Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 11  —  11. mál.Frumvarp til laga

um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi .

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
I. KAFLI
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun með því að tilgreina hvaða ívilnanir er heimilt að veita til nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt.

2. gr.
Gildissvið og heimild.

    Lög þessi ná til skilgreindra ívilnana sem kveðið er á um í lögum þessum til nýfjárfestinga hér á landi, að uppfylltum þeim skilyrðum sem eru tilgreind í 5. gr.
    Á grundvelli laga þessara er ráðherra veitt heimild til að gera samninga, sbr. 14. gr., fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um aðkomu ríkisins og eftir atvikum sveitarfélaga vegna nýfjárfestinga hér á landi.
    Lög þessi ná ekki til fjárfestinga í fyrirtækjum sem veita þjónustu á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, laga um vátryggingastarfsemi eða laga um verðbréfaviðskipti. Lög þessi ná ekki til ívilnana til flugvalla eða til verkefna á sviði orkuframleiðslu.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Byggðaaðstoð: Ríkisaðstoð sem er veitt með heimild í c-lið 3. mgr. 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið til að efla byggðaþróun og efnahagslíf á ákveðnu landsvæði í samræmi við samþykkt byggðakort.
     2.      Byggðakort: Kort af Íslandi sem er samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA fyrir tiltekið tímabil þar sem fram kemur á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki slík aðstoð er heimil.
     3.      Fjárfestingarverkefni: Verkefni sem nýfjárfesting lýtur að.
     4.      Fjárfestingarkostnaður: Kostnaður vegna áþreifanlegra eigna og óáþreifanlegra eigna sem fellur til í tengslum við fjárfestingarverkefni hér á landi eða launakostnaður. Ráðherra setur reglugerð um nánari útfærslu á því hvað telst til fjárfestingarkostnaðar samkvæmt ákvæðinu. Nefnd skv. 11. gr. veitir nánari leiðbeiningar um grundvöll og útreikning á fjárfestingarkostnaði.
     5.      Ívilnun: Skilgreind ríkisaðstoð samkvæmt lögum þessum sem er forsenda þess að tiltekið fjárfestingarverkefni verði að veruleika hér á landi.
     6.      Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og árlega veltu undir 2 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 10 milljónum evra, sbr. leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um aðstoð við örfyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki.
     7.      Meðalstórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með á bilinu 50–250 starfsmenn og árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um aðstoð við örfyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki.
     8.      Stórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem fellur ekki undir skilgreiningu á litlu eða meðalstóru fyrirtæki, sbr. 6. og 7. tölul.
     9.      Nýfjárfesting: Fjárfesting sem lýtur að uppsetningu nýs verkefnis eða nýrrar starfsemi hér á landi eða felur í sér sjálfstæða viðbót við eldra verkefni. Fjárfesting sem kemur í stað eldri fjárfestingar telst ekki nýfjárfesting í skilningi laga þessara.

II. KAFLI
4. gr.
Umsókn um ívilnun.

    Umsókn um ívilnun til nýfjárfestingar á Íslandi skal send ráðuneyti því sem fer með ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Sérstök þriggja manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu, sbr. 11. gr.
    Umsókn um ívilnun, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en hafist er handa við fyrirhugað fjárfestingarverkefni hér á landi.
    Umsókn um ívilnun skal skilað á sérstöku eyðublaði sem nefnd skv. 1. mgr. birtir á vef ráðuneytisins, ásamt upplýsingum sem eru nauðsynlegar samkvæmt lögum þessum.
    Um meðhöndlun umsókna um ívilnun fer samkvæmt ákvæðum V. kafla.

5. gr.
Skilyrði fyrir veitingu ívilnana.

    Við mat á því hvort veita eigi ívilnun til nýfjárfestingar samkvæmt lögum þessum skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
     a.      að stofnað sé sérstakt félag um fjárfestingarverkefnið á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag,
     b.      að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um viðkomandi fjárfestingarverkefni, þá aðila sem að því standa, stærð viðkomandi fjárfestingarverkefnis, sbr. 6.–8. tölul. 3. gr., og upplýsingar um hvernig fjármögnun verður háttað,
     c.      að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki hafið áður en undirritaður er samningur um ívilnun skv. 14. gr.,
     d.      að sýnt sé fram á að veiting ívilnunar sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi,
     e.      að a.m.k. 75% af fjárfestingarkostnaði séu fjármögnuð án ríkisaðstoðar og þar af séu að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun,
     f.      að árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis sé a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfesting skapi a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess,
     g.      að fyrir liggi arðsemisútreikningar, sbr. 12. gr.,
     h.      að sýnt sé fram á að fyrirhuguð fjárfesting sé í samræmi við 1. gr.; í því samhengi skal taka tillit til áhrifa viðkomandi nýfjárfestingarverkefnis á atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutning, skatttekjur, nýsköpun og útbreiðslu nýrrar tækni og þekkingar,
     i.      að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna hennar sé nýr eða nýlegur og uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir,
     j.      að viðkomandi nýfjárfesting verði eftir að rekstur hefst að lágmarki til 10 ára í starfrækslu á viðkomandi svæði á Íslandi,
     k.      að umhverfismat vegna fjárfestingarverkefnisins liggi fyrir eða upplýsingar um að verkefnið þarfnist ekki umhverfismats samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/ 2006,
     l.      að starfsemi félags sem nýtur ívilnunar sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi,
     m.      að ekki séu fyrir hendi hjá viðkomandi félagi eða eigendum þess vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi eða endurgreiðslukrafa skv. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og að viðkomandi félag sé ekki í fjárhagslegum erfiðleikum eða fjárhagslegri endurskipulagningu í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til endurskipulagningar eða björgunar fyrirtækja,
     n.      að eigendur sem fara með virkan eignarhlut og framkvæmdastjóri viðkomandi félags séu lögráða, hafi óflekkað mannorð og orðspor sem samrýmist reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þeir skulu ekki hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðustu fimm árum. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu fimm árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

III. KAFLI
6. gr.
Byggðaaðstoð.

    Heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun í formi byggðaaðstoðar til fjárfestingarverkefna hér á landi takmarkast af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda skv. 61.–64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Þær skuldbindingar og heimildir eru nánar útfærðar í ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA um byggðakort og aðstoðarhlutföll. Slíkar ákvarðanir eru birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins hverju sinni. Í þeim ákvörðunum kemur fram á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð.

7. gr.
Hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar.

