Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 19  —  19. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um bráðaaðgerðir í byggðamálum.


Flm.: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller,
Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til bráðaaðgerða til að bregðast við því alvarlega ástandi sem upp er komið í byggðamálum og kallar á tafarlausan stuðning við atvinnuþróun, menntun, velferðarþjónustu og uppbyggingu innviða í landsbyggðunum. Þegar í stað verði hafist handa við eftirfarandi verkefni:
     1.      Byggt verði áfram á aðferðafræði sóknaráætlana landshluta og fjárheimildir sem nú eru vistaðar í ólíkum ráðuneytum sameinaðar. Aukið fjármagn verði veitt til sóknaráætlana og lykiláhrif heimamanna á úthlutun þess tryggð.
     2.      Aukin verði fjárframlög til samgöngumála, sem voru skorin niður við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2014, til samræmis við fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar um vega- og jarðgangagerð og til að hægt sé að standa við samninga um eflingu almenningssamgangna milli ríkis og landshlutasamtaka.
     3.      Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fyrir Alþingi sem fyrst frumvarp um breytingu á lögum um veiðigjöld sem tryggi sjávarbyggðum hlutdeild í tekjum af sérstöku veiðigjaldi og tryggi að aukinn byggðakvóti fari til Byggðastofnunar til að sinna verkefnum tengdum brothættum byggðum.
     4.      Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp að rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga sem útfærð verði á þann veg að hún nýtist sérstaklega uppbyggingu í landsbyggðunum.
     5.      Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp um jöfnun húshitunarkostnaðar sem feli í sér að jöfnunargjald verði lagt á alla notendur raforku, þar á meðal stóriðju og aðra stórnotendur.
     6.      Félags- og húsnæðismálaráðherra leggi fyrir Íbúðalánasjóð að koma ónýttu húsnæði án tafar í not á þeim svæðum þar sem eftirspurn eftir húsnæði er meiri en framboð. Í því skyni verði samið við sveitarfélög um yfirtöku húsnæðis ef þörf er á.
     7.      Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga sem tryggi sveitarfélögum hlutdeild í tekjum af ferðamönnum til að gera sveitarfélögunum sjálfum kleift að byggja upp segla til að draga að ferðamenn og dreifa þannig betur flæði ferðamanna um landið.
     8.      Innanríkisráðherra leggi fyrir Alþingi tímasetta og kostnaðargreinda áætlun um uppbyggingu háhraðatenginga og hringtengingu ljósleiðara um land allt.
     9.      Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fram tímasetta og kostnaðargreinda áætlun um uppbyggingu dreifikerfis raforku til að tryggja afhendingaröryggi og fullnægjandi flutningsgetu um land allt.
     10.      Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp um eflingu á kerfi jöfnunar flutningskostnaðar á þann veg að styrkir taki einnig til verslunar.
     11.      Nægar fjárveitingar verði í fjárlögum til að bæta aðgengi að menntun og tryggja öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu um allt land.

Greinargerð.

