Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 430. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1177  —  430. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um aðlögun að Evrópusambandinu.


     1.      Hvaða breytingar sem orðið hafa á lögum á málefnasviði ráðuneytisins eða á stofnunum þess frá 2009 má rekja til aðlögunar að Evrópusambandinu?
    Þeir samningskaflar sem fjallað var um í aðildarviðræðunum og heyra undir málefnasvið ráðuneytisins falla innan gildissviðs EES-samningsins, að frátöldum 16. kafla um skattamál, 17. kafla um efnahags- og peningamál og 29. kafla um tollabandalag. Ekki er um að ræða neinar breytingar á löggjöf á málefnasviði ráðuneytisins sem rekja má til aðlögunar að Evrópusambandinu. Á meðan aðildarviðræður voru í gangi var hjá tollstjóra sett upp sérstök eining til að annast verkefni sem tengdust 29. kafla um tollamál en sú vinna hafði engar breytingar á löggjöf í för með sér.

     2.      Hvaða breytingar voru eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB?
    Lög nr. 53/2012, um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsagnarríki Evrópusambandsins, voru sett í tilefni af fyrirhugaðri staðfestingu Alþingis á IPA-samningi milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í lögunum er kveðið á um nokkrar sérreglur um skatta og gjöld vegna verkefna sem hljóta stuðning úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA).
    Að öðru leyti vísast til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvaða breytingar urðu á sama tíma fyrst og fremst vegna aðildar Íslands að EES?
               a.      Eftirfarandi lög og lagabreytingar á sviði fjármálamarkaða frá árinu 2009 eru tilkomin vegna aðildar Íslands að EES:
                     Lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, voru sett vegna innleiðinga á tilskipunum ESB á vátryggingasviði. Þær tilskipanir sem voru m.a. innleiddar voru tilskipun 2005/68/EB um endurtryggingar og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/ 44/EB um breytingu á tilskipun ráðsins 92/49/EBE og tilskipunum 2002/83/EB, 2002/87/EB, 2004/39/EB, 2005/68/EB og 2006/48/EB að því er varðar reglur um málsmeðferð og viðmiðanir vegna varfærnismats við yfirtökur og aukningu eignarhlutdeildar í fjármálageiranum. Lögin eru sett á grundvelli fyrri laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, sem voru felld úr gildi en þau voru endurskoðuð um leið og unnið var að innleiðingu tilskipananna.
                     Lög nr. 75/2010, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2007/44/EB um varfærnismat á yfirtökum.
                      Lög nr. 119/2011, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2009/111/EB um breytingu á tilskipunum 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana, 2006/49/EB um eigið fé fjármálafyrirtækja og tilskipun 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðinum, að því er varðar þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringar.
                     Lög nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB.
                     Lög nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, sbr. lög nr. 12/2013, innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
                      Lög nr. 159/2012, um breytingu á lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum (greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi), innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2009/44/EB um breytingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf.
                     Lög nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB.
                     Með lögum nr. 48/2013, um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, var ráðherra veitt heimild til að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/73/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 2003/71/EB um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað.
                     Lög nr. 47/2013, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2010/76/ESB um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana og 2006/49/EB um eigið fé fjármálafyrirtækja að því er varðar eiginfjárkröfur vegna veltubókar, endurverðbréfunar og eftirlits með starfskjarastefnu.
               b.      Eftirfarandi lagabreytingar hafa verið gerðar á sviði skattamála frá sama tíma en í öllum tilvikum eru breytingarnar til komnar vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA og dómafordæma EFTA-dómstólsins:
                     Lög nr. 165/2010, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Í lögunum er að finna nokkur ákvæði sem eru til komin vegna aðildar Íslands að EES og skiptast þau í tvo málaflokka. Annars vegar er um að ræða ákvæði er kveður á um skattlagningu einstaklinga með búsetu erlendis. Eiga slíkir einstaklingar rétt á því að vera skattlagðir með sama hætti og einstaklingar búsettir hér á landi stafi meiri hluti tekna þeirra frá Íslandi. Hins vegar er um að ræða margvíslegar breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, vegna athugasemda ESA.
