Ferill 787. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1401  —  787. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum (nauðasamningar).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 77. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er heimilt á kröfuhafafundi að taka ákvörðun um ábyrgðarleysi manna sem eiga sæti í slitastjórn fjármálafyrirtækis í slitum, sbr. 4. mgr. 101. gr., vegna ráðstafana skv. 2. mgr. þessarar greinar. Kröfuhafi sem greiðir atkvæði gegn ráðstöfun skv. 3. málsl. 2. mgr. eða kemur afstöðu sinni á annan sannanlegan hátt á framfæri við slitastjórn áður en ákvörðun er tekin á kröfuhafafundi er óbundinn af slíkri ákvörðun um ábyrgðarleysi.
     b.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í sama skyni er slitastjórn heimilt að ávaxta eignirnar með fjárfestingum í skuldaskjölum útgefnum af við­skipta­bönkum eða sparisjóðum, verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða ­sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.
     c.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði XIX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er slitastjórn heimilt að ráðstafa eignum og öðrum réttindum fjármálafyrirtækis með viðskiptum við Seðlabanka Íslands eða á annan hátt, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum um Seðlabanka Íslands, eftir atvikum án endurgjalds, til að ljúka megi slitameðferð ef telja má að það þjóni hagsmunum kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda. Skal slitastjórn tilkynna fyrir fram um slíka ráðstöfun á fundi með kröfuhöfum í samræmi við 3. málsl. 3. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. a laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 3. mgr. koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Frumvarp að nauðasamningi skal taka til allra eigna fjármálafyrirtækis og hafa að geyma tímasetta áætlun um heildaruppgjör eigna þess. Slitastjórn er heimilt að víkja frá fyrirmælum 1. og 2. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig að heimilt er að bjóða fram greiðslu sem háð verður fyrirvörum um innheimtu og innlausn eigna fjármálafyrirtækis, enda sé slíkra fyrirvara skýrt getið í frumvarpi að nauðasamningi. Slitastjórn er jafnframt heimilt skv. 2. mgr. 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 29. gr. sömu laga, að leggja til í frumvarpi að nauðasamningi að fjárhæð samningskrafna sem fást greiddar að fullu geti samtals numið allt að fjórðungi af heildargreiðslum sem boðnar eru fram í frumvarpi að nauðasamningi. Í frumvarpi að nauðasamningi má einnig kveða á um að gefnir verði út nýir hlutir í fjármálafyrirtækinu sem greiða megi með skuldajöfnun tiltekins hluta kröfu er samþykkt hefur verið við slitameðferðina og sem þáttur í efndum nauðasamnings. Ef sýnt er að eignir fjármálafyrirtækis nægja ekki til að standa við skuldbindingar þess að mati slitastjórnar skv. 5. mgr. 102. gr., sbr. 4. mgr. 103. gr., er heimilt í tengslum við slíka tillögu um hækkun hlutafjár að lækka að fullu eldra skráð hlutafé án endurgjalds til hluthafa og án þess að innköllun eða tilkynningar til hluthafa fari fram samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um hlutafélög.
     b.      Í stað orðanna „sömu laga“ fyrra sinni í 3. málsl. 3. mgr., er verður 8. málsl., kemur: laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     c.      Á eftir 3. málsl. 3. mgr., er verður 8. málsl., kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í frumvarpi að nauðasamningi fjármálafyrirtækis er slitastjórn einnig heimilt að víkja frá 4. mgr. 30. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig að litið verði til stöðu krafna á þeim degi sem um ræðir í 5. mgr. 101. gr. laga þessara, án tillits til framsals þeirra fram að þeim tíma.
     d.      Í stað orðanna „samþykki 70 hundraðshluta“ í 7. málsl. 3. mgr., er verður 13. málsl., kemur: samþykki 60 hundraðshluta.
     e.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis má víkja frá skilyrði 1. mgr. 50. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um að atkvæði sé greitt skriflega á annan hátt en í kröfulýsingu, og dugir þá að atkvæði sé sent rafrænt og hafi sannanlega borist slitastjórn áður en fundur um atkvæðagreiðslu hefst. Skal slitastjórn bóka um slík atkvæði sem borist hafa í fundargerð skv. 4. mgr. 50. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     f.      Á eftir 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Með kröfu um staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtækis skal, auk þeirra gagna sem getið er um í 2. mgr. 54. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., fylgja mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum frumvarps að nauðasamningi og áhrifum þess á stöðugleika í gengis- og peningamálum og á fjármálastöðugleika. Héraðsdómari skal hafna kröfu fjármálafyrirtækis um staðfestingu nauðasamnings skv. 1. mgr. 57. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef í vottorði Seðlabanka Íslands kemur fram að frumvarpið teljist raska stöðugleika í gengis- og peningamálum og/eða fjármálastöðugleika.
                      Í frumvarpi að nauðasamningi fjármálafyrirtækis má kveða á um að kröfur skv. 109.–112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. verði fyrst greiddar af eignum fjármálafyrirtækis, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 153. gr. þeirra laga, áður en til greiðslu samningskrafna kemur, án þess að fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu þeirra eða að hlutaðeigandi samþykki skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þess.
                      Hafi ágreiningur um kröfu, sem lýst hefur verið skv. 112.–113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., ekki verið til lykta leiddur við staðfestingu nauðasamnings er slitastjórn heimilt að leggja nauðasamningsgreiðslu, eins og sú greiðsla gæti hæst orðið samkvæmt kröfugerð hlutaðeigandi kröfuhafa, inn á fjárvörsluinnlánsreikning og/eða vörslureikning á nafni fyrirtækisins sem stofnaður er í því skyni að leggja nauðasamningsgreiðslur inn á. Nýti slitastjórn sér slíka heimild skal senda kröfuhafa sem fær greiðslu tilkynningu og telst slitastjórn þá hafa innt nauðasamningsgreiðslu af hendi til viðkomandi kröfuhafa. Þegar endanleg niðurstaða hefur fengist um ágreininginn skal hlutdeild þeirrar kröfu í innstæðu fjárvörsluinnlánsreikningsins og/eða vörslureikningsins ásamt hlutdeild í áföllnum vöxtum greidd kröfuhafanum að því leyti sem krafan hefur verið viðurkennd, en fé og/eða verðbréf sem eftir kunna að standa skulu renna aftur til fyrirtækisins. Fari hlutagreiðslur fram í fleiri en einum gjaldmiðli má stofna sérstakan reikning fyrir hvern gjaldmiðil. Ef nauðasamningsgreiðslu verður að öðru leyti ekki komið til kröfuhafa í samræmi við ákvæði nauðasamnings vegna atvika er varða kröfuhafann getur slitastjórn efnt samninginn með greiðslu inn á fjárvörsluinnlánsreikning og/eða vörslureikning og að öðru leyti í samræmi við heimildir þessarar málsgreinar.
     g.      Í stað orðanna „skv. 3. mgr.“ í 1. málsl. 4. mgr., er verður 7. mgr., kemur: skv. 3.–6. mgr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin taka til nauðasamningsumleitana þeirra fjármálafyrirtækja sem leggja fram frumvarp að nauðasamningi til að ljúka slitum eftir gildistöku laga þessara.

4. gr.

    Við gildistöku laga þessara bætist eftirfarandi málsliður við ákvæði til bráðabirgða III í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum: Þá er Seðlabankanum heimilt, í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, að taka á móti hvers kyns fjárhagslegum verðmætum, þ.m.t. kröfuréttindum, fjármálagerningum og eignarhlutum í félögum og öðrum réttindum yfir þeim í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneyti, í samvinnu við Seðlabanka Íslands, sérfræðinga í skuldaskilarétti og framkvæmdahóp um afnám fjármagnshafta. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar og viðbætur við 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, sem hefur fyrirsögnina ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis o.fl. og 103. gr. a laganna sem hefur fyrirsögnina lok slitameðferðar. Ákvæðin er að finna í XII. kafla laganna um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja. Miðar frumvarpið að því að slitastjórnum verði auðveldað að ljúka slitum fjármálafyrirtækja með því að freistað verði að leita nauðasamnings. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt sem er liður í fyrirætlunum stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Með því er jafnframt skapaður grundvöllur fyrir því að fjármálafyrirtæki geti gert nauðasamninga sem fela í sér innlendar sem erlendar greiðslur til kröfuhafa. Þá er í frumvarpinu lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, í því skyni að renna stoðum undir heimild bankans til að taka á móti hvers kyns fjárhagslegum verðmætum, sbr. c-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Frumvarpið er lagt fram m.a. vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast hafa við slit fjármálafyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum slitakafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en í þeim lögum er kveðið á um ýmis frávik frá málsmeðferðarreglum nauðasamninga eins og þær birtast í III. þætti laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur um gerð og staðfestingu nauðasamninga fjármálafyrirtækja sem talið er rétt að gera nú eftir að fengist hefur reynsla í kjölfar þess að nokkur fjöldi fjármálafyrirtækja var tekinn til slita eftir efnahagshrunið 2008. Sú reynsla gefur jafnframt tilefni til þess að slitakafli laga nr. 161/2002 verði tekinn til heildarendurskoðunar á næstu árum, þ.e. þegar slitum fjármálafyrirtækja sem nú standa yfir hefur verið lokið.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er mælt fyrir um að við slit fjármálafyrirtækja skuli slitastjórn fjármálafyrirtækis, sem ekki á nægar eignir til greiðslu lýstra krafna, annaðhvort velja að leita formlegra nauðasamninga eða óska eftir gjaldþrotaskiptum.
    Í frumvarpinu er lagt til að einfaldaðar verði reglur um nauðasamningsumleitanir fjármálafyrirtækja. Þær tillögur sem gerðar eru í frumvarpinu eru þessar helstar:
          Í fyrsta lagi er lagt til að slakað verði á kröfum sem gerðar eru til frumvarps að nauðasamningi þannig að gera megi tillögu um greiðslu sem háð sé fyrirvara um innlausn eigna, enda sé fyrirvarans skýrt getið í frumvarpi að nauðasamningi.
          Í öðru lagi eru skýrðar nánar heimildir til þess að bjóða fram lágmarksgreiðslu í frumvarpi að nauðasamningi. Er lagt til að heildarfjárhæð greiðslu sem boðin sé svo fram verði ákveðið hlutfall af framboðinni greiðslu samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi.
          Í þriðja lagi verði afmarkað nánar hverjir teljast vera kröfuhafar með tilliti til framsals krafna fyrir frestdag. Lögð er til einföldun á gildandi reglum vegna sérstöðu krafna við slit fjármálafyrirtækja.
          Í fjórða lagi er lagt til að dregið verði úr formkröfum við atkvæðagreiðslur við nauðasamningsumleitanir og kröfuhöfum skapaður sá möguleiki að greiða atkvæði rafrænt. Lagt er til að það sé á ábyrgð slitastjórnar að sjá til þess að atkvæði hafi sannanlega borist fyrir atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarp. Ekki er að öðru leyti horfið frá þeim almennu reglum sem annars gilda um efni slíks atkvæðis og er ákvörðun um gildi atkvæðis sem fyrr í höndum slitastjórna.
          Í fimmta lagi er lagt til að lægra hlutfall kröfuhafa taki þátt í atkvæðagreiðslu um nauðasamning. Áður hefur þessu hlutfalli verið breytt, en nú er lagt til að það verði rýmkað enn frekar. Hér er því áfram lagt til að 60 hundraðshluta kröfuhafa eftir fjárhæðum þurfi að lágmarki til að samþykkja frumvarp að nauðasamningi, en fari að öðru leyti eftir framboðinni fjárhæð samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi. Hins vegar er hér lagt til að í stað þess að 70 hundraðshlutar þeirra sem sannanlega taka þátt í atkvæðagreiðslu samþykki nauðasamninginn verði það hlutfall eftirleiðis 60 hundraðshlutar.
          Í sjötta lagi er gerð tillaga um frávik frá þeim reglum sem gilda við staðfestingu nauðasamninga og er að finna í 2. mgr. 153. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og að slitastjórn verði heimilt að leggja fram frumvarp að nauðasamningi án þess að kröfur skv. 109.–112. gr. þeirra laga hafi verið greiddar að fullu, fullnægjandi trygging sett fyrir staðfestingu þeirra eða hlutaðeigandi samþykki skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þeirra, en þó verði áskilið að í nauðasamningi sé þess skýrt getið að þessar kröfur verði greiddar fyrst af eignum fjármálafyrirtækis. Auk þess er mælt fyrir um heimild slitastjórnar til að efna nauðasamning þótt greiðslum verði ekki komið til kröfuhafa vegna þess að ágreiningur stendur um kröfur eða vegna atvika sem varða kröfuhafa sérstaklega.
          Í sjöunda lagi er að finna í frumvarpinu tillögu þess efnis að frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis hafi að geyma tímasetta áætlun um útgreiðslu samkvæmt því, auk þess sem gerð er krafa um að Seðlabanki Íslands meti áhrif nauðasamnings á stöðugleika í gengis- og peningamálum og áhrif á fjármálastöðugleika.
          Í áttunda lagi er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, er kveður á um heimild Seðlabankans til að taka við eignum og öðrum fjárhagslegum réttindum í viðskiptum sínum við einstaklinga og fyrirtæki, enda sé slíkt nauðsynlegt að mati bankans til þess að hægt sé að losa um takmarkanir sem settar hafa verið á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti og til að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum.

III. Tilefni og markmið lagasetningar.
    Markmið með frumvarpinu er að einfalda þær reglur sem gilda um framkvæmd nauðasamningsumleitana fjármálafyrirtækja. Við framkvæmd nauðasamningsumleitana og gjaldþrotaskipta er gert ráð fyrir því að fylgt sé að meginstefnu til þeim reglum sem er að finna í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er fjallað um lok slita. Nægi eignir bús fjármálafyrirtækis ekki til fullrar greiðslu getur slitum lokið á tvennan hátt, annaðhvort með samþykkt kröfuhafa á frumvarpi að nauðasamningi eða með töku búsins til gjaldþrotaskipta. Hyggist slitastjórn leggja til að slitum verði lokið með nauðasamningi gerir hún frumvarp að nauðasamningi eftir reglum 36. gr. laga nr. 21/1991 og boðar til kröfuhafafundar til að bera það undir atkvæði. Er mælt fyrir um það í 3. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002 að eftir því sem við getur átt fari nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. laga nr. 21/1991, en slitastjórn gegni þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og haldi kröfuhafafundi um þessar umleitanir.
    Um nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta er fjallað í III. þætti laga nr. 21/1991. Frá gildistöku þeirra laga 1. júlí 1992 var úrræðið nauðasamningur ekki mikið nýtt hér á landi. Í skýrslu réttarfarsnefndar til dóms- og kirkjumálaráðherra um breytingu á gjaldþrotaskiptalögum í tengslum við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, dags. 10. september 2009, koma fram upplýsingar um hversu margir höfðu nýtt sér að leita nauðasamninga fram að gildistöku laga nr. 21/1991. Leitaði réttarfarsnefnd upplýsinga um málafjölda frá Héraðsdómi Reykjavíkur í ljósi þess að um helmingur landsmanna byggi í umdæmi dómsins og að þar væru starfandi flest fyrirtæki landsins. Var því talið að upplýsingar frá dómstólnum gæfu nægilega glögga mynd af fjölda beiðna um að leita nauðasamninga frá gildistöku laganna fram til ársloka 2008. Fram kom í skýrslu nefndarinnar að á tímabilinu frá 1. júlí 1992 til ársloka 2008 voru beiðnir um heimild til nauðasamningsumleitana 81 eða rúmlega fimm beiðnir að meðaltali á ári. Þar af var nauðasamningur staðfestur í 61 tilviki eða tæplega fjórir að meðaltali hvert ár.
    Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur hins vegar fjölgað beiðnum félaga um heimild til að leita nauðasamnings, auk þess sem úrræðið hefur verið nýtt í tilvikum þar sem í hlut hafa átt fyrirtæki sem telja má meðal þeirra stærstu hér á landi. Var það öðru fremur tilefni þess að ákveðið var að gera málsmeðferð við nauðasamningsumleitanir laga nr. 21/1991 einfaldari og skilvirkari. Efnahagshrunið haustið 2008 leiddi jafnframt til þess að fjölmörg fjármálafyrirtæki komust í greiðsluvanda sem síðar leiddi til þess að bú þeirra voru tekin til slita á grundvelli laga nr. 161/2002. Nú eru alls ellefu fjármálafyrirtæki í slitum, en það eru Askar Capital hf., Byr sparisjóður, EA fjárfestingarfélag hf. (áður MP banki hf.), Glitnir hf., Kaupþing hf., Landsvaki hf., LBI hf., Saga Capital hf., Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., SPB hf. og VBS eignasafn hf. Auk þess hefur slitum verið lokið á búum átta fjármálafyrirtækja sem voru tekin til slita í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008, það eru bú Frjálsa fjárfestingarbankans hf., Rekstrarfélags SPRON hf., Sparisjóðs Mýrasýslu, Spron verðbréfa hf., Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., Avant hf., Sparisjóðsins í Keflavík og Vaxta hf. Er þessi fjöldi fjármálafyrirtækja sem glíma við alvarlegan greiðsluvanda einsdæmi í íslenskri hagsögu. Hefur auk þess mótast nokkur reynsla við framkvæmd slita þeirra, en vegna ýmissa sérkenna sem eru á fjármálafyrirtækjum hefur reynst þörf á að víkja frá almennum reglum laga nr. 21/1991 við slit þeirra.