    Hér eru lagðar til ellefu aðgerðir sem eru allar í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun sem var samþykkt samhljóða á síðasta þingi (256. mál). Meginmarkmið áætlunarinnar eru að jafna tækifæri landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt.
    Á síðustu árum hefur nýjum vinnubrögðum og nýjum meðulum verið beitt til að sporna gegn neikvæðri fólksfjöldaþróun sem hefur verið viðvarandi þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir og góðan vilja stjórnvalda. Nýjungarnar felast m.a. í gerð sóknaráætlunar 20/20 þar sem í fyrsta sinn var unnin heildstæð sóknaráætlun með víðtæku samráði. Ráðist var í gerð sóknaráætlana landshluta og stefnumótandi byggðaáætlun unnin með nýjum hætti. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð á undanförnum árum og byggist á alþjóðlega viðurkenndu verklagi sem vænlegt er til árangurs.
    Hér eru settar fram tillögur um ellefu aðgerðir sem allar lúta að lausn á bráðum vanda og eru auðveldar í framkvæmd. Margar aðgerðanna voru til umfjöllunar á síðasta þingi en hlutu ekki brautargengi stjórnarmeirihlutans.
    Sérstök athygli er vakin á mikilvægi þess að unnið verði áfram að framgangi tvenns konar nýjunga í byggðamálum. Annars vegar er þar um að ræða sóknaráætlanir landshluta, sem er fjallað um í 1. tölul. tillögugreinarinnar og fela í sér algerlega nýja aðferð við að færa ákvörðunarvald um úthlutun opinbers fjár og forgangsröðun verkefna til heimamanna. Ný ríkisstjórn dró mjög úr þrótti þessa verkefnis og er brýnt að setja á ný í það afl og fé. Hins vegar er tilraunaverkefni milli ríkisins og Byggðastofnunar um stuðning við brothættar byggðir sem hófst árið 2012. Þar hefur verið leitað lausna á nýjan hátt í nánu samstarfi við íbúa byggðarlaga sem standa sérstaklega veikum fótum. Byggðarlögin sem um ræðir eru Raufarhöfn, Bíldudalur, Skaftárhreppur og Breiðdalshreppur.

Neikvæð fólksfjöldaþróun.
    Vel þekktar eru þær staðreyndir að fólksfjölgun á Íslandi hefur verið mun meiri á höfuðborgarsvæðinu en í landsbyggðunum og að fólk flytur úr sveitum í þéttbýli. Árið 2013 bjó mikill meiri hluti íbúa eða 86% á vinnusóknarsvæði höfuðborgarinnar sem markast af Bifröst og Hvolsvelli. Minna þekkt en alvarleg staðreynd um fólksfjöldaþróun sem hefur fengið aukna athygli undanfarin ár er fólksfækkun á stórum svæðum í landsbyggðunum sem eru ekki í grennd við fjölmenna byggðakjarna. Þessi svæði voru skilgreind sem landsvæði í vörn í vinnu stýrinefndar sóknaráætlunar 20/20 árið 2010 af Þóroddi Bjarnasyni, prófessor við Háskólann á Akureyri. Á þessum stóru svæðum bjuggu 7% íbúa landsins árið 2010 og þá hafði þeim fækkað um 9% á tíu ára tímabili. Þau eiga það sammerkt að vera fámenn, dreifbýl, með lágt menntunarstig og meðalaldur fer hækkandi. Samgöngur eru yfirleitt erfiðar, atvinnulíf er einhæft og störfum fer fækkandi.
    Landsvæðum í vörn hefur verið skipt í þrennt: Norðvesturhorn sem nær til Snæfellsness, Dalasýslu, Austur- og Vestur-Barðastrandasýslu, Strandasýslu, Vestfjarða og Húnavatnssýslna. Norðausturhorn sem nær til Norður-Þingeyjarsýslu og Skeggjastaðahrepps og þar eru þéttbýliskjarnarnir Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafjörður. Suðausturströnd sem nær til Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyja, þar eru þéttbýliskjarnarnir Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustur, Vík í Mýrdal og Vestmannaeyjabær.

