Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 841  —  107. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar
við dreifingu raforku, með síðari breytingum (jöfnunargjald).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Barðadóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Benedikt Guðmundsson og Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkustofnun, Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Val Hafþórsson frá Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins og Bjarna Má Gylfason frá Samtökum iðnaðarins. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, HS Veitum hf., Orkubúi Vestfjarða ohf., Orkuveitu Reykjavíkur, Rarik ohf., Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi (237. mál) en náði ekki fram að ganga. Samkvæmt lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku skal greiða niður kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli ef hann fer umfram tiltekin viðmiðunarmörk. Frá árinu 2005 hefur árlega verið veitt fé í fjárlögum til að jafna kostnaðinn og hefur fjárheimildin verið óbreytt á þessum tíma eða um 240 millj. kr. Hins vegar er kostnaður við fulla jöfnun í samræmi við lögin áætlaður um 1 milljarður kr. Í frumvarpinu er lagt til að lagt verði sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem dreifiveitur taka á móti frá flutningskerfi Landsnets eða beint frá virkjunum að frádreginni þeirri raforku sem fer frá dreifikerfi inn á flutningskerfið.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja betur þá jöfnun á dreifikostnaði raforku sem lögin kveða á um. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði lagt á í tveimur áföngum og verði 0,30 kr. á hverja kílóvattstund af forgangsorku og 0,10 kr. á ótrygga orku (skerðanlega orku). Því verði tekjurnar af gjaldinu samtals 913 millj. kr. á árinu 2016. Gjaldið verður lægra á árinu 2015 eða 0,20 kr. á hverja kílóvattstund af forgangsorku en 0,066 kr. af ótryggri orku. Gert er ráð fyrir að tekjurnar á árinu 2015 verði um 608 millj. kr. sem komi til viðbótar við 240 millj. kr. framlag fjárlagaliðarins en gert er ráð fyrir að þegar gjaldtakan verði að fullu komin fram á árinu 2016 muni það framlag falla niður.
    Meiri hlutinn bendir á að gert er ráð fyrir auknu framlagi til niðurgreiðslu á húshitun í fjárlögum fyrir árið 2015. Er þar um 57 millj. kr. að ræða. Þá vísar meiri hlutinn til þess sem fram hefur komið hjá ríkisstjórninni að lögð verði fram tillaga til þingsályktunar til að ná fram afstöðu þingsins til lengri tíma stefnumótunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu raforku til húshitunar frá og með árinu 2016. Til að ná því markmiði er áætlað að auka þurfi niðurgreiðslur vegna húshitunar um 240 millj. kr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    
    Orðin „og koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 2015“ í 4. gr. falli brott.

Alþingi, 10. desember 2014.

Jón Gunnarsson,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Haraldur Benediktsson.
Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.