Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 591  —  132. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum.


     1.      Hvaða starf hefur farið fram í ráðuneytinu til að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu ríkisins og þeim sem ríkið er með á leigu?
    Mikið hefur áunnist á undanförnum árum í að bæta aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu ríkisins og áfram verður unnið að því í samræmi við skýra stefnu stjórnvalda um að gera betur til að aðgengi að þeim byggingum verði ávallt sem best.
    Fasteignir ríkissjóðs er stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og hefur stofnunin það hlutverk að hafa umsjón með og viðhalda fasteignum í eigu ríkisins. Undanfarin ár hefur stefnan verið sú að fela Fasteignum ríkissjóðs í auknum mæli að annast milligöngu um húsnæði fyrir ríkisstofnanir til að tryggja örugga og hagkvæma umsýslu eigna og jafnframt til að stuðla að betri nýtingu eigna ríkisins innan þeirra reglna og viðmiða sem sett eru. Á það jafnframt við um að tryggja ávallt sem best aðgengi fatlaðs fólks að þeim byggingum.
    Mikið af þeim opinberu byggingum sem eru í umsjón Fasteigna ríkissjóðs voru byggðar áður en gerð var almenn krafa um aðgengi fatlaðs fólks en meðalaldur eignasafnsins er um 60 ár. Í flestum tilvikum er auðvelt að verða við auknum kröfum um aðgengi fyrir alla í nýbyggingum strax á hönnunarstigi en hins vegar getur reynst mun erfiðara að gera breytingar á eldra húsnæði. Fasteignir ríkissjóðs gera reglulegar úttektir á húsnæði í eigu ríkisins sem er í umsjón stofnunarinnar þar sem m.a. er farið yfir aðgengismál og hvort húsnæði uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til opinberra bygginga. Við úttektir er stuðst við úttektarlykil sem Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, lét taka saman.
    Hafa verður í huga að afstaða til ferlimála fatlaðra hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum. Ráðuneytið hefur jafnframt lagt á það áherslu að opinberar byggingar sem eru sérstaklega ætlaðar almenningi séu settar í forgang hvað varðar úrbætur á aðgengismálum. Fasteignir ríkissjóðs eru meðvitaðar um auknar áherslur á aðgengi fyrir alla og verja verulegum fjárhæðum árlega við að bæta aðgengi að eldra húsnæði. Leitast hefur verið við að verja þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar hverju sinni í þau verkefni sem brýnast er að sinna en ekki er hægt að ráðast í endurbætur á öllum byggingum sem þurfa á slíku að halda í einu. Mörg þessara verka eru einnig innifalin í stærri viðhalds- og endurbótaverkefnum en áhersla hefur verið lögð á að bæta aðgengi fatlaðara að húsnæði í umsjón Fasteigna ríkissjóðs þegar farið er af stað með almenn viðhaldsverkefni.
    Miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir hjá Fasteignum ríkissjóðs er gert ráð fyrir að unnið verði að úrbótum á hverju ári og skiptast þær á ólíkar tegundir fasteigna og landshluta. Þá hafa einnig verið gerðar margvíslegar minni endurbætur til að bæta aðgengi. Stofnunin vann m.a. nýlega úttekt á þeim safnahúsum sem eru í umsjón hennar og hafin er vinna við að bæta úr því sem aðfinnsluvert fannst. Helstu aðgerðir í því sambandi eru að leggja skábrautir, lagfæra gangstéttir, merkja og breikka bílastæði, setja upp nýjar lyftur, koma fyrir sjálfvirkri eða hnappastýrðri opnun hurða, breikka dyr fyrir hjólastóla, fjarlægja þröskulda og aðrar hindranir úr gangvegi, setja upp segulstýrða opnun á hurðum með tengingu við eldvarnarkerfi, breikka gluggaop vegna rýmingarleiða, setja upp snyrtingar fyrir hreyfihamlaða o.s.frv.