Um einstaka liði tillögunnar.
Um 1. tölul.
    Lagt er til að aukin völd og ábyrgð færist til heimamanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Það verði gert með því að byggja á aðferðarfræði sóknaráætlunar landshluta. Markmið sóknaráætlunar er að nýta fé betur, auka skilvirkni í samskiptum landshlutasamtaka við ríkisvaldið, stuðla að langtímaáherslum í stefnumótun og tengja þær við stefnu ríkisins í byggðamálum.
    Auka þarf fjárframlög til sóknarætlunar landshluta og færa aðrar fjárheimildir sem eru vistaðar í ólíkum ráðuneytum undir þær. Ástæða er til að minna á umfjöllun atvinnuveganefndar um sóknaráætlanir landshluta í umsögn sinni um stefnumótandi byggðaáætlun á síðasta þingi. Þar kom fram að nefndinni voru það vonbrigði að framlög til sóknaráætlunar voru lækkuð í fjárlögum fyrir árið 2014. Nefndin lagði til að fjárframlög til sóknaráætlunar yrðu aukin (256. mál á 143. þingi).
    Sóknaráætlanir landshluta voru einn af þremur þáttum sóknaráætlunar 20/20 og lá að baki áætluninni mikil og vönduð vinna sem hófst með gerð stöðuskýrslu sem Hagfræðistofnun og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands skrifuðu. Skýrslan var unnin með þátttöku um 150 aðila víðs vegar úr þjóðfélaginu. Við gerð áætlunarinnar var haft samstarf við landshlutasamtök sveitarfélaga. Vinnubrögð og verklag áætlunarinnar voru sótt til þjóðfundarins og gildi hans um heiðarleika, réttlæti og virðingu lögð til grundvallar öllu starfi.
    Við gerð sóknaráætlunar landshluta var landinu skipt í átta hluta, sbr. myndina hér á eftir, og víðtækt samráð haft við íbúa á hverjum stað. Þannig var boðið til þjóðfunda í landshlutunum og fjölmargir landsmenn tóku þátt í þeim, íbúar, hagsmunaaðilar og fulltrúar sveitarstjórna á hverju svæði.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Á fundunum var leitað eftir sérstöðu hvers svæðis að mati heimafólks. Nánar tiltekið var athugað hvar leyndust tækifæri í atvinnumálum, menntamálum og opinberri þjónustu sem önnur landsvæði ættu erfitt með að líkja eftir. Til að gefa þátttakendum dýpri sýn á eigin landsvæði og auðvelda þeim matið lágu fyrir skýrslur með tölfræði um viðkomandi svæði. Gengið var út frá því að á hverjum fundi fyrir sig kæmu fram hugmyndir og tillögur tengdar sérstöðu sem nýtast mættu í sóknaráætlun. Slík áætlun drægi fram helstu möguleika svæðisins til sóknar í atvinnumálum, menntamálum og opinberri þjónustu. Fulltrúar frá landshlutasamtökum sveitarstjórna á hverju svæði fóru að því loknu yfir útkomuna og skiluðu skýrslum til stýrihóps sóknaráætlunar á vordögum 2010. Sóknaráætlun landshluta er því unnin á grundvelli mikillar faglegrar vinnu þar sem aðkoma heimamanna í hverjum landshluta var tryggð og dýrmæt þekking þeirra á svæðunum nýtt.
    Þegar skrifað var undir fyrstu samninga um sóknaráætlanir í mars 2013 var 73 verkefnum úr öllum landshlutum tryggðar 620 millj. kr. Þar af voru 400 millj. kr. fjármagnaðar af ríkinu. Við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2014 voru 101,5 millj. kr. eyrnamerktar sóknaráætlunum landshluta og var það talsverð lækkun frá þeirri áætlun sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði gert ráð fyrir.

Um 2. tölul.
    Greiðar samgöngur eru nauðsynlegar til að byggð vaxi og dafni um allt land. Þess vegna þarf að hverfa frá þeim niðurskurði í samgöngumálum sem Alþingi samþykkti í fjárlögum fyrir árið 2014. Þá var horfið frá áætlunum sem komu fram í fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar um 2,5 milljarða kr. hækkun á fjárveitingum til vega- og jarðgangagerðar sem átti að vera ótímabundin. Til dæmis voru fjárveitingarnar notaðar til að flýta gerð Norðfjarðarganga og sama ætti að eiga við um gerð Dýrafjarðarganga.
    Á síðasta ári stóð ríkið ekki við samninga við landshlutasamtök sveitarfélaga um rekstur almenningssamgangna. Fjárframlög voru skorin niður á milli ára og fylgdu ekki verðlagsbreytingum. Standa þarf við gerða samninga svo að ekki komi til þjónustuskerðinga hjá Strætó bs. sem sér um rekstur almenningssamgangna víðs vegar um landið samkvæmt samningum við landshlutasamtök sveitarfélaga.

