Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 521. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1131  —  521. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um húsnæðislán í erlendum gjaldmiðli.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Eiga lántakendur von á leiðréttingu húsnæðislána sem tekin voru á árunum fyrir hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 og telja má að séu sambærileg lánum sem dómstólar hafa ákvarðað sem lán í erlendum gjaldmiðli?
    
    Frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar (þskj. 836 í 484. máli) liggur nú fyrir Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu er rétthöfum séreignarsparnaðar heimilt, á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, að nýta viðbótariðgjald til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Lán sem mynda stofn til útreiknings vaxtabóta og eru tryggð með veði í íbúðarhúsnæði uppfylla skilyrði frumvarpsins, óháð því í hvaða gjaldmiðli lánin eru. Um er að ræða skattfrjálst úrræði sem er tímabundið og gildir í þrjú ár. Samkvæmt frumvarpinu getur fjölskylda með 800 þús. kr. í laun á mánuði lækkað fasteignalán sitt um 250 þús. kr. vegna iðgjalda á tímabilinu júlí til desember 2014.
    Frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána (þskj. 837 í 485. máli) gildir hins vegar eingöngu um verðtryggð lán á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Þau fasteignalán í erlendri mynt sem sannarlega teljast lögleg falla ekki þar undir.