Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 395. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1037  —  395. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Willum Þór Þórssyni um gjafsókn.


     1.      Hversu margar umsóknir um gjafsókn bárust ráðuneytinu árin 2011, 2012 og 2013?
    Árið 2011 bárust 538 umsóknir um gjafsókn.
    Árið 2012 bárust 619 umsóknir um gjafsókn.
    Árið 2013 bárust 579 umsóknir um gjafsókn.

     2.      Hversu mörgum umsóknum var hafnað á framangreindu árabili? Á grundvelli hvaða greina reglugerðar nr. 45/2008 var þeim hafnað? Óskað er eftir nákvæmri sundurliðun á ástæðum synjunar.
    Fyrst ber þess að geta að í þeirri tölfræði sem unnin er vegna gjafsóknarmála er ekki gerður greinarmunur á einstökum liðum reglugerðarinnar þegar beiðni um gjafsókn er hafnað. Synjanir eru sundurgreindar í þrjá eftirfarandi flokka:
    1.      Ekki tilefni til málshöfðunar. Þá er vísað til 1. málsl. 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, auk þeirra sjónarmiða sem fram koma í 5. og 6. gr. reglugerðar um gjafsókn nr. 45/2008, með síðari breytingum.
    2.      Fjárhagur yfir mörkum. Þá er vísað til a-liðs 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, auk þeirra sjónarmiða sem fram koma í 7. og 8. gr. reglugerðar um gjafsókn.
    Í þessu sambandi er rétt að taka fram að viðmiðunarfjárhæðir 7. gr. reglugerðarinnar eru til viðmiðunar og er litið til þeirra við heildarmat á fjárhagsstöðu hvers einstaklings fyrir sig. Þá er að finna heimild í b-lið 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála til þess að veita gjafsókn óháð fjárhag ef eftir því er óskað og úrlausn máls er talin hafa verulega almenna þýðingu eða varða verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda, sbr. 6. gr. a og 8. gr. a reglugerðar um gjafsókn, sbr. reglugerð nr. 616/2012. Árið 2013 er fyrsta heila árið þar sem þessi heimild er til staðar í lögum. Á árinu 2013 var gjafsókn veitt í 28 tilvikum á þeim grundvelli.
    3.      Frávísun. Þá er vísað til 3. mgr. 125. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. eftir atvikum 1.–3. gr. reglugerðar um gjafsókn þar sem fram koma kröfur um form umsóknar og tímaskilyrði, efni umsóknar, rökstuðning og fylgigögn. Ef annmarkar eru á umsókn, svo sem ófullnægjandi rökstuðningur eða skortur á gögnum, er umsækjanda gefinn kostur á að rökstyðja umsókn nánar og leggja fram gögn. Verði ekki bætt úr eða hafi umsókn augljósa og verulega annmarka er heimilt að vísa henni frá. Strangari kröfur eru gerðar ef umsókn er sett fram af hálfu lögmanns fyrir hönd skjólstæðings. Í þeim málum sem vísað er frá er slíkt gert þar sem ekki hefur verið orðið við beiðni um framvísun nauðsynlegra gagna.
    Árið 2011 var umsókn um gjafsókn hafnað í 152 tilvikum (heildarfjöldi afgreiddur 538).
              Ekki tilefni – 89
              Fjárhagur yfir mörkum – 47
              Vísað frá – 16
    Árið 2012 var umsókn um gjafsókn hafnað í 178 tilvikum (heildarfjöldi afgreiddur 619).
              Ekki tilefni – 89
              Fjárhagur yfir mörkum – 66
              Vísað frá – 23
    Árið 2013 var umsókn um gjafsókn hafnað í 148 tilvikum (heildarfjöldi afgreiddur 579).
              Ekki tilefni – 72
              Fjárhagur yfir mörkum – 52
              Vísað frá – 24
    Árið 2013 er fyrsta árið eftir gildistöku ákvæða um skyldubundna sáttameðferð í forsjármálum, þar af leiðandi var á því ári nokkuð um frávísanir þar sem ekki lágu fyrir vottorð um sáttameðferð.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir hækkun á viðmiðunarfjárhæðum skv. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 45/2008?
    Ekki er talin þörf á því að hækka viðmiðunarfjárhæð 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um gjafsókn. Viðmiðunarfjárhæðinni var síðast breytt í desember 2010 með reglugerð nr. 1059/2010. Þá var hún hækkuð úr 1.600.000 kr. í 2.000.000 kr. fyrir einstakling og sé umsækjandi í hjúskap eða sambúð úr samanlögðum árstekjum 2.500.000 kr. í 3.000.000 kr.
    Sem fyrr segir er fjárhæðin höfð til viðmiðunar við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda en er ekki fortakslaust skilyrði sem þegar af þeirri ástæðu leiðir til synjunar á gjafsókn. Viðmiðunarfjárhæðin er liður í heildarmati á fjárhagsstöðu hvers einstaklings fyrir sig og þess hvort efnahag umsækjanda sé svo háttað að gæsla hagsmuna hans í málinu verði honum fyrirsjáanlega ofviða. Er þá litið til þeirra þátta sem fram koma í 7. og 8. gr. reglugerðar um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar.
    Þá er rétt að geta þess að skv. b-lið 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála má veita gjafsókn þrátt fyrir að einstaklingur hafi fjárhagslega burði til að gæta hagsmuna sinna í dómsmáli ef talið er að úrlausn málsins hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi.