Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
2. uppprentun.

Þingskjal 1110  —  424. mál.
Breyttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012,
með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki).


Frá meiri hluta um­hverfis- og sam­göngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Huga Ólafsson frá um­hverfis- og auðlindaráðuneyti, Kristínu Lindu Árnadóttur, Hildu Guðnýju Svavarsdóttur og Þorstein Jóhannsson frá Um­hverfisstofnun, Hólmfríði Sigurðardóttur og Írisi Lind Sæmundsdóttur frá Orkuveitu Reykjavíkur og Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Isavia, Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Samorku og Um­hverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum, sem allar má rekja til alþjóðlegs samstarfs Íslands í gegnum EES-samninginn. Í fyrsta lagi er lögð til innleiðing á tilskipunum 2009/31/EB og 2009/33/EB um geymslu koldíoxíðs í jarðlögum og opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum, í öðru lagi er lögð til breyting á viðmiðunarfjárhæðum losunargjalds skv. 3. mgr. 14. gr. laganna, sem tekur til aðila sem eru undanskildir gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Breyta þarf fjárhæð gjaldsins ár hvert svo að það fylgi forsendum fjárlaga. Í þriðja lagi er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lögin til fullnaðarinnleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014 sem felur í sér breytt gildissvið viðskiptakerfis með losunarheimildir sem tekur til flugrekenda. Í því felst að þeim flugrekendum sem skila skýrslu og gera upp losunarheimildir hér á landi fækkar umtalsvert. Breytingin er tímabundin og gildir til 31. desember 2016.

Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum.
    Í a-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að innleidd verði tilskipun 2009/31/EB um förgun og geymslu koldíoxíðs í jarðlögum. Mat um­hverfis- og auðlindaráðuneytisins er að heppilegast sé að svo stöddu að innleiða tilskipunina þannig að almennt bann verði lagt við niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs í jarðlögum hér á landi en með heimild fyrir rannsóknar- og þróunarverkefni þar sem ætlunin er að geyma minna en 100 kílótonn af koldíoxíði. Skv. b-lið 5. gr. frumvarpsins skal endurskoða ákvæðið ekki síðar en árið 2020. Aðferðin við innleiðingu ákvæðisins skiptir miklu máli varðandi tilraunaverkefni sem Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið að, CarbFix-verkefnið, þar sem koldíoxíði er blandað við vatn og því dælt niður í jarðlög á 500 metra dýpi í formi kolsýru þar sem það binst. Mælingar hafa sýnt að innan árs frá niðurdælingu hafa um 80–90% af koldíoxíði bundist í basöltum og kristallast í jarðlögum og geymist þannig. Orkuveitan hefur einnig unnið að öðru verkefni, SulFix-verkefninu, þar sem brennisteinsvetni er dælt niður á svipaðan hátt og það binst síðan í jarðlögum. Líkt og rakið er í athugasemdum við frumvarpið virðist tilskipunin miða við jarðfræðilegar aðstæður sem eru töluvert frábrugðnar íslenskum aðstæðum.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að CarbFix-verkefnið félli utan gildissviðs tilskipunar 2009/31/EB og þar með frumvarpsins þar sem sú aðferð sem notuð er við niðurdælingu koldíoxíðs í verkefninu sé með öðrum hætti en tilskipunin gerir ráð fyrir, þ.e. þegar koldíoxíði er dælt niður sé það í formi kolsýru og tilskipunin taki ekki til niðurdælingar á kolsýru. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að tilgangur tilskipunarinnar er að ná til föngunar og niðurdælingar kolefnis en kolefni er í formi koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Í 1. tölul. 3. gr. tilskipunarinnar er geymsla koldíoxíðs í jörðu skilgreind sem „niðurdæling og síðan geymsla CO 2-strauma í jarðmyndunum neðanjarðar“ og í 13. tölul. 3. gr. er CO 2- straumur skilgreindur sem „flæði efna úr ferlum til föngunar á CO 2“. Í tilskipuninni er ekki skilgreint nákvæmar á hvaða formi koldíoxíðið þarf að vera til að falla undir ákvæði hennar en samkvæmt framansögðu er ljóst að þegar koldíoxíð er blandað vatni í þeim tilgangi að dæla því niður í jarðlög til geymslu þar fellur sú framkvæmd undir gildissvið tilskipunarinnar og þar með gildissvið frumvarpsins. CarbFix-verkefnið er hins vegar tilraunaverkefni og fellur því undir undanþáguákvæði 2. mgr. a-liðar 3. gr. frumvarpsins. Þá er það einnig ljóst að mati nefndarinnar að skilgreining 1. gr. frumvarpsins felur í sér að hún tekur til niðurdælingar og geymslu, þ.e. niðurdæling ein og sér án geymslu fellur ekki þar undir.
    Fyrir nefndinni kom fram að verkefnið hefði gengið mjög vel eins og fram kemur hér að framan og því væri líklegt að búið yrði að dæla meira en 100 kílótonnum af koldíoxíði fyrir árið 2020. Nefndin fékk þær upplýsingar að um­hverfis- og auðlindaráðherra hefði skipað nefnd sem hefði það hlutverk að fylgjast með framþróun og breytingum á reglum ESB um niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs og er nefndinni ætlað að skila ráðherra frumvarpi um mitt ár 2016 sem miði að því að heimila niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs miðað við íslenskar aðstæður. Í nefndinni sitja fulltrúi ráðuneytisins, Um­hverfisstofnunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Endurskoðun á tilskipun 2009/31/EB er þegar hafin innan ESB og mikilvægt að í þeirri vinnu verði íslenskum sjónarmiðum komið á framfæri sem leiði til þess að tekið verði tillit til jarðfræðilegra aðstæðna hér á landi þannig að verkefnum á þessu sviði hér fylgi ekki allar þær íþyngjandi kröfur sem hugsanlega er ekki þörf hérlendis. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að niðurstaða fáist sem fyrst svo komast megi hjá neikvæðum áhrifum á fyrrgreind verkefni og hugsanlega niðurdælingu koldíoxíðs í kjölfar þeirra.

Opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum.
    Í b-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að innleidd verði tilskipun 2009/33/EB um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum. Ákvæðið tekur til opinberra aðila eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga um opinber innkaup, nr. 84/2007. Lagt er til að efnisreglurnar verði lögfestar í lögum um loftslagsmál en almennt eru efnisreglur um opinber innkaup lögfestar í þeim lögum. Fyrir nefndinni kom fram að þetta væri niðurstaða þeirra þriggja ráðuneyta sem efni tilskipunar 2009/33/EB snertir. Að mati nefndarinnar fer almennt betur á því að efnisreglur sem varða opinber innkaup séu öll í einum lögum þannig að þeir aðilar sem lögin taka til viti hvert þeir þurfi að leita til að kynna sér þær reglur sem gilda um innkaup þeirra. Fyrir nefndinni kom þó einnig fram að hafin er endurskoðun á lögum um opinber innkaup í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og bendir meiri hlutinn á að í þeirri endurskoðun þurfi m.a. að taka til skoðunar hvort rétt sé að reglurnar muni til frambúðar standa í lögum um loftslagsmál eða lögum um opinber innkaup. Meiri hlutinn mun bíða niðurstöðu þeirrar endurskoðunar og leggur því að svo stöddu til að ákvæðið verði í lögum um loftslagsmál.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fyrir nefndinni kom fram að óljóst væri hvort b-liður 3. gr. frumvarpsins tæki til Orkuveitu Reykjavíkur þar sem starfsemi félagsins væri að mestu hægt að jafna til starfsemi einkaaðila, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga um opinber innkaup. Meiri hlutinn bendir á að Orkuveitan fellur undir reglugerð um innkaup stofnana sem annast vatn­sveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, nr. 755/2007. Reglugerðin er sett með stoð í 3. mgr. 7. gr. laga um opinber innkaup en skv. 2. mgr. sömu greinar gilda önnur ákvæði laganna en ákvæði XIV. og XV. kafla ekki um aðila sem falla undir reglugerð nr. 755/2007. Meiri hlutinn bendir þó á mikilvægi þess að opinberir aðilar og fyrirtæki í eigu hins opinbera hagi sínum innkaupum með vistvæn sjónarmið að leiðarljósi.

