Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 532  —  177. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Bjarnasyni
um sjóði í vörslu Háskóla Íslands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver var raunávöxtun 25 stærstu sjóða í vörslu Háskóla Íslands árið 2013 miðað við neysluverðsvísitölu, reiknað eins og hjá lífeyrissjóðum, í prósentum og krónum?
     2.      Hver var fjáreignatekjuskattur hvers sjóðs í krónum?
     3.      Hverjar voru styrkveitingar hvers sjóðs í krónum?
     4.      Hverjar voru aðrar tekjur hvers sjóðs?


    Fyrirspurnin var framsend til Háskóla Íslands og óskað eftir upplýsingum. Eftirfarandi svar kom frá Háskóla Íslands.
    Í gegnum tíðina hafa fjölmargir aðilar gefið fé í sjóði til að styðja margvíslega starfsemi
sem tengist Háskóla Íslands. Sjóðirnir eru almennt sjálfseignarstofnanir og starfa samkvæmt skipulagsskrá þar sem m.a. er tilgreint hvaða málefni þeir eiga að styrkja. Í flestum tilfellum renna styrkir til nemenda skólans en einnig þekkjast styrkir til annarra málefna, svo sem rannsókna eða vegna framkvæmda við húsnæði. Undanfarin ár hafa styrkir tíl doktorsnema skipt miklu fyrir uppbyggingu doktorsnáms við skólann.
    Í árslok 2013 töldust 53 slíkir styrktarsjóðir vera að öllu leyti eða að hluta í vörslu Háskóla Íslands. Einn sjóðanna heldur raunar utan um eignir fjölmargra smærri sjóða sem flestir brunnu að mestu upp á verðbólguárunum þannig að undirliggjandi sjóðir eru talsvert fleiri en þetta.
    Margir sjóðanna eru með sjálfstæða stjórn en mjög er mismunandi hve virkar þær eru. Flestar stjómanna taka fyrst og fremst ákvarðanir sem tengjast úthlutun styrkja en nokkrar koma einnig að ákvörðunum um varðveislu og ávöxtun eigna.
    Auk þess styrkja nokkrir sambærilegir sjóðir starfsemi Háskóla Íslands sem ekki eru í vörslu skólans. Af þeim er Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands langstærstur.
    Sjóðir sem eru í vörslu Háskóla Íslands eru fyrst og fremst ávaxtaðir með kaupum á verðbréfum, ýmist beinum kaupum á hlutabréfum eða skuldabréfum eða með kaupum í öðrum sjóðum. Hlutabréfin eru bæði innlend og erlend en skuldabréfin nær eingöngu innlend. Stjórn sjóðanna mótar fjárfestingarstefnu, sem borin er undir háskólaráð, en dagleg eignastýring hefur verið falin fjármálafyrirtækjum.
    Í árslok 2013 nam hrein eign sjóðanna samtals 4.530 millj. kr. Þar af voru 1.832 millj. kr. í vörslu Háskóla Íslands. Af eignum í vörslu háskólans voru verðbréf 1.219 millj. kr., innstæður á bankareikningum 454 millj. kr. og ein fasteign að verðmæti 201 millj. kr. Aðrar eignir voru óverulegar. Fasteignin er í eigu Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr og er haldið utan um rekstur hennar af stjórn þess sjóðs. Miklar innstæður á bankareikningum skýrast að mestu af því að á þessum tíma voru eignir Watanabe-styrktarsjóðsins varðveittar á bankareikningi í bandaríkjadölum, eins og kveðið var á um í skipulagsskrá, samtals 354 millj. kr.
    Verg ávöxtun þeirra eigna sem ávaxtaðar eru með kaupum á verðbréfum fer annars vegar eftir fjárfestingarstefnu og hins vegar þróun eignamarkaða og gengi krónunnar. Hún hefur því eðlilega verið mjög sveiflukennd undanfarin ár. Að meðaltali var verg raunávöxtun (þ.e. umfram verðbólgu) þessara eigna frá árslokum 2002 til ársloka 2013 um 3,2% á ári. Raunávöxtun ársins 2013 olli nokkrum vonbrigðum af ýmsum ástæðum og var undir þessu meðaltali.
