum gjöldum, þjálfun og endurmenntun, aðkeyptri sérfræðiþjónustu, húsnæði, starfsaðstöðu, búnaði og tækjum.
    Í 5. mgr. er Samgöngustofu gert að birta með aðgengilegum hætti, svo sem á heimasíðu stofnunarinnar, lista yfir þá aðila sem hafa starfsleyfi sem ökutækjaleiga á grundvelli laganna.
    Kröfur um rekstur ökutækjaleigu á fastri starfsstöð í 6. mgr. frumvarpsins eru í samræmi við lög um bílaleigur en hugtakið föst starfsstöð er sérstaklega skilgreint í 2. gr. frumvarpsins.
    Að auki er nýmæli í 7. mgr. þar sem sérstaklega er tiltekið að heimilt sé að reka ökutækjaleigu á rafrænan hátt. Að sama skapi er gerð krafa um að viðkomandi leyfishafi reki jafnframt fasta starfsstöð sem opin er almenningi.
    Að lokum er kveðið á um að nánar megi fjalla um kröfur varðandi starfsleyfi, leyfisumsóknir og framkvæmd leyfisveitinga í reglugerð.

Um 4. gr.

    Greinin er að mestu í samræmi við 4. gr. núgildandi laga um bílaleigur en þó eru skilyrði starfsleyfis fleiri í frumvarpinu en núgildandi lögum.
    Í 1. mgr. segir að umsækjandi geti verið hvort sem er einstaklingur eða lögaðili og að lögaðili skuli hafa starfandi forsvarsmann sem ber ábyrgð á rekstrinum auk þess sem slíkur forsvarsmaður skal starfa í hverju útibúi fyrir sig.
    2. mgr. tiltekur sérstaklega þau skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla. Eins og áður segir eru skilyrðin að mestu sambærileg við ákvæði núgildandi laga um bílaleigur og vísast um skýringar til þeirra laga.
    Nýmæli er að finna í 4. tölul. á þann hátt að hafi leyfishafi misst starfsleyfi sitt geti hann ekki sótt um nýtt leyfi fyrr en að liðnum þremur árum frá niðurfellingu skv. 9. gr.
    Þá felst í 6. tölul. ný krafa um að umsækjandi sýni fram á að atvinnurekstur hans hafi verið tilkynntur til ríkisskattstjóra auk þess sem 7. tölul. tiltekur að umsækjandi megi ekki skulda skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nemur hærri fjárhæð en 500.000 kr. Hér er um að ræða samskonar kröfur og er að finna í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
    Í 8. tölul. er að finna skyldu leyfishafa til að geta sýnt fram á gilda starfsábyrgðartryggingu en nánar verður kveðið á um starfsábyrgðartryggingu í reglugerð.
    Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að í starfsleyfi skuli koma fram heiti leigu og öll hjáheiti sem leyfishafi hyggst nota í starfsemi sinni. Slíkt þykir nauðsynlegt til þess að ná ákveðinni yfirsýn yfir þá aðila sem starfa við leigu á ökutækjum. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að bæta við hjáheiti eftir að leyfi er fengið í þeim tilfellum þegar um sama rekstraraðila er að ræða eða rekstur á sömu kennitölu. Ekki skal taka gjald fyrir slíka viðbót. Þetta er ekki talið eiga við þegar um nýja kennitölu er að ræða.
    4. mgr. fjallar um kröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna lögaðila sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögunum og er ákvæðið í samræmi við ákvæði núgildandi laga um bílaleigur.

Um 5. gr.

    Greinin felur í sér ýmis nýmæli sem ekki var kveðið skýrlega á um í 5. gr. laga um bílaleigur, nr. 64/2000.
    Í 1. mgr. er tiltekið að óheimilt sé að leigja út ökutæki án þess að það sé skráð hjá Samgöngustofu í notkunarflokki ökutækjaleiga.
    Í 2. mgr. er gerð sú krafa að ökutækjaleiga sé skráður eigandi ökutækja í notkunarflokknum eða þá að leigan sé fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki.
    Í 3. mgr. er jafnframt skýrlega tekið fram að ekki sé heimilt að leigja út skoðunarskyld ökutæki nema þau hafi lögbundna aðalskoðun. Ekki eru öll skráningarskyld ökutæki jafnframt skoðunarskyld en ákvæðið gerir skýlausa kröfu um að gild aðalskoðun sé skilyrði fyrir útleigu þeirra ökutækja.
    Sama krafa er gerð í 4. mgr. til þess að ökutæki sem leigja á út hafi gilda ábyrgðartryggingu.
    Hvað varðar skráningarskyld ökutæki sem ekki eru skoðunarskyld gerir ákvæðið þær kröfur til leyfishafa í 5. mgr. að hann tryggi m.a. gott ásigkomulag ökutækja, sinni viðhaldi og leiðbeiningarskyldu.
    Í 6. mgr. er leyfishafa gert að tryggja að skilmálar í leigusamningi séu ekki ósanngjarnir eða óeðlilegir og tiltekið að leyfishafi beri ábyrgð á verkum starfsmanna sinna á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar.
    Þá er í 7. mgr. tiltekið að leyfisbréf starfseminnar skuli liggja frammi á starfsstöð og er það gert til þess að tryggja að leigutaki hafi vitneskju um gilt starfsleyfi leigusala.
    Að auki kemur fram í 8. mgr. að leigja skuli út ökutæki jafnt til fyrirtækja sem einstaklinga. Ákvæði þetta á rætur að rekja til núgildandi laga um bílaleigur og tengist fyrirkomulagi vegna afsláttar af vörugjöldum af bifreiðum.

Um 6. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru að mestu í samræmi við sömu grein í lögum um bílaleigur og vísast um skýringar til greinargerðar með þeim lögum.
    Í 1. mgr. er að finna skilyrði sem varða undirritun og efni leigusamnings.
    Í 2. mgr. var gerð breyting hvað varðar takmörkun á tímalengd leigusamninga þegar um er að ræða ökutæki sem njóta lægri vörugjalda samkvæmt ákvæðum laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Í núgildandi lögum um bílaleigur er tiltekin sú regla að leigusamningur skuli takmarkast við þrjár vikur ef viðkomandi bifreið hefur notið lægri vörugjalda samkvæmt lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Þá segir þar einnig að þegar 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu bílaleigubifreiðar sé heimilt að leigja bifreiðina út í lengri tíma en þrjár vikur.
    Frumvarp þetta fellir út framangreint ákvæði og vísast um slíkar takmarkanir á leigusamningi til laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum, og til reglugerða settum á grundvelli laganna. Slíkt fyrirkomulag er skýrara enda hafa ákvæði reglugerða sem takmarka leigutíma ökutækja tekið breytingum á síðustu árum og eðlilegra að vísa um lengd og útfærslu slíkra leigusamninga til umræddra laga og reglugerða settra á þeim grundvelli.
    Þá segir í 3. mgr. að leyfishafi skuli veita erlendum leigutökum hinar ýmsu upplýsingar um akstur á vegum landsins og varðandi umferð og umhverfi.
         Í 4. mgr. er fjallað um varðveislu leigusamninga. Þar er gert ráð fyrir að leigusamninga skuli varðveita í þrjú ár frá undirritun en í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að leigusamningar skuli geymdir í eitt ár frá útgáfu. Þessi breyting kemur til vegna krafna sem áðurnefnd lög um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. leggja á bílaleigur með vísan til ökutækja sem hafa notið undanþágu frá vörugjöldum en þar er gerð krafa um að hægt sé að sýna fram á leigusamninga aftur í tímann. Þótti því rétt að lengja geymslutímann í þrjú ár.
    Loks er felld úr gildi heimild ráðherra til að birta í reglugerð form leigusamnings og til að kveða á um skyldu bílaleiga til að nota formið. Fyrirkomulag þetta þótti ekki ákjósanlegt, m.a. út frá samkeppnissjónarmiðum.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 7. gr. laga um bílaleigur, nr. 64/2000.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að Samgöngustofa hafi eftirlit með starfsemi ökutækjaleiga og því að ákvæðum frumvarpsins sé fylgt. Svo það megi verða eru stofnuninni veittar heimildir til þess að gera vettvangskannanir. Nánar verður fjallað um eftirlit Samgöngustofu í reglugerð.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um heimildir Samgöngustofu til þess að fella niður starfsleyfi ökutækjaleigu ef skilyrði til þess að fá starfsleyfi eru ekki lengur uppfyllt eða ef brotið er gegn ákvæðum frumvarpsins, svo sem með því að leigja út ökutæki sem ekki hafa gilda ábyrgðartryggingu eða hafa ekki hlotið lögbundna aðalskoðun.
    Einnig er mögulegt að fella niður starfsleyfi ef ökutækjaleiga hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar til þess að öðlast leyfið skv. 2. mgr. en Samgöngustofa hefur ríkar heimildir til þess að kalla eftir gögnum og upplýsingum frá leyfishöfum.
    Samgöngustofu er skylt skv. 3. mgr. að senda skriflega viðvörun þar sem veittur er hæfilegur frestur til þess að bæta úr annmörkum áður en leyfi er fellt niður.
    Þá er í 4. mgr. ákvæðisins einnig kveðið á um heimild Samgöngustofu til þess að kalla til lögreglu í þeim tilgangi að stöðva starfsemi ökutækjaleigu sem rekin er án tilskilins leyfis. Þetta úrræði á við hvort sem um er að ræða starfsstöð ökutækjaleigu eða vefsíðu þar sem ökutækjaleigan starfar.
    