    Með vísan til 6. gr. getur ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar numið að hámarki 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði þess fjárfestingarverkefnis sem sótt er um ívilnun fyrir. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki er hámark ívilnunar 35% af fjárfestingarkostnaði.
    Þegar um fjárfestingar stórra fyrirtækja skv. 8. tölul. 3. gr. er að ræða skal sýnt fram á að fjárhæð ívilnunar takmarkist við ákvörðun um fjárfestingu eða ákvörðun um staðsetningu. Því skal annað hvort eftirfarandi skilyrða uppfyllt:
     a.      Fjárhæð ívilnunar skal ekki vera umfram það sem nauðsynlegt er til að fjárfestingarverkefnið verði nægjanlega ábatasamt.
     b.      Fjárhæð ívilnunar skal ekki vera hærri en sá umframkostnaður sem hlýst af staðsetningu fjárfestingarverkefnisins í samanburði við önnur svæði.
    Í þeim tilvikum þegar fjárfestingarkostnaður fjárfestingarverkefnis er meiri en 50 milljónir evra lækkar hlutfall leyfilegrar hámarksaðstoðar, sbr. 1. mgr., í samræmi við heildarfjárfestingarkostnað, sbr. 4. mgr.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um útreikning á leyfilegu hlutfalli ríkisaðstoðar, samkvæmt grein þessari, í samræmi við leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um svæðisbundna byggðaaðstoð fyrir árin 2014–2020.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 14. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag byggðaaðstoðar.

8. gr.
Ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum.

    Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi frávika frá sköttum eða opinberum gjöldum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
    Félag sem er stofnað um nýfjárfestingu og uppfyllir öll skilyrði laga þessara fyrir veitingu ívilnunar skal njóta eftirfarandi skattalegra ívilnana:
     1.      Tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skal, í þann tíma sem kveðið er á um í 3. mgr., vera 15%. Lækki hið almenna tekjuskattshlutfall á tímabilinu niður fyrir framangreint hlutfall skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið.
     2.      Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. þeirra laga skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
     3.      Skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skal vera 50% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
     4.      Almennt tryggingagjald viðkomandi félags skal vera 50% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
     5.      Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum.
    Þau frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld sem kveðið er á um í 2. mgr. gilda í 10 ár frá því að félag sem nýtur ívilnunar hefur greiðslu gjalds eða skatta, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings skv. 14. gr.
    Félag sem nýtur ívilnunar samkvæmt grein þessari skal, að öðru leyti en kveðið er á um í 2. mgr., greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma. Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um viðkomandi félag.

9. gr.
Ívilnun í tengslum við land eða lóð undir nýfjárfestingu.

    Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi sölu eða leigu ríkis eða sveitarfélags á landi eða lóð í eigu ríkis eða sveitarfélags undir viðkomandi fjárfestingarverkefni til þess félags sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, á verði sem telst vera undir almennu markaðsverði.
    Um hámark ívilnunar skv. 1. mgr. vísast til 7. gr. Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem er veitt ívilnun, sbr. 14. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar sem tengd er sölu eða leigu á landi eða lóð.

IV. KAFLI
10. gr.
Almenn frávik frá tilgreindum ákvæðum laga.

    Í samningi skv. 14. gr. er heimilt að kveða á um að viðkomandi félag, sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, skuli undanþegið:
     1.      ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, sem setur það skilyrði að 4/ 5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar,
     2.      ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi, svo og sambærilegum síðari ákvæðum,
     3.      ákvæðum laga um brunatryggingar, nr. 48/1994, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum,
     4.      ákvæðum laga um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, enda viðhaldi félagið fullnægjandi viðlagatryggingu.

V. KAFLI
11. gr.
Nefnd um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga.

    Sérstök þriggja manna nefnd ráðherra fer yfir umsóknir um ívilnun, sbr. 4. gr., og gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu. Ráðherra skipar nefndina og skulu ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins og ráðherra er fer með málefni fjárfestinga í atvinnurekstri tilnefna sinn mann hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndarmenn skulu hafa menntun í lögfræði eða hagfræði og sérþekkingu á sviði fjárfestinga. Nefndin leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru.
    Nefndin skal hafa samráð við sveitarfélög í tengslum við aðkomu þeirra að fyrirhuguðum fjárfestingarverkefnum sem staðsett eru innan umdæma þeirra.
    Við mat á umsókn um ívilnun hefur nefndin heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um þætti sem að umsókn snúa.
    Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda um störf nefndarinnar. Nefndin setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir.

12. gr.
Mat á arðsemi.

    Aðili sem sækir um ívilnun til nýfjárfestingar skal leggja fram rekstrar- og viðskiptaáætlun og önnur gögn sem nefnd skv. 11. gr. telur nauðsynleg við yfirferð á umsókninni. Aðili skal jafnframt sýna fram á að án ívilnana verði fjárfestingin ekki arðbær. Ívilnanir skulu aðeins boðnar umsækjanda ef útreikningar gefa með skýrum hætti til kynna að fyrirhuguð fjárfesting hafi í för með sér jákvæð áhrif á þróun byggðar jafnt til lengri sem skemmri tíma.
    Áður en nefnd skv. 11. gr. gerir tillögu til ráðherra vegna umsóknar um ívilnun getur hún óskað þess að óháður sérfróður aðili leggi mat á fjárfestingarverkefnið og arðsemi þess og vinni aðrar upplýsingar sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en tekin er afstaða til umsóknar.
    Við mat á ávinningi af fyrirhugaðri starfsemi skal horft til mismunandi samsetningar ívilnana sem leyfilegar eru samkvæmt lögum þessum.

13. gr.
Boð um ívilnun.

    Nefnd skv. 11. gr. skal gera tillögu til ráðherra um að hafna beiðni um ívilnun eða að leggja fyrir umsækjanda boð um ívilnun. Leggi nefndin til boð um ívilnun skal koma fram rökstuðningur fyrir nauðsyn ívilnunar og hversu mikil ívilnunin skuli vera.
    Leggi ráðherra fram boð um ívilnun skal það byggjast á þeim heimildum sem fram koma í lögum þessum og getur það verið samsett úr fleirum en einni tegund ívilnana, sbr. þó 7. gr.

14. gr.
Samningur um veitingu ívilnunar.

