Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 995  —  573. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991,
með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum orðast svo:
    Nú er leitað nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um er að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda og ber þá sýslumanni að verða við ósk gerðarþola sem uppfyllir skilyrði 2. mgr. um að fresta í allt að þrjá mánuði í senn töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð í eignina á almennum markaði samþykkt skal sýslumaður að fullnægðum sömu skilyrðum verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum í allt að þrjá mánuði í senn. Hafi uppboði lokið en sá tími sem hæstbjóðandi er bundinn við boð sitt er ekki liðinn er sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola og að fengnu samþykki gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda að fresta frekari vinnslu málsins í allt að þrjá mánuði í senn að uppfylltum sömu skilyrðum.
    Skilyrði fyrir því að frestur verði veittur er að gerðarþoli sýni fram á að hann hafi sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána en ríkisskattstjóri hafi ekki endanlega ákvarðað leiðréttingu eða ákvörðun ríkisskattstjóra hafi verið kærð til úrskurðarnefndar og sé þar til meðferðar.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. október 2015.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu og við gerð þess var leitað upplýsinga frá ríkisskattstjóra og Sýslumannafélagi Íslands. Með því er lagt til að unnt verði að beiðni gerðarþola að fresta nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði í þeim tilvikum þar sem gerðarþoli hefur sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána en ekki hefur verið endanlega skorið úr um umsóknina þar sem annaðhvort ríkisskattstjóri hefur ekki endanlega ákvarðað leiðréttingu eða ákvörðun ríkisskattstjóra hefur verið kærð til kærunefndar og er þar til meðferðar.
    Með lögum nr. 130/2013 bættist ákvæði til bráðabirgða við lög um nauðungarsölu þar sem kveðið var á um að fresta mætti nauðungarsölu fram yfir 1. september 2014 að beiðni gerðarþola. Byggðist sú ráðstöfun á því að kynnt hafði verið aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána en áætlað var að þær tillögur sem þar voru settar fram yrðu komnar til framkvæmda um mitt ár 2014. Þótti því rétt að nauðungarsölum yrði frestað fram yfir 1. september 2014 svo að skuldurum gæfist tími til að leggja mat á þær aðgerðir sem boðaðar voru og þau áhrif sem þær gætu haft á skuldastöðu viðkomandi.
    Með lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, var síðan kveðið á um fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggðum fasteignalánum heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Var þá talið nauðsynlegt að fresta nauðungarsölum á meðan unnið yrði úr umsóknum um leiðréttingu. Gert var ráð fyrir að meðferð allra slíkra mála yrði lokið fyrir 1. mars 2015. Með lögum nr. 94/2014 var því samþykkt breyting á lögum um nauðungarsölu sem heimilaði að nauðungarsölu yrði frestað fram yfir 1. mars 2015 að beiðni gerðarþola að því tilskildu að viðkomandi hafði sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Um 350 mál eru í fresti á þessum grundvelli hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og hjá sýslumanninum á Suðurnesjum þar sem nauðungarsölur eru flestar.
    Ljóst er að lengri tíma hefur tekið að vinna úr umsóknum um leiðréttingu en upphaflega var gert ráð fyrir. Þrátt fyrir að 78% umsækjenda hafi samþykkt niðurstöðu ríkisskattstjóra eru umsóknir 5.000 einstaklinga enn óafgreiddar hjá embættinu, þ.e. niðurstöður þessara umsókna hafa ekki verið birtar viðkomandi. Þá hafa um 200 einstaklingar kært niðurstöðu ríkisskattstjóra til sérstakrar úskurðarnefndar og endanleg niðurstaða í þeim málum liggur ekki fyrir. Því þykir rétt að fresta enn á ný nauðungarsölum í þeim tilvikum þar sem umsókn um leiðréttingu hefur ekki verið endanlega afgreidd og umsækjandi bíður niðurstöðu í máli sínu. Frestunin á því ekki við ef umsækjandi hefur fengið niðurstöðu ríkisskattstjóra en ekki samþykkt hana. Eru skilyrðin öll þau sömu og við frestun nauðungarsölu samkvæmt lögum nr. 94/2014 en auk þess er gert að skilyrði að gerðarþoli bíði niðurstöðu ríkisskattstjóra á umsókn sinni um leiðréttingu eða að hann hafi kært niðurstöðu ríkisskattstjóra til úrskurðarnefndar. Til að fá frest á nauðungarsölu ber gerðarþola sem uppfyllir önnur skilyrði laganna því að leggja fram staðfestingu á því að umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sé enn óafgreidd hjá ríkisskattstjóra eða að kæra á niðurstöðu ríkisskattstjóra í máli hans hafi verið send úrskurðarnefnd og sé þar til meðferðar. Sýslumanni er þá heimilt að fresta nauðungarsölu í allt að þrjá mánuði í senn. Hafi gerðarþoli ekki fengið úrlausn í máli sínu innan þess tíma er heimilt að fresta máli aftur um samsvarandi tíma sýni viðkomandi fram á að hann bíði enn niðurstöðu í máli sínu. Lagt er til að heimildin til að fresta nauðungarsölu falli niður 1. október 2015 þannig að sýslumanni sé eftir þann tíma ekki heimilt að fresta nauðungarsölu eingöngu að beiðni gerðarþola á þessum grundvelli. Hins vegar getur nauðungarsölumál verið í fresti á grundvelli heimildarinnar fram yfir þann tíma ef ákvörðun um frestun er tekin fyrir 1. október 2015.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu,
nr. 90/1991, með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).

    Tilgangur frumvarpsins er að veita heimild í lögum til að fresta nauðungarsölum á fasteignum í allt að þrjá mánuði í senn fari gerðarþoli fram á slíkt. Miðað er við fasteignir þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Jafnframt er gert að skilyrði að gerðarþoli hafi sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána samkvæmt lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, og bíði endanlegrar niðurstöðu umsóknarinnar annaðhvort hjá ríkisskattstjóra eða kærunefnd, hafi ákvörðun ríkisskattstjóra verið kærð þangað. Fresturinn nær til síðari stiga nauðungarsölu, þ.e. að taka ákvörðun um framhald uppboðs eða ráðstöfun á almennum markaði. Jafnframt er lagt til að hafi uppboði lokið, en sá tími sem hæstbjóðandi er bundinn við boð sitt er ekki liðinn, er sýslumanni heimilt að fresta frekari aðgerðum en þá verður auk beiðni gerðarþola jafnframt að liggja fyrir samþykki gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda í fasteignina. Heimildin er tímabundin og fellur niður 1. október 2015.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð.