Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 811  —  398. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller
um Hlíðarskóla og stuðning við verkefni grunnskóla.


     1.      Hvað hefur Hlíðarskóli fengið há framlög árlega úr ríkissjóði sl. 5 ár og til hvaða verkefna hafa þau verið ætluð?
    Hlíðarskóli hefur frá árinu 2009 fengið árlega úthlutað 12 millj. kr. á fjárlögum. Um hefur verið að ræða tímabundið framlag sem komið hefur í gegnum 3. umræðu fjárlaga. Í 3. umræðu fjárlaga 2009 var veitt 12 millj. kr. framlag til starfsemi Hlíðarskóla á Akureyri. Í frumvarpi til fjárlaga 2013 var framlagið fellt niður á þeirri forsendu að það væri ekki hlutverk mennta- og menningarmálaráðuneytis að veita fjárstuðning til meðferðarúrræðis við skóla á grunnskólastigi, þ.e. í ljósi laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Í 2. umræðu fjárlaga 2013 var veitt tímabundið 12 millj. kr. til eins árs til skólans. Í frumvarpi til fjárlaga 2014 féll framlagið niður þar sem um tímabundið framlag var að ræða. Í 2. umræðu fjárlaga 2014 var aftur veitt 12 millj. kr. tímabundið framlag til eins árs, sem féll svo niður í frumvarpi til fjárlaga 2015.

     2.      Hafa aðrir grunnskólar fengið sambærileg framlög sl. 5 ár og ef svo er, um hvaða skóla er að ræða, hver voru árleg framlög sl. 5 ár og til hvaða verkefna voru þau ætluð?
    Aðrir skólar á grunnskólastigi hafa ekki fengið sambærileg framlög á undanförnum árum, þó voru styrkir veittir tímabundið í nokkur ár til Gaulverjaskóla á Suðurlandi, sem var þróunarskóli fyrir sambærilegan nemendahóp og sækir Hlíðarskóla á Akureyri. Árið 2006 heimilaði menntamálaráðuneytið Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Skólaskrifstofu Suðurlands rekstur tilraunaskóla til þriggja ára fyrir börn og unglinga á Suðurlandi sem glíma við hegðunar- og tilfinningaraskanir. Var verkefninu valinn staður í Gaulverjaskóla og var ætlunin að vinna þar í þrjú ár samkvæmt ART-þjálfunaraðferðinni (Aggression Replacement Training) áður en aðferðin yrði flutt út í almenna grunnskóla. Útbreiðsla verkefnisins gekk hraðar en gert var ráð fyrir og var Gaulverjaskóla lokað sumarið 2008 og meðferðin flutt til almennra grunnskóla. Í heimild ráðuneytisins og einnig í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi vor 2008 kom fram að ráðuneytið mundi láta fara fram úttekt á verkefninu og að niðurstöður hennar yrðu hafðar til hliðsjónar þegar að ákvörðun kæmi um framhald verkefnisins, þ.m.t. fjárhagslegan stuðning. Úttekt var gerð á verkefninu 2009 og það sama ár var síðasta árið sem framlag vegna Gaulverjaskóla var veitt á fjárlögum, samtals 10 millj. kr. Upphaflega sótti Akureyrarbær um framlag úr ríkissjóði til Hlíðarskóla í gegnum mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna stuðnings við Gaulverjaskóla á sínum tíma.

     3.      Hvaða kröfur gerir ríkissjóður til verkefna sem þessara þegar þau hafa verið styrkt og með hvaða hætti hefur árangur þeirra verið metinn? Hvert er mat ráðherra á árangri af þeim verkefnum sem ríkissjóður hefur fjármagnað?
    Eins og áður hefur komið fram var Gaulverjaskóli á Suðurlandi rekinn sem tilraunaskóli og í lok þess tímabils var gerð úttekt á verkefninu sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir ráðuneytið. Úttektin byggðist á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi tilraunaverkefnisins í Gaulverjaskóla, viðtölum við starfsfólk á Skólaskrifstofu Suðurlands og heimsóknum í valda grunnskóla sem tóku þátt í verkefninu. Tekin voru viðtöl við framkvæmdastjóra skólaskrifstofunnar og meðferðarteymið, stjórnendur valinna skóla, fulltrúa kennara og annars starfsfólks, nemendur, foreldra og fleiri aðila, svo sem forstjóra DeCode og fræðslustjóra Norðurlands eystra þar sem annars konar meðferðarúrræði er fyrir börn og unglinga með hegðunar- og tilfinningavanda í Hlíðarskóla. Samkvæmt úttektinni var ljóst að almenn ánægja virtist vera með þetta verkefni á Suðurlandi og að vel hefði tekist til með tilraunina, þ.e. að byggja upp þekkingu og þjónustu á Suðurlandi við nemendur á grunnskólastigi sem glíma við hegðunar- og tilfinningaraskanir og úttektarskýrslan virðist staðfesta það. Verkefnið var upphaflega til þriggja ára með framlagi af fjárlögum og menntamálaráðuneytinu var falið að sjá um að deila út þeim framlögum og fylgjast með verkefninu. Síðan var ákveðið að halda tilrauninni áfram í ár til viðbótar, þ.e. út árið 2009, m.a. í ljósi þess að niðurstöður úttektar lágu ekki fyrir eftir þriggja ára tilraunatímabil. Þingmenn Suðurlands og Samband sunnlenskra sveitarfélaga lögðu áherslu á að tryggja þyrfti viðbótarfjármagn vegna þessa verkefnis. Það var þó ekki augljóst að menntamálaráðuneytið ætti að beita sér fyrir því að ART-verkefnið á Suðurlandi fengi áfram fjárframlög á fjárlögum, frekar var talið rétt að heilbrigðisráðuneytið sæi um slíkt, enda væri einkum um að ræða meðferð og þjálfun nemenda með hegðunar- og tilfinningaraskanir, frekar en skólaganga eða almenn sérfræðiþjónusta. Hins vegar virðist aðferðafræði ART-verkefnisins ganga það vel samkvæmt úttektinni að afar slæmt væri að þurfa að leggja þá þjónustu niður ef ekkert kæmi í staðinn. Engin sambærileg úttekt hefur verið gerð á starfsemi Hlíðarskóla á Akureyri enda hefur hann aldrei verið skilgreindur sem þróunarskóli.

