Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1157  —  600. mál.
Frumvarp til lagaum frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

(Eftir 2. umræðu, 15. maí.)


1. gr.

    Verkfallsaðgerðir þær sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna hóf gegn Icelandair ehf. 9. maí 2014 eru óheimilar frá gildistöku laga þessara og á gildistíma ákvarðana gerðardóms, sbr. 2. og 3. gr. Aðilum er heimilt að semja um fyrirkomulag kjaramála en eigi má knýja það fram með vinnustöðvun á gildistímanum, sbr. 1. mgr. 2. gr.
    Með verkfallsaðgerðum er átt við vinnustöðvanir, verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða.

2. gr.

    Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi 1. júní 2014 skal gerðardómur fyrir 1. júlí ákveða kaup og kjör. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laga þessara og gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Endanlegt uppgjör launa skal fara fram eigi síðar en fjórum vikum eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir.
    Í gerðardómnum skulu eiga sæti þrír dómendur og skal einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands, einn af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og einn af Samtökum atvinnulífsins. Dómendur skulu hafa hæfni til starfans í ljósi starfsferils og þekkingar á kjarasamningum og vinnudeilum. Að auki skulu þeir vera óháðir aðilum skv. 1. gr. og ekki hafa sérstakra hagsmuna að gæta af málinu. Fulltrúi Hæstaréttar skal vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman.
    Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Aðilar skulu eiga rétt á að gera gerðardómnum grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan tíma í því skyni.
    Gerðardómnum skal séð fyrir viðunandi starfsaðstöðu. Gerðardómurinn getur kvatt sérfróða einstaklinga til starfa í þágu dómsins og til ráðuneytis um úrlausn mála.
    Kostnaður af starfi gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

    Gerðardómurinn skal, við ákvarðanir um laun aðila skv. 1. gr. og önnur starfskjör, hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. Jafnframt skal hafa til hliðsjónar, eftir því sem við á, kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum og almenna þróun kjaramála hér á landi.
    Komi aðilar skv. 1. gr. sér saman um einhver efnisatriði í deilunni, án þess að vilja gera um það dómsátt, skal gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína en hefur þó frjálsar hendur um tilhögun mála.
    Heimilt er gerðardómnum að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt á milli aðila skv. 1. gr. sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardómsins, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómurinn ekki ákvörðun um þau atriði sem svo háttar til um.

4. gr.

    Þar til ákvörðun gerðardóms skv. 2. og 3. gr. liggur fyrir eða kjaradeilan leysist með öðrum hætti skulu allir síðast gildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til gilda þeirra í milli, nema þeir semji um annað.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 1. október 2014.