Um 10. gr.

    Samgöngustofu er í ákvæðinu veitt heimild til þess að leggja dagsektir á leyfishafa ef nánar tiltekin skilyrði laganna eru ekki uppfyllt, sbr. 3., 4. og 5. gr. Nánar er í ákvæðinu fjallað um fjárhæðir og fyrirkomulag dagsekta en við álagningu skal horfa til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Í 3. mgr. kemur fram að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður þótt aðili efni síðar viðkomandi kröfu nema Samgöngustofa ákveði það sérstaklega. Er þar átt við að Samgöngustofa geti gefið út rökstudda ákvörðun um að fella niður dagsektir.
    Ákvörðunum Samgöngustofu um álagningu dagsekta verður skotið til ráðherra þess sem fer með málaflokk ökutækjaleiga hverju sinni, nú er það iðnaðar- og viðskiptaráðherra og eru umræddar ákvarðanir aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu eins og fram kemur í 4. mgr. ákvæðisins.

Um 11. gr.

    Í greininni er fjallað um refsiúrræði fyrir brot á grundvelli laganna en ákvæðið heimilar sektir nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

Um 12. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.

    Hér er kveðið á um gildistöku frumvarpsins en ráðgert er að lögin taki þegar gildi en komi ekki til framkvæmda fyrr en að liðnum þremur mánuðum. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að þeir aðilar sem nú hafa starfsleyfi sæki um leyfi á grundvelli nýju laganna og að núgildandi lög um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum, falli brott.
    Þá er að finna í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að lögin komi ekki til framkvæmda gagnvart öðrum skráningarskyldum ökutækjum en bifreiðum fyrr en 1. janúar 2015. Er þannig veitt tiltekið svigrúm til handa aðilum sem þurfa nú fyrst að sækja um leyfi til reksturs leigu á öðrum skráningarskyldum ökutækjum en bifreiðum og þurfa aðlögun til þess að uppfylla skilyrði laganna.



Fylgiskjal I.


Mat á áhrifum frumvarps til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja
á fjárhag sveitarfélaga, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga.