    Í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008 hafa því verið gerðar ýmsar breytingar á þeim lagaákvæðum sem gilda um slit fjármálafyrirtækja með setningu sérstakra ákvæða sem er að finna í lögum nr. 161/2002 og sem gilda einvörðungu um slit fjármálafyrirtækja. Þessi ákvæði hafa í nokkrum mæli vikið frá meginreglum sem almennt gilda í skuldaskilarétti, og má nefna sem dæmi almennt frávik frá reglu skuldaskilaréttar um að gjaldþrotaskiptum skuli lokið án ástæðulauss dráttar, sem er að finna í 2. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991, en frá þeirri reglu er vikið í 2. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Auk þess hefur verið vikið frá reglum um atkvæðagreiðslur við nauðasamningsumleitanir og þá hafa frestir við nauðasamningsumleitanir fjármálafyrirtækja verið lengdir með sérákvæðum í lögum nr. 161/2002. Þessar breytingar hafa verið gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki, ýmist að frumkvæði stjórnvalda eða í kjölfar ábendinga frá slitastjórnum. Ástæða þess er sú að við framkvæmd slita fjármálafyrirtækja hefur komið í ljós að sumar reglur laga nr. 21/1991 sem fjalla um framkvæmd nauðasamninga falla illa að slitum þeirra stóru fjármálafyrirtækja sem nú standa yfir. Í því sambandi má benda á að samanlagður fjöldi lýstra krafna við slitin og umfang þeirra er einsdæmi í íslenskum skuldaskilarétti. Hið sama má segja um það sérstaka tilvik að kröfur á hendur búum hinna þriggja stóru banka hafa frá upphafi gengið kaupum og sölum á erlendum mörkuðum, ýmist í heild eða að hluta, og jafnt fyrir sem eftir frestdag. Hefur í íslenskri réttarframkvæmd ekki reynt á þýðingu ýmissa reglna laga nr. 21/1991 um framsal og rétt kröfuhafa við nauðasamninga þegar svo háttar til.
    Í tengslum við afnám fjármagnshafta hefur því verið tekið til skoðunar hvort hægt sé að einfalda frekar en orðið er reglur XII. kafla laga nr. 161/2002, sem fjallar m.a. um slit fjármálafyrirtækja, einkum þar sem mælt er fyrir um nauðasamningsumleitanir. Má segja að eftir því sem slitum fjármálafyrirtækja hefur undið fram hafi hugmyndir mótast um hvernig unnið verði að lokum slita þeirra svo raunhæft sé, sér í lagi þegar horft er til þeirra sérkenna sem eru á slitum fjármálafyrirtækja og sem víkja að verulegu leyti frá því sem almennt gildir hjá lögaðilum sem leita formlegra nauðasamninga eftir lögum nr. 21/1991. Þau sérkenni eru þessi helst:
          Fordæmalaus fjöldi kröfuhafa sem lýst hefur kröfum við slit fjármálafyrirtækja.
          Mikill munur á umfangi þeirra krafna sem hefur verið lýst við slit stærstu fjármálafyrirtækjanna.
          Lýstar kröfur við slitin hlaupa á nokkrum þúsundum til milljarða króna.
          Eignir búanna eru að meiri hluta til í erlendri mynt eða kröfum á hendur öðrum í erlendri mynt og jafnframt í mörgum tilvikum vistaðar á erlendri grundu.
          Kröfur á hendur búunum eru að miklum hluta til í höndum erlendra aðila og lýst í erlendri mynt þótt þeim hafi verið umbreytt í íslenskar krónur í kröfuskrá vegna reglna laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 161/2002.
    Við mat á því hvort unnt sé að víkja frá gildandi reglum um nauðasamningsumleitanir frekar en nú hefur verið gert verður að huga að ýmsum atriðum. Fyrst og fremst verður að líta til sjónarmiða um jafnræði kröfuhafa og til almennra reglna um afturvirkni laga. Ef hnika á til málsmeðferðarreglum um gerð nauðasamninga verður sérstaklega að líta til sjónarmiða um vernd minni hluta kröfuhafa sem verða að þola skerðingu í kjölfar atkvæðagreiðslu um nauðasamning. Með nauðasamningi er því í reynd kveðið á um að stjórnarskrárvarin eign verði skert með atkvæðagreiðslu sem fer fram í skjóli dómstóla og undir eftirliti þeirra. Varlega verður því að fara við breytingu á þeim reglum sem lúta að framkvæmd nauðasamningsumleitana.
    Hins vegar er það á valdi ríkja að gera breytingar á lögum á sviði skuldaskilaréttar, þ.m.t. reglum um framkvæmd nauðasamningsumleitana, en reglur af þeim meiði eru taldar til sérstaks hluta réttarfarsreglna. Þá er jafnframt til þess að líta að reglum um meðferð nauðasamningsumleitana hefur þegar verið breytt í tilviki fjármálafyrirtækja, en sú breyting var gerð með lögum eftir að slit þeirra höfðu hafist í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Auk þess hafa þrjú stærstu föllnu fjármálafyrirtækin enn sem komið er ekki tekið formlega ákvörðun, í samræmi við reglur laga nr. 161/2002, um hvort þau muni freista þess að leita nauðasamninga eða hvort þau muni óska eftir gjaldþrotaskiptum. Óhætt er þó að segja að þessar tvær leiðir standi þeim í reynd til boða þar sem fyrir liggur að eignir þeirra muni ekki hrökkva til greiðslu allra lýstra krafna.
    Slitastjórnir hinna föllnu banka hafa á síðustu missirum verið að móta hugmyndir um efni nauðasamninga. Þótt endanlegar tillögur liggi ekki fyrir má gera ráð fyrir því að lagt verði til að hlutafé í hinum föllnu bönkum verði skráð niður og kröfuhöfum afhent umráð eigna búanna. Í því sambandi má benda á að við slit fjármálafyrirtækja er slitastjórnum fært vald hluthafafunda og þar með vald til að leita nauðasamninga í stað hluthafa eða fyrri eigenda sem ekki njóta þeirrar heimildar samkvæmt ákvæðum laganna. Auk þess má gera ráð fyrir að vegna umfangs stærri fjármálafyrirtækja sem nú eru til slita muni frumvarp að nauðasamningi fela í sér greiðslur á löngum tíma. Jafnframt má gera ráð fyrir að það muni taka töluverðan tíma að efna nauðasamning, enda eru eignir búanna margs konar og innlausnartími þeirra mislangur. Mikilvægt er því að sem fyrst skapist vissa um hvort fyrirtækin muni freista þess að leita nauðasamnings með kröfuhöfum eða hvort þau verði tekin til gjaldþrotaskipta. Er frumvarpi þessu ætlað m.a. að renna stoðum undir það að slík ákvörðun geti legið fyrir hið fyrsta hjá fjármálafyrirtækjum og jafnframt að það liggi fyrir svo ­fljótt sem kostur er hvort þeim muni lánast að gera slíka samninga.
    Markmið með þeim tillögum sem frumvarpið hefur að geyma er m.a. að gera fjármálafyrirtækjum í slitum kleift að leysa upp efnahagsreikning sinn og að greiða til kröfuhafa eins ­fljótt og kostur er með gerð nauðasamnings, kjósi slitastjórnir að freista þess að gera nauðasamning eftir reglum laganna. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið litið til þess hvort með framangreindum breytingum sé gengið of nærri rétti smærri kröfuhafa, m.a. í ljósi þess að lagasetningarvaldi á að beita hóflega og almennt. Þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru m.a. tilkomnar vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem ríkja hér á landi, en slit fjármálafyrirtækja telst veruleg hindrun í vegi þess að hægt sé að aflétta fjármagnshöftum sem hafa verið í gildi á Íslandi frá hruni bankanna á árinu 2008. Ekki er talið að með fyrrgreindum breytingum sé gengið of nærri rétti minni hluta kröfuhafa, enda eru breytingarnar fyrst og fremst lagðar til í því skyni að greiða fyrir að slitum verði lokið með nauðasamningi. Í því samhengi skal tekið fram að með lögum nr. 95/2010 var lögum nr. 21/1991 m.a. breytt í því skyni að einfalda framkvæmd nauðasamninga og voru breytingarnar m.a. gerðar á grundvelli skýrslu réttarfarsnefndar til dóms- og kirkjumálaráðherra frá 10. september 2009. Í lögum um fjármálafyrirtæki er að finna ýmsar sérreglur sem gilda um nauðasamninga fjármálafyrirtækja. Með lögum nr. 78/2011, um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, voru leiddar í lög frekari breytingar á reglum um nauðasamningsumleitanir fjármálafyrirtækja sem viku frá þeim reglum sem gilda almennt eftir lögum nr. 21/1991. Meðal annars var slakað á kröfum um þátttöku í atkvæðagreiðslu við nauðasamningsumleitanir auk þess sem frestir voru lengdir. Frá þeim tíma eru nú liðin fjögur ár og hefur enn frekar skýrst hvernig þau fjármálafyrirtæki sem nú eru til slita muni vilja haga frumvarpi að nauðasamningi. Er þá einkum horft til þess sem að framan hefur verið rakið, að aukið hefur verið við heimildir til að greiða svokallaðar lágmarksgreiðslur sem tryggja smærri kröfuhöfum í miklum hluta tilvika fullar greiðslur, eða greiðslur að miklum meiri hluta lýstra krafna smærri kröfuhafa, samhliða því að stærri kröfuhöfum er veittur möguleiki á að gæta hagsmuna sinna með því að taka þátt í að fara með þá hagsmuni sem eru til tryggingar kröfum þeirra. Í tengslum við áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta er jafnframt lagt til að frumvarpi að nauðasamningi skuli fylgja mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum þess og áhrifum þess á stöðugleika í gengis- og peningamálum og á fjármálastöðugleika.
