Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 459  —  252. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra standa að framkvæmd ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, þar sem segir að ráðherra skuli „eigi síðar en í árslok 2014 leggja fram frumvarp til laga þar sem lagt verður til að lögfest verði að persónuleg notendastýrð aðstoð verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk og skal efni frumvarpsins m.a. taka mið af reynslu og framkvæmd samstarfsverkefnisins?“
    Í ljósi þess að ekki er ennþá komin nægjanleg reynsla á framkvæmd samstarfsverkefnisins um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) hefur ráðherra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga ákveðið að framlengja verkefnið um tvö ár. Ráðherra mun því á næstu vikum leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að boðið verði upp á notendastýrða persónulega aðstoð til reynslu til ársloka 2016 eða þar til endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks verður lokið. Í frumvarpi til endurskoðunar laganna verða m.a. lögð til ákvæði til þess að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð sem þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk.

     2.      Hvernig miðar störfum við faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar? Verður verkefninu lokið fyrir áramót eins og ákvæði laga gera ráð fyrir?
    Vinna við faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu er hafin. Miðað við að ákveðið hefur verið að framlengja samstarfsverkefnið um tvö ár þykir rétt að láta hið faglega og fjárhagslega mat ná yfir lengri tíma en upphaflega var stefnt að. Með því verði hægt að fá dýpri og greinarbetri upplýsingar um það hvernig best verði hægt að haga notendastýrðri persónulegri aðstoð til framtíðar. Matið mun því eiga sér stað á árunum 2014 og 2015 og verða að fullu lokið 2016.

     3.      Hversu oft hefur verkefnisstjórn NPA komið saman til fundar síðan 19. mars 2013?
    Verkefnisstjórn um NPA hefur haldið 15 formlega fundi frá 19. mars 2013.