Ferill 305. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1226  —  305. mál.
Viðbót.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003,
með síðari breytingum (kerfisáætlun).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur þær tillögur sem meiri hlutinn hefur lagt til við 3. umræðu um málið til bóta og tekur undir margt í nefndaráliti hans. Hins vegar telur minni hlutinn að styrkja mætti önnur atriði og bendir á að kerfisáætlun er enn gert afar hátt undir höfði í frumvarpinu.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni lagði minni hlutinn til að komið yrði á þverpólitískum samráðsvettvangi sem hefði eftirlit með undirbúningi og vinnu kerfisáætlunar, a.m.k. þeirrar fyrstu. Á slíkum vettvangi væri unnt að sníða mögulega vankanta af kerfisáætlun. Minni hlutinn bendir t.d. á að í 5. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, er kveðið á um samráðsnefnd um veiðigjöld sem samanstendur af þingmönnum úr öllum flokkum og fjallar hún um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um sérstakt veiðigjald. Meiri hlutinn féllst ekki á þessa tillögu og eru það minni hlutanum vonbrigði.
    Minni hlutinn telur einnig að ekki hafi verið farið nógu ítarlega yfir möguleika á að koma með ríkari hætti til móts við ­sveitarfélög. Fyrir liggur að gengið verður á skipulagsvald þeirra verði frumvarpið óbreytt að lögum. Þó svo að breytingartillaga meiri hlutans um að veita ­sveitarstjórnum aukinn tíma til að samræma skipulag sitt kerfisáætlun sé til bóta er gert ráð fyrir að fresturinn verði háður samþykki flutningsfyrirtækisins. Í reynd felst í breytingartillögunni ekkert úrræði fyrir ­sveitarstjórn sem er ósátt við landnotkun innan síns ­sveitarfélags samkvæmt kerfisáætlun.
    Minni hlutinn telur að flutningsfyrirtækið hafi enn of mikla yfirburðastöðu samkvæmt frumvarpinu jafnt gagnvart ­sveitarfélögum, landeigendum sem öðrum hagsmunaaðilum. Tryggja þyrfti meira jafnræði milli annars vegar hagsmuna og stöðu flutningsfyrirtækisins og hins vegar um­hverfisverndarsjónarmiða, hagsmuna ­sveitarfélaga, landeigenda og annarra. Minni hlutinn telur miður að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á um­hverfisverndarsjónarmið. Margoft hefur komið fram að stærstur hluti ferðamanna kemur hingað til lands til að njóta óspilltrar náttúru. Þá má benda á að fyrir nefndinni var því haldið fram að það skorti alveg tilvísun til ferðamála í frumvarpinu.
    Þá lýsir minni hlutinn vonbrigðum með að ekki hafi verið léð máls á breytingu á tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem nefndin hefur einnig haft til umfjöllunar og tengist þessu frumvarpi (321. mál). Gerð er nánari grein fyrir sjónarmiðum minni hlutans í fram­haldsnefndaráliti hans við það mál.
    Minni hlutinn leggur jafnframt til að ákvarðanir Orkustofnunar sæti kæru til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála en ekki úrskurðarnefndar raforkumála eins og gert er ráð fyrir.
    Fyrir liggur að frumvarpið er aðeins innleiðing á 22. gr. þriðju raforkutilskipunar ESB en ekki tilskipuninni í heild. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við gerð kerfisáætlunar skuli m.a. byggt á raunhæfum sviðsmyndum um raforkuflutning til annarra landa. Minni hlutinn telur engan veginn tímabært að lögfesta ákvæði í þessa veru hér á landi og leggur til að tilvísun í raforkuflutning til annarra landa falli brott. Minni hlutinn telur jafnvel réttara að bíða með lögfestingu þessa frumvarps og samþykkt tillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína þar til þriðja raforkutilskipun ESB hefur verið tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi, í stað þess að innleiða aðeins og án samhengis við önnur ákvæði efni 22. gr. tilskipunarinnar eins og hér er lagt til.

Alþingi, 21. apríl 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.