Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 480. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 926  —  480. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn
frá Þórunni Egilsdóttur um bóluefni gegn kregðu.


     1.      Hvað líður undirbúningi að framleiðslu á bóluefni gegn kregðu í sauðfé hér á landi (Mycoplasma ovipneumoniae)?
    Kregða er sjúkdómur í sauðfé af völdum lítillar bakteríu, Mycoplasma ovipneumoniae. Sjúkdómurinn hefur verið þekktur í áratugi á Norðausturlandi en virðist á seinni árum hafa náð fótfestu víða um land. Dreifing hefur að öllum líkindum orðið við lífdýrasölu. Sýking herjar einkum á lömb að sumarlagi og fram eftir hausti, veldur hósta, jafnvel vanþrifum og hugsanlega einhverjum dauðsföllum. Hægt er að meðhöndla dýr með sýklalyfjum, en það er kostnaðarsamt og yfirleitt ekki framkvæmt. Haustið 2013 voru við haustslátrun skoðuð yfir 24.000 lungu frá 232 bæjum og af þeim voru 62 lungu frá 36 bæjum send í áframhaldandi rannsókn á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þar hefur tekist að rækta kregðubakteríuna og unnið er að áframhaldandi rannsóknum. Samhliða rannsóknum á kregðubakteríunni er unnið að endurbótum á lungnapestarbóluefninu. Lungnapest, sem er af völdum Pasteurella-baktería, kemur oft í kjölfar kregðunnar.

     2.      Eru fleiri en eitt afbrigði af þessu smitefni hér á landi?
    Rannsóknir á Keldum hafa leitt í ljós talsverðan stofnafjölbreytileika á kregðubakteríunni.

     3.      Hvenær má búast við að slíkt bóluefni verði aðgengilegt fyrir bændur? Hvað er helst til ráða til að flýta þeirri vinnu sem hafin er á Keldum?
    Þar sem rannsóknir hafa leitt í ljós talsverðan stofnafjölbreytileika þá er ekki hægt að taka einhvern einn stofn og framleiða bóluefni. Verið er að einangra ákveðna sýkiþætti sem hugsanlega mætti nota sem bóluefnakandídata. Gert er ráð fyrir að setja þetta í kindur á Keldum á þessu ári til þess að fylgjast með mótefnamyndun og hugsanlega bólusetja fengnar ær næsta vor. Fyrstu tilraunir í feltinu geta ekki orðið fyrr en í fyrsta lagi vorið 2016. Ekki er á þessum tímapunkti hægt að meta hvort og þá hvenær slík tilraunavinna gæti skilað sér í nothæfu bóluefni. Hugsanlegt er að aukið fjármagn og aukning starfsmanna til þessa verkefnis gæti hraðað þessari vinnu.

     4.      Kemur til greina að flytja inn bóluefni gegn kregðu ef framleiðsla á því hérlendis heppnast ekki eða dregst um árabil?
    Það er ekkert bóluefni til erlendis gegn kregðu í sauðfé. Vitað er að Þjóðverjar hafa framleitt bóluefni fyrir einstakar hjarðir, en ekki fyrir almennan markað.