    Í frumvarpi þessu er lögð til ný löggjöf um leigu skráningarskyldra ökutækja sem þó byggist að miklu leyti á núgildandi lögum um bílaleigur, nr. 64/2000. Markmiðið er að styrkja lagaramma um starfsemi ökutækjaleiga og skerpa á réttindum og skyldum bæði leigusala og leigutaka í ljósi þess að bílaleigum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum samhliða sívaxandi straumi ferðamanna til landsins.
    Meginefni frumvarpsins snýr m.a. að því að gert er ráð fyrir að ákvæði um kröfur og eftirlit nái yfir allar tegundir skráningarskyldra ökutækja, þ.e. bifreiðar, bifhjól, torfærutæki, dráttarvélar, eftirvagna bifreiða eða dráttarvélar sem gerðar eru fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, svo og hjólhýsi og tjaldvagna. Núgildandi löggjöf hefur tekið til allra skráningarskyldra ökutækja en gildandi reglugerð hefur fellt önnur ökutæki en bifreiðar undan gildissviði laganna. Gera má ráð fyrir að þetta geti leitt til nokkurrar fjölgunar á starfsleyfisumsóknum til reksturs ökutækjaleiga frá því sem nú er.
    Í lok árs 2013 voru 143 bílaleigur með starfsleyfi, samanborið við 58 starfsleyfi árið 2006 og samkvæmt bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er kveðið á um að þessir aðilar þurfi að sækja um nýtt starfsleyfi verði frumvarpið að lögum.
    Þá er nýmæli samkvæmt frumvarpinu að umsagnar um starfsleyfisumsóknir verði leitað hjá viðkomandi sveitarfélagi þar sem ökutækjaleiga mun hafa starfsstöð, sbr. 2. mgr. 3. gr. Þar segir að starfsleyfi skuli veitt til fimm ára í senn að fenginni jákvæðri umsögn sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem ökutækjaleiga mun hafa fasta starfsstöð, þar með talið þar sem útibú verður starfrækt. Í umsögn skal sveitarstjórn m.a. taka afstöðu til staðsetningar ökutækjaleigu og þess hvort aðkoma henti fyrir þá starfsemi sem áætluð er. Umsagnir skuli vera skýrar og rökstuddar en heimilað að kveða í reglugerð nánar á um atriði sem umsögn skal lúta að og um tímafresti.
    Í núgildandi lögum um bílaleigur er gert ráð fyrir að lögreglustjóri í viðkomandi umdæmi veiti umsögn áður en starfsleyfi er veitt.
    Ljóst er að með frumvarpinu fá sveitarfélögin til sín aukin verkefni. Fyrir liggur að núverandi leyfishafar munu þurfa að sækja um starfsleyfi að nýju og að þeir munu þurfa umsögn frá viðkomandi sveitarfélagi áður en leyfi er veitt. Þá eru ótaldir þeir aðilar sem þurfa, verði frumvarpið að lögum, að sækja um starfsleyfi í fyrsta sinn en erfitt er að draga ályktanir um hversu margir þeir aðilar verða.
    Af framangreindu má ráða að umsagnarhlutverk sveitarstjórna leiðir til aukinna verkefna og þar af leiðandi til aukins kostnaðar. Mögulegt verður þó að takmarka umfang vinnunnar með því að reglugerð á grundvelli laga um leigu skráningarskyldra ökutækja verði aðgengileg og skýr og geti nýst sem nokkurs konar gátlisti þegar umsagnir eru veittar. Einnig er hugsanlegt að samþætta vinnu við umsagnargerð við skoðun og mat vegna starfsleyfis frá heilbrigðiseftirliti á grundvelli reglugerðar nr. 785/2009, með síðari breytingum. Því er það niðurstaða ráðuneytisins að verði frumvarpið að lögum muni áhrif þess á heildarútgjöld sveitarfélaga verða nokkur en þó verði mögulegt að takmarka þau talsvert í ljósi framangreinds. Nákvæmara mat á kostnaðaráhrifum mun fara fram við setningu reglugerðar á grundvelli laganna þar sem kveðið verður á um þá þætti sem fjalla skal um í umsögnum sveitarstjórna um starfsleyfisumsóknir.
    Þessi niðurstaða ráðuneytisins hefur verið kynnt fyrir Sambandi íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við hana.


Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja.

    Í frumvarpi þessu er lögð til ný löggjöf um leigu skráningarskyldra ökutækja sem þó byggja að miklu leyti á núgildandi lögum um bílaleigur, nr. 64/2000. Markmiðið er að styrkja lagaramma um starfsemi ökutækjaleiga og skerpa á réttindum og skyldum bæði leigusala og leigutaka í ljósi þess að bílaleigum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum samhliða sívaxandi straumi ferðamanna til landsins.
    Meginefni frumvarpsins snýr í fyrsta lagi að því að gert er ráð fyrir að ákvæði um kröfur og eftirlit nái yfir allar tegundir skráningarskyldra ökutækja, þ.e. bifreiðar, bifhjól, torfærutæki, dráttarvélar, eftirvagna bifreiða eða dráttarvélar sem gerðar eru fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, svo og hjólhýsi og tjaldvagna. Núgildandi löggjöf hefur tekið til allra skráningarskyldra ökutækja en gildandi reglugerð hefur fellt önnur ökutæki en bifreiðar undan gildissviði laganna. Gera má ráð fyrir að þetta geti leitt til nokkurrar fjölgunar á starfsleyfisumsóknum til reksturs ökutækjaleiga frá því sem nú er.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að óski leyfishafi eftir því að endurvekja starfsleyfi, sem hann hefur áður skilað til Samgöngustofu, skuli hann leggja inn umsókn þess efnis til stofnunarinnar og greiða endurútgáfugjald samkvæmt gjaldskrá hennar til að standa undir kostnaði við útgáfuna, þ.e. meðferð og umsýslu umsókna. Gera má ráð fyrir að tekjurnar muni falla í flokk annarra rekstrartekna samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins og færast á tekjuhlið ríkissjóðs. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er erfitt að segja til um með nokkurri vissu hverjar tekjurnar kunna að verða af gjaldinu þar sem ekki hefur verið innheimt slíkt gjald til þessa. Ekki virðist þó ástæða til að ætla að um verulegar tekjur verði að ræða.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að innheimt verði gjald vegna útgáfu starfsleyfa fyrir ökutækjaleigu til að standa undir umsýslukostnaði Samgöngustofu við útgáfuna og eftirlit með ökutækjaleigum. Tekjur af starfsleyfisgjaldinu munu falla í flokk annarra rekstrartekna samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins og færast á tekjuhlið ríkissjóðs. Samkvæmt gildandi lögum innheimtir stofnunin 25 þús. kr. gjald fyrir útgáfu starfsleyfis fyrir rekstur bílaleiga og voru bókfærðar tekjur af gjaldinu um 900 þús. kr. á árinu 2012. Umsýsla þessarar gjaldtöku var áður hjá Vegagerðinni en Samgöngustofa hefur séð um innheimtu gjaldsins frá miðju ári 2013. Á þessu átta mánaða tímabili hafa verið veitt um 17 ný starfsleyfi.
    Gert er ráð fyrir að vinnuframlag hjá Samgöngustofu vegna umsýslu við útgáfu leyfa og eftirlits með ökutækjaleigum aukist sem nemur a.m.k. hálfu ársverki þar sem gert er ráð fyrir að því eftirliti verði sinnt með markvissari og betri hætti en verið hefur. Kostnaður við það mun eins og áður segir verða fjármagnaður að fullu með gjaldtöku, annars vegar fyrir útgáfu nýrra starfsleyfa og hins vegar fyrir endurútgáfu starfsleyfa. Samkvæmt lauslegu mati atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eru líkur á því að hækka þurfi gjald fyrir útgáfu nýrra starfsleyfa verulega frá því sem nú er, eða í 80-100 þús. kr., svo að gjaldtakan standi að fullu undir kostnaði við útgáfuna og eftirlit en gjaldið hefur ekki verið hækkað frá árinu 2006. Þá má reikna með að fleiri aðilar þurfi að sækja um leyfi en áður þar sem fleiri ökutæki verða leyfisskyld og að það kunni að einhverju leyti að hafa áhrif á þá hækkunarþörf. Í lok árs 2013 voru 143 bílaleigur með starfsleyfi, samanborið við 58 starfsleyfi árið 2006 og samkvæmt bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er kveðið á um að þessir aðilar þurfi að sækja um nýtt starfsleyfi verði frumvarpið að lögum á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015. Má því áætla að á árinu 2015 falli til tímabundnar tekjur af endurnýjun starfsleyfa sem gætu orðið nálægt 11,5-14,5 m.kr.
    Í fjórða lagi gera ákvæði frumvarpsins ríkari kröfur til ökutækjaleiga en nú er. Þannig er gert ráð fyrir að ekki sé leyfilegt að leigja út ökutæki án ökumanns nema að það sé skráð hjá Samgöngustofu sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleiga. Þá verður einnig skylda að ökutækjaleiga sé skráð sem fyrsti umráðamaður ef umrætt ökutæki er í eigu kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtækis. Jafnframt er skýrt kveðið á um að óheimilt verði að leigja út skoðunarskylt ökutæki nema að það hafi lögbundna aðalskoðun og lögbundna ábyrgðartryggingu.
    Í fimmta lagi er lagt til að heimildir Samgöngustofu til þess að hafa eftirlit með ökutækjaleigum verði styrktar frá því sem nú er, m.a. með heimild til að gera vettvangsrannsóknir, auk þess sem gerðar eru ríkari kröfur um upplýsingagjöf til stofnunarinnar. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Samgöngustofu verði heimilt að fella niður starfsleyfi sé skilyrðum laganna ekki fullnægt eða ef leyfishafi verður uppvís að því að brjóta gegn ákvæðum þeirra.
    Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að Samgöngustofu verði heimilt að leggja á dagsektir ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði laganna en tekjur af þeim munu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
    Gera má ráð fyrir að í framhaldi af lögfestingu frumvarpsins muni fleiri aðilar þurfa að sækja um starfsleyfi til reksturs bílaleiga, t.d. þeir sem leigja út fjórhjól eða vélsleða, auk þess sem ríkari kröfur verða gerðar til leyfishafa en áður. Þá er gert ráð fyrir að eftirlit með bílaleigum verði styrkt frá því sem nú er, m.a. með vettvangsrannsóknum. Áætla má að þetta muni fela í sér einhverja aukna umsýslu Samgöngustofu, s.s. vegna útgáfu leyfa og eftirlits, og er lauslega áætlað að sá kostnaður verði að lágmarki sem svarar til hálfs ársverks eða um 5 m.kr. Þótt fjárhæð leyfisgjalds verði ekki lengur tilgreind í lögum samkvæmt frumvarpinu er þar gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði fjármagnaður með gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu vegna útgáfu starfsleyfa og endurútgáfu leyfa og að gjöldin, sem teljast vera lögþvingaðar ríkistekjur, renni beint til reksturs Samgöngustofu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Tölur frá Ferðamálastofu, ferdamalastofa.is.