Um 3. tölul.
    Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi sem fyrst fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um veiðigjöld, sem tryggi sveitarfélögum hlutdeild í tekjum af sérstöku veiðigjaldi. Á síðustu tveimur þingum var lögð fram tillaga til þingsályktunar um sambærilegt efni (14. mál á 143. þingi og 44. mál á 142. þingi) þar sem m.a. var lagt til að við endurskoðun laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, yrði lagt til að sveitarfélög fengju hlut í sérstöku veiðigjaldi. Málin náðu ekki fram að ganga en árétta ber að í umsögnum mátti sjá yfirgnæfandi stuðning sveitarfélaga við tillöguna.
    Lagabreytingar ásamt tækniframförum hafa leitt til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi með tilheyrandi fækkun starfa og röskun á búsetuforsendum í sjávarbyggðum víða um land. Þjóðfélagið í heild hagnast á hagkvæmum sjávarútvegi en sveitarfélögin greiða fyrir hagræðinguna með fækkun starfa og fækkun íbúa í kjölfarið. Mótvægisaðgerðir sem gripið hefur verið til, svo sem strandveiði og heimild til makrílveiða, hafa ekki dugað til að vega upp á móti þessu. Kvótakerfið með framsalsrétti hefur þannig haft í för með sér samfélagslegan kostnað sem fallið hefur á sjávarbyggðir landsins til þessa í formi atvinnurasks og tekjumissis. Jafnframt hefur hagræðingin leitt til langtímaávinnings fyrir þjóðina í heild, en stór hluti ávinningsins hefur runnið til handhafa veiðileyfanna og hin síðari ár að einhverju leyti til samneyslunnar í formi veiðigjalds.
    Í mörgum sveitarfélögum er sjávarútvegur grundvöllur byggðarinnar og í hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu fælist möguleiki á stuðningi við uppbyggingu innviða og atvinnuþróun og fjölgun starfa bæði í afleiddum greinum sjávarútvegs og á öðrum sviðum. Hlutdeild sveitarfélaga í sérstaka veiðigjaldinu mundi stuðla að starfsöryggi og auknum stöðugleika í sveitarfélögum og betri sátt um gjaldtökuna. Þannig væri stoðum skotið undir samfélög sem eiga sum hver undir högg að sækja. Hlutfall starfa í veiðum og vinnslu er misjafnt eftir sveitarfélögum og taka þarf tillit til þess við ákvörðun á hlutdeild sveitarfélaganna í sérstaka veiðigjaldinu.
    Sjávarauðlindin er ein meginástæða þess að byggð helst um allt land. Rekstur hafna er víða erfiður og bera sveitarfélög mörg hver mikinn kostnað af þeim rekstri sem verður til þess að önnur þjónusta við íbúana geldur fyrir hann. Þjónusta hafnanna við útgerðina er grundvöllur fyrir rekstrinum sem skilar auðlindarentu bæði til ríkisins og til útgerðarinnar. Því er sanngjarnt að sveitarfélög sem standa undir þeim rekstri fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu og vegna hafnanna mætti einnig líta til almenna veiðigjaldsins sem er hugsað sem kostnaðargreiðsla.
    Verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir er mikilvæg tilraun til að styðja byggðarlög sem standa veikt. Sum sveitarfélög sem hafa byggst upp í kringum sjávarútveg eru í erfiðri stöðu og úthlutun byggðakvóta í gegnum verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir getur styrkt stöðu þeirra. Þá er horft sérstaklega til reynslu Raufarhafnar en þangað úthlutaði Byggðastofnun kvóta til þriggja ára. Tryggja þarf Byggðastofnun kvóta til næstu ára til að auka umfang verkefna sinna.