Seinna skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á frumvarpinu að bæta við lögin ákvæði til bráðabirgða sem lögfestir 4. gr. samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með nefndarálitinu.
    Ísland, Evrópusambandið, aðildarríki þess og Króatía gáfu út sam­eigin­lega yfirlýsingu í lok árs 2012 við innleiðingu Doha-breytingarinnar, um fyrirætlanir ríkjanna til að uppfylla skuldbindingar sam­eigin­lega á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar sem er frá 2013–2020. Í yfirlýsingunni er nánar kveðið á um að ríkin muni uppfylla skuldbindingarnar á öðru tímabili Kyoto-bókunarinnar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 4. gr. bókunarinnar sem heimili aðilum að bókuninni að uppfylla skuldbindingar skv. 3. gr. hennar sam­eigin­lega. Íslensk stjórnvöld hófu formlegar samningaviðræður við Evrópusambandið í mars 2014 varðandi hlut Íslands í sam­eigin­legum efndum ríkjanna á seinna skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Þeim samningaviðræðum lauk í maí 2014 með áritun samningsaðila á samning á milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess og á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Gert er ráð fyrir að samningurinn verði undirritaður á næstunni.
    Við nánari rýni á drögum samningsins, sem lágu fyrir um miðjan janúar 2015, var það metið svo af stjórnvöldum að rétt væri að veita 4. gr. samningsins lagagildi hér á landi og leggur meiri hlutinn það til hér að ósk um­hverfis- og auðlindaráðuneytisins. Skv. 1. mgr. ákvæðisins eru þær ESB-gerðir sem vísað er til í 1. viðauka við samninginn bindandi fyrir Ísland, en þær varða skuldbindingar í sambandi við Kyoto-bókunina og er einkum um að ræða tæknilegar reglur um loftslagsbókhald og skilafresti, líkt og fjallað er um í samningnum sjálfum. Sérstök nefnd um sam­eigin­legar efndir skv. 6. gr. samningsins getur með ákvörðunum sínum bætt ESB-gerðum við fyrrgreindan viðauka. Nefndin, sem skal skipuð fulltrúum samningsaðilanna, þ.e. aðildarríkja ESB og Íslands, skal skv. 2. mgr. 6. gr. taka allar ákvarðanir með samhljóða samþykki. Í því felst að engar gerðir öðlast gildi fyrir Ísland nema fulltrúi Íslands samþykki þær. Tekið er fram í 4. mgr. 4. gr. samningsins að ef breytingar á 1. viðauka við samninginn kalla á breytingar á löggjöf Íslands skuli við gildistöku slíkra breytinga hafa hliðsjón af þeim tíma sem Ísland þarf til að samþykkja breytingarnar og þörfinni á að tryggja samræmi við kröfur Kyoto-bókunarinnar og ákvarðanir.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem gerð hefur verið grein fyrir og lögð er til í sérstöku skjali.
    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. mars 2015.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Haraldur Einarsson. Birgir Ármannsson.
Elín Hirst. Vilhjálmur Árnason.


Fylgiskjal.


SAMNINGUR MILLI ÍSLANDS ANNARS VEGAR OG EVRÓPUSAMBANDSINS OG AÐILDARRÍKJA ÞESS HINS VEGAR UM ÞÁTTTÖKU ÍSLANDS Í SAMEIGINLEGUM EFNDUM Á SKULDBINDINGUM ÍSLANDS, EVRÓPUSAMBANDSINS OG AÐILDARRÍKJA ÞESS Á ÖÐRU SKULDBINDINGARTÍMABILI KYOTO-BÓKUNARINNAR VIÐ RAMMASAMNING SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA UM LOFTSLAGSBREYTINGAR


ÍSLAND
    annars vegar og
EVRÓPUSAMBANDIÐ
(hér á eftir einnig nefnt „Sambandið“),
KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
LÝÐVELDIÐ BÚLGARÍA,
LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
LÝÐVELDIÐ EISTLAND,
ÍRLAND,
LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
LÝÐVELDIÐ KRÓATÍA
LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
LÝÐVELDIÐ KÝPUR,
LÝÐVELDIÐ LETTLAND,
LÝÐVELDIÐ LITHÁEN,
STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
UNGVERJALAND,
LÝÐVELDIÐ MALTA,
KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
LÝÐVELDIÐ PÓLLAND,
LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
RÚMENÍA,
LÝÐVELDIÐ SLÓVENÍA,
LÝÐVELDIÐ SLÓVAKÍA,
LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS
    hins vegar,
(hér á eftir nefndir „samningsaðilar“),

SEM HAFA HUGFAST:

Í sam­eigin­legu yfirlýsingunni, sem gefin var út í Doha 8. desember 2012, kemur fram að skuldbindingar Sambandsins, aðildarríkja þess, Króatíu og Íslands um magnbundna takmörkun og skerðingu á losun á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar byggist á samkomulaginu um að þessar skuldbindingar verði efndar sam­eigin­lega í samræmi við 4. gr. Kyoto-bókunarinnar, að 7. mgr. b í 3. gr. í Kyoto-bókuninni verði beitt að því er varðar sam­eigin­legt, úthlutað magn samkvæmt samningnum um sam­eigin­legar efndir Evrópusambandsins, aðildarríkja þess, Króatíu og Íslands, og að þetta eigi ekki við um aðildarríkin, Króatíu eða Ísland hvert í sínu lagi.

