Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 569, 144. löggjafarþing 243. mál: Rauði krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, hálfmánans og kristalsins (heildarlög).
Lög nr. 115 1. desember 2014.

Lög um Rauða krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.


1. gr.

     Rauði krossinn á Íslandi, sem var stofnaður 10. desember 1924, er sjálfstætt og óháð félag sem starfar að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamningana frá 12. ágúst 1949 og viðbótarbókanir við samningana frá 8. júní 1977 og 8. desember 2005. Félagið vinnur samkvæmt grundvallarhugsjónum alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Rauði krossinn á Íslandi er eina félagið á Íslandi sem getur samkvæmt lögum þessum átt aðild að Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Félagið gegnir stoðhlutverki gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum. Starfsemi þess nær til alls landsins og byggist aðallega á sjálfboðavinnu.

2. gr.

     Öðrum en Rauða krossinum á Íslandi, Alþjóðaráði Rauða krossins og Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans er óheimilt að nota nafn Rauða krossins og merki hans, sem er rauður kross á hvítum grunni, merki Rauða hálfmánans, sem er rauður hálfmáni á hvítum grunni, eða merki Rauða kristalsins, sem er rauður ferningslaga tígulrammi á hvítum grunni, eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi.
     Rauða krossinum á Íslandi er heimilt að veita öðrum aðilum leyfi til að nota merki félagsins á friðartímum, svo sem með því að auðkenna ökutæki sem notuð eru til sjúkraflutninga og til að merkja hjálparstöðvar sem veita ókeypis hjúkrun sjúku fólki og særðu, þegar notkunin samræmist að öðru leyti Genfarsamningunum frá 12. ágúst 1949, viðbótarbókunum við samningana frá 8. júní 1977 og 8. desember 2005 og öðrum alþjóðlegum reglum sem við eiga og íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að hlíta og halda uppi. Þá er heimilt á grundvelli umferðarlaga að nota rauðan kross á hvítum grunni til að gefa til kynna heilsugæslustöð eða stað þar sem slysahjálp er veitt.
     Hver sem án heimildar notar nafn eða merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans eða Rauða kristalsins eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum, ef brot er ítrekað.

3. gr.

     Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, að fenginni umsögn Rauða krossins á Íslandi.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. nóvember 2014.