Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1073  —  542. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um fæðingarþjónustu.

                        
     1.      Hve margar fæðingardeildir eru starfandi á landinu nú og hvernig hefur þróunin verið undanfarin tíu ár?
    Á landinu eru starfandi átta fæðingardeildir. Fæðingarstöðum hefur fækkað á undan­förnum 10 árum, úr 14 í 10. Árið 2004 fóru 98,5% fæðinga fram á þeim átta fæðingardeildum sem til staðar eru í landinu að heimafæðingum undanskildum. Árið 2013 fóru allar fæðingar að þremur undanskildum fram á þessum sömu átta fæðingardeildum. Fæðingar hafa á síðast­liðnum 10 árum flust á staði þar sem unnt er að tryggja meira öryggi við fæðinguna.

     2.      Á hvaða sjúkrastofnunum eru starfræktar fæðingardeildir?
    Á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík og á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi eru starfræktar fæðingar- og kvensjúkdóma­deildir þar sem starfandi eru fæðingar- og kvensjúkdómalæknar.
    Fjórar aðrar fæðingardeildir eru starfandi á landinu. Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er fæðingardeild á Ísafirði sem er rekin í samstarfi við bráðadeild sjúkrahússins. Í mæðraeftirliti er lágur áhættuþröskuldur og konur sendar í mat til áhættuteymis á Miðstöð mæðraverndar í Reykjavík eða til sérfræðinga á fæðingardeild Landspítala þegar tilefni þykir til.
    Á Heilbrigðisstofnun Austurlands er fæðingardeildin í Neskaupstað. Þar stýra ljósmæður deildinni í samráði við heilsugæslulækna. Ef upp koma vandamál í barneignarferlinu er haft samráð og samstarf við fæðingarlækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri, áhættumæðravernd Land­spítala og barnalækna vökudeildar Landspítala. Öryggi móður og barns er ávallt í fyrirrúmi.
    Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru fæðingardeildir í Vestmannaeyjum og á Selfossi. Þar er rekin ljósmæðrastýrð fæðingarþjónusta sem er í höndum ljósmæðra og heimilislækna á heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Samráð er haft við fæðingarlækna ef þörf er á.
    Á þessum fæðingardeildum er ekki alltaf tryggt að unnt sé að ljúka fæðingu. Ef svo stendur á og fæðingin metin áhættufæðing er hin fæðandi kona send á fæðingardeild þar sem unnt er að ljúka fæðingunni, sem er yfirleitt á Landspítalanum eða Sjúkrahúsinu á Akureyri.      3.      Hve margar fæðingar hafa verið á hverri fæðingardeild sl. fimm ár?
    Skipting fæðinga eftir fæðingarstöðum:

2009 2010

2011

    2012 2013
LSH
3.500
3.420 3.241 3.265 3.229
FSA
446
515     393     474 404
Sj. Keflavík
273
172 138 113 83
Sj. Akranesi 273     358     300 281 224
Sj. Selfossi     162      95 91 61 58
Sj. Ísafirði 54      55 59 45 37
Sj. Vestmannaeyjum 40 37 36 21 25
Sj. Sauðárkróki 15 4 2 3 2
Sj. Neskaupstað 82 87 63 78 84
Fh. Höfn 4 4 3 6 1
Á leið á fæðingarstað 1 3 8
Heimafæðingar 89 86 94 99 81
Hgst. Ólafsvík 1 0 0 1 0
Samtals: 4.939 4.834 4.421 4.450 4.236



     4.      Hvernig er komið til móts við þær konur sem ekki eiga kost á fæðingarþjónustu í heima­byggð?
    Allar konur á Íslandi eiga kost á mæðravernd í heimabyggð þó að sums staðar sé ekki tryggt að ljúka megi fæðingu þar. Þurfa þær konur því að fæða annars staðar og sérstaklega ef um áhættufæðingu er að ræða. Embætti landlæknis hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar um val á fæðingarstað. Í þeim eru skilgreind fjögur mismunandi þjónustustig frá A til D og settar fram ábendingar og skilyrði um klíníska þjónustu og starfsaðstæður. Leiðbeiningarnar kveða ekki á um hvaða heilbrigðisstofnanir tilheyra hverju þjónustustigi, heldur er ætlunin að hver staður skilgreini sitt stig miðað við aðstæður og fagþekkingu á hverjum stað.

     5.      Standa þeim konum og fjölskyldum þeirra íbúðir til boða í nágrenni við fæðingarstað? Ef svo er, hvar eru þær íbúðir, hvernig er þeim úthlutað og hvernig eru þær kynntar? Ef svo er ekki, stendur þá til að breyta því fyrirkomulagi þannig að verðandi mæður og makar þeirra geti dvalið í nágrenni við fæðingardeild og sótt um opinbera styrki fyrir þeim kostnaði sem af hlýst?
         Miklar breytingar hafa orðið á sængurlegu á undanförnum 10 árum. Mikill meiri hluti fæðandi kvenna dvelur innan við 36 klst. á fæðingardeild að fæðingu lokinni og fær ljós­mæðraþjónustu í heimahúsi eftir það. Sömuleiðis eru feður nú orðið viðstaddir fæðingu ef þeir kjósa svo og þeir geta dvalið hjá móður og barni þann tíma sem dvalið er á fæðingar­deildinni og það sama á við um systkini hins nýfædda barns. Yfirleitt eru ekki ætlaðar sérstakar íbúðir vegna þessa heldur dvelur fjölskyldan á fæðingardeildinni. Flestar áhættu­fæðingar fara fram á Landspítala.
    Til að bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur sem m.a. koma utan af landi er fyrir­hugað að hefja byggingu sjúkrahótels við Landspítalann nú á þessu ári.
     6.      Telur ráðherra að fjölga þurfi fæðingarstöðum út um land til að bæta öryggi fæðandi kvenna og ef svo er, hvernig telur ráðherra best að standa að þeirri uppbyggingu?
    Fæðingarstöðum á landsbyggðinni hefur fækkað undanfarin ár vegna þess að ekki hefur verið unnt að tryggja öryggi fæðandi kvenna með fullnægjandi hætti á stöðum þar sem fáar fæðingar eru. Fæðingar eru of fáar á minni stöðum til þess að starfsfólk geti viðhaldið þjálfun sinni og færni í fæðingarfræðum. Vandamál sem upp koma í fæðingu eru yfirleitt svo bráð að fljótt getur þurft að grípa til úrræða svo sem bráðakeisaraskurðar. Í svo stóru og dreifbýlu landi eins og Íslandi er erfitt eða ómögulegt að tryggja að slík kunnátta og færni sé til staðar. Að svo stöddu eru ekki uppi áform um að fjölga fæðingarstöðum.
    Öryggi fæðandi kvenna þar sem áhættufæðing getur verið yfirvofandi verður best tryggt með því að tryggja þeim konum gott aðgengi að stærri stöðum og að gera þeim og fjölskyldum þeirra vistina þar eins bærilega og unnt er. Liður í því síðarnefnda er fyrirhuguð bygging sjúkrahótels við Landspítalann nú á þessu ári, eins og lýst var hér fyrr, og í undir­búningi er aðstaða fyrir fólk á sjúkrahóteli á Akureyri.