    Með hliðsjón af því sem að framan er rakið eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem er ætlað að einfalda nauðasamningsferli þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru til slita og tryggja að frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis fari ekki gegn markmiðum stjórnvalda um að tryggja m.a. stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Tilskipun 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 130/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Þar voru leidd í lög ýmis ákvæði er vörðuðu endurskipulagningarferli og slit fjármálafyrirtækja, þar á meðal sú meginregla að við ákvörðun um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækis og útibús þess í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu verði farið eftir lögum þess ríkis þar sem fjármálafyrirtækið hefur aðalstöðvar (þ.e. lögum heimaríkis fjármálafyrirtækisins). Samkvæmt tilskipuninni gilda lög heimaríkis fjármálafyrirtækisins þegar kemur að nauðasamningsferli, þar á meðal lokum slitameðferðar með nauðasamningi. Kveðið er á um þetta í 2. gr. og i-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar.
    Ekki er talið að ákvæði frumvarpsins stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar.

V. Áhrif tillagna frumvarpsins.
A. Áhrif á ríkissjóð.
    Þær breytingar og viðbætur sem lagðar eru til í frumvarpinu miða að því að einfalda reglur um gerð nauðasamninga fjármálafyrirtækja. Ekki verður séð að þessar breytingar geti haft áhrif á ríkissjóð. Það mat sem Seðlabanka Íslands er ætlað að vinna með frumvarpi þessu er hluti af núverandi starfsskyldum Seðlabankans. Ekki er því gert ráð fyrir viðbótarkostnaði fyrir bankann af þeirri vinnu.

B. Áhrif á íslenskt efnahagslíf.
    Úrlausn slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja án neikvæðra áhrifa á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins er mikilvægasta úrlausnarefnið í tengslum við losun fjármagnshafta. Frumvarpinu er ætlað að auðvelda gerð nauðasamninga slitabúanna. Frumvarpið er því hluti heildstæðrar stefnu stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem m.a. birtist einnig í frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Losun hafta án neikvæðra áhrifa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika er eitt mesta hagsmunamál efnahagsstefnunnar og mun styðja við sjálfbæran hagvöxt og aukna velferð íslensks samfélags.

VI. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft víðtækt samráð við Seðlabanka Íslands og sérfræðinga á sviði skuldaskilaréttar. Þá var haft samráð við forsætisráðuneytið og við vinnslu frumvarpsins var það kynnt innanríkisráðuneytinu og Fjármálaeftirlitinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á og viðbætur við ákvæði 103. gr. laganna sem hefur fyrirsögnina ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis o.fl.
     Um a-lið.
    Samkvæmt ákvæði 4. mgr. 77. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ber skiptastjórn að bæta það tjón sem hún kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum. Við skipun skilanefnda gömlu bankanna árið 2008 sendi Fjármálaeftirlitið hverjum skilanefndarmanni bréf um skaðleysi hans við störf sín. Hér er lagt til að við 1. mgr. bætist tveir nýir málsliðir þar sem kröfuhöfum á kröfuhafafundi verði gert kleift að samþykkja ábyrgðarleysi manna sem eiga sæti í slitastjórn. Þá er þeim kröfuhöfum sem ekki eru samþykkir slíkri ráðstöfun heimilt að samþykkja hana ekki, annaðhvort með því að greiða atkvæði gegn henni á fundum kröfuhafa eða þá með því að koma á framfæri mótmælum fyrir fund með kröfuhöfum. Hátti svo til verður sá kröfuhafi þá ekki bundinn af ábyrgðarleysisyfirlýsingunni. Núgildandi reglur útiloka ekki að kröfuhafar veiti mönnum í slitastjórn ábyrgðarleysisyfirlýsingar eða lofi að halda þeim skaðlausum af tilteknum lögmætum ákvörðunum og er með tillögunni ætlað að skjóta styrkari stoðum undir ákvarðanir kröfuhafa þar að lútandi.
     Um b-lið.
    Lagt er til að við 2. mgr. 103. gr. laganna bætist heimild til handa slitastjórn til að ávaxta eignir fjármálafyrirtækis í slitameðferð með fjárfestingu. Í 2. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sem á við um slitameðferð fjármálafyrirtækja, er kveðið á um að skiptastjóri skuli gæta þess að peningaeign þrotabús beri sem hagkvæmasta vexti á reikningi við banka eða sparisjóð. Peningaeignir fjármálafyrirtækja í slitameðferð eru verulegar og í fjölmörgum myntum. Telja verður það bæði samrýmast sjónarmiðum um fjármálalegan stöðugleika og almennum sjónarmiðum um aðgæslu fjármuna að víkka út heimildir slitastjórna með þeim hætti sem hér er ráðgert. Í ljósi náinna tengsla fjármálafyrirtækja í slitameðferð við þá banka sem stofnaðir voru á grundvelli laga nr. 125/2008 er talið eðlilegt að gefa svigrúm til samningsgerðar og endanlegs uppgjörs milli þeirra og fjármálafyrirtækja í slitameðferð með útgáfu skuldaskjala hvers konar. Einnig þykir rétt að skjóta stoðum undir ráðstöfun fjármuna sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð kunna að kjósa að gera vegna ákvæða frumvarps til laga um stöðugleikaskatt sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.
     Um c-lið.
    Það er markmið slitastjórnar að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis skv. 2. mgr. 103. gr. laganna og er þar heimild fyrir slitastjórn til að bíða eftir þörfum efndatíma réttinda fremur en að koma þeim fyrr í verð. Hins vegar er í ákvæðinu heimild til slitastjórnar til að ráðstafa réttindum fyrr en ella ef sýnt má telja að hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda eru meiri af því að ráðstafa slíkum réttindum. Í þessu ákvæði frumvarpsins er lagt til að slitastjórn sé heimilt að ráðstafa réttindum fjármálafyrirtækis, eftir atvikum án endurgjalds, á fyrri stigum til að ljúka megi slitameðferð. Er nauðsynlegt að slitastjórn hafi skýra heimild til að grípa til slíkra ráðstafana, enda séu hagsmunir hlutaðeigandi þannig meiri af því að ljúka megi slitameðferðinni. Skal slitastjórn tilkynna kröfuhafafundi fyrir fram um slíka ráðstöfun í samræmi við ákvæði 3. málsl. 3. mgr. 103. gr.

Um 2. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á og viðbætur við ákvæði 103. gr. a laganna sem hefur fyrirsögnina lok slitameðferðar og bættist við lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með lögum nr. 44/2009, sbr. lög nr. 78/2011.
     Um a-lið.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að slitastjórn geti vikið frá þeim fyrirmælum sem er að finna í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í þeirri grein eru helstu fyrirmæli um efni frumvarps að nauðasamningi samkvæmt lögum nr. 21/1991. Í nauðasamningsumleitunum felst að skuldari óskar eftir því að skuldir hans verði færðar niður um ákveðið hlutfall sem miðast við þá greiðslu sem boðin er fram af hálfu skuldarans sjálfs.
    Í flestum tilvikum efnir skuldari þær kröfur sem að honum beinast með eignum sem hann annaðhvort á við gerð nauðasamnings eða aflar sér með áfram­haldandi rekstri. Þegar um nauðasamninga fjármálafyrirtækja er að ræða háttar öðruvísi til, enda er með nauðasamningi fjármálafyrirtækis ráðgert að slitum ljúki með því að ráðstafa öllum eignum þess til greiðslu krafna á hendur því. Er sú regla því áréttuð í frumvarpinu og enn fremur lagt til að fram komi í frumvarpi að nauðasamningi fjármálafyrirtækis nánari tímasetning greiðslna til kröfuhafa, en slíkt er mikilvægt til þess að meta áhrif þess á stöðugleika í gengis- og peningamálum hér á landi. Tilgangur þess er einkum sá að hægt sé að meta áhrif greiðslna samkvæmt nauðasamningi á innlendan fjármálastöðugleika, en í frumvarpinu er lagt til að þau áhrif verði metin samhliða kröfu um staðfestingu nauðasamnings, auk þess sem gert er ráð fyrir því að áhrif nauðasamnings á starfandi fjármálafyrirtæki verði jafnframt greind. Um tímasetningu greiðslna fer annars eftir almennum reglum kröfuréttar sem miða almennt við það tímamark þegar greiðsla hefur borist kröfuhafa. Ef hins vegar um er að ræða heimild slitastjórnar eða fjármálafyrirtækis til þess að greiða upp skuldbindingu samkvæmt skuldabréfi eða annars konar við­skipta­bréfi, þ.e. svokölluð ,,fjársópsákvæði“ eða ,,cash sweep“ ákvæði, verður þó að miða við að slík ákvæði og önnur svipaðrar teg­undar, hvort sem um er að ræða útgreiðslur á öllum eftirstöðvum eða einungis að hluta, jafnist á við staðgreiðslu þegar áhrif á innlendan fjármálastöðugleika eru metin. Ekki er með ákvæðinu lagt til að hróflað verði við þeim reglum sem annars gilda um slit fjármálafyrirtækja, þar á meðal ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Hefur slitastjórn áfram forræði á því hvernig hún hyggst haga frumvarpi að nauðasamningi, þar á meðal á hvaða tíma greiðslur berist kröfuhöfum, en þó að því skilyrði uppfylltu að Seðlabanki Íslands telji það ekki ógna fjármálastöðugleika.
    Samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, fer slitastjórn fjármálafyrirtækis með vald hluthafafundar og ákveður jafnframt hvort óskað skuli eftir nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum. Slíkt vald er ekki í höndum fyrrverandi stjórnar eða hluthafafundar. Í lögunum er auk þess gert ráð fyrir að meðan slitastjórn hefur ekki enn farið fram á nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti hafi kröfuhafar aukna aðkomu að slitum, t.d. í ákvæði 3. mgr. 103. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um að mikilsverðar ákvarðanir um sölu eða ráðstöfun eigna verði bornar undir kröfuhafa eða fulltrúa kröfuhafa. Augsýnilega er þar mælt fyrir um meira samráð við kröfuhafa og því ekki óvarlegt að ætla að til þess að nauðasamningur geti komist á, kjósi slitastjórn að óska eftir slíkum samningi, sé mikilvægt að það gerist í samráði við kröfuhafa.
    Til þess verður einnig að líta að nú eru í slitum fyrrum þrjú stærstu fjármálafyrirtæki Íslands auk ýmissa annarra fjármálafyrirtækja sem áður störfuðu á íslenskum fjármálamarkaði. Á vegum þeirra hefur verið unnið að innheimtu eigna allt frá þeim tíma, eða á sjöunda ár. Við setningu laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, var áætlað að langan tíma gæti tekið að innleysa eignasafn hinna föllnu banka. Af þeim sökum var m.a. kveðið á um í 2. mgr. 103. gr. laga 161/2002 að slitastjórn ætti að hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis og ætti í því skyni að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum, fremur en að koma þeim fyrr í verð, nema hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum stofnfjárhafa eða hluthafa væru ríkari. Enn er efndatími ýmissa skuldbindinga í eigu búanna ekki kominn og kann að vera nokkuð langt að bíða efnda sumra krafna. Þau sjónarmið sem mæla fyrir um að meira kunni að fást fyrir eignir ef beðið er efnda hafa þó ekki breyst, en eðli þeirra eigna sem um teflir er þannig að núvirt endurgjald þeirra í söluferli er annað og minna en virði eigna þegar þær eru innleystar á lengri tíma og eftir því sem efndatími þeirra rennur upp.
    Það hefur verið mat slitastjórna að meira kunni að fást í endurheimtur vegna þessara útistandandi skuldbindinga ef beðið er efndatímans í stað þess að innleysa þær í aðdraganda þess að óskað yrði eftir að leita nauðasamninga með kröfuhöfum. Kröfuhafar geta auk þess haft hag af því að bíða með innlausn slíkra skuldbindinga og geta hugsanlega farið með þær sjálfir og annast þær þannig að meiri innheimtur verði til framtíðar en nú er fyrirséð. Af þessu leiðir hins vegar að erfitt getur reynst að ákveða nákvæmt virði þessara eigna kjósi slitastjórn að leggja fram frumvarp að nauðasamningi, enda getur óvissa fylgt því að beðið er efnda. Hér er m.a. átt við óvissu sem er ekki á valdi fjármálafyrirtækjanna, svo sem um getu skuldara til að greiða á gjalddögum og ytri áföll, t.d. ef veð rýrna eða við fall erlendra gjaldmiðla, auk annarra atvika sem ekki verða séð fyrir. Hagsmunir geta líka verið fólgnir í því að eiga áfram hluti í félögum eða fyrirtækjum. Því geta hagsmunir kröfuhafa af því að taka við skuldabréfi sem háð er fyrirvörum um innlausn eigna vel farið saman við væntingar þeirra um hærri innheimtur þegar til framtíðar er litið.
    Við gerð nauðasamningsfrumvarps samkvæmt núgildandi reglum er gerð krafa um að í frumvarpi að nauðasamningi skuli kveðið á um hversu mikið skuldarinn bjóðist til að greiða af samningskröfum og á hvaða formi og jafnframt hvenær greiðslur muni eiga sér stað. Hér er hins vegar lagt til, í ljósi þeirra atriða sem að framan hafa verið rakin, að fjármálafyrirtæki í slitum verði heimilað að bjóða fram greiðslu sem háð getur verið fyrirvörum um innheimtu og innlausn eigna fjármálafyrirtækis, enda sé slíkra fyrirvara skýrt getið í frumvarpi að nauðasamningi. Má hér t.d. hafa í huga það tilvik að fjármálafyrirtæki í slitum leggi fram sem tillögu að greiðsla til kröfuhafa fari þannig fram að boðin verði fram greiðsla með skuldabréfi þar sem endurgreiðslufjárhæð og efndatími geta verið háð fyrirvörum um innlausn eigna. Er það gert til þess að mæta framangreindum sjónarmiðum, sem þó hefði mátt ráða af gildandi lögum, en þannig er þeim kröfuhöfum sem taka við greiðslu í formi skuldabréfs ætlað að greiða atkvæði um greiðslur samkvæmt slíku skuldabréfi sem lagt er fram sem greiðsla og hefur verið metið til ákveðins verðs sem ákveðin hlutfallsleg greiðsla upp í kröfur kröfuhafa, jafnvel þótt sú greiðsla kunni að vera háð slíkum fyrirvörum. Hér vegast á sjónarmið um að frumvarp að nauðasamningi þurfi að vera nægilega ákveðið til þess að ekki orki tvímælis á síðari stigum hvers efnis nauðasamningur sé og hins vegar þau sérstöku sjónarmið sem ríkja við gerð nauðasamninga fjármálafyrirtækja þar sem í reynd er ekki stefnt að því að fjármálafyrirtæki í slitum sem leitar nauðasamnings hefji samsvarandi rekstur á ný, auk þess sem slitaferlið í heild sinni fer fram í meiri samvinnu við kröfuhafa en almennt gildir við nauðasamninga eftir lögum nr. 21/1991.
    Með fyrirhugaðri breytingu er ekki ætlunin að breyta þeim reglum sem annars gilda um efni frumvarps að nauðasamningi. Í ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um að í frumvarpi að nauðasamningi skuli kveðið á um hversu mikið skuldarinn bjóðist til að greiða af samningskröfum sínum og á hvaða formi, hvenær greiðslur muni eiga sér stað, hvort vextir og þá hverjir verði greiddir af samningskröfum og hvort trygging og þá hver verði sett fyrir efndum nauðasamnings. Í framkvæmd hefur verið fallist á að í boði að nauðasamningi geti falist algjör eftirgjöf krafna, hlutfallsleg lækkun þeirra, gjaldfrestur krafna, breytt form á greiðslu þeirra, eða blanda af framangreindum atriðum, eins og fram kemur í 2. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Við framkvæmd nauðasamningsumleitana hafa skuldarar lagt fram frumvörp að nauðasamningum sem hafa verið með ýmsu móti. Í framkvæmd hefur til að mynda þekkst að boðin hafa verið fram hlutabréf eða skuldabréf til greiðslu samningskrafna. Þótt vandasamt geti verði að meta slíkar greiðslur til fjár hefur það þó verið gert á ýmsan hátt, og eftir atvikum með vottorðum sérfróðra aðila, svo sem löggiltra endurskoðenda. Svo fremi sýnt sé skýrlega fram á verðmæti slíkrar greiðslu sem fram er boðin í frumvarpi að nauðasamningi er ekkert því í vegi að boðin sé fram slík greiðsla.
    Að auki er heldur ekki ætlunin að breyta þeim reglum sem almennt gilda um réttaráhrif nauðasamninga. Um það hefur verið fjallað af Hæstarétti, sbr. dóm frá 15. maí 2003, máli nr. 562/2002. Þar var niðurstaða Hæstaréttar m.a. sú að nauðasamningur breytir ekki efni kröfu á hendur skuldara sem leitar nauðasamnings heldur einungis aðferðinni við að efna hana og áhrifum hennar. Því getur ekki verið lagt til í nauðasamningi að framboðin greiðsla teljist fullar efndir á samningskröfu, eins og fram kom í dómi Hæstaréttar frá 14. október 2013, máli nr. 476/2013. Auk þess gildir áfram sú regla að frumvarp að nauðasamningi má ekki fela í sér ákvæði sem eru ósamrýmanleg reglum sem gilda um nauðasamninga, sbr. síðastnefnda dóminn. Þar var m.a. fjallað um ákvæði í nauðasamningi sem mælti fyrir um að 75% kröfuhafa gætu breytt skilmálum breytanlegs láns sem boðið hafði verði fram til greiðslu samningskrafna. Var það niðurstaða Hæstaréttar að slíkt ákvæði hefði í reynd falið í sér heimild til breytinga á nauðasamningi sem væri alls ósamrýmanleg reglum laga nr. 21/1991.