Um 4 tölul.
    Ný ríkisstjórn lét metnaðarfulla rammalöggjöf um ívilnanir falla úr gildi um áramótin 2013–2014 í stað þess að vinna með Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að endurbótum og eflingu hennar. Fyrir liggur að veita má sérstakar ívilnanir vegna nýfjárfestinga innlendra sem erlendra aðila á þeim svæðum sem skilgreind eru á byggðakorti ESA sem svæði sem styðja má sérstaklega.
    Skynsamleg beiting þessara heimilda getur skipt svæði í landsbyggðunum miklu. Byggðakortið viðurkennir þrjú af sex kjördæmum landsins í heild, þ.e. Suðurkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi sem svæði þar sem beita má sérstökum ívilnunum.
    Hér þarf skjótar hendur við að koma á nýrri rammalöggjöf sem samþykkt er af ESA og bætir samkeppnishæfni landsbyggðanna varðandi atvinnuuppbyggingu. Eðlilegt er að hafa rammann rúman enda harðnandi samkeppni og Ísland býr við neikvæða þætti á borð við fjármagnshöft og íslenska krónu.

Um 5. tölul.
    Húshitunarkostnaður á köldum svæðum í landsbyggðunum er mun meiri en í þéttbýli og við því þarf að bregðast. Í 5. tölul. er lagt til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp um jöfnunargjald á dreifingu raforku til að jafna þennan aðstöðumun. Gjaldtakan á að vera almenn og ná til allra, líka stóriðju.
    Árið 2011 kom út skýrsla starfshóps iðnaðarráðuneytis um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar ( www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/frettir2/Tillogur-starfshops.pdf). Meðal tillagna hópsins var að grundvallarbreyting yrði á niðurgreiðslukerfi til húshitunar þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis yrði niðurgreidd að fullu. Hópurinn gerði einnig tillögu um að jöfnunargjald yrði sett á til að mæta niðurgreiðslunni. Þessartillögur starfshópsins eru því í samræmi við það fyrirkomulag sem hér er lagt til.
    Á síðasta þingi lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram sambærilegt frumvarp nema gjaldtakan náði ekki til stóriðju. Það frumvarp varð ekki að lögum, enda miklar athugasemdir gerðar við það af hálfu flutningsmanna þessarar tillögu að stóriðju og öðrum stórnotendum væri hlíft við eðlilegu jöfnunargjaldi. Ef ekki er gripið til neinna aðgerða er útlit fyrir að aðstöðumunur milli þéttbýlis og dreifbýlis aukist vegna yfirvofandi hækkunar gjaldskrár í dreifbýli í kjölfar fækkunar notenda.

Um 6. tölul.
    Lagt er til að Íbúðalánasjóði verði gert að koma ónýttu húsnæði án tafar í not á þeim svæðum þar sem eftirspurn eftir húsnæði er meiri en framboð. Í því skyni er lagt til að samið verði við sveitarfélög um yfirtöku húsnæðis, ef þörf er á.
    Þingflokkur Samfylkingar lagði fram sambærilega tillögu á síðasta þingi (5. mál). Það mál kom til umfjöllunar í velferðarnefnd og lagði meiri hluti hennar til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Var það gert í ljósi þess að félags- og tryggingamálaráðherra hafði þá lýst því yfir að unnið yrði að útfærslu á tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála og frumvörpum þar að lútandi.
    Tryggja þarf að Íbúðalánasjóður sitji ekki til lengri tíma uppi með tómar eignir heldur komi þeim hið fyrsta í útleigu enda húsnæðisþörf mikil víða á landinu og eftirspurn eftir leiguíbúðum mjög mikil.
    Hluti af íbúðum Íbúðalánasjóðs eru leigðar út til fyrri eigenda auk þess sem Íbúðalánasjóður hefur stofnað leigufélagið Klett sem rekur og leigir út um 500 íbúðir víðs vegar um landið. Þó að um gott framtak sé að ræða var heildarfjöldi íbúða Íbúðalánasjóðs í lok janúar sl. rúmlega 2.000 talsins og um 200 þeirra standa tómar. Þá ber mikið á kvörtunum um allt land um að hægt gangi að koma íbúðum Íbúðalánasjóðs í útleigu. Bregðast verður við þessu og setja sjóðnum þröng tímamörk til að bjóða eignir til leigu eða selja þær að öðrum kosti.

