Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 611  —  242. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, með síðari breytingum (flóttamenn).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur og Steinunni Margréti Lárusdóttur frá velferðarráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Barnaverndarstofu, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að samræma rétt allra þeirra sem hafa stöðu flóttamanns hér á landi til sjúkratrygginga almannatrygginga. Réttur þeirra sem fá stöðu flóttamanns eftir hælismeðferð eða fjölskyldusameiningu verði því jafn rétti flóttamanna sem koma í boði stjórnvalda að þessu leyti.
    Umsagnir um frumvarpið voru almennt jákvæðar. Þó var bent á að rök kynnu að standa til þess að þeir sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga, njóti einnig sömu réttarstöðu. Í 2. mgr. tilvitnaðrar greinar kemur fram að veita megi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skuli taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Líkt og flóttamenn geta einstaklingar í þessari stöðu þarfnast sérstakrar aðstoðar. Að mati nefndarinnar hníga því rök til þess að láta fyrirhugaða breytingu einnig taka til þeirra sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Nefndin bendir í þessu sambandi á að þeir sem fá dvalarleyfi eftir hælismeðferð í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð eru sjúkratryggðir strax eftir leyfisveitingu, hvort sem um ræðir dvalarleyfi flóttamanna eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
    Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Flóttamenn sem stjórnvöld hafa veitt hæli og einstaklingar sem dveljast hér samkvæmt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum þessum að því tilskildu að þeir séu komnir til landsins og fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns eða dveljist hér samkvæmt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Flóttamenn og einstaklingar sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

    Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. nóvember 2014.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Þórunn Egilsdóttir, frsm Björt Ólafsdóttir.
Brynjar Níelsson. Guðbjartur Hannesson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.