    Við fyrirhugaða breytingu þarf jafnframt að líta til hagsmuna minni hluta kröfuhafa. Til þess að koma til móts við hagsmuni þeirra og jafnframt til þess að gæta að vernd þeirra er brugðist við á tvennan hátt í frumvarpinu. Annars vegar er það gert með þeim áskilnaði að fyrrgreindra fyrirvara og skilyrða verði að vera skýrt getið í frumvarpi að nauðasamningi og af því leiðir að jafnframt verður að koma skýrt fram hvaða þýðingu þeir hafa við greiðslur til samningskröfuhafa. Geta þá kröfuhafar metið það við greiðslu atkvæða um framlagða tillögu um nauðasamning hvort þeir telji fyrirvara ásættanlega og raunhæfa og geti þar með ráðstafað atkvæði sínu eins og þeir kjósa. Hins vegar er brugðist við með því að skýra reglur um framkvæmd lágmarksgreiðslna til kröfuhafa við nauðasamningsumleitanir þannig að eftirleiðis verði heimilt að bjóða fram allt að fjórðung heildargreiðslna samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi.
    Í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 29. gr. sömu laga, er tekið fram að í frumvarp að nauðasamningi megi setja ákvæði um að kröfur innan tiltekinnar fjárhæðar sem teljast vera samningskröfur verði greiddar að fullu ef sú fjárhæð verður talin óveruleg í ljósi efnahags skuldarans. Ekki hefur reynt á það fyrir íslenskum dómstólum hvað telst vera óverulegt í framangreindum skilningi. Við setningu laga nr. 21/1991 var ákvæðið nýmæli. Tekið var fram að erfitt væri að tiltaka almenn sjónarmið um hvenær fjárhæð væri talin óveruleg í ljósi efnahags skuldarans, enda yrði að ætla að þetta yrði metið sjálfstætt hverju sinni með hliðsjón af heildarfjárhæð samningskrafna, andvirði eigna skuldarans, fjölda þeirra lánardrottna sem mætti vænta að fengi fulla greiðslu samkvæmt þessu í samanburði við þann fjölda sem fengi hana ekki og síðast en ekki síst hvort aðstaðan í heild sinni bæri keim af óhæfilegri mismunun lánardrottna. Með frumvarpi þessu er lagt til að þetta verði gert skýrt til þess að gera slitastjórnum kleift að undirbúa frumvarp að nauðasamningi. Ekki er þó lagt til að hróflað verði við þeim reglum sem að öðru leyti gilda um fyrrgreindar greiðslur, svo sem um framsal þeirra og fleira, en í þessu sambandi er þó vísað til c-liðar greinarinnar, þar sem fjallað er um atkvæðisrétt krafna og um heimild slitastjórna til að víkja frá ákvæðum 4. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991. Í því felst að slitastjórn getur boðið fram lágmarksgreiðslu samkvæmt fyrirhuguðu ákvæði til kröfuhafa, og þá miðað við stöðu krafna á þeim degi sem um ræðir í 5. mgr. 101. gr. án tillits til framsals þessara krafna fram að þeim degi, eða eftir þann tíma.
    Í október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stjórna og hluthafafunda í nokkrum fjármálafyrirtækjum og fól síðan skilanefndum að framkvæma vald sitt að því leyti. Með setningu laga nr. 44/2009 í apríl 2009 var kveðið á um það í lögum að slitastjórnir færu með réttindi og skyldur stjórna, hluthafafunda og stofnfjáreigendafunda þeirra fyrirtækja sem tekin væru til slita með dómsúrlausn.
    Slitastjórn er falið að meta það samkvæmt ákvæðum 5. mgr. 102. gr. og 4. mgr. 103. gr. hvort eignir fjármálafyrirtækis dugi til að greiða allar skuldbindingar. Ef sýnt þykir að eignir dugi ekki er m.a. heimilt að höfða riftunarmál skv. XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Það úrræði hefur verið nýtt og dómar fallið til samræmis. Af sama leiðir að ekki er útlit fyrir að við slitin greiðist neitt upp í hlutafé eða stofnfé í þeim fjármálafyrirtækjum.
    Ljóst er að ef slitameðferð lýkur með nauðasamningi þarf að breyta stjórnskipulagi viðkomandi fjármálafyrirtækis. Hlutverki slitastjórnar lýkur og við tekur hefðbundið stjórnskipulag viðkomandi félagsforms. Eðlilegt er því að slitastjórn og kröfuhafar viðkomandi fjármálafyrirtækis hafi svigrúm til að lækka eldra hlutafé og hækka það um leið aftur með því að kröfuhafar breyti hluta krafna sinna í hlutafé. Þetta getur þó einvörðungu verið heimilt í þeim tilvikum að slitastjórn hafi áður metið að eignir fjármálafyrirtækis dugi ekki fyrir skuldbindingum. Af því leiðir að raunverulegir hagsmunir eldri hluthafa eru engir og er því ekki nauðsyn að fram fari innköllun eða tilkynningar með þeim hætti sem greinir í VII. kafla laga um hlutafélög, nr. 2/1995, auk þess sem skýrt er tekið fram í ákvæðinu að í frumvarpi að nauðasamningi megi bjóða fram sem greiðslu nýtt hlutafé í því fjármálafyrirtæki sem í hlut á.
     Um b-lið.
    Lagðar eru til breytingar á gildandi 3. málsl. 3. mgr., er verður 8. málsl. málsgreinarinnar, til samræmis við breytingar í a-lið.
     Um c-lið.
    Mikilvægt er samkvæmt framansögðu að slitastjórn hafi nægt svigrúm til þess að kanna til þrautar hvort hún geti gert nauðasamning við kröfuhafa. Kröfur á hendur stóru bönkunum þremur hafa gengið kaupum og sölum og hið sama á við í einhverjum mæli um kröfur á hendur öðrum fjármálafyrirtækjum sem nú eru til slita. Er því ekki alltaf ljóst hver fer með atkvæðisrétt vegna lýstra krafna og kann það raunar að breytast frá degi til dags. Þá hefur almennu ferli nauðasamningsumleitana verið breytt með lögum nr. 95/2010 sem fólu m.a. í sér breytingar á ákvæði 47. gr. laga nr. 21/1991. Hér eftir getur skuldari því gert breytingar á frumvarpi sínu að nauðasamningi allt þar til atkvæðagreiðslu er endanlega lokið um frumvarpið. Samkvæmt því hefur slitastjórn rúmar heimildir til þess að breyta frumvarpi sínu að nauðasamningi meðan á nauðasamningsumleitunum stendur. Þá leiðir af reglum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að vanlýsingaráhrifa gætir við meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki í slitum og víkur þar með frá því sem annars gildir í kjölfar nauðasamninga. Þetta hefur verið staðfest í dómi Hæstaréttar frá 10. maí 2012, í máli nr. 259/2011. Af því leiðir að fyrir liggur hverjir hafa lýst kröfum við slit bankanna og jafnframt hverjir muni taka þátt í nauðasamningsumleitunum, kjósi búin að fara þá leið.
    Vegna þess mikla fjölda kröfuhafa sem lýst hefur kröfum við slit fjármálafyrirtækja, og jafnframt með hliðsjón af því að frestdagur var í sumum tilvikum ákveðinn sérstaklega með lögum, er hér lagt til að vikið verði frá almennri reglu laga nr. 21/1991 um skilyrði fyrir framsali krafna fyrir frestdag þegar ákveðið er hverjir teljist njóta höfðatöluatkvæðis við nauðasamningsumleitanir. Það skal áréttað að í 2. mgr. 151. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram að skiptastjóri geri skrá um atkvæðisrétt um frumvarp þrotamannsins að nauðasamningi, en í skránni á aðeins að greina þær kröfur sem hafa hlotið viðurkenningu við gjaldþrotaskiptin og atkvæðisréttur fylgir að mati skiptastjóra, en tiltekið skal hver atkvæði fylgi hverri kröfu, bæði að höfðatölu og eftir kröfufjárhæð. Ekki er lagt til að breyting verði gerð á þessu ákvæði. Er í frumvarpinu skýrt nánar að atkvæðisréttur kröfuhafa miðist við lýsta kröfu sem fram kemur í skrá yfir kröfuhafa við slit fjármálafyrirtækis, en atkvæðavægi eftir fjárhæðum og höfðatölu miðast hér eftir við stöðu kröfunnar í kröfuskrá, án tillits til framsals eða annarrar ráðstöfunar hennar á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag. Fyrir þessari reglu er m.a. sú ástæða að í sumum tilvikum er það vandkvæðum háð að rekja til baka svo sannanlegt sé hver átti kröfu á hendur fjármálastofnuninni á þeim tíma. Þá er jafnframt í a-lið greinarinnar lögð til rýmkun á heimildum til að greiða upp í kröfur ákveðna lágmarksfjárhæð, en með þeirri reglu er einkum litið til hagsmuna þeirra kröfuhafa sem hafa lýst lægri kröfum að lágri fjárhæð við slitin, auk þess sem í d-lið er lagt til að vægi höfðatöluatkvæða verði minna við atkvæðagreiðslu um nauðasamning fjármálafyrirtækis.
     Um d-lið.
