Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 647  —  3. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015.


Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Í þessu frumvarpi má segja að birtist skuggahliðar ríkisrekstrarins. Í frumvarpinu gætir þess mjög að ýmis gjöld sem hafa verið lögð á til að standa undir tilteknum málaflokkum, oft með samkomulagi, séu tekin til annarrar ráðstöfunar án nokkurs samráðs við hlutaðeigandi aðila. Má þar sem dæmi taka að samkvæmt frumvarpinu á enn að auka skerðingu á mörkuðum tekjum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eins og nánar verður vikið að síðar, Loftslagssjóður er skertur og samningar um starfsendurhæfingu og jöfnun örorkubyrði almennra lífeyrissjóða eru hunsaðir. Það getur ekki talist traustvekjandi að handhafar framkvæmdarvalds gangi fram með slíkum hætti og komi aftan að viðsemjendum sínum. Grundvallarhugmyndin að baki íslenska velferðarsamfélaginu hefur verið sú að ríkið og aðilar vinnumarkaðarins semji sín á milli um tiltekna grundvallarþætti og skipti að einhverju leyti með sér verkum við að vinna að samfélagslega mikilvægum verkefnum. Það er í hróplegri mótsögn við þessa hugmynd að ríkisstjórnin ákveði einhliða að draga til baka framlög ríkisins til slíkra þjóðþrifaverkefna sem eiga jafnvel áratugasögu í samningum aðila á milli.

Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um tryggingagjald verði framlengdur. Það mun hafa í för með sér að VIRK starfsendurhæfingarsjóður þarf enn að bíða eftir því að ríkisstjórnin standi við gefin loforð um að 0,13% stofns til tryggingagjalds renni til sjóðsins. Í athugasemdum frumvarpsins er vísað til þess að heildarendurskoðun eigi að fara fram á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða og í kjölfar þess verði tekin ákvörðun um áframhaldandi uppbyggingu þeirra og framtíð. Þá er vísað til þess að þar til slíkri endurskoðun hefur verið lokið hafi VIRK yfir nægum fjármunum að ráða.
    Fyrir nefndinni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við upphaflega tillögu ríkisstjórnarinnar um að fella algerlega niður framlag ríkisins til VIRK og bent á að starf VIRK hefði sannað sig svo um munaði. Skerðing framlaga til sjóðanna mundi leiða til þess að sjóðurinn þyrfti að synja þeim sem ekki hefur verið greitt fyrir til sjóðsins um þjónustu. Framlag ríkisins tryggir að gildandi lögum og samningum að VIRK þarf að þjónusta alla eins. Hætt er við að breytingahugmyndir ríkisstjórnarinnar grafi undan þessum mikilvæga grunnþætti í uppbyggingu starfsendurhæfingar. Í breytingartillögu meiri hlutans er nú gert ráð fyrir 200 millj. kr. einskiptisframlagi til starfsendurhæfingarsjóða á næstu ári. Þeir fjármunir duga engan veginn til að sinna þeim hópi sem ríkisframlagið átti að standa undir og ekki fylgir sögunni hvernig VIRK á þá að draga úr þjónustu við þennan hóp. Óhjákvæmilegt er að gera þá kröfu til ríkisvaldsins að farið sé að gildandi samningum og ríkisstjórnin leiti þá viðræðna við aðila vinnumarkaðarins um nýtt framtíðarfyrirkomulag, ef vilji stjórnvalda stendur til þess.

