Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 514. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 875  —  514. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt
staðfestri skipulagsskrá og lögum um málefni aldraðra.

Flm.: Þorsteinn Sæmundsson, Karl Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir,
Páll Jóhann Pálsson, Elsa Lára Arnardóttir, Willum Þór Þórsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa
samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisendurskoðun skal leggja mat á fjárhagsstöðu, rekstrarhorfur og hreina eign sjóðs eða stofnunar áður en slík umsögn er veitt og miða umsögn við niðurstöður.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Við sölu íbúðarréttar heimilismanna á dvalarheimilum og annarra sambærilegra réttinda er skylt að gera kaupanda grein fyrir eignum og öllum veðsetningum sem þegar hvíla á fasteignum sjóðs eða stofnunar. Skal kaupandi undirrita staðfestingu þess efnis að honum hafi verið kynnt þessi gögn. Sjóði eða stofnun er skylt að annast um þinglýsingu vegna íbúðarréttar heimilismanna og annarra sambærilegra réttinda. Íbúðarréttur heimilismanna á dvalarheimilum og önnur sambærileg réttindi skulu hvíla næst á eftir fyrri veðréttum með uppfærslurétti á viðkomandi eign.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í janúar 2014 voru 29.252 Íslendinga 70 ára og eldri en samkvæmt spá Hagstofunnar verður fjöldinn kominn upp í 58.000 eftir aðeins tvo áratugi. Töluverður fjöldi aldraðra býr í svokölluðum öryggisíbúðum sem reistar hafa verið af fasteignafélögum sem oftast eru í eigu sjálfseignarstofnana. Reikna má með að eftirspurn eftir slíkum íbúðum muni vaxa í réttu hlutfalli við fjölgun aldraðra.
    Nýliðnir atburðir það að verkum að nauðsynlegt er að tryggja rétt íbúa öryggisíbúða frekar en nú er. Dæmi eru um að ævisparnaður einstaklinga hafi verið í hættu vegna ágalla á núverandi lögum sem kemur fram í því að aldrað fólk greiðir stórar upphæðir til þess að öðlast búseturétt í öryggisíbúðum en fær ekki tryggingarbréf eða þinglýst veð í tiltekinni eign á móti. Þetta er ekki andstætt eðli íbúðarréttar og búseturéttar sem er hlutdeild í afnotum óskiptrar sameignar og mikilvægur þáttur í félagslegu framtaki almennings og samhjálp.
    Í lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá er ákvæði sem varðar veðsetningar. Nauðsynlegt er að bæta þar við ákvæði um að Ríkisendurskoðun skuli leggja mat á fjárhagsstöðu, rekstrarhorfur og hreina eign og að heimildir til veðsetningar verði miðaðar við það mat. Auk þess bendir reynsla til þess að bæta þurfi við lög um málefni aldraðra ákvæði um skyldu til að veita greiðendum íbúðarréttar eða búseturéttar upplýsingar um eignastöðu, skuldir og veð, og einnig að hverri stofnun verði skylt að sjá um þinglýsingar. Þar þarf og að bæta við ákvæði þess efnis að íbúðarréttur eða búseturéttur skuli hvíla næst á eftir fyrri veðréttum með uppfærslurétti.
    Breytingar þær sem hér er lýst eiga að styrkja stöðu og öryggi íbúðarréttar og búseturéttar í öryggisíbúðum öldrunar- og hjúkrunarstofnana. Með þessum hætti má verja grundvallarhagsmuni og eigur fólks, en um leið standa vörð um mikilvæga þætti í félagsframtaki og samhjálp landsmanna.