Um 7. tölul.
    Fjölgun ferðamanna á undanförnum árum kallar á aukna fjárfestingu sem mun styrkja atvinnulíf í landsbyggðunum. Verja þarf vinsæla ferðamannastaði fyrir ágangi og búa til segla fyrir ferðamenn um allt land. Þannig verður hægt að dreifa ferðamönnum betur um landið og auðveldara verður að taka á móti fleiri ferðamönnum.
    Með 7. tölul. er lagt til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp sem tryggi að tekjur af þeim ferðamönnum sem komi til landsins nýtist í frekari fjárfestingar í ferðaþjónustu um land allt, einskorðist ekki við fjölsóttustu ferðamannastaðina, og að aðkoma sveitarfélaga við útdeilingu þeirra fjármuna verði tryggð, m.a. í gegnum sóknaráætlanir landshluta.
    Á síðasta þingi urðu fyrirhuguð áform um hækkun virðisaukaskatts á gistinætur í ferðaþjónustu að engu. Í úttekt Hagfræðistofnunar HÍ var áætlað að þau áform hefðu skilað yfir 3,2–3,4 milljörðum kr. í viðbótartekjur til ríkissjóðs árið 2012. Þær tekjur áttu m.a. að standa undir kostnaði við uppbyggingu ferðamannastaða og sóknaráætlanir landshluta. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra boðaði strax sumarið 2013 að fjármagna ætti uppbyggingu ferðamannastaða með náttúrupassa, en hefur látið hjá líða að útfæra þær hugmyndir í lagafrumvarpi. Á sama tíma hefur ágangur á ferðamannastaði aukist hröðum skrefum og vandinn orðinn sífellt meiri.

Um 8. tölul.
    Háhraðatengingar þurfa að ná í allar dreifðar byggðir til að tryggja jafnræði á milli svæða við ákvörðun fólks og fyrirtækja um staðsetningu. Fjöldamargar hefðbundnar atvinnugreinar reiða sig nú á öflugt netsamband. Búreikningar í landbúnaði fara um net og vinnslur sækja í sífellt ríkari mæli í útflutning fersks fisks, sem krefst að sjálfsögðu öflugrar sítengingar við erlenda markaði og flutningsaðila. Háhraðatenging er forsenda fjölbreyttra lausna í menntamálum í landsbyggðunum og auðveldar samrekstur menntastofnana um langan veg. Háhraðatengingar eru auk þess mikilvægur stuðningur við nýsköpun, uppbyggingu ferðaþjónustu og annarra atvinnugreina í heimabyggð. Fjölmargar byggðir eru varla í posahæfu sambandi, svo dæmi sé nefnt, og geta því illa nýtt tækifæri í ferðaþjónustu. Háhraðatengingar eru líka forsenda fyrir því að störf án staðsetningar séu aðgengileg um land allt og að unnt verði að dreifa þjónustustörfum um landið, hvort sem um er að ræða opinber störf eða störf í einkageiranum.
    Lagt er til að innanríkisráðherra leggi fram tímasetta og kostnaðargreinda áætlun um uppbyggingu háhraðatengingar um allt land og hringtengingu ljósleiðarans. Víða um land er hægt að auka gríðarlega gagnaflutningsgetu með tiltölulega ódýrri tengingu við ljósleiðarakerfið. Samkvæmt fjarskiptaáætlun á ráðherra að leggja fram aðgerðaáætlun til fjögurra ára eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti en hún hefur ekki litið dagsins ljós á þessu kjörtímabili.