Jöfnun örorkubyrði.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði lækkuð árlega um 20%, og það sama eigi við á hverju ári í fimm ár þar til hlutdeildin hefur fjarað út. Í athugasemdum frumvarpsins er vísað til þess að forsendur fyrir þátttöku ríkisins hafi breyst og til standi að taka fyrirkomulagið til endurskoðunar.
    Örorkubyrði lífeyrissjóðanna er mjög mismunandi en hún fer að mestu eftir því hvaða starfsgreinar greiða í hvern lífeyrissjóð fyrir sig. Þannig komu fram dæmi um það fyrir nefndinni að einstakir sjóðir muni að óbreyttu sjá fram á að verða að skerða réttindi félaga sinna um allt að 5% vegna þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar. Breytingin leiðir til þess að lífeyrisréttur fólks í erfiðisvinnu í landi og sjómanna, þar sem örorkuhætta er meiri en í skrifstofustörfum, verður skertur. Slíkt er ótrúlega ósanngjarnt þegar haft er í huga að ríkið ber nú ótakmarkaða ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum stórs hluta starfsmanna sinna og sú skuldbinding vex ár frá ári. Engum öðrum er til að dreifa til að bera þennan mismun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða en ríkinu, því að aukin byrði verður ekki með afturvirkum hætti lögð á óskylda sjóði. Meiri hlutinn leggur nú til að skerðing næsta árs verði dregin til baka að hálfu leyti. Sú aðgerð bendir til þess að stjórnarmeirihlutinn átti sig ekki á heildarmyndinni og skilji ekki afleiðingar aðgerðarinnar. Lífeyrissjóðirnir verða bundnir að gildandi lögum af því að lækka réttindi strax við gildistöku þessarar lagabreytingar, óháð því hvort þessi skerðing komi til framkvæmda hálfu ári fyrr en seinna. Fráleitt er að hefja þessa vegferð án þess að ræða það á nokkurn hátt við verkalýðshreyfinguna.

