Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1010  —  30. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum
(fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands og Andra Guðmundsson frá H.F. Verðbréfum.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bankasýslu ríkisins, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Frumtaki slhf., H.F. Verðbréfum, Kauphöll Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Seðlabanka Íslands.
    Frumvarp þetta byggist á frumkvæði sem barst frá Kauphöll Íslands hf. haustið 2013. Í framhaldinu lagði nefndin fram frumvarp á Alþingi (sjá þskj. 868 í 507. máli). Vegna anna gafst hins vegar ekki tækifæri til að mæla fyrir frumvarpinu. Frumvarpið var lagt fram að nýju með smávægilegum breytingum í upphafi þessa þings.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða, sbr. 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Lagt er til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) til jafns við verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði. Fram kom að verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga teljast ekki til verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði og því fari um þau sem önnur óskráð verðbréf skv. 3. mgr. 36. gr. laganna.
    Gildandi lög leggja fjárfestingar lífeyrissjóða í verðbréfum, sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga, að jöfnu við fjárfestingar í óskráðum verðbréfum. Um verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga gilda lagareglur og formreglur sem auka vernd fjárfesta umtalsvert. Meiri hlutinn telur því betur fara á því að flokka verðbréf, sem verslað er með á MTF, með álíkum hætti og verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamörkuðum eins og lagt er til í frumvarpinu.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að mikilvægasti hluti þeirra reglna sem gilda um upplýsingagjöf á skipulögðum mörkuðum eiga með sama hætti við um markaðstorg fjármálagerninga. Þannig gildir XIII. kafli laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja með sama hætti á MTF og skipulegum mörkuðum.
    Félögum á markaðstorgi fjármálagerninga ber ekki líkt og félögum á aðalmarkaði að upplýsa um laun og hlunnindi stjórnenda og birta stjórnháttaryfirlýsingu. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að lífeyrissjóðir setji sér hluthafastefnu og skýrar reglur um launagreiðslur til stjórnenda í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í, ekki síst með auknum fjárfestingum í félögum sem ekki ber að birta framangreindar upplýsingar. Hluthafastefna af þessu tagi sem og reglur um launagreiðslur til stjórnenda munu að mati nefndarinnar virka sem hvati fyrir fyrirtæki sem skráð eru á markaðstorgið.
    Vakin var athygli á því í umsögnum um málið að nýr aðili, sem uppfyllir skilyrði laga, getur tekið til við að reka nýtt markaðstorg fjármálagerninga og ekki er sjálfgefið að sá aðili gangi jafn langt og Kauphöll Íslands hefur gert í reglum First North sem nokkuð er vikið að í greinargerð með frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur áherslu á, þótt vakin sé athygli á því í greinargerð með frumvarpinu hvernig kröfur laganna hafa verið útfærðar í reglum First North, að það frumvarp sem hér er til meðferðar miðast við almennar lagareglur sem gilda um markaðstorg fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Eftir hrun hafa heimildir til fjárfestinga í óskráðum bréfum verið auknar úr 10% í 20% af hreinni eign. Bent hefur verið á að með þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir færu fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) úr 20% af hreinni eign lífeyrissjóðs í 100% af hreinni eign. Fram kom að fyrri hugmyndir um að veita lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta á MTF hafa miðast við 5% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Ljóst er að núverandi tillaga gengur mun lengra og telur meiri hlutinn rétt að bregðast við þessum ábendingum og fara varlega af stað og leggur meiri hlutinn því til að kveðið verði á um að heimilt verði að fjárfesta allt að 5% af hreinni eign lífeyrissjóðs í verðbréfum sem verslað er með á MTF, til viðbótar þeim 20% sem þegar er heimilt að fjárfesta í óskráðum bréfum skv. 1. málsl. 3. mgr. 36. gr. lífeyrissjóðalaga.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram komu hjá umsagnaraðilum um að rétt sé að gera breytingu á a-lið 1. mgr. 36. gr. a sem varðar fjárfestingarheimildir vörsluaðila séreignarsparnaðar til samræmis við þær breytingar sem felast í frumvarpinu.
    Fram kom í máli umsagnaraðila að starfandi er nefnd á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vinnur að endurskoðun fjárfestingarheimilda lífeyrissjóða. Meiri hlutinn leggur áherslu á að hraðað verði eins og kostur er heildarendurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.
    Það er mat meiri hlutans að auknar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða á markaðstorgi fjármálagerninga verði til þess að auka fjölbreytni fjárfestingarkosta sem lífeyrissjóðum standi til boða á innlendum markaði. Þannig verði mögulegt að auka áhættudreifingu í eignasöfnum lífeyrissjóða.
    Meiri hlutinn telur frumvarpið auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem lúta skarpari laga- og regluumgjörð. Það geti bæði bætt ávöxtun lífeyrissjóða og aukið hagvöxt. Þá bendir meiri hlutinn á að endanleg ábyrgð á fjárfestingum lífeyrissjóða liggur fyrst og fremst hjá stjórnum þeirra.
    Skort hefur hvata fyrir smá og meðalstór fyrirtæki til að undirgangast kröfur MTF um gagnsæi og upplýsingagjöf en frumvarpið miðar að því að auka þann hvata.
    Í þessu ljósi leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Við 1. gr.
              a.      Orðin „eða vera í viðskiptum á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF)“ í a-lið falli brott.
              b.      C-liður orðist svo: Á eftir 1. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Að því viðbættu er heimilt að fjárfesta fyrir allt að 5% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfum sem falla undir 1., 2., 5., 6., 8. og 9. tölul. 1. mgr. og verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF). Með markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) er átt við markaðstorg fjármálagerninga samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum, sem rekið er á grundvelli leyfis frá Fjármálaeftirlitinu.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við a-lið 1. mgr. 36. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að því viðbættu er heimilt að fjárfesta fyrir allt að 5% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF).

Alþingi, 25. febrúar 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Guðmundur Steingrímsson. Pétur H. Blöndal. Unnur Brá Konráðsdóttir.
Árni Páll Árnason. Steingrímur J. Sigfússon.