Í þeirri yfirlýsingu lýstu Sambandið, aðildarríki þess og Ísland því yfir að þau muni á sama tíma afhenda til vörslu skjal um staðfestingu, eins og gert var með Kyoto-bókuninni sjálfri, til að tryggja að gildistaka þess verði samtímis í Sambandinu, 27 aðildarríkjum þess, Króatíu og Íslandi.

Ísland tekur þátt í störfum nefndar Evrópusambandsins um loftslagsbreytingar, sem stofnuð var í samræmi við 26. gr. reglugerðar (ESB) nr. 525/2013, og störfum vinnuhóps I sem heyrir undir nefndina um loftslagsbreytingar.

HAFA ÁKVEÐIÐ AÐ GERA MEÐ SÉR ÞENNAN SAMNING:


1. gr.
Markmið samningsins

    Markmið þessa samnings er að kveða á um skilmálana sem gilda um þátttöku Íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Evrópusambandsins, aðildarríkja þess og Íslands á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar og auðvelda skilvirka framkvæmd þessarar þátttöku, þ.m.t. framlag Íslands í efndum Sambandsins að því er varðar kröfur um skýrslugjöf á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar.

2. gr.
Skilgreiningar

    Í þessum samningi er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „Kyoto-bókunin“: Kyoto-bókunin við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), eins og henni var breytt með Doha-breytingunni á þeirri bókun sem samþykkt var 8. desember 2012 í Doha.
b)    „Doha-breyting“: Doha-breytingin á Kyoto-bókuninni við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, samþykkt 8. desember 2012 í Doha, þar sem kveðið er á um annað skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2020.
c)    „Skilmálar um sam­eigin­legar efndir“: skilmálarnir sem settir eru fram í 2. viðauka við þennan samning.
d)    „Tilskipunin um viðskiptakerfi fyrir losunarheimildir“: tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins, með áorðnum breytingum.

3. gr.
Sameiginlegar efndir

    1.     Samningsaðilarnir eru einhuga um að efna í sameiningu skuldbindingar sínar um magnbundna takmörkun og skerðingu á losun á öðru skuldbindingartímabilinu, sem skráð er í þriðja dálki viðauka B við Kyoto-bókunina, í samræmi við skilmálana um sam­eigin­legu efndirnar.
    2.     Í því skyni skal Ísland gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að öll samanlögð losun þess af mannavöldum á öðru skuldbindingartímabilinu í koltvísýringsígildum á gróðurhúsalofttegundum, sem tilgreindar eru í viðauka A við Kyoto-bókunina, frá upptökum og viðtökum sem falla undir Kyoto-bókunina en falla ekki undir gildissvið tilskipunarinnar um viðskiptakerfi fyrir losunarheimildir fari ekki yfir úthlutað magn sem sett er fram í skilmálunum um sam­eigin­legu efndirnar.
    3.     Með fyrirvara um 8. gr. þessa samnings skal Ísland í lok annars skuldbindingartímabilsins og í samræmi við ákvörðun 1/CMP.8 og aðrar viðkomandi ákvarðanir skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða aðila að Kyoto-bókuninni og í samræmi við skilmála um sam­eigin­legar efndir innleysa af landsskrá sinni einingar úthlutaðs magns (AAU), einingar vottaðrar losunarskerðingar (CER), losunarskerðingareiningar (ERU), bindingareiningar (RMU) og bráðabirgðaeiningar vottaðrar losunarskerðingar (tCER) eða langtímaeiningar vottaðrar losunarskerðingar (lCER) sem jafngilda losun gróðurhúsalofttegunda frá upptökum og upptöku í viðtaka sem falla undir úthlutað magn þess.

4. gr.
Beiting viðeigandi löggjafar Sambandsins

    1.     Þær réttargerðir, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, skulu vera bindandi fyrir Ísland og gilda á Íslandi. Ef réttargerðirnar, sem falla undir þann viðauka, hafa að geyma tilvísanir til aðildarríkja Sambandsins skal litið svo á að tilvísanirnar, að því er þennan samning varðar, vísi einnig til Íslands.
    2.     Breyta má 1. viðauka við þennan samning með ákvörðun nefndar um sam­eigin­legar efndir sem komið er á fót með 6. gr. þessa samnings.
    3.     Nefndin um sam­eigin­legar efndir getur kveðið nánar á um tæknilegt fyrirkomulag varðandi beitingu þeirra réttargerða, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, að því er varðar Ísland.
    4.     Ef breytingar á 1. viðauka við þennan samning kalla á breytingar á almennri löggjöf Íslands skal við gildistöku slíkra breytinga hafa hliðsjón af þeim tíma sem Ísland þarf til að samþykkja breytingarnar og þörfinni á að tryggja samræmi við kröfurnar í Kyoto-bókuninni og ákvörðunum.
    5.     Það er sérstaklega brýnt að framkvæmdastjórnin fylgi venjulegri hefð og hafi samráð við sérfræðinga, þ.m.t. við sérfræðinga á Íslandi, áður en framseldar gerðir, sem felldar eru eða felldar verða undir 1. viðauka við þennan samning, verða samþykktar.