                     Lög nr. 73/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Með lögunum voru m.a. gerðar lagfæringar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, í þá veru að lögin eru nú tímabundin, en samþykki ESA á styrkjakerfum er bundið því skilyrði. Engar efnislegar breytingar voru gerðar á lögunum heldur einungis þær breytingar að kerfið var látið gilda til ársloka 2014 eða í fimm ár.
                     Lög nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Með lögunum voru lög nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar (tonnaskattur) felld brott. Í lögum nr. 86/2007 var kveðið á um tvenns konar form ríkisaðstoðar við kaupskipaútgerðir sem ESA úrskurðaði sem ólögmæta ríkisstyrki skv. 61. gr. EES-samningsins.
                     Lög nr. 145/2012, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Með lögunum er m.a. lögfest frádráttarheimild til handa þeim sem hafa tekjur af leigu á íbúðarhúsnæði og bera takmarkaða skattskyldu hér á landi til samræmis við þá sem hafa ótakmarkaða skattskyldu.
                      Lög 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Með lögunum var m.a. gerð sú breyting á ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna athugasemda frá ESA um að aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum er ekki lengur undanþeginn virðisaukaskatti. Þá voru bráðabirgðaákvæði II, III, V og VI í lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald gerð varanleg vegna athugasemda ESA.
                      Lög nr. 24/2013, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Með lögunum var brugðist við áliti ESA um að vafi léki á að ákvæði laganna, sem annars vegar undanþægju frá virðisaukaskattsskyldri veltu sölu gagnavera á blandaðri þjónustu til kaupenda sem búsettir voru erlendis og höfðu ekki fasta starfsstöð hér á landi og hins vegar ákvæði sem heimiluðu endurgreiðslu virðisaukaskatts af innflutningi á netþjónum og tengdum búnaði, samrýmdust reglum EES um ríkisaðstoð. Með lögunum voru þessi ákvæði felld brott en ráðherra fékk þess í stað heimild til að setja reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis við innflutning á vörum, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
                       Lög nr. 142/2013, um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Með lögunum var aukið ákvæðum við 51. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er fjalla um skattalega meðferð við samruna hlutafélaga yfir landamæri í því skyni að koma til móts við það álit ESA að íslenskar reglur um skattlagningu við samruna félaga brytu í bága við EES-samninginn.
                       Lög nr. 45/2013, um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með lögunum var brugðist við athugasemdum ESA um skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum og staðgreiðslu starfsmannaleiga og notendafyrirtækja á opinberum gjöldum. Að mati ESA var um að ræða mismunun á grundvelli þjóðernis sem ekki samrýmdist grunnreglum EES-samningsins. Með lögunum voru lagðar til breytingar með hliðsjón af þeim ábendingum sem ráðuneytinu höfðu borist er tengdust skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum (CFC- reglum) og erlendum starfsmannaleigum.
                     Lög nr. 138/2013, um stimpilgjald. Lögin fela í sér heildarendurskoðun stimpilgjalda, m.a. vegna athugasemda frá ESA. Með lögunum voru eldri lög um stimpilgjald, nr. 36/1978, felld brott.
               c.      Loks hafa eftirfarandi breytingar verið gerðar frá árinu 2009 á sviði opinberra innkaupa annars vegar og ríkisábyrgða hins vegar í tengslum við aðild Íslands að EES- samningnum:
                     Lög nr. 20/2011, um breyting á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum. Breytingarnar voru gerðar til að koma til móts við tilmæli ESA frá 8. júlí 2009 um viðeigandi ráðstafanir varðandi fyrirkomulag eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.
                      Lög nr. 58/2013, um breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, innleiddu í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2007/66/EB um aukna skilvirkni í meðferð kærumála vegna gerðar opinberra samninga.