    Fallist umsækjandi á boð ráðherra um ívilnun skal gerður samningur milli umsækjanda og ráðherra fyrir hönd stjórnvalda og eftir atvikum sveitarfélaga um veitingu ívilnunar til viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
    Samningur skv. 1. mgr. skal kveða á um þær skuldbindingar sem kunna að þykja nauðsynlegar fyrir viðkomandi fjárfestingarverkefni og hversu lengi samningur skuli gilda. Í samningi skal m.a. kveðið á um eftirfarandi atriði:
     a.      skilgreiningu og afmörkun á viðkomandi fjárfestingarverkefni,
     b.      skilgreiningu og afmörkun á þeim lögaðila sem nýtur ívilnunar samkvæmt samningnum,
     c.      hvaða ívilnanir eru veittar til verkefnisins,
     d.      fjárhæð ívilnana á núvirði,
     e.      hvernig ívilnun er komið til verkefnis og á hvaða tíma,
     f.      eftirlit og endurgreiðslu ívilnunar ef skilyrði samnings eru ekki uppfyllt,
     g.      hámark þeirrar ívilnunar sem veitt er til verkefnisins á grundvelli samningsins.
    Samningur um veitingu ívilnunar skv. 1. mgr. skal að hámarki gilda í 20 ár frá undirritun hans, sbr. þó 4. mgr.
    Ívilnun sem er veitt á grundvelli 8. gr. skal, sbr. 3. mgr. 8. gr., gilda í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda sem kveðið er á um í 2. mgr. 8. gr. myndast, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings um veitingu ívilnunar.
    Samningur um veitingu ívilnunar sem ráðherra undirritar samkvæmt lögum þessum skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.

15. gr.
Afmörkun ívilnunar.

    Ívilnun er eingöngu veitt vegna ákveðins fjárfestingarverkefnis umsækjanda en ekki til annarrar starfsemi hans. Aðila sem nýtur ívilnunar samkvæmt lögum þessum er einvörðungu heimilt að nýta þá ívilnun í það skilgreinda fjárfestingarverkefni sem kveðið er á um í samningi skv. 14. gr.

16. gr.
Eftirlit með notkun ívilnunar.

    Til tryggingar á réttri notkun ívilnunar, sbr. 15. gr., ber aðila sem nýtur ívilnunar að senda ráðuneytinu árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnis, hlut ívilnunar í framgangi þess, heildarfjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á næstliðnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er. Ráðuneytið getur óskað þess að umræddar upplýsingar sem félagið sendir ráðuneytinu séu staðfestar af endurskoðanda.
    Sveitarfélög sem veita ívilnanir til fjárfestingarverkefna sem gerður hefur verið samningur um skv. 14. gr. skulu senda ráðuneytinu árlega skýrslu um heildarfjárhæð veittrar ríkisaðstoðar fyrir hvert verkefni, sundurliðað eftir verkefnum.
    Ráðuneytið skal upplýsa hlutaðeigandi sveitarfélög um atvik sem geta haft áhrif á gildi samninga sem gerðir hafa verið og skulu viðkomandi sveitarfélög á sama hátt upplýsa ráðuneytið um atvik af þessu tagi.

17. gr.
Afturköllun og/eða endurgreiðsla ívilnunar.

    Fella ber niður ívilnun og endurkrefja um þegar veitta ívilnun komi í ljós að aðili sem nýtur ívilnunar hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á veitingu ívilnunarinnar.
    Endurkrefja ber um ívilnun ef hún hefur verið nýtt til annarra hluta en fjárfestingarverkefnis þess sem var forsenda veitingar hennar.
    Komi í ljós að ívilnun til aðila er komin umfram þær heimildir sem fram koma í lögum þessum eða samningi um veitingu ívilnunar skal endurkrefja aðila um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.
    Ef ákvörðun um ívilnun er afturkölluð, samkvæmt grein þessari eða í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð, skulu stjórnvöld, sbr. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, gera ráðstafanir til þess að endurheimta veitta ríkisaðstoð frá þiggjanda hennar.
    Verði fjárfestingarverkefnið ekki að veruleika eða ef það verður verulega frábrugðið því sem samningur um veitingu ívilnunar skv. 14. gr. miðar við innan fimm ára frá gildistöku samnings skal sá er ívilnunar hefur notið endurgreiða allar þær ívilnanir sem hann hefur fengið á grundvelli samnings um veitingu ívilnunar skv. 14. gr.

VI. KAFLI
18. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.

19. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Fjárfestingarsamningar sem gerðir eru á grundvelli laganna taka ekki gildi fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki fyrir því ríkisaðstoðarkerfi sem lögin fela í sér. Lög þessi falla úr gildi 1. júlí 2020. Ívilnanir sem hafa verið veittar fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu út þann tíma sem kveðið er á um í viðkomandi samningi um veitingu ívilnunar, sbr. 14. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Eingöngu kostnaður sem fellur til eftir gildistöku laga þessara getur talist til fjárfestingarkostnaðar í skilningi þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Almennt.
    Frumvarp þetta, sem samið er í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, kveður á um heildstæða lagasetningu um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi og myndar ramma utan um það hvaða ívilnanir stjórnvöldum og eftir atvikum sveitarfélögum er heimilt að veita í því skyni að fjölga nýfjárfestingarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Inngangur.
    Í grunninn byggist frumvarp þetta á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum, sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Þau lög veittu íslenskum stjórnvöldum heimild til að veita ýmsar ívilnanir til nýfjárfestingarverkefna á grundvelli fjárfestingarsamninga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á grundvelli þeirra laga voru undirritaðir sex fjárfestingarsamningar og hafa fjögur af þeim verkefnum þegar komið til framkvæmda.
    Lög nr. 99/2010 voru í október 2010 samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem lögmætt ríkisaðstoðarkerfi. Árið 2013 tók ESA hins vegar kerfið upp til formlegrar rannsóknar og er henni ekki lokið. Við gerð þess frumvarps sem hér er lagt fram er meðal annars tekið mið af þeim ábendingum og athugasemdum sem ESA hefur haft frammi varðandi veitingu ríkisstyrkja og framkvæmd laga nr. 99/2010.
    Markmið frumvarpsins er að örva og efla fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi með því að tilgreina með gegnsæjum hætti í lögum hvaða heimildir stjórnvöld og sveitarfélög hafa til að veita skilgreindar ívilnanir til fjárfestingarverkefna. Fyrir gildistöku laga nr. 99/2010 tíðkaðist að gera sérstaka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis ESA eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Það fyrirkomulag reyndist þungt og tímafrekt og reynslan hefur sýnt að heppilegra er að hafa í gildi rammalöggjöf þar sem mælt er fyrir með gegnsæjum hætti hvaða ívilnanir stjórnvöld geta boðið vegna nýfjárfestingarverkefna hér á landi.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að auka samkeppnishæfni Íslands og auka möguleika á því að fá til landsins fjölbreytta og jákvæða nýfjárfestingu. Í flestum þeim ríkjum sem Ísland á í samkeppni við um nýfjárfestingar er boðið upp á ívilnanir og styrki af einhverju tagi. Nái frumvarp þetta fram að ganga mun það efla samkeppnishæfni Íslands hvað erlenda fjárfestingu varðar og gera Íslandi betur kleift að nýta þá sérstöðu sem landið hefur í alþjóðlegu tilliti.