    Við mat á því hvort og hvernig einfalda megi nauðasamningsumleitanir við lok slita, að teknu tilliti til reglunnar um jafnræði kröfuhafa, verður að líta til þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja við slit fjármálafyrirtækja, m.a. þess fjölda krafna sem bárust við slit þeirra. Má hér nefna að við slit Kaupþings bárust ríflega 28.000 kröfur.
    Samkvæmt reglum 49. gr. laga nr. 21/1991 er áskilið samþykki 60 hundraðshluta þessara kröfuhafa, en torvelt getur verið að verða við slíkri kröfu um þátttöku kröfuhafa við slit fjármálafyrirtækja þegar svo margir hafa lýst kröfum við slitin. Með lögum nr. 78/2011, sem breyttu lögum nr. 161/2002, var slakað á þessum reglum við meðferð nauðasamninga fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir það hefur ekki verið lagt til að breytt verði reglum um áskilið samþykki eftir fjárhæðum krafna. Þannig er áfram krafist þess að lágmarki að atkvæði vegna 60 hundraðshluta allra samningskrafna falli til samþykkis nauðasamningi.
    Í ljósi þeirra tillagna sem fram koma í c-lið greinarinnar þykir rétt að leggja til að við talningu atkvæða eftir höfðatölu verði hlutfallið einungis miðað við þá sem sannanlega greiða atkvæði við nauðasamningsumleitanir, en þó þannig að til samþykktar nauðasamningi fjármálafyrirtækis falli atkvæði 60 hundraðshluta þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslu til samþykkis nauðasamningsfrumvarpi. Það er þó algert skilyrði að öllum þekktum kröfuhöfum sem kunna að fara með atkvæðisrétt verði send tilkynning með sannanlegum hætti eftir reglum laga nr. 21/1991 um fyrirhugaðan fund til atkvæðagreiðslu og afleiðingar þess ef fundarsókn fellur niður af þeirra hálfu.
    Þessi tillaga er sett fram í því skyni að greiða enn frekar fyrir nauðasamningsferli þeirra fjármálafyrirtækja sem eru í slitum. Miðað við þá ríku hagsmuni sem hér eru í húfi fyrir fjármálafyrirtæki og þær sérstöku aðstæður sem ríkja við slit þeirra verður ekki talið að þessi breyting gangi of nærri hagsmunum smærri kröfuhafa. Er hér einkum litið til þess að almennt mun vera gert ráð fyrir því að frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis muni að meginstefnu til fela í sér að eignir fjármálafyrirtækja fari í hendur kröfuhafa, eins og rakið er í almennum athugasemdum hér að framan. Þá er einnig litið til þess að í e-lið greinarinnar er lagt til að reglur um atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi verði einfaldaðar.
     Um e-lið.
    Atkvæði um nauðasamning eru að meginreglu greidd á fundi sem haldinn er með kröfuhöfum í samræmi við 48. gr. laga nr. 21/1991, en einnig er heimilt að greiða atkvæði skriflega, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna. Til að auðvelda enn frekar atkvæðagreiðsluna voru gerðar breytingar á 45. og 50. gr. laganna með lögum nr. 95/2010. Í þeim fólst að kröfuhafi gæti þegar greitt atkvæði sitt í kröfulýsingu, háð því að ótvírætt væri skriflega að atkvæðið varðaði það frumvarp sem greitt var atkvæði um.
    Til viðbótar er nú lagt til að við atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis megi víkja frá skilyrði 1. mgr. 50. gr. laga nr. 21/1991, um atkvæði sem greitt er skriflega á annan hátt en í kröfulýsingu, og dugi þá að atkvæði sé sent rafrænt. Það er þó háð því skilyrði að það hafi sannanlega borist slitastjórn áður en fundur um atkvæðagreiðslu hefst, og er það á ábyrgð kröfuhafa að tryggja að það hafi borist slitastjórn. Á sama hátt er gert ráð fyrir að slitastjórn bóki um atkvæði sem borist hafa með þessum hætti í fundargerð skv. 4. mgr. 50. gr. sömu laga.
    Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram að sé atkvæði greitt á annan hátt en í kröfulýsingu þurfi atkvæði að bera með sér vottun á undirskrift atkvæðismanns, annaðhvort af tveimur vitundarvottum, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða lögbókanda. Er hér lagt til að vikið verði frá þessari reglu og látið við það sitja að atkvæði berist rafrænt. Er hér horft til fordæmalauss fjölda kröfuhafa við slit hérlendra fjármálastofnana, en einnig hefur verið litið til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með setningu laga nr. 89/2006. Er nú félagsstjórn félags heimilað, svo fremi ekki sé kveðið á um annað í samþykktum, að gefa hluthöfum kost á að taka rafrænt þátt í hluthafafundum og þar með að greiða atkvæði án þess að vera á staðnum. Þó er áskilið að félögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði sé skylt að gefa hluthöfum kost á að greiða atkvæði um mál sem eru á dagskrá hluthafafundar, bréflega eða rafrænt.
    Ekki eru lagðar til breytingar að öðru leyti á þeim reglum sem gilda um framkvæmd atkvæðagreiðslu við nauðasamningsumleitanir. Í fyrrnefndri 1. mgr. 50. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eru almennar reglur um heimildir lánardrottna til að greiða atkvæði skriflega um frumvarp skuldara að nauðasamningi í stað þess að þeir mæti til fundar sem umsjónarmenn með nauðasamningsumleitunum. Í framangreindu ljósi þykir rétt að stíga það skref að kröfuhafar við nauðasamningsumleitanir fjármálafyrirtækis geti greitt atkvæði rafrænt, enda uppfylli atkvæðið að öðru leyti þann áskilnað sem gerður er til slíkra atkvæða auk þess sem meginreglan verður áfram sú sem um getur í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Hér er auk þess í engu slegið af þeim kröfum sem annars gilda við meðferð atkvæða á fundi og kröfur um skýrleika atkvæðis, eins og fjallað er um að öðru leyti í framangreindu ákvæði. Þannig þarf atkvæði sem berst rafrænt fyrir fund kröfuhafa að bera með sér að það varði án nokkurs vafa það frumvarp sem er til atkvæðagreiðslu, auk þess sem það þarf að bera með sér ótvíræða og skilyrðislausa afstöðu atkvæðismanns og ljóst verður að vera frá hvaða kröfuhafa slíkt atkvæði stafar. Ef þessara krafna er ekki gætt verður atkvæði ekki talið gilt í þessu sambandi.
    Hér er því stigið mikilvægt skref í átt að því að liðka til fyrir gerð nauðasamnings þegar litið er til þess að samkvæmt almennum reglum um framkvæmd nauðasamningsumleitana er skuldara skv. 47. gr. laga nr. 21/1991 heimilt að gera breytingar á frumvarpi sínu að nauðasamningi allt þar til atkvæðagreiðslu er endanlega lokið um frumvarpið og þarf hann ekki að afla meðmæla með breytingu á frumvarpinu ef hún er skuldaranum til ívilnunar. Þar að auki heldur skriflegt atkvæði gildi sínu jafnvel þótt gerð hafi verið breyting á frumvarpi skuldarans atkvæðismönnum í hag samkvæmt reglum laga nr. 21/1991. Með tillögu frumvarpsins er því til viðbótar framangreindum reglum lagt til að vikið verði frá þeirri formkröfu sem lög nr. 21/1991 gera um atkvæði sem greidd eru fyrir fund með kröfuhöfum, en ekki er ætlunin að hagga við þeirri reglu að skriflegt atkvæði verði ekki dregið til baka nema með skriflegri yfirlýsingu atkvæðismanns eða þá með því að hann sæki fund þar sem atkvæði eru greidd og óski eftir að fá að greiða atkvæði á nýjan leik.
     Um f-lið.
    Lagt er til að þrjár nýjar málsgreinar bætist við 103. gr. a og að þær verði 4.–6. mgr. greinarinnar.
    Með nýrri 4. mgr. greinarinnar er gert að skilyrði að mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum nauðasamningsins og áhrifum hans á stöðugleika í gengis- og peningamálum og á fjármálastöðugleika liggi fyrir og enn fremur er lagt til að héraðsdómari skuli hafna staðfestingu nauðasamnings ef í vottorði Seðlabankans greinir að fyrirhugað frumvarp raski slíkum stöðugleika hér á landi. Um er að ræða mikilvægt skilyrði fyrir staðfestingu nauðasamnings, en við fall fjármálafyrirtækis skapast hætta á neikvæðum áhrifum á ytri stöðu þjóðarbúsins sem endurspeglast í endurfjármögnunaráhættu af erlendum lánum og þar með neikvæðum áhrifum á gjaldeyrismarkað. Jafnframt er mikilvægt að mögulegt sé að meta möguleg áhrif slíks nauðasamnings á peningamagn í umferð og í því sambandi getur Seðlabanki Íslands m.a. litið til uppgjörs annarra innlendra fjármálafyrirtækja. Benda má á að heildareignir fjármálafyrirtækja sem eru til slita í dag nema um 2.276 milljörðum kr. miðað við bókfært virði í lok árs 2014, eða um 114% af vergri landsframleiðslu. Mikilvægt er því að við framsetningu tillagna verði einnig tekið mið af sjónarmiðum um innlendan fjármálastöðugleika og, ef við á, af sjónarmiðum er varða stöðugleika í gengis- og peningamálum. Gera verður ráð fyrir að slitastjórn afli sér slíks vottorðs áður en hún leggur frumvarp fyrir kröfuhafa til samþykktar, enda mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir svo ­fljótt sem verða má. Til að tryggja að þetta mat liggi fyrir og til að undirstrika mikilvægi þess er jafnframt lagt til að héraðsdómari skuli hafna staðfestingu nauðasamnings ef í vottorði Seðlabanka Íslands greinir að framlagt frumvarp raski stöðugleika hér á landi. Í IX. kafla laga nr. 21/1991 eru tilgreind atriði sem líta ber til við mat á því hvort nauðasamningur verður staðfestur. Með þessu ákvæði er bætt við einu skilyrði sem einungis tekur til fjármálafyrirtækja.
