Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 475  —  332. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn
frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um plastagnir.


     1.      Hvaða reglur gilda um innihald plastefna í snyrti- og hreinlætisvörum sem geta verið ógnun við umhverfið, sérstaklega lífríki hafsins?
    Engar takmarkanir gilda um notkun plastefna samkvæmt reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur, né í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1223/2009, en sú reglugerð var innleidd hér á landi með fyrrnefndu reglugerðinni.
    Samkvæmt viðmiðum Svansmerktra snyrtivara er bannað að nota microplastics í slíkum vörum. Í þeim viðmiðum er microplastics skilgreint sem óuppleysanlegar plastagnir sem eru innan við 1 mm að stærð og brotna ekki niður í lífverum. Sjá nánar um viðmið fyrir Svansmerktar snyrtivörur á eftirfarandi vefslóð:
www.svanen.se/Foretag/Kriterier/kriterie/?productGroupID=53

     2.      Er til opinber listi yfir snyrti- og hreinlætisvörur sem innihalda engar plastagnir?
    Eins og er, er slíkur listi ekki til en vissulega væri mikil hagur af því fyrir neytendur að hafa aðgang að slíkum upplýsingum.

     3.      Ber framleiðendum eða seljendum að merkja vörur af þessu tagi sérstaklega svo að neytendur eigi auðvelt með að átta sig á því að þær innihaldi plast?
    Ekki er skylda að merkja sérstaklega vörur sem innihalda plastefni. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 577/2013, um snyrtivörur, og 19. gr. reglugerðar (EB) nr. 1223/2009 er þó skylt að telja upp öll innihaldsefni snyrtivara í skrá á umbúðum þeirra. Í skrá yfir innihaldsefni skal því koma fram ef plastefni er í snyrtivöru. Í skránni skulu öll efni og efnablöndur talin upp í lækkandi röð eftir þyngd og skulu nöfn þeirra vera samkvæmt alþjóðlega viðurkenndu nafnakerfi, svo sem INCI (alþjóðlegt nafnakerfi fyrir innihaldsefni snyrtivara) eða öðru nafnakerfi. Algengasta plastefnið sem notað er í snyrti- og hreinlætisvörur ber heitið polyethylene, skammstafað PE, sem einnig má nefna polythene samkvæmt INCI-nafnakerfinu.

     4.      Hafa verið gerðar sérstakar mælingar á plastögnum í hafinu umhverfis Ísland? Hafa plastagnir mælst í hafinu?
    Ekki hafa verið gerðar sérstakar mælingar á plastögnum í hafinu umhverfis Ísland. Nýlega var sett á fót verkefni sem miðar að því að kanna hversu mikið af plastögnum berst út í hafið með skólpi. MATÍS tekur þátt í þessu verkefni sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni og er samstarfsverkefni Íslands, Svíþjóðar og Finnlands.
    Í rannsóknarleiðangri sem samtökin 5 Gyres Institute stóð fyrir sl. sumar þar sem siglt var frá Bermúdaeyjum til Íslands og sjósýni tekin til að kanna magn plastagna í hafinu, kom í ljós að plastagnir voru í öllum sýnum sem tekin voru.

     5.      Hversu mikið af plastögnum fer árlega í hafið umhverfis Ísland?
    Ekki hafa verið gerðar þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að meta hversu mikið af plastögnum fer árlega í hafið umhverfis Íslands. Benda má á að plastagnir í hafinu eru bæði afleiðing af niðurbroti plasts í hafinu og örplast sem berst út í hafið. Gera má ráð fyrir að þegar niðurstöður norræna plastagna-verkefnisins liggja fyrir verði hægt að meta að einhverju leyti magn plastagna sem berast í hafið með skolpi.