Ferill 717. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1364  —  717. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um ráðstafanir vegna riðuveiki í sauðfé.


     1.      Á hversu mörgum býlum hefur sauðfjárstofn verið skorinn niður vegna riðuveiki síðan hert var á aðgerðum gegn riðu árið 1996, hvar á landinu eru þessi býli, hversu mörgu fé var fargað af þessum ástæðum og hvenær var það gert?
    Alls hefur 61 tilfelli riðu komið upp á 58 bæjum frá árinu 1996. Dreifing tilfella um landið er eftirfarandi, flokkað eftir núverandi varnarhólfum:
        Landnámshólf: 1
        Mið­fjarðarhólf: 1
        Vatnsneshólf: 4
        Húnahólf: 11
        Skagahólf: 13
        Eyja­fjarðarhólf: 5
        Skjálfandahólf: 1
        Norð­austurlandshólf: 1
        Héraðshólf: 2
        Austfjarðahólf: 1
        Suðurfjarðahólf: 9
        Árneshólf: 12
    Upplýsingar um fjölda fjár sem fargað hefur verið í tengslum við riðutilfelli eru ekki aðgengilegar á tölvutæku formi frá árunum 1996–2006, en í skýrslu um kostnað vegna riðu og garnaveiki, sem gefin var út af Hagþjónustu landbúnaðarins árið 2006, var áætlað að 13.882 kindur hefðu verið felldar í niðurskurði vegna riðu á árunum 1998–2004. Frá árinu 2007 til dagsins í dag hefur 3.243 kindum verið fargað. Því er ljóst að a.m.k. 17.125 kindum hefur verið fargað, en sökum yfirstandandi verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun hefur ekki verið hægt að fá nánari upplýsingar um fjölda kinda sem fargað var á árunum 1996, 1997, 2005 og 2006.

     2.      Hvernig er hræjum riðusjúks fjár fargað?
    Allt fram til ársins 2010 voru öll hræ af fé, sem fargað var vegna riðuniðurskurðar, urðuð á sérstökum urðunarstöðum sem næst viðkomandi bæjum. Síðan 2010 hefur hræjum verið fargað með brennslu í sorpeyðingarstöðinni Kölku í Helguvík.

     3.      Hver hefur kostn­aður ríkissjóðs vegna ráðstafana gegn riðuveiki verið frá 1996?
    Undir ráðstafanir gegn riðuveiki falla eftirfarandi kostnaðarþættir:
                  a.      Aflífun fjárins, flutningur á hræjum og urðun eða brennsla hræja.
                  b.      Hreinsun eða förgun fjárhúsa og síðan bætur vegna endurnýjunar húsanna.
                  c.      Förgunar- (frálags-) og afurðatjónsbætur.
                  d.      Stuðningur vegna endurnýjunar fjárstofns.
                  e.      Fyrirbyggjandi aðgerðir, svo sem viðhald sauðfjárveikivarnagirðinga, taka og ­rannsóknir á heilasýnum úr tilteknu hlutfalli af fullorðnu sláturfé.
    Kostn­aður vegna a–d-liðar hefur verið greiddur af sérstökum fjárlagalið, 04-851, hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og forverum þess. E-liður hefur verið greiddur af Matvælastofnun, fjárlagalið 04-234 og forverum hennar. Kostn­aður ráðuneyta á þessum árum er reiknaður sem 800.629.000 kr. og Matvælastofnunar 666.900.000 kr. og er heildarkostn­aður ríkissjóðs samkvæmt þessu 1.467.529.000 kr.

     4.      Fer fram á vegum hins opinbera skipuleg fræðsla og upplýsingamiðlun um riðuveiki til bænda, sláturleyfishafa og annarra sem málið varðar?
    Samkvæmt 5. gr. II. kafla og 14. gr. V. kafla laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, er Matvælastofnun og sérgreinadýralæknum hennar skylt að vinna að bættri heilsu búfjár með almennri fræðslu um búfjársjúkdóma og smitvarnir. Sérgreinadýralæknir sauðfjársjúkdóma fer með fræðsluhlutverk þegar um riðuveiki eða aðra sjúkdóma í sauðfé er að ræða. Sem dæmi voru haldnir tveir íbúafundir, annars vegar á Hvammstanga og hins vegar í Skagafirði, í kjölfar þeirra riðutilfella sem upp hafa komið á svæðunum á undanförnum vikum. Matvælastofnun reynir eftir fremsta megni að uppfylla lagalegar skyldur sínar, enda er það skoðun yfirdýralæknis og sérgreinadýralæknis sauðfjársjúkdóma að forvarnir og fræðsla séu besta vörnin þegar koma á í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma í fé.

     5.      Telur ráðherra að grípa þurfi til frekari ráðstafana til að vinna bug á riðuveiki í sauðfé og þá hverra?
    Riðuveiki er sérstæður sjúkdómur að því leyti að smitefni hans, svokallað príon, er ekki lifandi og er mjög þrautseigt í um­hverfinu. Príon eru prótein sem þola m.a. suðu, geislun, formalín og nær allar teg­undir hreinsiefna nema klór. Af þessum sökum reyndist mönnum erfitt að hefta útbreiðslu riðu á árum áður svo að veikin breiddist hratt út um landið. Síðan hert hefur verið á aðgerðum gegn riðuveiki með niðurskurði og hreinsunaraðgerðum hefur tilfellum fækkað verulega. Sem dæmi má nefna að á níunda áratugnum voru tugir tilfella skráð á ári hverju en síðan hefur dregið úr fjöldanum. Frá árinu 2011 til ársins 2014 greindust t.d. engin tilfelli sjúkdómsins. Það er því ljóst að þær mótvægisaðgerðir sem ráðist hefur verið í eru að bera árangur. Með hliðsjón af hinu þrautseiga eðli smitefnisins og þeim árangri sem náðst hefur af þeim aðgerðum sem stundaðar hafa verið undanfarin ár er það álit yfirdýralæknis og sérgreinadýralæknis sauðfjársjúkdóma að ekki þurfi að grípa til frekari ráðstafana með tilliti til þeirra. Þó er vert að nefna að mikilvægur þáttur þess að hefta útbreiðslu riðuveiki um landið eru sauðfjárveikivarnarlínur. Árið 2015 fékkst einungis um þriðjungur þess fjármagns sem nauðsynlegt er til að viðhalda varnarlínunum þannig að þær séu fjárheldar. Með þessu eykst hættan á að sauðfé komist á milli landsvæða og beri með sér riðuveiki eða aðra sauðfjársjúkdóma.