    Með vergri ávöxtun er hér átt við þá ávöxtun sem markaðir skila, áður en dreginn er frá kostnaður vegna þjónustu fjármálafyrirtækja við eignaumsýslu og fjármagnstekjuskattur. Hrein raunávöxtun er mun lægri og munar þar mestu um áhrif fjármagnstekjuskatts eins og rakið er nánar fyrir árið 2013 hér á eftir. Fjármagnstekjuskattur er lagður á nafnávöxtun og þegar raunávöxtun er frekar lág en nafnávöxtun talsvert hærri vegna verðbólgu verður slíkur skattur hátt hlutfall af raunávöxtun. Sjóðirnir geta almennt eingöngu veitt styrki út á raunávöxtun eftir skatt samkvæmt ákvæðum í skipulagsskrám þeirra.
    Athygli er vakin á því að útreikningur fjármagnstekjuskatts fyrir sjóði sem þessa getur verið nokkuð flókinn enda eiga sjóðirnir margar mismunandi eignir sem keyptar hafa verið á ýmsu verði á mismunandi tíma. Eignir innan hvers sjóðs geta bæði verið að hækka og lækka innan ársins en fjármagnstekjuskatturinn reiknast aðeins á þann hluta verðbréfasafnsins sem hækkar í verði. Það getur m.a. valdið því að skatthlutfallið verður nokkuð mismunandi hlutfall af nettó-nafnávöxtun hvers árs. Fjármagnstekjuskattur er greiddur af innleystri nafnávöxtun en áætlað er fyrir greiðslum skattsins af óinnleystri ávöxtun innan ársins.
    Kostnaði við eignaumsýslu er haldið í lágmarki en sökum þess hve smáir sjóðirnir eru, t.d. í samanburði við lífeyrissjóði, þá verður hann þó hlutfallslega nokkuð hærri en hjá mun stærri sjóðum. Það sama má segja um annan kostnað við utanumhald, svo sem reikningshald og endurskoðun.
    Sundurliðun fyrir árið 2013 fylgir hér með í töflu. Nafnávöxtun er hér gefin upp að frádregnum þóknunum fjármálafyrirtækja vegna eignaumsýslu en fyrir greiðslu fjármagnstekjuskatts. Nafnávöxtun í krónum er reiknuð sem hrein verðhækkun verðbréfa, arður og vextir á árinu og hlutfallsleg nafnávöxtun sem sú tala í hlutfalli við eign í lok ársins 2012. Raunávöxtun er reiknuð sem nafnávöxtun umfram hækkun vísitölu neysluverðs frá desember 2012 til desember 2013. Fasteign er metin til fjár út frá fasteignamati en aðrar eignir miðað við markaðsverð í árslok.
    Watanabe-sjóðurinn hefur þá sérstöðu að eignir hans eru allar í bandaríkjadölum í samræmi við óskir stofnanda. Tölur um þann sjóð í töflunni eru þó gefnar upp í krónum til samræmis við aðra sjóði en til skýringar fylgja einnig helstu tölur í bandaríkjadölum.
    Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var lengst af í vörslu Eimskipafélagsins en hefur undanfarin ár verið í vörslu Landsbankans. Þótt sá sjóður sé ekki í vörslu Háskóla Íslands eru helstu kennitölur fyrir þann sjóð árið 2013 einnig gefnar upp hér enda skipta styrkir úr þeim sjóði miklu fyrir starfsemi Háskólans.
    Svör við fyrirspurninni koma fram í eftirfarandi töflu. Umbeðnar upplýsingar eru sundurliðaðar á hvern sjóð fyrir sig. Eins og fram kemur í töflunni nam reiknaður fjármagnstekjuskattur 25 stærstu sjóða í vörslu Háskóla Íslands ásamt Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands samtals 64,6 millj. kr, á árinu 2013. Staðgreiddur fjármagnstekjuskattur þessara sömu sjóða nam hins vegar 32,8 millj. kr. á árinu 2013. Fjármagnstekjuskattur sem hlutfall af raunávöxtun sjóðanna var á bilinu 49% til 62% á árinu 2013. Nánari upplýsingar um styrktarsjóði sem tengjast Háskóla Íslands eru á vef skólans, sjá www.sjodir.hi.is.

Stærstu sjóðir Háskóla Íslands. Kennitölur fyrir árið 2013.

25 stærstu sjóðir í vörslu Háskóla Íslands Hrein eign Nafnávöxtun í krónum Nafnávöxtun
í %
Raunávöxtun Framlög
og aðrar tekjur
Veittir styrkir Reiknaður fjármagnstekjuskattur Skattur, hlutfall af raunávöxtun
Watanabe styrktarsjóðurinn 351.747.428 3.731.765 0,95% -3,08% 0 2.926.792 693.484
Menningar- og framfarasjóður Ludvig Storr 334.219.470 7.373.707 2,18% -1,90% 32.360.379 0 1.070.520
Háskó1asjóður 195.155.437 10.516.226 5,67% 1,46% 0 0 1.667.709 61,7%
Eggertssjóður 129.529.250 7.107.618 5,95% 1,73% 0 0 1.007.624 48,9%
Almanakssjóður 111.922.206 6.113.968 5,92% 1,70% 0 0 867.414 49,5%
Gjafasjóður Guðmundar J. Andréssonar gullsmiðs 104.448.141 5.731.596 5,95% 1,73% 0 0 812.534 48,9%
Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar 71.993.260 3.951.029 5,95% 1,73% 0 0 560.087 48,9%
Minningarsjóður Bjargar og Magnúsar 36.912.122 2.076.938 5,92% 1,70% 0 1.000.000 291.403 48,9%
Sjóðasafn Háskó1a Íslands 34.592.687 1.954.039 6,13% 1,90% -6.024 0 297.262 49,1%
Þórsteinssjóður 33.291.331 1.923.775 5,87% 1,65% 10.000 2.000.000 266.864 49,4%
Norðmannsgjöf 29.772.806 1.634.694 5,95% 1,73% 0 0 231.681 48,9%
Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis 26.207.967 1.466.013 5,80% 1,58% 0 1.100.000 208.542 52,2%
Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur 25.564.779 1.238.799 5,19% 1,00% 27.666 0 180.126 75,6%
Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur 22.997.356 1.177.412 5,52% 1,31% 0 0 171.299 61,2%
Minningarsjóður Theódórs Johnson 22.962.312 1.261.051 5,95% 1,72% 0 0 178.706 48,9%
Minningarsjóður dr. Rögnvalds Péturssonar 22.406.099 1.230.536 5,95% 1,72% 0 0 174.380 48,9%
Háskó1asjóður H/f Eimskipafélags Íslands í vörslu HÍ 21.164.533 1.396.784 5,55% 1,34% 0 6.000.000 188.200 55,7%
Styrktarsjóður Margrétar og Bents Sch. Thorsteinssonar 20.876.666 1.192.025 5,82% 1,60% 0 1.200.000 167.628 51,1%
Sjóður Sigríðar Lárusdóttur 20.201.260 1.145.465 5,70% 1,49% 0 1.400.000 163.322 54,6%
Minningarsjóður John MacKenna Pearson 19.274.121 1.058.706 5,95% 1,72% 0 0 150.018 48,9%
Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Sch. Thorsteinssonar 18.503.642 1.028.780 5,68% 1,46% 0 990.000 148.357 55,9%
Sjóður Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli 18.105.527 1.001.606 5,89% 1,67% 0 300.000 142.121 50,1%
Sjóður Árna Magnússonar 17.310.818 950.994 5,95% 1,72% 0 0 134.747 48,9%
Starfssjóður Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands 17.277.637 945.040 5,93% 1,70% 14.000 0 133.942 49,3%
Columbiasjóður 16.951.188 930.254 5,95% 1,73% 21.490 0 131.866 48,9%
Samtals, allir sjóðir 1.723.388.044 68.138.820 35.753.121 16.916.792 10.039.835
Í vörslu utan skólans
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands 2.698.132.934 192.483.275 7,43% 3,15% 11.718.788 47.018.788 53.565.670 62,7%
Sjóður varðveittur í bandaríkjadölum Hrein eign í USD Nafnávöxtun í USD Nafnávöxtun í % Veittir styrkir Fjármagns tekjuskattur
Watanabe-styrktarsjóðurinn 3.066.015 32.442 1,06% 25.444 6.029