2.2 Mikilvægi ívilnana vegna nýfjárfestinga í atvinnurekstri.
    Í kjölfar fjármálakreppunnar á árinu 2008 varð talsverður samdráttur í fjárfestingum atvinnuvega vegna mikillar skuldsetningar fyrirtækja og skorts á lánsfjármagni. Frá 2011 hefur verg landsframleiðsla hins vegar aukist samfellt og fjárfesting atvinnuvega vaxið að sama skapi en er þó enn lítil í sögulegu samhengi. Eins og fram kemur í spám Seðlabanka Íslands og hjá ýmsum greiningaraðilum er áhyggjuefni að hagkerfið verði á næstu árum keyrt áfram af innlendri eftirspurn sem leitt geti til þess að þjóðhagslegur sparnaður mun minnka á ný og viðskiptaafgangur snúast í halla. Til að sporna við þeirri þróun er mikilvægt að renna styrkari stoðum undir fjárfestingar sem skapa auknar útflutningstekjur til framtíðar og viðhalda eðlilegum vexti fyrir íslenskt hagkerfi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. maí 2013 segir: ,,ríkisstjórnin mun leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sérstök áhersla verður lögð á vöxt útflutningsgreina, nýsköpun og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar, auk þess að tryggja jafnræði gagnvart lögum.“ Nái frumvarpið fram að ganga mun það því fylgja stefnumarkmiðum ríkisstjórnarinnar eftir og efla samkeppnishæfni Íslands hvað fjárfestingu varðar.

2.3 Mikilvægi ríkisstyrkja í samkeppni um nýfjárfestingu.
    Vegna skuldbindinga Íslands að EES-rétti hafa íslensk stjórnvöld takmarkaðar heimildir til að veita ríkisstyrki til nýfjárfestinga. Meginregla EES-samningsins um ríkisaðstoð kemur fram í 61. gr. samningsins og kveður á um að ekki er heimilt að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni, svo sem með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Frá þessu eru þó undantekningar, t.d. ef aðstoðin er á grundvelli byggðaaðstoðar eins og kveðið er á um í 6. gr. frumvarpsins. Í leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um svæðisbundna byggðaaðstoð fyrir 2014–2020 eru settar auknar takmarkanir við ríkisstyrkjafjárhæð sem veitt er á grundvelli byggðaaðstoðar til stórra fyrirtækja eins og kveðið er á um í 7. gr. frumvarpsins. Í samræmi við leiðbeinandi reglur ESA er fjárhæð ríkisstyrkja reiknuð í hlutfalli við fjárfestingarkostnað verkefnis að frádregnum fjármagnskostnaði. Ef fjárfestingarkostnaðurinn er umfram 50 milljónir evra lækkar hlutfall leyfilegrar hámarksaðstoðar í samræmi við heildarfjárfestingarkostnað. Það er því ekki sjálfgefið að heimilt sé að veita stóru fjárfestingarverkefni ívilnanir sem nema 15% af fjárfestingarkostnaði.
    Allmörg ríki hafa um áratuga skeið beitt ívilnunum með það að markmiði að hvetja til nýfjárfestinga og beina þeim á tiltekin svæði. Í frumvarpi þessu eru lagðar til ákveðnar ívilnanir sem heimilt verður að veita til nýfjárfestinga hér á landi. Samkeppni við að laða að nýfjárfestingar getur verið hörð og mun mögulega verða meiri á næstu árum en verið hefur. Ísland hefur þó áhugaverða kosti fyrir fjárfesta, svo sem endurnýjanlega orku á samkeppnishæfu verði, gott afhendingaröryggi rafmagns, landsvæði, vatnsauðlindir og vel menntað og öflugt vinnuafl. Fyrri reynsla hefur sýnt að fjárfestingarsamningar sem ráðherra er heimilt að undirrita fyrir hönd ríkisstjórnarinnar geta haft mikið að segja fyrir trúverðugleika og framgang nýfjárfestingarverkefnis.
    Heildarfjárhæð veittrar ríkisaðstoðar, fyrir utan sértækar aðgerðir vegna fjármálakreppunnar og í samgöngum, hefur hækkað í hlutfalli við verga landsframleiðslu bæði hér á landi og víða erlendis. Á Íslandi var hlutfall ríkisstyrkja árið 2012 um 0,25% af vergri landsframleiðslu á móti 0,12% á árinu 2007. Til samanburðar var hlutfall ríkisstyrkja í Noregi um 0,69% árið 2012 á móti 0,42% á árinu 2007. Ef tekið er mið af Evrópusambandsríkjunum hefur fjárhæð ríkisaðstoðar verið um 0,69% að meðaltali af vergri landsframleiðslu.