Stytting atvinnuleysisbótatímabilsins.
    Í X. kafla frumvarpsins er lagt til að tímabilið sem heimilt er að greiða atvinnuleysisbætur verði stytt frá og með 1. janúar 2015 um sex mánuði þannig að heimilt verði að greiða atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði í stað 36 mánaða. Helstu röksemdir tillögunnar eru að nauðsynlegt sé að færa atvinnuleysistryggingakerfið nær því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Sú röksemd stenst ekki. Benda má að í Danmörku, þar sem bótatímabilið var stytt, var það þó gert þannig að þeir sem hófu töku bóta með lengri réttindum í upphafi héldu þeim rétti. Þá hafa stjórnvöld í Danmörku sett upp margháttaðar mótvægisaðgerðir til að bæta fyrir styttinguna, m.a. með auknum rétti atvinnuleitenda til virkniaðgerða og námsúrræða og stuðning við ungt fólk til náms að loknu bótatímabili sem þýðir í reynd lengingu þess. Þá byggjast allar aðgerðir danskra stjórnvalda á greiningu og mati á mögulegum áhrifum.
    Í nefndaráliti meiri hlutans er bætt um betur og vísað til þess að ráðstöfunin hljóti að teljast eðlileg þar sem atvinnuleysi hafi minnkað og ekki sé eðlilegt að viðhalda bótarétti sem hafi verið aukinn þegar illa áraði.
    Núgildandi lagaregla um avinnuleysisbótaréttindi í 36 mánuði á rætur að rekja til lagabreytinga árið 2006, þegar atvinnuleysi var nær ekkert. Til hennar verður því ekki sótt röksemd fyrir því að stytta tímabilið nú, þegar það er mun meira en árið 2006. Tímabilið var ekki ákveðið með hliðsjón af atvinnustigi heldur með hliðsjón af því að ólíklegt þótti að fólk væri í virkri atvinnuleit eftir þriggja ára atvinnuleysi. Grundvöllurinn var greining aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, í aðdraganda endurskoðunar þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar og laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Engin slík greining liggur fyrir að þessu sinni.
    Hér er ætlun meiri hlutans með lögum að stytta tímabil atvinnuleysisbóta um hálft ár, án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna og sveitarfélögin. Þetta er í fyrsta sinn frá því að réttur til atvinnuleysisbóta fékkst viðurkenndur í verkfallinu mikla árið1955 sem ríkisvaldið hyggst skerða einhliða umsaminn rétt til atvinnuleysisbóta.
    Fyrir nefndinni kom fram að breytingin muni auka verulega aðsókn að fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga áætlar að kostnaðarauki sveitarfélaganna muni nema um 500 millj. kr. Ekkert samráð virðist hafa verið haft við sveitarfélögin vegna breytingarinnar og virðist stjórnarmeirihlutinn hafa hunsað þá lagaskyldu að kostnaðarmeta þessar breytingar sérstaklega hvað varðar áhrif á sveitarfélögin. Það er því algerlega ómögulegt að sjá að breytingin muni skila samfélaginu nokkru heldur felur hún aðeins í sér tilflutning kostnaðar til sveitarfélaganna. Að því leyti er breytingin í fullri mótsögn við þá stefnumörkun sem felst í nýju frumvarpi til laga um opinber fjármál sem liggur nú fyrir Alþingi þar sem sú stefna er mörkuð að taka skuli heildstætt á opinberum útgjöldum óháð því hvort þau falla til hjá ríki eða sveitarfélögum.
    Verði styttingin að veruleika munu um 1.300 einstaklingar missa framfærslu sína um næstu áramót og á fyrstu sex mánuðum næsta árs. Þeir fá engan aðlögunartíma, eins og þær atvinnugreinar fá sem nú eru felldar undir virðisaukaskattskerfið. Fyrir liggur að aðeins hluti þeirra sem missa bótarétt eiga rétt hjá sveitarfélögunum. Þá blasir við sú hætta að þessi hópur hverfi einfaldlega sjónum okkar og komi síðan fram að nokkrum missirum liðnum sem örorkulífeyrisþegar.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.
    Samkvæmt 21. gr. frumvarpsins á að auka enn skerðingu á mörkuðum tekjum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og þjóðgarða og friðlýstra svæða af svonefndu gistináttagjaldi. Hyggst ríkissjóður hirða 13 millj. kr. á næsta ári af mörkuðum tekjum til málaflokksins. Er þetta gert þrátt fyrir að fullkomið uppnám ríki í málaflokknum og neyðarástand blasi við á mörgum fjölsóttum ferðamannastöðum. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur nú í eitt og hálft ár unnið að lagafrumvarpi um nýjan tekjustofn á grunni svonefnds náttúrupassa en þegar liggur fyrir að engin samstaða er um slíkt fyrirkomulag og hafa heildarsamtök ferðaþjónustunnar nú lagst alfarið gegn því. Það er því að bíta höfuðið af skömminni að leggja á sama tíma til aukna skerðingu á þó þeim mörkuðu tekjum sem til staðar eru í formi gistináttagjaldsins.

Loftslagssjóður.
    Í frumvarpinu er lagt til að tekjur af sölu losunarheimilda á uppboði verði ekki markaðar til loftslagssjóðs heldur renni beint í ríkissjóð og loftslagssjóður fái fjárveitingu eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
    Hvert er verið að fara með þessari breytingu? Sé tekið mið af því sem rakið hefur verið hér að framan eru sterkar vísbendingar um að ríkisstjórnin sé að undirbúa að sækja fé í sjóðinn til að ráðstafa til annarra og ótengdra verkefna.

S-merkt lyf.
    Með þeirri breytingu sem lögð er til í 19. gr. frumvarpsins er verið að færa S-merkt lyf og leyfisskyld lyf undir almenna greiðsluþátttökukerfið þannig að það sama gildi um S-merkt og leyfisskyld lyf og gildir fyrir önnur lyf sem ávísað er til notkunar utan heilbrigðisstofnana.
Fyrir nefndinni var lýst verulegum áhyggjum af þessari breytingu. Samkvæmt athugasemdum fjárlagafrumvarpsins mun ráðstöfunin spara ríkissjóði um 145 millj. kr. Nánari útskýringar á þeim útreikningi og forsendum hans fengust ekki. Ekki er ólíklegt að breytingin muni hafa í för með sér að hvati myndist í kerfinu til að ávísa S-merktum lyfjum utan heilbrigðisstofnana og stofnanir muni þannig velta kostnaði við lyfin af sér á herðar sjúklinga. Auðsætt er í öllu falli að kostnaðurinn af þessari aðgerð, hver sem hann verður, mun falla á viðkvæman hóp sjúklinga.