     2.      Hvaða sjónarmið ráða ríkjum varðandi aðgengi fatlaðs fólks að byggingum sem ríkið lætur reisa í nánustu framtíð eða velur til leigu?

    Árið 2007 samþykkti ríkisstjórn Íslands Menningarstefnu í mannvirkjagerð: stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist. Sú menningarstefna gildir enn og var endurútgefin með rafrænum hætti á þessu ári. Í stefnunni er m.a. lögð áhersla á að aðgengi fyrir alla eigi að vera sjálfsagður og eðlilegur þáttur hins manngerða umhverfis. Í stefnunni kemur jafnframt eftirfarandi fram:
    „Aðgengi fyrir alla ber að líta á sem áskorun um aðlögun hönnunar að þörfum allra. Hægt er að útfæra hönnun þannig að hún stuðli að aðgengi fyrir alla á þann hátt að það sé órjúfanlegur hluti af hverju nýju mannvirki. Aðgengi fyrir alla lýtur að hugarfari í hönnun og framkvæmd sem leggur áherslu á byggingar sem bjóða alla einstaklinga velkomna og tryggir jafnframt möguleika þeirra til að yfirgefa byggingar ef vá ber að höndum.
    Sérstakrar aðgæslu er þörf þar sem aðlaga þarf eldri byggingar og lítt snortið umhverfi að þörfum allra. Hugtakið „hönnun fyrir alla“ lýtur að yfirveguðum lausnum sem taka tillit til og samræmist hverju verki fyrir sig.“
    Undanfarin ár hefur almenna stefnan verið sú að byggja aðeins sérhæft húsnæði fyrir ríkið. Ef þörf er á almennu skrifstofuhúsnæði er byrjað á því að kanna hvort laust húsnæði sé til staðar í eigu ríkisins en að öðrum kosti hefur verið auglýst eftir húsnæði á almennum markaði. Framkvæmdasýsla ríkisins, sem heyrir einnig undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, fer með stjórn ákveðins hluta verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins og veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf um byggingatæknileg málefni og undirbúning framkvæmda. Framkvæmdasýslan vinnur samkvæmt vottuðu gæðastjórnunarkerfi sem byggist á gildandi útgáfu gæðastjórnunarstaðalsins ISO 9001. Í stöðluðu formi húslýsingar sem notað er við öflun húsnæðis fyrir ríkið er það skilyrði að húsnæði uppfylli allar þær lögbundnu kröfur sem gerðar eru til brunavarna, öryggis og ferlimála fatlaðra og aðrar kröfur sem gerðar eru til opinberra bygginga. Enn fremur þarf húsnæði að uppfylla kröfur sem fram koma í reglum um húsnæði vinnustaða frá Vinnueftirliti ríkisins og í gildandi byggingarreglugerð hverju sinni. Þess má einnig geta að staðlað ákvæði er í öllum leigusamningum sem ríkið hefur gert á undanförnum árum þar sem farið er fram á að leigusali ábyrgist að hið leigða húsnæði uppfylli kröfur um aðgengi fatlaðra.
    Í leiðbeiningarriti fjármála- og efnahagsráðuneytis „Þarfagreining skrifstofuhúsnæðis á vegum ríkisins. Leiðbeiningar og stærðarviðmið“ frá desember 2010 kemur enn fremur fram að ráðuneytið leggur sérstaka áherslu á að gætt skuli að aðgengi fyrir alla. Er þar einkum átt við aðkomu og fyrirkomulag innanhúss auk þess sem huga skal vel að viðeigandi frágangi fyrir alla. Leiðbeiningarritið byggist m.a. á reglum Vinnueftirlits ríkisins um húsnæði vinnustaða, nr. 581/1998, og byggingarreglugerð en ritið var tekið saman af Framkvæmdasýslu ríkisins fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Leiðbeiningarritið hefur einkum verið notað undanfarin ár við gerð þarfagreininga og húsrýmisáætlana þegar útvega þarf skrifstofuhúsnæði fyrir stofnanir á vegum ríkisins.