Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 726  —  154. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna,
landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur, Rebekku Hilmarsdóttur og Ólaf Friðriksson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Eygló Sif Sigfúsdóttur og Margréti Hjálmarsdóttur frá Einkaleyfastofunni. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Einkaleyfastofunni og Stjörnueggjum hf. Einnig barst nefndinni Vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun, greinargerð um landfræðilegar merkingar á vegum Samtaka mjólkur- og kjötframleiðenda og Samtaka iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði hér á landi í fyrsta sinn heildarlöggjöf um vernd á heitum afurða sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Um er að ræða gæðakerfi fyrir afurðir sem felst í því að afurðarheiti getur fengið vernd, að tilgreindum skilyrðum uppfylltum, ef það vísar til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Í verndinni felst að aðrir aðilar geta ekki notað umrætt heiti í markaðssetningu. Sótt skal um vernd á afurðarheiti til Matvælastofnunar sem tekur ákvörðun um hvort heiti fáist skráð en stofnunin skal leita umsagnar Einkaleyfastofunnar og Samtaka atvinnulífsins.
    Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að við undirbúning þess hafi verið tekið mið af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1151/2012 frá 21. nóvember 2012 um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli og því hvernig reglurnar voru innleiddar í Noregi og Danmörku.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Lagt er til breytt orðalag 5. gr. Í greininni er mælt fyrir um að heimilt sé að veita afurðarheiti, sem vísar til landsvæðis, vernd á grundvelli skráningar ef uppfyllt er eitt af þremur skilyrðum sem þar eru tilgreind. Nefndin leggur til að öll skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að unnt verði að öðlast skráningu með vísan til landsvæðis. Einnig er lögð til breyting á orðalagi 7. gr. Lagt er til að notað verði hugtakið „alþekkt“ fremur en „vel þekkt“ og að miðað verði við það hvenær sótt er um vernd afurðarheitisins. Jafnframt er lögð til viðbót í því skyni að við mat á því hvort eldra merki teljist alþekkt sé tekið tillit til orðspors og hversu lengi merki hafi verið í notkun. Í 2. mgr. 22. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Matvælastofnun skuli fella úr gildi skráningu afurðarheitis ef afurð er ekki framleidd í samræmi við afurðarlýsingu eða ef afurð hefur ekki verið markaðssett í sjö ár. Fram kom við umfjöllun um málið að lögmætar aðstæður gætu búið að baki því að framleiðsla hefði t.d. ekki átt sér stað í sjö ár. Nefna má sem dæmi náttúruhamfarir eða aðrar ytri aðstæður. Nefndin leggur til að Matvælastofnun verði heimilt en ekki skylt að fella skráningu úr gildi.
    Í 23. og 24. gr. eru ákvæði um tengsl við annars vegar yngri vörumerki og félagamerki og hins vegar eldri vörumerki og félagamerki. Lagt er til breytt orðalag beggja ákvæða til að lagfæra orðalag og samræma betur reglugerð (ESB) nr. 1151/2012. Lögð er til breyting á 26. gr. þannig að mælt verði fyrir um að samningsaðilar semji um það hvernig andmælaferli verði háttað. Fram kom við meðferð málsins að í gagnkvæmnissamningum, sem til að mynda Evrópusambandið hefði gert við tiltekin lönd, væri mælt fyrir um andmælaferli þeirra afurðarheita sem samningurinn næði til. Einnig væru þar tilgreindar þær málsástæður sem andmæli geti byggst á. Í 2. mgr. 26. gr. frumvarpsins er vísað til annarra ákvæða frumvarpsins um meðferð erlendra heita en nefndin leggur til að mælt skuli fyrir um ferli andmæla í milliríkjasamningi, þ.m.t. um málsástæður sem byggt verði á. Einnig er lögð til breyting á 42. gr. sem er í samræmi við áðurnefnda breytingu á 23. gr.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að í tvíhliða viðræðum um gagnkvæm viðskipti og tollkvóta, fyrir landbúnaðarafurðir til ESB, hefði verið vísað til Evrópulöggjafar um vernd afurða með uppruna- eða staðartilvísun. Ísland og Evrópusambandið gerðu samkomulag um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur sem tók gildi 1. mars 2007. Samkomulagið byggist á 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli EES-ríkjanna og Evrópusambandsins. Í því samkomulagi fólst viljayfirlýsing um að aðilar mundu leitast við að efla viðskipti sérstaklega með afurðir tengdar uppruna- eða landfræðilegri tilvísun. Jafnframt var ákveðið að ræða frekara samstarf um löggjöf og skráningu á heitum afurða sem falla undir eða gætu fallið undir slíka löggjöf hjá báðum aðilum. Forsenda þess að unnt sé að ljúka þessum viðræðum er að samningar náist um vernd afurðarheita við Evrópusambandið. Það er því mikilvægt að mati nefndarinnar að frumvarp þetta verði að lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir nefndarálit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 11. desember 2014.

Jón Gunnarsson,
form.
Þorsteinn Sæmundsson,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir.
Kristján L. Möller. Páll Jóhann Pálsson. Þórunn Egilsdóttir.