Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 495  —  245. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Gunnarsdóttur
um áhrif fækkunar sýslumanna í Norðausturkjördæmi.


     1.      Hversu margir sýslumenn þiggja biðlaun vegna fækkunar sýslumanna í Norðausturkjördæmi samkvæmt lögum nr. 50/2014?
    Enginn.

     2.      Hversu margir starfsmenn sýslumannsembætta fá ekki sambærilega vinnu og þeir voru í fyrir breytinguna sem gildistaka laga nr. 50/2014 veldur?
    Ný embætti lögreglustjóra og sýslumanna á Norðurlandi eystra og Austurlandi munu taka til starfa 1. janúar nk. og er nú unnið að skipulagningu á starfsemi embættanna undir forustu hinna nýju sýslumanna og lögreglustjóra. Niðurstaða í þeim efnum liggur ekki fyrir en ljóst er að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 50/2014 nýtur starfsfólk hinna eldri embætta forgangs í störf hjá nýjum embættum. Markmiðið er að raska högum starfsfólks sem minnst við þessar breytingar.

     3.      Hversu margir starfsmenn sýslumannsembætta í Norðausturkjördæmi hafa verið ráðnir til starfa á öðrum umsýslusviðum ráðuneytisins?
    Eins og áður segir er vinnu við skipulagningu starfa hjá sýslumönnum á Norðurlandi eystra og Austurlandi ekki lokið, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, og því hefur ekki reynt á það enn hvort einstökum starfsmönnum verði boðin störf annars staðar á umsýslusviði ráðuneytisins.

     4.      Hversu há eru framlög ríkissjóðs á hvern íbúa Norðausturkjördæmis vegna sýslumannsembætta?

    Umdæmi embætta sýslumanna Norðurlands eystra og Austurlands munu ná yfir eftirgreind sveitarfélög: Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarkaupstað, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhrepp, Grýtubakkahrepp, Þingeyjarsveit, Skútustaðahrepp, Norðurþing, Tjörneshrepp, Svalbarðshrepp, Langanesbyggð, Seyðisfjarðarkaupstað, Fjarðabyggð, Vopnafjarðarhrepp, Fljótsdalshrepp, Borgarfjarðarhrepp, Breiðdalshrepp, Djúpavogshrepp og Fljótsdalshérað. Samkvæmt upplýsingum af vef Hagstofu Íslands voru íbúar í þessum sveitarfélögum í upphafi ársins samtals 39.448 talsins. Fjárheimildir til embættanna samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 eru 276,8 millj. kr. og fjárheimildir á hvern íbúa í umdæmunum því 7,017 kr.