Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1295  —  207. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.


Frá minni hluta velferðarnefndar.    Minni hluti nefndarinnar styður markmið frumvarpsins og lýsir yfir ánægju með þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til. Minni hlutinn telur þær breytingar þó ekki koma nægjanlega til móts við alvarlegar athugasemdir Barnaverndarstofu, umboðsmanns barna o.fl. við það að kærunefnd barnaverndarmála renni í sameinaða úrskurðarnefnd.
    Bent var á að barnaverndarmál hefðu mikla sérstöðu og ættu lítið sam­eigin­legt með öðrum þeim málaflokkum sem til stendur að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um. Þau krefðust mjög sérhæfðrar þekkingar, ekki aðeins á lögfræði heldur einnig á þroskaferli barna, hæfni foreldra og annarra nákominna til að koma til móts við þarfir barna o.fl. Hætt væri við að í sam­eigin­legri úrskurðarnefnd yrði fyrir hendi minni sérþekking á barnaverndarmálum en nú er hjá kærunefnd barnaverndarmála, jafnvel þótt mælt yrði sérstaklega fyrir um að einn nefndarmanna í úrskurðarnefnd velferðarmála skyldi hafa sérþekkingu á barnaverndarmálum.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem veitt var lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Minni hlutinn telur ekki sýnt að það sé börnum fyrir bestu að kærunefnd barnaverndarmála renni í úrskurðarnefnd velferðarmála með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þrátt fyrir jákvæðar breytingartillögur meiri hlutans. Minni hlutinn leggst því gegn samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 13. maí 2015.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Guðbjartur Hannesson. Páll Valur Björnsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.