Um 9. tölul.
    Víða í landsbyggðunum er afhendingaröryggi og flutningsgeta raforku ófullnægjandi og kemur í veg fyrir atvinnuuppbyggingu þar sem hennar er helst þörf. Í 9. tölul. er lagt til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggi fram tímasetta og kostnaðargreinda áætlun um uppbyggingu dreifikerfis raforku til að ráða bót á þessum vanda. Vandinn er víða. Minna má á Vestfirði þar sem afhendingaröryggi raforku er mjög lélegt. Á Norðausturlandi er flutningsgeta raforkukerfisins allt of lítil og atvinnuuppbygging því erfið. Dæmi eru jafnvel um að mikilvægur orkufrekur atvinnurekstur sé knúinn áfram með olíu.

Um 10. tölul.
    Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram frumvarp um eflingu á kerfi jöfnunar flutningskostnaðar þannig að það nái líka til verslunar. Það mundi styrkja verslun í landsbyggðunum, hafa jákvæð áhrif á veltu, starfsmannafjölda og þjónustu við neytendur. Markmiðið er aukið jafnræði með íbúum í landsbyggðunum og á þéttbýlum svæðum.
    Lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, sem fela í sér jöfnun flutningskostnaðar, tóku gildi í byrjun árs 2012 og hafa þegar skilað miklum árangri. Þau höfðu það markmið að jafna flutningskostnað framleiðenda sem eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar.

Um 11. tölul.
    Mikilvægt er að grunnþjónusta í mennta- og heilbrigðiskerfinu sé aðgengileg í heimabyggð. Heimamenn þurfa að hafa sem mest að segja um hvernig þjónustan er veitt og geta haft áhrif á samspil hennar við þjónustu sveitarfélaga.
    Við gerð fjárlaga þarf að standa vörð um aðgengi allra íbúa að menntun hvar sem þeir búa. Styrkja þarf framhaldsskóla til að þjóna þörfum nærsamfélagsins og stuðla að uppbyggingu menntasetra. Hér er um að ræða eina mikilvægustu jafnræðisaðgerðina sem stjórnvöld geta gripið til gagnvart æsku landsins.
    Sameiningar heilbrigðisstofnana í þremur heilbrigðisumdæmum taka gildi 1. október nk. og eftir sameininguna fækkar heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi, Suðurlandi og á Vestfjörðum úr ellefu í þrjár. Mikillar óánægju hefur gætt með sameiningarnar þar sem þau sjónarmið hafa komið fram að þessar aðgerðir dragi úr öryggi og þjónustu, og leiði til þess að störf fyrir háskólamenntaða flytjist frá dreifðari byggðum til þéttbýliskjarna. Þannig draga aðgerðirnar líka úr fjölda háskólamenntaðra þjónustustarfa í viðkomandi byggðum. Þrátt fyrir óánægjuna virðist ekkert hafa verið hlustað á óskir eða ráðgjöf heimamanna á hverjum stað.
Skoða verður sérstaklega í fjárlagavinnunni hvort sjónarmið um fjárhagslega hagræðingu koma niður á öryggi sjúklinga og gæðum heilbrigðisþjónustu í landsbyggðunum og hvort sameiningar stofnana hefur neikvæð áhrif á atvinnuþróun í dreifðum byggðum.
    Athuga þarf hvaða áhrif sameining heilbrigðisstofnana hefur á samstarf þeirra og félagsþjónustu sveitarfélaga. Mikilvægt er að gott samstarf sé þar á milli og að heimamenn hafi aðkomu að ákvörðunum heilbrigðisstofnananna sem snúa að samstarfinu. Sérstakt áhyggjuefni er að heilbrigðisráðherra leggi nú til algera öfugþróun í langþráðri samþættingu heilsugæslu og félagsþjónustu með því að leggja af þann samrekstur þessara þátta sem tíðkaður hefur verið á Akureyri um áratugaskeið með góðum árangri. Tryggja þarf að lögum um umdæmissjúkrahús og öfluga grunnþjónustu, þ.m.t. heilsugæslu og þjónustu við aldraða, verði framfylgt og tillit verði tekið til landfræðilegra aðstæðna og erfiðra samgangna.