Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 958  —  507. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um rannsóknir á Grynnslunum fyrir utan Hornafjarðarós.


     1.      Hver er staða rannsókna á Grynnslunum fyrir utan Hornafjarðarós?
    Vegagerðin og áður Siglingastofnun hafa á undanförnum árum unnið að rannsóknum á Hornafjarðarósi. Þessar rannsóknir hafa beinst að ýmsum þáttum, m.a. að meta raundýpi á Grynnslunum, við hvaða aðstæður fiskiskip taka niðri við siglingu yfir Grynnslin og því að meta eðli og umfang sandflutninga með ströndinni og fyrir Ósinn. Fyrir liggja drög að áfangaskýrslu sem gert er ráð fyrir að gefa út á næstu vikum.
    Vegagerðin hefur sett fram rannsóknaáætlun til þriggja ára sem hefur það að markmiði að leita leiða til að auka dýpi á Grynnslunum. Þar er gert ráð fyrir tíðum dýptarmælingum framan við Ósinn og á strandsvæðunum sitt hvoru megin, botnsýnatöku, straummælingum ásamt sjávarhæða- og landmælingu. Þá er gert ráð fyrir reiknilíkönum fyrir straum, öldufar og efnisburðarreikninga. Verkefnaskil verða skýrsla með niðurstöðum og tillögugerð.
    Hornafjörður er á þeim stað á landinu þar sem landris hefur mælst einna mest. Fyrir liggja spár um aukið landris á næstu árum. Ekki er ljóst hvernig Hornafjarðarós bregst við minnkandi streymi um Ósinn vegna landriss en rannsóknaáætlunin mun einnig fjalla um þann þátt.

     2.      Hefur ráðherra tryggt að rannsóknir haldi áfram í sumar og þá hvernig?
    Á síðustu tveimur árum hefur Vegagerðin lagt til um 15 millj. kr. í rannsóknir á Grynnslunum fyrir utan Hornafjarðarós. Á sama tíma hefur fjárveiting til hafnamála verið skert verulega frá samgönguáætlun. Í ár eru áætlaðar 147 millj. kr. í þennan málaflokk og þar af er 40 millj. kr. liður sem var inni í sérgreindum verkefnum sem ekki voru á samgönguáætlun. Síðustu tvö ár hafa aðrar hafnir þurft að fjármagna þær rannsóknir sem þær hafa talið brýnar og eina höfnin sem notið hefur framlaga til rannsókna frá ríkissjóði er Hornafjarðarhöfn. Framhald rannsókna takmarkast við þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru.

     3.      Ef ekki, til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að tryggja þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru fyrir framkvæmdir til að gera innsiglinguna í Hornafjarðarhöfn greiða og örugga?
    Reynt verður að halda rannsóknum áfram í sumar en umfangið miðast við þá fjármuni sem unnt verður að leggja í verkefnið sem, eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, eru ekki miklir.

     4.      Ef rannsóknir halda áfram í sumar, hvenær má þá búast við að framkvæmdir geti hafist á grundvelli þeirra?

    Rannsóknaáætlunin nær til þriggja ára og niðurstöður munu liggja fyrir í lok þess tímabils. Á þessu stigi er ekki ljóst hverjar niðurstöður rannsóknanna verða og hvort framkvæmdir í framhaldi af því eru líklegar til að auka dýpi á Grynnslunum.