Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 472. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1223  —  472. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um ökunám.


     1.      Hvaða aðilar eru eigendur ökugerðis fyrir ökuskóla 3 í Reykjavík og á Akureyri?
    Eigendur Ökugerðisins Akureyri ehf. eru Dverghóll ehf, Bílaklúbbur Akureyrar, Höldur og Kristinn Örn Jónsson. Eigendur Ökuskóla 3 ehf. eru Ökukennarafélag Íslands, Sjóvá, Ökutækni ehf. og Ökuskóli 3.
    Nánari upplýsingar um eignarhlut hvers aðila má finna í fyrirtækjaskrá.

     2.      Voru aðstæður á landsbyggðinni hafðar í huga við skipulag ökuskóla 3?
    Í upphafi var gert ráð fyrir að hægt væri að vera með ökugerði í öllum landshlutum. Ökukennarafélag Íslands kom upp svæði fyrir ökugerði fyrir skrikvagna á Kirkjusandi veturinn 2009–2010 og útbúið var færanlegt forvarnahús með skrikbíl og veltibíl sem hægt er að færa á milli staða með góðri samvinnu við Sjóvá og stuðningi frá þeim.
    Samhliða þessu voru kannaðir möguleikar á því að vera með aðstöðu fyrir skrikvagna á Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Hornafirði og víðar. Sérstaklega var horft til þess að vera með þessa kennslu á flugbrautum og/eða flughlöðum (nýta fyrirliggjandi malbikuð svæði). Af ýmsum ástæðum gengu þessar lausnir ekki upp. Sett voru upp námskeið á Bakkaflugvelli, Aðaldalsflugvelli og á Ásbrú og farið þangað með færanlega búnaðinn. Á Bakkaflugvelli voru auglýst 28 námskeið frá nóvember 2010 til nóvember 2011, flest varð að fella niður vegna ónógrar þátttöku. Haldin voru sex námskeið í fjórum ferðum, þátttakendur voru alls 29. Á Aðaldalsflugvelli voru auglýst 27 námskeið frá september 2010 til október 2011, flest felld niður vegna ónógrar þátttöku. Haldin voru 12 námskeið í fjórum ferðum, þátttakendur voru alls 55. 1. febrúar 2012 var síðan haldið fyrsta námskeiðið hjá Ökugerðinu Akureyri. Það er ökugerði með sérstökum hálkubrautum. Bæði nú í vetur og síðasta vetur hefur kennsla legið niðri í fleiri mánuði yfir vetrarmánuðina vegna veðurfars og hefur þá verið veitt undanþága frá reglugerð um ökuskírteini á Norðurlandi í heild. Handhafar bráðabirgðaökuskírteinis hafa því rúm þrjú ár til að sækja námskeið í ökugerði.

     3.      Telur ráðherra forsvaranlegt að krefjast þess að ólögráða einstaklingar ferðist þvert yfir landið, t.d. frá Vestfjörðum og Austurlandi, til að fá fullnaðarökuskírteini?
    Eins og kemur fram í svari við fyrri spurningu hefur verið tekið mjög ríkt tillit til þeirra einstaklinga sem þurfa að sækja kennslu í ökugerði langt að. Segja má að þeir hafi þrjú til þrjú og hálft ár til að ljúka námi í ökugerði á stað og tíma sem hentar þeim best (á Akureyri eða í Reykjavík).

     4.      Hefur ráðherra skoðað leiðir til að hafa kennslu í ökuskóla 3 í minni bæjarfélögum, t.d. með því að setja þar upp ökugerðisbrautir á vissu tímabili yfir vetrartímann?
    Hér er rétt að vísa í fyrri svör. Þá er rétt að taka fram að ökukennsla á Íslandi er ekki á vegum hins opinbera heldur á vegum ökuskóla, ökugerða og ökukennara sem starfa með opinberu leyfi. Ökugerði er annaðhvort með sérstökum brautum þar sem m.a. er gerð krafa um ákveðið viðnám á brautum (bæði brautir sem eru hálar og ekki hálar, viðnámsstuðull er tilgreindur) eða ökugerði þar sem notaður er sérstakur skrikvagn. Sérstaklega yfir veturinn getur verið erfitt að reka ökugerði svo vel sé.