2.4 Nauðsyn þess að veita sérstakar ívilnanir til nýfjárfestinga utan höfuðborgarsvæðisins.
    Nýfjárfesting á landsbyggðinni getur haft veruleg áhrif til að bæta stöðu hennar og mikilvægt er að stjórnvöld hafi tæki á borð við ívilnanir til að beina nýfjárfestingum að þessum svæðum til að styðja við þróun þeirra um allt land. Samkvæmt byggðakorti fyrir Ísland samþykktu af ESA er heimilt að veita ríkisstyrki vegna fjárfestingarverkefna í landsbyggðarkjördæmunum þremur, þ.e. Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi..
    Mikil og viðvarandi fækkun íbúa hefur átt sér stað um margra áratuga skeið í smærri byggðakjörnum og dreifbýli innan þeirra kjördæma sem heimilt er að veita ríkisaðstoð. Slík hnignun á sér almennar skýringar á borð við auknar kröfur um þjónustu, hækkandi menntunarstig og sérhæfðara vinnuafl og sértækar skýringar á borð við samdrátt, samþjöppun og tæknibreytingar í landbúnaði og sjávarútvegi. Á tuttugu ára tímabili frá 1993 til 2013 hefur íbúum fækkað mest á Vestfjörðum eða um 26% og á Norðurlandi vestra um 16,8%. Einnig hefur fækkað á Austurlandi um 2,1% þrátt fyrir byggingu álvers í Reyðarfirði. Fjölgun er á Norðurlandi eystra um 1,6%, á Vesturlandi um 6,4% og á Suðurlandi um 12,5%. Mest var fólksfjölgunin á Suðurnesjum eða um 37% og á höfuðborgarsvæðinu 35,5%. Þessar tölur endurspegla fyrst og fremst áhrif höfuðborgarsvæðisins þar sem skilyrði eru fjölbreytt til náms, starfa, afþreyingar og þjónustu. Þessi skilyrði skapast að nokkru af íbúafjöldanum sjálfum og þar með að höfuðborgarsvæðið verður oftast fyrir valinu sem starfsstöð fyrirtækja.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Áhugavert er að skoða samfélagsleg áhrif af uppbyggingu stóriðju á Austurlandi í ljósi þess að þar var engin slík starfsemi árið 2003. Mannfjöldaþróun á Mið-Austurlandi er gott dæmi um þróunina frá því áður en uppbygging tengd stóriðju hófst og fram til þess að áhrifa hennar gætti ekki lengur. Í raun eru heildaráhrifin meiri en tölur gefa til kynna þar sem á tímabilinu varð mikil breyting í öðrum atvinnuvegum, svo sem hagræðing í sjávarútvegi með mikilli tæknivæðingu og fækkun starfa í fiskvinnslu. Þrátt fyrir íbúafækkun á Austurlandi á tuttugu ára tímabilinu leiddu stóriðjuframkvæmdirnar til þess að íbúum á Mið-Austurlandi fjölgaði frá 2003 til 2013 varanlega um 1.058 manns.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þrátt fyrir að tilkoma þekkingariðnaðar efli getu svæðanna til vaxtar og styrki tilvist þeirra til lengri tíma litið þá er munur á menntunarstigi milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar talsverður. Sé mið tekið af háskólanámi er menntunarstig kvenna hærra en karla á öllu landinu. Þetta hefur breyst mjög hratt á síðustu árum. Á höfuðborgarsvæðinu eru konur nú um 60% háskólanema. Sókn þeirra í raungreinar hefur aukist, t.d. í verkfræði, tölvunarfræði og raunvísindi, þótt enn séu þær þar í minni hluta. Þetta er mjög jákvæð þróun út frá atvinnulegu tilliti á landsvísu. Á móti vega þær afleiðingar að konur flytjast frekar í burtu til náms og snúa ekki heim að því loknu þar sem framboð á störfum fyrir langskólagengið fólk er lítið. Þetta er stórt vandamál fyrir framþróun atvinnulífs á landsbyggðinni og byggðaþróunina almennt. Til viðbótar er mikill vandi vegna óhagstæðrar aldurssamsetningar íbúanna. Börnum á grunnskólaaldri fækkar víða hratt en eldri borgurum fjölgar. Vísbendingar eru um að þessi þróun verði hraðari á næstu árum.
    Af framangreindu má ráða að verulegur munur er milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar hvað varðar möguleika til atvinnusköpunar, vaxtar atvinnulífsins og varðandi ýmis félagsleg gæði. Tilgangur ívilnana til svæða utan höfuðborgarinnar er að jafna þetta misvægi með því að styrkja byggð í landinu með nýsköpun og atvinnuþróun. Ný áhugaverð störf sem höfða til hæfileikaríks fólks, eins og þeirra sem lokið hafa háskólanámi, skapa alveg ný sóknarfæri fyrir landsbyggðina. Lykilatriði er að efla menntun í heimabyggð og auka framboð á áhugaverðum, krefjandi og vel launuðum störfum. Það hækkar þekkingarstigið og getu til að takast á við flóknari og betur launuð störf á nýjum sviðum. Síðustu áratugi hefur of lítið áunnist í eflingu landsbyggðarinnar og sókn hennar í þekkingu á nýjum sviðum. Til að sú staða breytist er brýn þörf á auknum fjárfestingum sem sameinað geta einangruð vinnusóknarsvæði og byggt upp nægilega öflugan sóknarkjarna til að rjúfa kyrrstöðuna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í sex kafla og eins og áður hefur komið fram byggist það á grunni eldri laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sem féllu úr gildi um sl. áramót.
    Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um markmið og gildissvið laganna. Eins og áður hefur komið fram þá er markmið laganna að örva og efla nýfjárfestingu á Íslandi með því að efla samkeppnishæfni Íslands og styrkja íslenskt atvinnulíf. Í kaflanum er að finna ákvæði um gildissvið laganna og heimildir ráðherra til að undirrita samning um ívilnanir til viðkomandi fjárfestingarverkefnis fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og eftir atvikum sveitarfélaga. Jafnframt er í kaflanum að finna skilgreiningar á helstu hugtökum er fram koma í frumvarpinu.
    Í II. kafla frumvarpsins er kveðið á um umsóknarferli vegna ívilnana sem og skilyrði fyrir veitingu ívilnana. Lagt er til að fjárfesti sem óskar eftir ívilnun í tengslum við ákveðið fjárfestingarverkefni verði gert að leggja fram umsókn til sérstakrar nefndar á vegum ráðherra um veitingu ívilnana sem nánar er fjallað um í V. kafla frumvarpsins.
    Í 5. gr. frumvarpsins er tilgreint hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt þegar lagt er mat á það hvort veita eigi ívilnun vegna fjárfestingar samkvæmt lögunum. Skilyrðin eru að mestu sams konar og í 5. gr. eldri laga en gerðar hafa verið auknar kröfur í nokkrum þáttum sem sérstaklega er gerð grein fyrir í athugasemdum við greinina. Markmið þessara skilyrða er að stuðla að því að eingöngu sé veitt ívilnun til fjárfestingarverkefna sem leiði til raunverulegrar eflingar íslensku atvinnulífi og hafi jákvæð efnahagsleg jafnt sem samfélagsleg áhrif í för með sér. Að auki eru skilyrðin í samræmi við þær reglur sem gilda á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um veitingu ríkisaðstoðar í formi fjárfestingaraðstoðar, sbr. leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um byggðaaðstoð.
    Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um byggðaaðstoð og hvaða ívilnanir séu heimilaðar á þeim grundvelli. Ákvæði kaflans taka mið af áðurgreindum leiðbeinandi reglum um byggðaaðstoð, bæði hvað varðar hámark leyfilegrar aðstoðar og hvað varðar þær ívilnanir sem lagt er til að heimilt verði að veita. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að veita umrædda byggðaaðstoð sem frávik frá tilteknum sköttum og opinberum gjöldum eða sem niðurgreiðslu á landi eða lóð undir nýfjárfestingu. Þær ívilnanir sem snúa að sköttum eða opinberum gjöldum eru binding 15% hámarkstekjuskattshlutfalls þess félags sem reisir og rekur fjárfestingarverkefnið í tíu ár, auknar heimildir til fyrningar eigna, 50% lækkun á fasteignaskatti, 50% lækkun á almennu tryggingagjaldi, undanþága frá tollum og vörugjöldum vegna innflutnings og kaupa viðkomandi félags á byggingarefnum, vélum, tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess. Framangreindar ívilnanir endurspegla ívilnanir í fyrri fjárfestingarsamningum og ívilnanir samkvæmt eldri lögum um sama efni.