5. gr.
Skýrslugjöf

    1.     Ísland skal eigi síðar en 15. apríl 2015 leggja fyrir skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skýrslu til að auðvelda útreikninga á úthlutuðu magni þess, í samræmi við þennan samning, kröfurnar í Kyoto-bókuninni, Doha-breytingunni og þeim ákvörðunum sem samþykktar hafa verið í tengslum við þær.
    2.     Sambandið skal taka saman skýrslu til að auðvelda útreikninga á úthlutuðu magni Sambandsins og aðra skýrslu til að auðvelda útreikninga á sam­eigin­legu, úthlutuðu magni Sambandsins, aðildarríkja þess og Íslands („sam­eigin­legt, úthlutað magn“), í samræmi við þennan samning, kröfurnar í Kyoto-bókuninni, Doha-breytingunni og þeim ákvörðunum sem samþykktar hafa verið í tengslum við þær. Sambandið skal leggja þessar skýrslur fyrir skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eigi síðar en 15. apríl 2015.

6. gr.
Nefnd um sam­eigin­legar efndir

    1.     Hér með er komið á fót nefnd um sam­eigin­legar efndir, skipuð fulltrúum samningsaðilanna.
    2.     Nefndin um sam­eigin­legar efndir skal tryggja skilvirka framkvæmd og starfrækslu þessa samnings. Í því skyni skal hún taka þær ákvarðanir, sem kveðið er á um í 4. gr. þessa samnings, og skiptast á skoðunum og upplýsingum sem tengjast framkvæmd skilmálanna um sam­eigin­legu efndirnar. Allar ákvarðanir nefndarinnar um sam­eigin­legar efndir skulu teknar með samhljóða samþykki.
    3.     Nefndin um sam­eigin­legar efndir skal koma saman setji einn eða fleiri samningsaðilar fram beiðni um það eða að frumkvæði Sambandsins. Þeirri beiðni skal beint til Sambandsins.
    4.     Nefndarmenn, sem sitja fyrir hönd Sambandsins og aðildarríkja þess í nefndinni um sam­eigin­legar efndir, skulu í fyrstu vera fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkjanna sem taka einnig þátt í störfum nefndar Evrópusambandsins um loftslagsbreytingar, sem komið var á fót í samræmi við 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013. 1 Um­hverfis- og auðlindaráðuneyti Íslands skal tilnefna fulltrúa landsins. Hvenær sem því verður við komið skal halda fundi nefndarinnar um sam­eigin­legar efndir nálægt fundum nefndarinnar um loftslagsbreytingar.
    5.     Nefndin um sam­eigin­legar efndir skal samþykkja starfsreglur sínar með samhljóða samþykki.

7. gr.
Fyrirvarar

    Óheimilt er að gera fyrirvara við samning þennan.

8. gr.
Tímalengd og framfylgd

    1.     Þessi samningur er gerður fyrir tímabilið til loka viðbótartímabilsins sem gefið er til að uppfylla skuldbindingarnar á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar eða þar til öllum spurningum um framkvæmd samkvæmt Kyoto-bókuninni, að því er varðar einhvern samningsaðilanna, sem tengjast því skuldbindingartímabili eða framkvæmd sam­eigin­legu efndanna, hefur verið svarað, hvort sem ber upp síðar. Ekki er unnt að segja þessum samningi upp fyrr en þá.
    2.     Ísland skal tilkynna nefndinni um sam­eigin­legar efndir um hvers kyns misbresti eða yfirvofandi misbresti á beitingu ákvæðanna í þessum samningi. Réttlæta verður hvers kyns misbrest af þessu tagi þannig að nefndarmenn telji fullnægjandi innan 30 daga frá tilkynningu þess. Misbrestur á því að beita ákvæðum þessa samnings telst að öðrum kosti brot á þessum samningi.
    3.     Ef um er að ræða brot á þessum samningi eða andmæli af Íslands hálfu við því að breyta 1. viðauka við hann í samræmi við 2. mgr. 4. gr. skal Ísland gera grein fyrir samanlagðri losun af mannavöldum í koltvísýringsígildum frá upptökum og upptöku í viðtaka á Íslandi sem falla undir Kyoto-bókunina á öðru skuldbindingartímabilinu, þ.m.t. losun frá upptökum sem falla undir kerfi Evrópusambandsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda, í samanburði við markmiðið um magnbundna skerðingu þess á losun sem fram kemur í þriðja dálki viðauka B við Kyoto-bókunina og, í lok annars skuldbindingartímabilsins, innleysa af landsskrá sinni einingar úthlutaðs magns (AAU), einingar vottaðrar losunarskerðingar (CER), losunarskerðingareiningar (ERU), bindingareiningar (RMU) og bráðabirgðaeiningar vottaðrar losunarskerðingar (tCER) eða langtímaeiningar vottaðrar losunarskerðingar (lCER) sem jafngilda þessari losun.

