Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 10  —  10. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003,
og lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001,
með síðari breytingum (niðurlagning orkuráðs).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, með síðari breytingum.
1. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 2. mgr. fellur brott.
     b.      6. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra skipar þrjá menn í ráðgjafarnefnd Orkusjóðs til fjögurra ára, þar af skal einn skipaður formaður. Ráðgjafarnefndin skal gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.

II. KAFLI
Breyting á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis,
nr. 13/2001, með síðari breytingum.

3. gr.

    Lokamálsliður 8. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Orkustofnun annast daglega umsýslu sjóðsins.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að orkuráð, sem starfar samkvæmt lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, verði lagt niður. Er frumvarpið í samræmi við tillögur nefndar um endurskipulagningu Orkusjóðs sem skipuð var með skipunarbréfi ráðherra frá júlí 2008 og skilaði skýrslu sinni og tillögum í mars 2011. Í 6. gr. laga um Orkustofnun er kveðið á um orkuráð með eftirfarandi hætti: „Hjá Orkustofnun skal starfa orkuráð. Ráðherra skipar fimm menn í orkuráð til fjögurra ára í senn. Verkefni orkuráðs skulu m.a. fólgin í ráðgjöf við framkvæmd verkefna skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. og að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Um starfssvið orkuráðs skal nánar mælt í reglugerð.“
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að verkefni orkuráðs færist yfir til Orkustofnunar og að sérstakri ráðgjafarnefnd Orkusjóðs verði falið að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Sem áður segir er það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu í samræmi við niðurstöður nefndar um endurskipulagningu Orkusjóðs.
    Ástæður þess að með frumvarpinu er lagt til að hlutverk sérstaks orkuráðs verði lagt niður eru annars vegar að Orkustofnun er stjórnað samkvæmt sérstökum árangursstjórnarsamningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hins vegar að aðkoma ríkisvaldsins að orkumálum hefur tekið miklum breytingum frá því að orkuráð var sett á laggirnar. Viðfangsefni orkuráðs hafa færst í ríkari mæli yfir í að meta tæknilega möguleika og útfærslur vegna þeirra verkefna sem Orkusjóður kemur að. Þessi tillaga kemur einnig til móts við þær athugasemdir Ríkisendurskoðunar að núverandi fyrirkomulag kunni að vera of kostnaðarsamt miðað við umfang verkefna orkuráðs og Orkusjóðs.
    Frumvarp sem sneri að niðurlagningu orkuráðs var lagt fram á 139. löggjafarþingi en ekki náðist að mæla fyrir því og dagaði það uppi. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það er nú endurflutt, að teknu tilliti til breytingar sem lögð var til með nefndaráliti atvinnuveganefndar 6. mars 2014.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun, Orkusjóð og orkuráð. Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á Orkustofnun. Nánar er vísað til kostnaðarumsagnar um frumvarpið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að fimm manna orkuráð, sem starfar samkvæmt lögum nr. 87/ 2003, um Orkustofnun, verði lagt niður í núverandi mynd. Með þessari breytingu er lagt af hlutverk orkuráðs um að vera ráðgefandi um starfsemi Orkustofnunar og almennt um orkumál. Nánar er vísað til almennra athugasemda.

Um 2. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að ráðherra skipi þriggja manna ráðgjafarnefnd sem hafi það hlutverk að fara yfir umsóknir til Orkusjóðs og gera tillögur til ráðherra. Gert er ráð fyrir að umsóknir til Orkusjóðs þurfi að fara í rýni hjá sérfræðingum Orkustofnunar.
    Í greininni er jafnframt lagt til að fellt verði brott ákvæði núgildandi laga um að eitt af hlutverkum Orkusjóðs sé að „veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda“. Aldrei hefur verið skilgreint hvað nákvæmlega er átt við með áhættulánum í þessu sambandi. Slík lán hafa því aldrei verið veitt enda aldrei verið sótt um slík lán. Því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að í stað þess að Orkusjóði sé falið það hlutverk að sjá um Kolvetnisrannsóknasjóð, samkvæmt lögum nr. 13/2001, verði Orkustofnun falin umsýsla sjóðsins. Ekki er gert ráð fyrir frekari breytingum varðandi Kolvetnisrannsóknasjóð.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003,
og lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001,
með síðari breytingum (niðurlagning orkuráðs).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að orkuráð verði lagt niður í samræmi við niðurstöður nefndar um endurskipulagningu Orkusjóðs. Samkvæmt núgildandi lögum um Orkustofnun skipar ráðherra fimm menn í orkuráð til fjögurra ára í senn en hlutverk ráðsins er að m.a. fólgið í ráðgjöf við framkvæmd verkefna og að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að verkefni orkuráðs færist yfir til Orkustofnunar og að sérstakri þriggja manna úthlutunarnefnd Orkusjóðs verði falið að gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði.
    Á árinu 2012 námu þóknanir vegna orkuráðs um 4,6 m.kr. með launatengdum gjöldum. Verði frumvarpið að lögum mun sá kostn­aður Orkusjóðs falla niður. Fjárreiður Orkusjóðs tilheyra C-hluta fjárlaga en stofnunin fær rekstrarstyrk úr A-hluta ríkissjóðs sem nemur 32,4 m.kr. í fjárlögum 2013 og 30,4 m.kr. í fjárlögum 2014. Á móti er gert ráð fyrir að umsýslukostn­aður við nýja þriggja manna úthlutunarnefnd samkvæmt frumvarpi þessu verði um 2 m.kr. á ári. Verði frumvarpið að óbreyttu lögfest má gera ráð fyrir að þessi útgjöld ríkissjóðs geti lækkað um 2,6 m.kr. á fjárlagalið 04-581 Orkusjóður.