    Í IV. kafla frumvarpsins er lagt til, í samræmi við lög nr. 99/2010 og fyrri fjárfestingarsamninga vegna nýfjárfestinga, að í samningi um veitingu ívilnunar verði heimilt að kveða á um að viðkomandi félag sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið skuli undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur það skilyrði að 4/ 5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar, undanþegið ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi, undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum, og undanþegið ákvæðum laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, enda viðhaldi félagið fullnægjandi viðlagatryggingu.
    Í V. kafla frumvarpsins er kveðið á um þá nefnd sem leggja ber mat á hvort og með hvaða hætti veita eigi ívilnanir til nýfjárfestinga á grundvelli laganna. Ákvæði kaflans eru efnislega sambærileg V. kafla eldri laga um sama efni að því undanskildu að gerðar eru auknar kröfur til umræddrar nefndar, bæði hvað varðar þekkingu þeirra aðila sem þar sitja og til starfsemi nefndarinnar. Þannig er t.d. lagt til að ef nefndin leggur til boð um ívilnun skuli koma fram rökstuðningur fyrir nauðsyn ívilnunar til verkefnisins og tillaga um það hve há ívilnun skuli vera. Lagt er til að áður en nefndin geri tillögu til ráðherra geti hún óskað þess að óháður sérfróður aðili leggi mat á fjárfestingarverkefnið og arðsemi þess. Þá eru með 14. gr. gerðar auknar form- og efniskröfur til þeirra samninga sem gerðir eru á grundvelli laganna. Þá er jafnframt lagt til að eftirlit með réttri notkun ívilnunar samkvæmt lögunum verði aukið frá því sem áður hefur verið. Er það í takt við markmið ríkisstjórnarinnar um aukna ráðdeild í ríkisfjármálum og í samræmi við markmið leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um byggðaaðstoð.
    Í VI. og síðasta kafla þessa frumvarps er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd laganna og gildistöku.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá.
Í 61. gr. EES-samningsins kemur fram sú meginregla að óheimilt er að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Í sömu grein er einnig fjallað um undanþágur frá meginreglunni, þar á meðal um heimildir stjórnvalda til að veita ívilnanir á grundvelli byggðaaðstoðar. Til fyllingar þessu hefur Evrópusambandið gefið út leiðbeinandi reglur um byggðaaðstoð. Nýjar leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um svæðisbundna byggðaaðstoð fyrir árin 2014–2020 taka gildi 1. júlí 2014 og eru þær tillögur sem hér eru lagðar til í samræmi við þær. Aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins geta fengið samþykkt sérstakt byggðakort sem afmarkar hvaða byggðaaðstoð er heimil hjá viðkomandi ríki. Samkvæmt því byggðakorti, sem gildir fyrir Ísland í dag, mega stjórnvöld veita byggðastyrki til verkefna í landsbyggðarkjördæmunum þremur, þ.e. Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Stjórnvöld hafa óskað eftir að gildandi byggðakort verði endurnýjað óbreytt til ársins 2020. Öll áform um veitingu byggðaaðstoðar á grundvelli byggðakortsins, og þar af leiðandi á grundvelli frumvarps þessa, ber að tilkynna til ESA og hefur ESA verið upplýst um efni frumvarpsins. Í samræmi við málsmeðferðarreglur ESA er lagt til í gildistökuákvæði frumvarpsins að lögin öðlist þegar gildi en fjárfestingarsamningar sem gerðir eru á grundvelli laganna öðlist ekki gildi fyrr en samþykki ESA liggur fyrir á ákvæðum laganna og því ríkisaðstoðarkerfi sem í þeim felst.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, Íslandsstofu, Samband íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnun.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er talið að frumvarp þetta hafi í för með sér umtalsverð áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun fylgjast með framkvæmd laganna og samninga gerðra á grundvelli þeirra. Allir samningar sem grundvallast á lögunum verða birtir í heild sinni á vef ráðuneytisins og í Stjórnartíðindum. Ráðuneytið mun hlutast til um að samningar og efni laganna verði tilkynnt skattyfirvöldum og innheimtumönnum ríkissjóðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin er nær samhljóða 1. gr. eldri laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Greinin er nær samhljóða 2. gr. eldri laga að því undanskildu að nýjum málslið er bætt við greinina sem kveður á um að lögin nái ekki til ívilnana til flugvalla eða til verkefna á sviði orkuframleiðslu. Er það í samræmi við skuldbindingar Íslands að EES-rétti en sérstakar reglur gilda um ívilnanir á þessum sviðum.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna skilgreiningar á helstu hugtökum sem fram koma í frumvarpstextanum. Um er að ræða skilgreiningar á sömu hugtökum og voru skilgreind í 3. gr. eldri laga. Skerpt hefur verið á nokkrum skilgreininganna en ekki er um efnisbreytingar að ræða.
    Helsta breytingin er varðandi skilgreiningu á hugtakinu byggðakort. Þar sem núgildandi byggðakort féll úr gildi 31. desember 2013 og ekki liggur fyrir formleg ákvörðun ESA um nýtt byggðakort er nauðsynlegt að skilgreina hugtakið byggðakort með öðrum og almennari hætti. Núverandi skilgreining vísar í ákvörðun ESA nr. 378/06/COL og byggðakort fyrir tímabilið 2008–2013. Þessar tilvísanir eru felldar brott en í staðinn er notuð almenn skilgreining á hugtakinu byggðakort, sem er í samræmi við þá skilgreiningu sem er í lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Um 4. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 4. gr. eldri laga að öðru leyti en því að lagt er til að nefnd um veitingu ívilnana útbúi sérstakt eyðublað sem umsækjendur um ívilnanir skulu fylla út. Eyðublaðið skal vera í samræmi við III. viðauka leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um svæðisbundna byggðaaðstoð.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt frumvarpinu og er það svipað 5. gr. eldri laga. Þær orðalagsbreytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðinu miða að því að auka upplýsingaskyldu umsóknaraðila og að betur sé gerð grein fyrir áhrifum fjárfestingarinnar.
    Í eldri lögum var kveðið á um að a.m.k. 65% af fjárfestingarkostnaði séu fjármögnuð án ríkisaðstoðar en með frumvarpinu er lagt til að mörkin verði hækkuð upp í 75% til samræmis við leiðbeinandi reglur ESA um svæðisbundna byggðaaðstoð.
    Að auki er með k-lið greinarinnar lagt til að umhverfismat vegna verkefnisins hafi farið fram sé slíkt mat nauðsynlegt samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006, með síðari breytingum. Óheppilegt þykir að gerðir séu fjárfestingarsamningar vegna verkefna þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða umhverfismats.