9. gr.
Vörsluaðili

    Samningur þessi, sem gerður er í tvíriti á íslensku, búlgörsku, króatísku, tékknesku, dönsku, hollensku, ensku, eistnesku, finnsku, frönsku, þýsku, grísku, ungversku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, slóvakísku, slóvensku, spænsku og sænsku, en allir þessir textar eru jafngildir, skal afhentur aðalframkvæmdastjóra ráðs Evrópusambandsins til vörslu.

10. gr.
Afhending skjala um fullgildingu til vörslu

    1.     Samningsaðilarnir skulu fullgilda samning þennan í samræmi við landsbundnar kröfur hvers þeirra um sig. Hver samningsaðili skal afhenda aðalframkvæmdastjóra ráðs Evrópusambandsins til vörslu skjöl um fullgildingu, annaðhvort áður en eða samtímis því að skjöl um samþykki Doha-breytingarinnar eru afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    2.     Ísland skal afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu skjöl sín um samþykki Doha-breytingarinnar í samræmi við 4. mgr. 20. gr. og 7. mgr. 21. gr. Kyoto- bókunarinnar eigi síðar en þann dag sem síðustu skjölin um samþykki Sambandsins eða aðildarríkja þess eru afhent til vörslu.
    3.     Þegar Ísland afhendir til vörslu skjöl sín um samþykki Doha-breytingarinnar skal það einnig fyrir eigin hönd tilkynna skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar um skilmálana um sam­eigin­legar efndir í samræmi við 2. mg. 4. gr. Kyoto-- bókunarinnar.

11. gr.
Gildistaka

    Samningur þessi öðlast gildi á nítugasta degi eftir þann dag þegar allir samningsaðilar hafa afhent til vörslu skjöl sín um fullgildingu.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

1. VIÐAUKI

(Skrá sem kveðið er á um í 4. gr.)


    1.     Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB (sem vísað er til sem „reglugerð 525/2013), nema 4. gr., f-liður 7. gr., 15.–20. gr. og 22. gr. Ákvæði 21. gr. gilda eftir því sem við á.
    2.     Gildandi og síðari framseldar gerðir og framkvæmdargerðir sem byggjast á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.


2. VIÐAUKI

TILKYNNING UM SKILMÁLA SAMNINGSINS
UM AÐ EFNA Í SAMEININGU SKULDBINDINGAR
ÍSLANDS, EVRÓPUSAMBANDSINS OG AÐILDARRÍKJA ÞESS
SAMKVÆMT 3. GR. KYOTO-BÓKUNARINNAR
Á ÖÐRU SKULDBINDINGARTÍMABILI KYOTO-BÓKUNARINNAR,
SEM SAMÞYKKTIR VORU Á RÁÐSTEFNU SAMNINGSAÐILA
AÐ RAMMASAMNINGI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA UM
LOFTSLAGSBREYTINGAR, EN AF ÞVÍ TILEFNI HITTUST AÐILAR AÐ
KYOTO-BÓKUNINNI Í DOHA, SAMKVÆMT ÁKVÖRÐUN 1/CMP.8,
Í SAMRÆMI VIÐ 4. GR. KYOTO-BÓKUNARINNAR


1.      Aðilar að samningnum
    Evrópusambandið, aðildarríki þess og lýðveldið Ísland, sem öll eru aðilar að Kyoto- bókuninni, eru aðilar að þessum samningi („aðilarnir“). Eftirfarandi ríki eru nú aðildarríki Evrópusambandsins:

