Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 247  —  218. mál.




Fyrirspurn



til dómsmálaráðherra um framkvæmd tillagna samráðshóps forsætisráðherra
um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði
fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn.

Frá Guðbjarti Hannessyni.


     1.      Hefur verið komið á laggirnar samráðshópi barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds með þátttöku fulltrúa ríkissaksóknara undir sameiginlegri forustu innanríkis- og velferðarráðuneytis eins og samráðshópur forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn, lagði til í skýrslu forsætisráðuneytis í apríl 2013?
     2.      Hafa lögreglu- og sveitarstjórar séð til þess að samstarfsnefndir lögreglu og sveitarstjórna, með þátttöku barnaverndarnefnda, starfi með reglubundnum hætti og fjalli sérstaklega um aðgerðir lögreglu og barnaverndaryfirvalda til þess að bregðast rétt við ef ofbeldisbrot gegn börnum koma upp, sbr. 2. tillögu samráðshópsins? Hafa þessir aðilar komið á reglulegum fundum með saksóknurum og dómstjórum einu sinni til tvisvar á ári eða oftar eins og lagt er til? Hafa komið ábendingar til innanríkis- eða velferðarráðuneytis frá þessum aðilum varðandi þessi mál?
     3.      Er lögð til fjárveiting í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 til áframhaldandi starfa tveggja sérfræðinga sem starfa við rannsóknarviðtöl, greiningu og meðferð barna sem þolað hafa kynferðisofbeldi eða önnur áföll í bernsku, sbr. 4. tillögu hópsins?
     4.      Hefur ráðherra skoðað og tekið ákvörðun um hvort stofna eigi starfseiningu að norrænni fyrirmynd sem sinni stuðningi og ráðgjöf við brotaþola ofbeldis, einingu sem hefði yfirsýn yfir þau úrræði sem væru til staðar fyrir brotaþola, sbr. 8. tillögu hópsins?
     5.      Hefur í samræmi við 9. tillögu samráðshópsins verið tryggð fjármögnun, framhald og útvíkkun vinnu við vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum í samræmi við ákvæði samnings Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun á börnum? Hefur ráðherra tryggt að þessi vitundarvakning verði fest í sessi til frambúðar í þeim anda sem UNICEF og fleiri aðilar hafa lagt til, svo sem með ofbeldisvarnaráði? Hefur verið skipuð verkefnisstjórn og verkefnisstjóri?
     6.      Hefur verið stofnaður rannsóknarsjóður sem nýta má til mats á forvarnaverkefnum eða frekari rannsókna á umfangi og eðli ofbeldis, þ.m.t. kynferðisofbeldis, vanrækslu, heimilisofbeldis og kláms, sbr. 11. tillögu hópsins? Ef svo er, hefur fjármagn verið tryggt í slíkan sjóð?
     7.      Hefur ráðherra í samráði við ráðherra þeirra ráðuneyta sem mynduðu samráðshópinn gert tillögur vegna fræðslu um heimilisofbeldi, lagt á þær kostnaðarmat og gert tillögur til að tryggja þeim nægt fjármagn í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015, sbr. 12. tillögu hópsins?
     8.      Hefur ráðherra gert tillögu um að í fjárlögum fyrir árið 2015 að áfram verði fjármagnaðar stöður fimm rannsóknarlögreglumanna til að mæta brýnni þörf á rannsóknum á kynferðisbrotum, sbr. 16. tillögu hópsins?
     9.      Hefur ráðherra gert tillögu um að í fjárlögum fyrir árið 2015 að áfram verði fjármagnaður viðbótaraðstoðarsaksóknari í rannsóknarbrotadeild embættis lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 17. tillögu hópsins?
     10.      Hefur ráðherra kortlagt og gert tillögur að úrbótum um menntun, þjálfun og endurmenntun lögreglumanna í því að fást við kynferðisbrot, jafnt barna sem fullorðinna, sbr. 18. tillögu hópsins?
     11.      Hefur ráðherra séð til þess að gerðir væru samningar við tvo til þrjá sjálfstætt starfandi sálfræðinga til að sinna handleiðslu eftir fyrir fram ákveðinni forskrift við starfsfólk sem sinnir rannsóknum og saksókn á kynferðisbrotum gegn börnum, sbr. 19. tillögu hópsins? Hefur ríkislögreglustjóri fengið fjármagn til að sinna þessu verkefni?
     12.      Hefur ráðherra tryggt fjármagn og ráðningu viðbótarsaksóknara til að fjölga þeim sem geta sinnt ákærumeðferð kynferðisbrotamála og eftirliti með framkvæmd rannsókna hjá lögreglu, sbr. 20. tillögu hópsins?
     13.      Hversu hárri fjárhæð er áætlað að ráðstafa til framangreindra verkefna á þessu ári og á því næsta samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015?


Skriflegt svar óskast.