„Allir vinna“.
    Strax á fyrsta ári eftir hrun greip þáverandi ríkisstjórn í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin til þess ráðs að hækka hlutfall endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við viðhald, endurbætur og byggingu íbúðarhúsnæðis úr 60 í 100%. Jafnframt var gildissvið endurgreiðsluákvæðisins útvíkkað og látið taka einnig til sumarhúsa og húsnæðis sveitarfélaga. Átakið hefur síðan almennt gengið undir og verið kynnt með nafninu „allir vinna“. Er enginn vafi að það hefur verið vel heppnað og hleypti á sínum tíma lífi í illa laskaðan byggingargeirann auk þess sem það er virkt tæki til að sporna við svartri atvinnustarfsemi.
    Nú hyggst stjórnarmeirihlutinn hins vegar hverfa með öllu frá þessari ráðstöfun og er það harðlega gagnrýnt af aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélögunum. Minni hlutinn tekur undir þessa gagnrýni.

Umhverfisvænir bílar.
    Á lokaspretti vinnu nefndarinnar báru stjórnarliðar þær fréttir inn í nefndarstarfið að ekki stæði til að framlengja á neinn hátt ákvæði um að fella að vissu marki niður opinber gjöld vegna innflutnings bifreiða sem nota umhverfisvæna orkugjafa. Er hér um að ræða t.d. rafbíla, metanbíla o.s.frv. Þessu mótmælir minni hlutinn harðlega og veltir fyrir sér, í þessum efnum eins og fleirum, í hvaða leiðangri stjórnarmeirihlutinn er í umhverfismálum.

Lækkun afsláttar af vörugjaldi vegna innflutnings á bílaleigubílum.
    Á síðustu mínútum umfjöllunar um frumvarpið upplýsti meiri hlutinn að hann mundi leggja til helmingslækkun á afslætti af vörugjaldi innflutnings á bílaleigubílum. Tillagan fékk litla umræðu í nefndinni, ekki var óskað eftir umsögnum vegna hennar og hagsmunaaðilar fengu ekkert tækifæri til að ræða hana við nefndina. Þá voru engar tölur eða greiningar lagðar fyrir nefndina og því allsendis óljóst hvernig lækkunin mun koma við bílaleigur, ferðaþjónustu í landinu eða bílaumboðin, sérstaklega í ljósi þess að hún virðist eiga að skella á með nánast engum fyrirvara.

Niðurstöður.
    Að mati minni hlutans fetar stjórnarmeirihlutinn vafasama braut með frumvarpinu og mikið vantar upp á að bæði frumvarpið sjálft og breytingartillögur séu nægjanlega vel unnar. Hvernig fær það staðist að færa einhliða og án samráðs stóraukinn kostnað yfir á sveitarfélögin og hafa ekki einu sinni fyrir að kostnaðarmeta áhrif slíkra aðgerða? Hver verður trúverðugleiki stjórnvalda í samningum við aðila vinnumarkaðarins til framtíðar ef haldið er áfram á þeirri braut að breyta einhliða gerðum samningum og ganga gegn samningsbundnum réttindum? Hvers vegna er verið að gera tryggingagjald í enn auknum mæli að beinum tekjustofni ríkissjóðs í stað þess að nota svigrúm til að lækka það þegar ljóst má telja að gjaldið leggist þungt á lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga fullt í fangi með að standa í rekstri og greiða ekki tekjuskatt?

Alþingi, 1. desember 2014.

Steingrímur J. Sigfússon,
frsm.
Árni Páll Árnason. Guðmundur Steingrímsson.