    Konungsríkið Belgía, Lýðveldið Búlgaría, Lýðveldið Tékkland, Konungsríkið Danmörk, Sambandslýðveldið Þýskaland, Lýðveldið Eistland, Írland, Lýðveldið Grikkland, Konungsríkið Spánn, Lýðveldið Frakkland, Lýðveldið Króatía, Lýðveldið Ítalía, Lýðveldið Kýpur, Lýðveldið Lettland, Lýðveldið Litháen, Stórhertogadæmið Lúxemborg, Ungverjaland, Lýðveldið Malta, Konungsríkið Holland, Lýðveldið Austurríki, Lýðveldið Pólland, Lýðveldið Portúgal, Rúmenía, Lýðveldið Slóvenía, Lýðveldið Slóvakía, Lýðveldið Finnland, Konungsríkið Svíþjóð og Hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

    Ísland er aðili að samningi þessum samkvæmt samkomulagi Evrópusambandsins, aðildarríkja þess og Íslands að því er varðar þátttöku Íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Evrópusambandsins, aðildarríkja þess og Íslands á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

2.      Sameiginlegar efndir á skuldbindingunum skv. 3. gr. Kyoto-bókunarinnar á öðru skuldbindingartímabili þeirrar bókunar
    Í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Kyoto-bókunarinnar munu aðilarnir efna skuldbindingar sínar skv. 3. gr. sem hér segir:
          aðilarnir munu tryggja, í samræmi við 5. og 6. mgr. 4. gr. Kyoto-bókunarinnar, að í aðildarríkjunum og á Íslandi fari samanlögð summa losunar af mannavöldum á gróðurhúsalofttegundum, sem tilgreindar eru í viðauka A við Kyoto-bókunina, í koltvísýringsígildum ekki yfir það magn sem þessum ríkjum var úthlutað sam­eigin­lega,
          beiting á ákvæðum 1. mgr. 3. gr. Kyoto-bókunarinnar, er varða losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi og siglingum í aðildarríkjunum og á Íslandi, byggist á þeirri nálgun í samningnum að taka ein­göngu tillit til losunar frá innanlandsflugi og sjóflutningum innanlands í markmiðum samningsaðilanna. Nálgun Evrópusambandsins á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar helst óbreytt frá fyrra skuldbindingartímabilinu í ljósi þess hve lítið hefur miðað í kjölfar ákvörðunar 2/CP.3 við það að tengja þessa losun við markmið samningsaðilanna. Þetta er með fyrirvara um ósveigjanleika í skuldbindingum Evrópusambandsins, að því er varðar loftslags- og orkupakkann, sem haldast óbreyttar. Þetta er einnig með fyrirvara um nauðsyn þess að grípa til ráðstafana varðandi losun slíkra lofttegunda frá eldsneyti úr geymum loftfara og skipa,
          hver aðili getur sett sér hærra markmið með því að færa einingar úthlutaðs magns, losunarskerðingareiningar eða einingar vottaðrar losunarskerðingar yfir á ógildingarreikning sem stofnaður hefur verið í landsskrá hans. Aðilarnir munu í sameiningu leggja fram þær upplýsingar sem krafist er skv. 9. mgr. í ákvörðun 1/CMP.8 og leggja í sameiningu fram hvers kyns tillögur að því er varðar 3. gr. (1b og 1c) í Kyoto-bókuninni,
          aðilarnir beita hver um sig áfram ákvæðum 3. og 4. mgr. 3. gr. Kyoto-bókunarinnar og ákvarðana henni tengdar sem samþykktar hafa verið,
          samanlögð losun viðmiðunarárs aðilanna jafngildir summu losunar viðkomandi viðmiðunarára sem gilda fyrir hvert aðildarríki og Ísland,
          ef landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt voru hrein uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda árið 1990 í einhverju aðildarríkjanna eða á Íslandi skal viðkomandi aðili, í 3. gr. (7a) í Kyoto-bókuninni, telja með, fyrir viðmiðunarárið eða -tímabilið fyrir losun, heildarlosun af mannavöldum, sem mæld er í koltvísýringsgildum, frá upptökum, að frádreginni fjarlægingu með viðtökum fyrir viðmiðunarárið eða -tímabilið sem rekja má til landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar í því skyni að reikna sam­eigin­legt, úthlutað magn aðilanna sem ákvarðað var í samræmi við 3. gr. (7a, 8. og 8a) í Kyoto-bókuninni,
