Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 437  —  50. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni um kostnað
á greiðslu krafna með gjalddaga eða eindaga sem ber upp á frídag eða helgi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er viðskiptavinur krafinn um greiðslu einhvers kostnaðar eða dráttarvaxta þegar hann greiðir kröfu fyrsta virka bankadag eftir gjalddaga eða eindaga þegar gjalddaga eða eindaga kröfunnar ber upp á frídag eða helgi? Ef svo er, er sá kostnaður skuldfærður á hann og kemur hann fram þegar greitt er?
     2.      Hvernig skuldfærist greiðsla hjá banka þegar gjalddaga eða eindaga ber upp á frídag eða helgi og viðskiptavinur hefur skráð framvirka greiðslu og óskað þar eftir að krafa sé greidd á gjalddaga eða eindaga? Leggst einhver kostnaður eða dráttarvextir á fjárhæð kröfunnar ef skuldfærsla fer fram fyrsta virka bankadag?
     3.      Krefjist banki greiðslu kostnaðar og/eða dráttarvaxta í fyrrgreindum tilvikum, á grundvelli hvaða lagaheimildar er það þá gert?


    Fyrirspurnin varðar framkvæmd fjármálafyrirtækja við innheimtu kostnaðar eða dráttarvaxta undir ákveðnum kringumstæðum. Af því verður ekki ráðið að verið sé að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni, sbr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/ 1991, sbr. og 3. mgr. 49. gr. sömu laga. Ráðuneytið fór þess eigi síður á leit við Samtök fjármálafyrirtækja að þau veittu umbeðnar upplýsingar en það töldu samtökin sig ekki geta gert þar sem þeim væri á grundvelli samkeppnisreglna óheimilt að safna saman upplýsingum um verðlagningu á þjónustu fjármálafyrirtækja.
    Ráðuneytið vekur athygli á þeirri meginreglu sem býr að baki 72. gr. víxillaga, nr. 93/ 1933, um að greiðslu verði ekki krafist fyrr en næsta virka dag á eftir gjalddaga beri gjalddagann upp á löghelgan dag eða dag þegar bankastofnanir eru almennt lokaðar.