Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1125  —  424. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hlutinn tekur að meginstefnu til undir þau sjónarmið sem fram koma í áliti meiri hluta nefndarinnar. Að mati minni hlutans ber Íslandi að ganga fram fyrir skjöldu í loftslagsmálum og losun gróðurhúsalofttegunda. Aukin notkun vistvænna ökutækja er ein leið að því marki og því skref í rétta átt. Þá leggur minni hlutinn ríka áherslu á að staða tilraunaverkefna við niðurdælingu koldíoxíðs eða annarra efna muni ekki hafa undir nokkrum kringumstæðum neikvæð áhrif á heilsu og öryggi almennings. Þá mega þau ekki heldur leiða til þess að Ísland gefi afslátt af þeim markmiðum sem lögum um loftslagsmál er ætlað að ná, en skv. 1. gr. er markmið þeirra að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti, að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, að stuðla að aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
    Minni hlutinn leggur til eina breytingu sem er að færa tekjuákvæði loftslagssjóðs, sbr. IX. kafla laga um loftslagsmál, til þess horfs sem var fyrir breytingu þá sem gerð var í desember 2014 með lögum nr. 125/2014, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Samkvæmt breytingunni sem er lögð til hér fær loftslagssjóður markaðan tekjustofn sem er helmingur tekna íslenska ríkisins af sölu losunarheimilda á uppboði skv. 28. gr. laganna að frádregnum umsýslukostnaði vegna uppboða losunarheimilda og kostnaði ríkisins af stjórnsýslu vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Hlutverk loftslagssjóðs er að styðja við verkefni er stuðlað geta að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og aukinni þekkingu almennings á loftslagsbreytingum af mannavöldum, afleiðingum þeirra og mögulegum aðgerðum til að sporna við þeim. Að mati minni hlutans er hlutverk loftslagssjóðs mikilvægt en eftir þá breytingu sem gerð var á tekjum sjóðsins í lok síðasta árs er ljóst að meiri hlutinn á Alþingi getur ákveðið með fjárlögum að sjóðurinn sé tekjulaus og nauðsynlegt er að vinda ofan af þeirri breytingu svo að sjóðurinn geti þjónað hlutverki sínu.
    Að þessum athugasemdum virtum leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    A-liður 30. gr. laganna orðast svo: helmingur tekna íslenska ríkisins af sölu losunarheimilda á uppboði skv. 28. gr. að frádregnum umsýslukostnaði vegna uppboða losunarheimilda og kostnaði ríkisins af stjórnsýslu vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.

Alþingi, 25. mars 2015.

Svandís Svavarsdóttir,
frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Róbert Marshall.