Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1153  —  587. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um vistun fanga í öryggisfangelsum og opnum fangelsum.


     1.      Hversu margir fangar, hlutfallslega, eru vistaðir annars vegar í öryggisfangelsum og hins vegar í opnum fangelsum hér á landi?
    Rétt er að taka fram að ekkert fangelsi á Íslandi er skilgreint sem sérstakt öryggisfangelsi, en Litla-Hraun gegnir hlutverki öruggasta fangelsis landsins. Hér á landi er fangelsunum skipt upp í opin og lokuð fangelsi.
    Lokuðu fangelsin eiga það sameiginlegt að þar eru klefar læstir að næturlagi, girðingar afmarka útivistarsvæði fanga og heimsóknir fara fram í sérstökum heimsóknarherbergjum. Á Litla-Hrauni er fangahópnum einnig deildaskipt en það á ekki við í minni fangelsum. Sérstaða íslenska fangelsiskerfisins er að ekki er hefð fyrir því að reisa steypta múra umhverfis lokuð fangelsi heldur aðeins girðingar.
    Opnu fangelsin eiga það sameiginlegt að þar eru engar girðingar sem afmarka útivistarsvæði fanga, herbergjum er ekki læst að næturlagi, heimsóknir fara fram á herbergjum fanga, auk þess sem myndavélaeftirlit er minna og aðgengi að neti og síma er meira en í lokuðum fangelsum.
    Afplánunarrými í fangelsum ríkisins eru 156 talsins. Þá er auk þess rými fyrir allt að 26 fanga á áfangaheimili Verndar. Þessu til viðbótar eru dómþolar sem afplána undir rafrænu eftirliti, með samfélagsþjónustu, á meðferðarstofnunum, á vegum barnaverndaryfirvalda eða á sjúkrahúsum.
    Fangelsismálastofnun hefur það sem viðmið að nýtingarhlutfall opinna fangelsa sé sem næst 100% en svigrúm sé til staðar í lokuðum fangelsum. Þannig er æskilegt að nýtingarhlutfall þar sé á bilinu 85–90% til að skapa möguleika til að taka á móti nýjum föngum, á tilfærslu milli deilda og möguleika á aðskilnaði tiltekinna fanga.
    Séu fangelsin flokkuð í lokuð fangelsi og opin fangelsi samkvæmt framangreindu er afplánunarrýmum skipt hlutfallslega með eftirfarandi hætti:

Fjöldi afplánunarrýma í opnum og lokuðum fangelsum.

Lokuð fangelsi     Afplánunarrými
Litla-Hraun 80
Hegningarhúsið 12
Fangelsið Kópavogsbraut 12
Fangelsið Akureyri 10
Alls lokuð 114 (73%)
Opin fangelsi*
Kvíabryggja 22
Sogn 20
Alls opin 42 (27%)
*Ef 26 rými á áfangaheimili Verndar eru talin með breytast hlutföllin í 63% lokuð rými og 37% opin rými
    Hér á landi mæta fangar alltaf til afplánunar í lokuð fangelsi. Fangelsismálastofnun metur síðan hvort viðkomandi fangi fari áfram til afplánunar í opið fangelsi eða lokað. Þeir sem fara í lokað fangelsi geta síðan átt möguleika á flutningi í opið fangelsi og eins geta þeir sem fara í opið fangelsi átt á hættu að enda í lokuðu fangelsi ef hegðun þeirra er ekki viðunandi. Þeir fangar sem sýna viðunandi hegðun og uppfylla önnur skilyrði eiga möguleika á að vistast á áfangaheimili og síðan heima undir rafrænu eftirliti í lok afplánunar.

     2.      Hvert er þetta hlutfall í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi?

    Hér er miðað við þá almennu skilgreiningu sem stuðst er við í norrænu samstarfi fangelsismálayfirvalda að lokuð fangelsi séu þau sem eru afmörkuð með steyptum múr. Fangelsum er að jafnaði skipt upp í fleiri deildir en hérlendis og innilokun fanga í klefum er meginreglan þegar skipulagðri dagskrá á hverjum degi er lokið (vinna, nám, matseld og þess háttar). Sérstök öryggisfangelsi eða öryggisdeildir eru í öllum þessum löndum. Slík pláss eru að jafnaði nýtt fyrir fanga sem eru sérstaklega erfiðir, hættulegir eða rökstuddur grunur er um að strokutilraunir séu líklegar. Þau pláss eru til staðar í 2–3 sérstökum öryggisfangelsum í hverju landi.
    Opin fangelsi eru ekki afmörkuð með múrum heldur ómannheldum girðingum eða engri afmörkun, frjálsræði fanga að degi til er meira og deildaskipting ekki jafn mikil. Þessi fangelsi eru mjög ólík að gerð og eru sum mjög áþekk opnum fangelsum hér á landi en sum þeirra eru jafnvel líkari lokuðum fangelsum hér á landi, þrátt fyrir að falla undir þessa skilgreiningu.
    Hér eru ekki upplýsingar um nýtingarhlutfall afplánunarplássa heldur er eingöngu stuðst við tölur um fjölda plássa á árinu 2013.

Danmörk.
    Í danska fangelsiskerfinu eru alls 4160 fangelsisrými. Fangelsin eru þrenns konar. Lokuð fangelsi, svokölluð „arrest-rými“ og loks opin fangelsi. Arrest-rýmin eru gæsluvarðhaldsfangelsi fyrir fanga sem bíða dóms og aðstæður í þeim fangelsum eru líkari lokuðum fangelsum en opnum en þó smærri einingar. Því teljast þessi gæsluvarðhaldsfangelsi til lokaðra fangelsa í þessari samantekt.

Fjöldi fangelsa og fangelsisrýma í Danmörku 2013.

Afplánunarpláss (fjöldi fangelsa) Fjöldi rýma
Lokuð fangelsi (56) 2.786 (67%)
Opin fangelsi (9) 1.374 (33%)
Alls 4.160

Noregur.
    Í norska fangelsiskerfinu eru 3803 rými. Norsk fangelsi eru flokkuð í hærra öryggisstig og lægra öryggisstig. Þá eru þrjú af þeim fangelsum sem teljast til hærra öryggisstigs með sérstök öryggispláss með enn þá strangari reglur um samgang, samskipti og eftirlit.

Fjöldi fangelsa og fangelsisrýma í Noregi 2013.

Afplánunarpláss (fjöldi fangelsa) Fjöldi rýma
Lokuð fangelsi (35) 2.420 (64%)
Opin fangelsi (38) 1.383 (36%)
Alls 3.803

Svíþjóð.
    Í sænska fangelsiskerfinu eru 7164 rými. Sænsk fangelsi eru flokkuð í þrjá öryggisflokka. Öryggisflokkar 1–3. Í öryggisflokki 1 er mest öryggi. Þar eru vistaðir fangar sem taldir eru hættulegastir. Þrjú af þeim fangelsum eru með sérstakar öryggisdeildir, ætlaðar mjög hættulegum mönnum. Öryggisflokkur 2 eru fangelsi sem teljast lokuð fangelsi en eru ætluð fyrir minna hættulega fanga. Öryggisflokkur 3 eru opin fangelsi, sambærileg við opin fangelsi í hinum löndunum.

Fjöldi fangelsa og fangelsisrýma í Svíþjóð 2013.

Afplánunarpláss (fjöldi fangelsa) Fjöldi rýma
Lokuð fangelsi (68) 6.234 (87%)
Opin fangelsi (21) 930 (13%)
Alls 7.164

Finnland.
    Finnsk fangelsi eru flokkuð í opin og lokuð. Þó má færa rök fyrir því að mörg opin fangelsi þar í landi mundu falla í flokkinn lokuð fangelsi í öðrum löndum.

Fjöldi fangelsa og fangelsisrýma í Finnlandi 2013.

Afplánunarpláss (fjöldi fangelsa) Fjöldi rýma
Lokuð fangelsi (16) 2.169 (70%)
Opin fangelsi (17) 920 (30%)
Alls 3.089