     4.      Telur ráðherra að verkefni sem þessi ættu að hluta til eða í heild að vera styrkt af öðru ráðuneyti og þá með hvaða rökum? Hafa viðræður um slíkt átt sér stað?

    Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins funduðu með fulltrúa Akureyrarbæjar í nóvember 2013 um málefni Hlíðarskóla á Akureyri. Á fundinum var þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að stæði vilji til að sækja áfram um framlag til reksturs Hlíðarskóla á fjárlögum bæri að beina þeirri ósk til velferðarráðuneytisins í stað mennta- og menningarmálaráðuneytis, enda væri hér um að ræða meðferðarþjónustu sem heyrði undir heilbrigðiskerfið. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort Akureyrarbær hafi sótt um stuðning við rekstur Hlíðarskóla til velferðarráðuneytisins eða hvort sveitarfélagið hafi eingöngu snúið sér til fjárlaganefndar fyrir næstkomandi fjárlagaár, en ekki er gert ráð fyrir framlagi til skólans í frumvarpi til fjárlaga 2015. Ráðuneytið er enn þeirrar skoðunar að fara eigi með greiðslur af hálfu ríkisins fyrir þá þjónustu sem hér um ræðir gegnum velferðarráðuneytið.

     5.      Með hvaða hætti telur ráðherra rétt að þróa úrræði sem þessi fyrir þá aðila sem þurfa á þeim að halda og að hvaða marki er rétt að ríkið komi þar að með fjárveitingum?

    Samkvæmt lögum um grunnskóla frá 2008 er sveitarstjórnum og skólastjórum grunnskóla falin ábyrgð á sérfræðiþjónustu í grunnskólum sem nánar er útfærð í reglugerð frá 2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum. Lögin gera ráð fyrir að sérfræðiþjónusta á vegum sveitarfélaga teljist einkum til fyrsta og annars stigs sérfræðiþjónustu, þ.e. til greiningar og ráðgjafar. Þriðja stigs sérfræðiþjónusta sem tekur til meðferðar er hins vegar á hendi ríkisins. Stefnumótun sem fram kemur í lögum og reglugerðum mælir fyrir um ákveðna verkaskiptingu, þ.e. að ráðgjöf og greining sé í höndum sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og meðferð á hendi heilbrigðiskerfisins.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki mótað stefnu um það með hvaða hætti rétt sé að þróa úrræði fyrir nemendur með sérþarfir á grunnskólastigi, nema að því er varðar almenna stefnumótun í grunnskólalögum, reglugerðum og aðalnámskrá þar sem meginsjónarmiðið er að nemendur stundi nám í almennum skólum án aðgreiningar og fái þar nám við hæfi. Skv. 42. gr. laga um grunnskóla frá 2008 er sveitarfélögum heimilt að reka sérúrræði innan grunnskóla og sérskóla, sem nánar er kveðið á um í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2008. Unnið hefur verið að breytingu á þeirri reglugerð í ljósi athugasemda, þar sem m.a. er lagt til að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji sveitarfélögum, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmið um gerð starfsreglna sérskóla og sérúrræða innan grunnskóla sem stofnað er til skv. 42. gr. laga um grunnskóla sem sveitarfélögum verði skylt að fara eftir.
    Einnig er lögð til sú breyting á 20. gr. reglugerðarinnar að ráðherra skuli staðfesta reglur
sveitarfélaga um innritun og útskrift nemenda úr sérskóla eða sérúrræði sem stofnað er til skv. 42. gr. laga um grunnskóla. Gagnrýni umboðsmanns Alþingis á gildandi reglugerð hefur m.a. beinst að því að ráðuneytið hafi látið frá sér það vald að hafa áhrif á reglur um innritun í sérskóla og sérúrræði innan grunnskóla. Hér er komið til móts við það sjónarmið þannig að sveitarfélög sem reka sérskóla eða sérúrræði sem stofnað er til skv. 42. gr. laga um grunnskóla skulu fá staðfestingu ráðherra á reglum um innritun og útskrift nemenda áður en slíkar reglur taka gildi. Hann hefur þá virkt eftirlit með framkvæmd þessa þáttar grunnskólalaga og möguleika á að hafa áhrif á umgjörð úrræða skv. 42. gr. laganna, m.a. hvað varðar jafnræði innan sveitarfélaga og á milli þeirra við heildarmat á aðstæðum umsækjanda. Í staðfestingu ráðherra á reglunum felst m.a. athugun á lögmæti viðkomandi reglna og að málsmeðferðarreglna hafi verið gætt við setningu þeirra. Í kjölfar gildistöku á þessari reglugerðarbreytingu kalli ráðuneytið eftir öllum reglum sveitarfélaga um innritun og útskrift nemenda samkvæmt þessari grein til staðfestingar.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á að vilji er til þess að verkaskipting milli ráðuneytisins og velferðarráðuneytisins haldist, sbr. það sem áður hefur komið fram um aðkomu ríkisins að málum af þessu tagi og meðferðarúrræðum.