Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 488  —  276. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni
um stefnu í lánamálum ríkisins.


     1.      Hvernig á að ná því markmiði að skuldir ríkissjóðs verði 70% af vergri landsframleiðslu árið 2017 eins og kemur fram í skýrslu um stefnu í lánamálum ríkisins 2014–2017 sem ráðuneytið gaf út í júlí sl.?
    Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er að lækka skuldir ríkissjóðs eins og kostur er á komandi árum og draga þannig úr íþyngjandi vaxtakostnaði. Því markmiði verður náð með því að ráðstafa auknum jöfnuði í rekstri og andvirði af eignasölu til að greiða niður skuldir auk þess að ganga á innstæður ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Þá gera áætlanir ráð fyrir að skuldabréf í bandaríkjadölum sem fellur á gjalddaga árið 2016 verði einungis endurfjármagnað að hálfu og hinn hlutinn verði greiddur með því að lækka eignir ríkisins í gjaldeyrisforða. Gert er ráð fyrir að með þessum aðgerðum muni hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu batna verulega með lækkun skulda að nafnvirði og auknum hagvexti. Í lok tímabils ríkisfjármálaáætlunar árið 2018 er gert ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs verði rétt undir 60%.

Heildarskuldir og hrein staða ríkissjóðs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Stendur til að selja eignir ríkisins til að greiða niður skuldir þess og ef svo er, hvaða eignir?
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 og ríkisfjármálaáætlun 2015–2018 kemur fram að gert er ráð fyrir að selja allt að 30% eignarhlut ríkisins í Landsbanka á árunum 2015 og 2016 og að andvirði sölunnar verði varið til að greiða niður skuldir.

     3.      Hefur ráðuneytið látið gera áætlun um sölu ríkiseigna?

    Ráðuneytið hefur ekki gert heildstæða áætlun um sölu ríkiseigna. Eina markmiðið um sölu eigna varðar sölu á allt að 30% eignarhlut í Landsbanka en fyrir liggur samþykkt frá Alþingi um sölu eigna í fjármálafyrirtækjum, sbr. lög nr. 155/2012.