          útreikningarnir skv. 3. gr. (7b) Kyoto-bókunarinnar gilda um sam­eigin­legt, úthlutað magn á öðru skuldbindingartímabilinu fyrir þá aðila sem ákvarðaðir voru í samræmi við 3. gr. (7a, 8 og 8a) Kyoto-bókunarinnar og um summu meðalárslosunar aðilanna á fyrstu þremur árum fyrsta skuldbindingartímabilsins, margfaldað með átta,
          í samræmi við ákvörðun 1/CMP.8 er heimilt að nota einingar í umframvarasjóðsreikningi frá fyrra tímabili aðila til innlausnar á viðbótartímabilinu til að efna skuldbindingarnar á öðru skuldbindingartímabilinu, að svo miklu leyti sem losun þess aðila á öðru skuldbindingartímabilinu fer yfir úthlutað magn hans á því skuldbindingartímabili, eins og skilgreint er í tilkynningunni.
3.      Viðeigandi losunarmagn sem úthlutað er hverjum samningsaðila
    Skuldbindingarnar er varða magnbundna takmörkun og skerðingu á losun aðilanna samkvæmt þriðja dálki viðauka B við Kyoto-bókunina hljóða upp á 80%. Sameiginlegt, úthlutað magn aðilanna á öðru skuldbindingartímabilinu verður ákvarðað skv. 3. gr. (7a, 8 og 8a) Kyoto-bókunarinnar, og til að greiða fyrir útreikningum á því leggur Evrópusambandið fram skýrslu skv. 2. mgr. ákvörðunar 2/CMP.8.
    Viðeigandi losunarmagn, sem úthlutað er hverjum aðila, er sem hér segir:
          Losunarmagnið fyrir Evrópusambandið er mismunurinn á sam­eigin­legu, úthlutuðu magni aðilanna og summu losunarmagns aðildarríkjanna og Íslands. Til að greiða fyrir útreikningum á því verður lögð fram skýrsla skv. 2. mgr. ákvörðunar 2/CMP.8.
          Í samræmi við 1. og 5. mgr. 4. gr. Kyoto-bókunarinnar er viðeigandi losunarmagn aðildarríkjanna og Íslands summan af viðeigandi magni þeirra, sem tilgreint er í töflu 1 hér á eftir, og útkomunni sem hlýst af beitingu annars málsliðar 3. gr. (7a) í Kyoto- bókuninni að því er það aðildarríki eða Ísland varðar.
          Úthlutað magn aðilanna skal vera jafnt viðeigandi losunarmagni þeirra.
          Úthlutað magn Evrópusambandsins verður dregið frá losun gróðurhúsalofttegunda frá upptökum sem falla undir kerfi Evrópusambandsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda og sem aðildarríki Sambandsins og Ísland eiga aðild að, svo fremi þessi losun falli undir Kyoto-bókunina. Úthlutað magn aðildarríkjanna og Íslands nær til losunar gróðurhúsalofttegunda frá upptökum og upptöku í viðtaka í hverju aðildarríkjanna eða Íslandi frá upptökum og viðtökum sem falla ekki undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/29/EB um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að bæta og víkka út kerfi Bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta tekur til allrar losunar frá upptökum og upptöku í viðtaka sem fellur undir 3. og 4. mgr. 3. gr. Kyoto-bókunarinnar og til allrar losunar á köfnunarefnistríflúoríði (NF3) sem heyrir undir Kyoto-bókunina.
          Aðilar að þessum samningi skulu hver um sig gefa skýrslu um losun frá upptökum og upptöku í viðtaka sem fellur undir úthlutað magn hvers og eins þeirra.

Tafla 1:


Losunarmagn aðildarríkjanna og Íslands (áður en kemur til þess að ákvæðum 3. gr. (7a) er beitt) í tonnum koltvísýringsígilda fyrir annað skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar

Belgía 584 228 513
Búlgaría 222 945 983
Tékkland 520 515 203
Danmörk 269 321 526
Þýskaland 3 592 699 888
Eistland 51 056 976
Írland 343 467 221
Grikkland 480 791 166
Spánn 1 766 877 232
Frakkland 3 014 714 832
Króatía 162 271 086
Ítalía 2 410 291 421
Kýpur 47 450 128
Lettland 76 633 439
Litháen 113 600 821
Lúxemborg 70 736 832
Ungverjaland 434 486 280
Malta 9 299 769
Holland 919 963 374
Austurríki 405 712 317
Pólland 1 583 938 824
Portúgal 402 210 711
Rúmenía 656 059 490
Slóvenía 99 425 782
Slóvakía 202 268 939
Finnland 240 544 599
Svíþjóð 315 554 578
Bretland 2 743 362 625
Ísland 15 327 217
Neðanmálsgrein: 1
1     Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB (Stjtíð. ESB L 165, 18.6.2013, bls. 13).