Um 6. gr.

    Greinin fjalla um heimildir stjórnvalda til að veita ívilnanir á grundvelli leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um svæðisbundna byggðaaðstoð. Eins og áður sagði taka nýjar leiðbeinandi reglur um þessi mál gildi í sumar og munu að óbreyttu gilda til ársins 2020. Frumvarp þetta tekur mið af þeim reglum og munu allir samningar sem gerðir verða á grundvelli þess vera í samræmi við þær reglur.

Um 7. gr.

    Greinin fjallar um hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar og byggist á 7. gr. eldri laga að viðbættum ítarlegri skilyrðum sem þarf að sýna fram á þegar um fjárfestingar stórra fyrirtækja er að ræða.

Um 8. gr.

    Með greininni er kveðið á um ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum.
    Í upptalningu 2. mgr. er í fyrsta lagi lagt til að tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skuli í tíu ár frá því að skattskyldar tekjur myndast hjá félagi vera 15%. Lækki hið almenna tekjuskattshlutfall á tímabilinu niður fyrir framangreint hlutfall skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið. Sambærilegt ákvæði er að finna í núgildandi fjárfestingarsamningum og veitir það fjárfesti ákveðið rekstrarlegt öryggi gegn hugsanlegum tekjuskattshækkunum á fyrstu tíu árum framkvæmdarinnar.
    Í öðru lagi er kveðið á um heimild til að fyrna nýjar eignir á því ári þegar þær eru teknar í notkun, í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar. Sams konar ákvæði var í eldri lögum.
    Önnur ákvæði greinarinnar eru samhljóða þeim er voru í 9. gr. eldri laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Greinin er samhljóða 10. gr. eldri laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Greinin er nær samhljóða 16. gr. eldri laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Greinin er að mestu svipuð 17. gr. eldri laga að því undanskildu að gerð er aukin krafa um sérþekkingu þeirra aðila sem nefndina skipa. Þá er nefndinni jafnframt gert skylt að setja sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir.

Um 12. gr.

    Greinin fjallar um mat á arðsemi og ákvæði hennar byggjast á 18. gr. eldri laga. Sú breyting er lögð til að í stað þess að Íslandsstofa framkvæmi mat á arðsemi verði nefndinni veitt heimild til að fela óháðum sérfróðum aðila að leggja mat á verkefnið og arðsemi þess telji hún slíkt nauðsynlegt. Íslandsstofa hefur, með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin er af tilhögun framkvæmdar fyrri ívilnanalaga beðist undan því að framkvæma mat á arðsemi þeirra verkefna sem sækja um ívilnanir þar sem slík vinna fer ekki saman við meginhlutverk Íslandsstofu, að kynna Ísland fyrir erlendum fjárfestum og laða ný verkefni til landsins.

Um 13. gr.

    Með greininni er lagt til að nefnd skv. 11. gr. skuli gera tillögu til ráðherra um að hafna beiðni um ívilnun eða að leggja fyrir umsækjanda tilboð um ívilnun. Með frumvarpinu eru lagðar auknar kröfur á nefndina um mat á verkefninu og rökstuðning fyrir nauðsyn ívilnunar umfram það sem var gert í lögum nr. 99/2010. Þannig er tiltekið í greininni að ef nefndin leggur til við ráðherra að umsækjanda verði boðin ívilnun skal hún setja fram rökstuðning fyrir nauðsyn ívilnunar og jafnframt tiltaka hversu mikil ívilnun skuli vera. Í þessu felst að ívilnunin skal vera nægjanleg til þess að hún hafi tilætluð áhrif þannig að verkefnið verði að veruleika.

Um 14. gr.

    Greinin er samhljóða 21. gr. eldri laga að því undanskildu að lagt er til að í samning um veitingu ívilnunar skuli koma fram hvert hámark þeirrar ívilnunar sem veitt er til verkefnisins skuli vera samtals.

Um 15. gr.

    Greinin er samhljóða 23. gr. eldri laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Um eftirlit með notkun ívilnunar var fjallað í 24. gr. eldri laga og byggist tillaga þessarar greinar á henni. Heimildir ráðuneytisins til þess að krefjast upplýsinga hafa verið auknar og jafnframt er með greininni lögð sú skylda á sveitarfélög að upplýsa ráðuneytið um þá ríkisaðstoð sem þau veita til einstakra verkefna.

Um 17. gr.

    Greinin fjallar um afturköllun og/eða endurgreiðslu ívilnunar og er hún að mestu samhljóða 25. gr. eldri laga og þarfnast því ekki skýringa með einni undantekningu. Lagt er til að lögboðið verði að sá sem nýtur ívilnana á grundvelli laganna þurfi að endurgreiða að fullu allar þær ívilnanir sem hann hefur fengið ef verkefnið verður ekki að veruleika eða er frábrugðið því verkefni sem stefnt var að með veitingu ívilnunar innan fimm ára frá því að samningur um ívilnun tekur gildi.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en komi ekki til framkvæmda fyrr en samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA liggur fyrir. Um ástæður þess að samþykki ESA þarf fyrir breytingunum vísast til almennra athugasemda frumvarpsins. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið er lagt til að um tímabundna löggjöf verði að ræða, til 31. desember 2020. Er sú dagsetning lögð til þar sem á sama tíma fellur úr gildi núgildandi byggðakort fyrir Ísland, sem afmarkar heimildir íslenskra stjórnvalda til að veita byggðaaðstoð. Að auki eru aðrar þær heimildir til veitingar ríkisaðstoðar sem frumvarpið vísar til í stöðugri endurskoðun af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og ESA. Þykir því eðlilegt að lögin séu tímabundin.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

    Með frumvarpinu er lögð til heildstæð löggjöf sem ætlað er að mynda ramma utan um þær ívilnanir sem stjórnvöldum og sveitarfélögum verði heimilt að veita vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Markmiðið með frumvarpinu er að örva og efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi en í grunninn byggist frumvarpið á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 99/2010, sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Þau lög tóku gildi um mitt ár 2010 og á grundvelli þeirra laga voru undirritaðir sex fjárfestingarsamningar en þar af hafa fjögur verkefni þegar komið til framkvæmda. Tilgangurinn með frumvarpinu, eins og fyrri rammalöggjöf, er einnig að gera fyrirkomulag þessara mála skilvirkara og hraðvirkara með því móti að ekki þurfi að setja sérlög á Alþingi og fá samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir hverju fjárfestingarverkefni.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins eru í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að sett verði ákveðin skilyrði fyrir ívilnunum. Í skilyrðunum felst t.d. að a.m.k. 75% af fjárfestingarkostnaði verði fjármögnuð án ríkisaðstoðar og að þar af verði að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun. Auk þess þarf árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis að nema a.m.k. 300 m.kr. eða nýfjárfestingin að skapa a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess. Þá er sett það skilyrði í frumvarpinu að arðsemisútreikningar vegna nýfjárfestingar liggi fyrir auk þess sem gert er ráð fyrir að umsóknaraðilar um ívilnun þurfi að sýna fram á að án ívilnana verði fjárfestingin ekki arðbær. Í öðru lagi eru lagðar til sérstakar ívilnanir sem flokkast undir byggðaaðstoð, þ.e. ívilnanir sem takmarkist við ákveðin svæði á Íslandi þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið og með samþykki ESA. Almennt er gert ráð fyrir að ívilnanir geti numið allt að 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki er hámark ívilnunar 35% af fjárfestingarkostnaði. Helstu frávik í frumvarpinu frá almennum ákvæðum laga um skatta og gjöld eru þau að gert er ráð fyrir að félag sem stofnað er um nýfjárfestingu og uppfyllir öll skilyrði laganna fyrir veitingu ívilnunar skuli njóta 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20%. Þá er mælt fyrir um að ef almenna tekjuskattshlutfallið lækkar á tilgreindu tímabili undir fyrrgreint hlutfall skuli lægra skatthlutfallið gilda. Í frumvarpinu er kveðið á um heimild félagsins til að fyrna eignir á því ári sem þær eru teknar í notkun í hlutfalli við notkun. Þá er gert ráð fyrir að skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skuli vera 50% lægra en lögbundið lágmark kveður á um auk þess sem gert er ráð fyrir að almennt tryggingagjald viðkomandi félags skuli vera 50% lægra en lög um tryggingagjald, nr. 88/2005, gera ráð fyrir. Jafnframt eru lagðar til undanþágur frá tollum og vörugjöldum vegna innflutnings og kaupa viðkomandi félags á byggingarefnum, vélum, tækjum o.fl. vegna tiltekins fjárfestingarverkefnis. Þær ívilnanir sem lagðar eru til í frumvarpinu felast þannig í frávikum frá sköttum og gjöldum, þ.e. í tekjum sem ríkissjóður verður af eða svonefndum skattastyrkjum, fremur en í formi beinna útgreiðslna sem færast á gjaldahlið ríkissjóð. Í þriðja lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að þriggja manna nefnd hafi það hlutverk að fara yfir umsóknir um ívilnun. Nefndin leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru og gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu mála. Kostnaður við nefndina hefur verið óverulegur hingað til og er ekki gert ráð fyrir að breyting verði þar á með gildistöku þessa frumvarps.
    Eins og áður segir byggist frumvarpið í grunninn á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 99/2010, sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu frá þeim lögum eru að tekjuskattshlutfall viðkomandi félags verður 15% í stað 18%, auk þess sem gert er ráð fyrir að ef almenna tekjuskattshlutfallið lækkar á tilgreindu tímabili undir fyrrgreint hlutfall skuli lægra skatthlutfallið gilda fyrir viðkomandi félag. Einnig má nefna að í frumvarpinu eru færri frávik frá skattalögum en í þágildandi lögum, en það skýrist aðallega af brottfalli laga síðan þá, t.d. laga um iðnaðarmálagjald, eða breytingum á lögum, svo sem lögum um stimpilgjald. Þá snýr frumvarpið eingöngu að byggðaaðstoð í samræmi við byggðakort ESA og felur það því ekki í sér sérstakan kafla um almennar ívilnanir óháð staðsetningu fjárfestingarverkefnis eins og var í fyrri ívilnunarlögunum, t.d. varðandi ívilnun vegna þjálfunarkostnaðar nýfjárfestingar, vegna rannsóknar- og þróunarverkefna eða vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna. Er því frumvarpið einfaldara í sniðum hvað þetta varðar. Hér er þó ástæða til að vekja athygli á því að það ríkisstyrkjakerfi sem komið var á fót með fyrri ívilnunarlögunum var sett formlega í rannsókn hjá ESA í lok apríl 2013 og að þeirri rannsókn er ekki lokið. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er með sama hætti háð samþykki ESA. Í þessu sambandi er einnig bent á að fyrirhugað er að endurskoðuð reglugerð ESB um svokallaðar almennar hópundanþágur mun taka gildi á EES- svæðinu í júlí á þessu ári. Reglugerðin kveður á um ívilnanir sem unnt er að hrinda í framkvæmd án þess að skylt verði að leita samþykkis ESA.
    Þó að markmiðið með frumvarpinu sé að örva og efla nýfjárfestingar í atvinnurekstri á Íslandi verður ávallt erfitt að leggja sjálfstætt mat á hvort sumar eða jafnvel flestar nýfjárfestingar á næstu árum hefðu einvörðungu farið fram fyrir tilstilli þeirra ívilnana sem lagðar eru til í frumvarpinu. Í einhverjum tilvikum gætu tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga orðið minni en ella þar sem gera má ráð fyrir að sumar nýfjárfestingar gætu uppfyllt skilyrði til ívilnana þó að ívilnunin sem slík hafi ekki ráðið úrslitum um fjárfestinguna. Við kostnaðar- og ábatamat væri varla heldur gengið út frá forsendu um að framleiðsluþættir á borð við vinnuafl væru að öðrum kosti ónýttir heldur að gera þyrfti ráð fyrir einhverjum ruðningsáhrifum vegna starfseminnar. Tilgangurinn með frumvarpinu er hins vegar að örva og efla fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi. Ef það gengur eftir og farið verður í auknar nýfjárfestingar hér á landi, sem ella hefði ekki verið ráðist í, mun það skila sér í auknum skatttekjum ríkissjóðs þegar fram í sækir sem gætu orðið mun meiri en sem nemur tilkostnaðinum. Í tengslum við gerð þessarar umsagnar eru þó ekki forsendur til leggja mat á kostnað og ábata ríkissjóðs vegna ívilnana af þessum toga eða setja fram töluleg viðmið um mögulegar stærðargráður enda mundi það krefjast mun umfangsmeiri úttektar.