    Í 2. mgr. 153. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er fjallað um skilyrði staðfestingar frumvarps sem hlotið hefur nægilegt samþykki kröfuhafa. Þar er gert það viðbótarskilyrði fyrir staðfestingu nauðasamnings að kröfur skv. 109.–112. gr. laganna séu áður greiddar, fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu þeirra eða hlutaðeigendur hafi samþykkt skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þess. Í nýrri 5. mgr. er lagt til að slitastjórn greiði fyrst forgangskröfur, en að því loknu samningskröfur. Við framsetningu tillögunnar var einkum höfð hliðsjón af þeim mikla fjölda kröfuhafa sem hefur lýst kröfum við slit fjármálafyrirtækja, auk þess sem með setningu neyðarlaganna nr. 125/2008 var gerð breyting á röð krafna við slit fjármálafyrirtækja þegar innstæður voru færðar í flokk forgangskrafna. Það hefur leitt til þess að mun fleiri forgangskröfur eru við slit fjármálafyrirtækja en annarra fyrirtækja.
    Til þess að einfalda fjármálafyrirtækjum að leggja fram frumvarp að nauðasamningi er því gert ráð fyrir að í nauðasamningstillögu geti falist að ákveðnar kröfur verði greiddar áður en til greiðslu samningskrafna kemur. Með tillögunni er því fallið frá því skilyrði að trygging hafi verið sett fyrir greiðslu þeirra, eða að hlutaðeigandi kröfuhafi hafi samþykkt skriflega að nauðasamningurinn verði staðfestur án þess að krafan sé greidd. Eins og fram kemur í ákvæðinu verður þó að koma skýrt fram að greiðslur til kröfuhafa sem fara með kröfur eftir 109.–112. gr. skuli greiðast áður en greiðslur til annarra kröfuhafa sem standa þeim að baki í kröfuhafaröðinni fara fram. Með tillögunni er því létt á þeim skilyrðum sem þurfa að vera til staðar til að gera nauðasamninga. Ef til þess kemur að forgangskröfuhafar fá ekki réttar efndir áður en aðrir réttlægri kröfuhafar fá efndir verður að telja að um verulegar vanefndir í skilningi 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 sé að ræða og að þær geti leitt til þess að nauðasamningur verði felldur úr gildi af þeim sökum. Með tillögunni er þó ekki hreyft við þeirri almennu reglu sem er að finna í 6. tölul. 58. gr. laga nr. 21/1991 að dómari getur synjað staðfestingar ef verulegar líkur eru færðar að því að skuldarinn muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur. Getur dómari við það mat, sem endranær, metið hvort framboðin greiðsla verði greidd og þá litið til þeirra krafna sem lofað er greiðslu á í frumvarpinu.
    Þá er í nýrri 6. mgr. lögð til sérstök regla sem heimilar slitastjórn að greiða kröfur skv. 112. og 113. gr. inn á fjárvörsluinnlánsreikning eða vörslureikning þeirra kröfuhafa sem lýst hafa kröfum við slit fjármálafyrirtækis og ágreiningur stendur um, sem og í þeim tilvikum þegar greiðslu samkvæmt nauðasamningi verður ekki komið til kröfuhafa vegna atvika sem varða hann sérstaklega. Reglan er sett fram til hagræðingar fyrir slitastjórn fjármálafyrirtækis sem getur þannig efnt nauðasamninginn, en með reglunni er lagt til að það verði gert á sambærilegan hátt og á við um greiðslu forgangskrafna eftir 6. mgr. 102. gr. laganna. Í þeim tilvikum þegar greiðslu verður ekki komið til kröfuhafa vegna atvika sem varða hann leiðir af fyrirhugaðri reglu að greiðsla telst þannig réttilega innt af hendi og verður því ekki borið við að nauðasamningur hafi verið vanefndur í skilningi 62. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
     Um g-lið.
    Hér eru lagðar til breytingar sem leiðir af breytingum í f-lið.

Um 3. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Þá er áréttað að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu fjalla um nauðasamningsumleitanir fjármálafyrirtækja og frávik frá þeim meginreglum sem gilda við nauðasamningsumleitanir eftir lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þær breytingar sem lögin fela í sér taka til nauðasamningsumleitana þeirra fjármálafyrirtækja sem hafa lagt fram frumvarp að nauðasamningi til að ljúka slitum eftir gildistöku laganna.

Um 4. gr.


    Bráðabirgðaákvæði III var á sínum tíma bætt við lög nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, með lögum nr. 127/2011, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, tollalögum og lögum um Seðlabanka Íslands. Með þeim lögum voru lögfestar reglur um gjaldeyrismál sem Seðlabankinn setti á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem kom inn í lögin þegar fjármagnshöftum var komið á 28. nóvember 2008.
    Bráðabirgðaákvæði III var ekki í hinu upphaflega frumvarpi sem varð að lögum nr. 127/ 2011 en kom inn í það við þinglega meðferð málsins með breytingartillögu. Tilgangurinn var að renna stoðum undir hina svokölluðu fjárfestingarleið Seðlabankans og taka af allan vafa um að Seðlabankinn gæti átt viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki svo framarlega sem slík viðskipti væru nauðsynleg til þess að hægt væri að losa um takmarkanir á fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum í samræmi við áætlanir þar um. Ákvæðið var tímabundið til 31. desember 2013.
    Með lögum nr. 92/2013 um breytingu á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, voru tímamörk ákvæðisins afnumin. Í athugasemdum frumvarps til þeirra laga sagði að með þessu væri verið að gæta samræmis við breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 16/2013, um breyting á lögum um gjaldeyrismál, þar sem ákveðið var að gildistími fjármagnshafta yrði ekki lengur afmarkaður í lögum. Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að mikilvægt væri að tryggja Seðlabankanum heimildir til að eiga tiltekin viðskipti og standa fyrir aðgerðum til losunar takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum í samræmi við áætlanir. Því væri mikilvægt að tryggja Seðlabankanum nauðsynleg úrræði til að losa um framangreindar takmarkanir.
    Nú er lögð til sú breyting á bráðabirgðaákvæði III að Seðlabanki Íslands hafi ekki ein­göngu heimild þrátt fyrir 2. mgr. 17. gr. laganna til að geta átt viðskipti við einstaklinga og lögaðila heldur skuli bankinn einnig hafa heimild til að taka við eignum og öðrum fjárhagslegum réttindum, enda sé slíkt nauðsynlegt að mati bankans til þess að hægt sé að losa um takmarkanir sem settar hafa verið á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti og til að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum.
    Bráðabirgðaákvæði III í lögum um Seðlabanka Íslands er undantekning frá meginreglu 2. mgr. 17. gr., þ.e. að bankanum er óheimilt að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki sem samkvæmt lögum, venju eða eðli máls teljast verkefni annarra. Almennt er viðurkennt að skýra beri undanþágur frá meginreglum þröngt. Til þess að allrar varúðar sé gætt og ekki leiki vafi á heimildum Seðlabankans við afnám hafta á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti er lagt til að skerpa á orðalagi ákvæðisins. Þar með er skotið stoðum undir heimildir Seðlabankans til að eiga þau viðskipti sem bankinn metur nauðsynleg og heimild bankans til að taka við eignum og öðrum réttindum fjármálafyrirtækis með viðskiptum eða á annan hátt í samræmi við c-lið 1. gr. frumvarpsins. Breytingartillagan gerir einnig ráð fyrir að tilgreint sé í ákvæðinu að viðskiptin eða fjárhagslegu ráðstafanirnar séu til þess fallnar að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Bráðabirgðaákvæðið kveður á um heimild Seðlabankans til að eiga viðskipti eða að taka við fjárhagslegum verðmætum en ákvörðun um að grípa til slíkra ráðstafana er í höndum þess sem eftir því leitar við Seðlabankann, sbr. athugasemdir við c-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Áréttað er að ákvæðið er til bráðabirgða. Ákvæðinu er hvorki ætlað að skapa grundvöll fyrir Seðlabankann, almennt séð, í trássi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 36/2001, til að eiga viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki sem teljast verkefni annarra, né að taka við fjárhagslegum réttindum eða verðmætum, nema þegar um er að ræða viðskipti eða fjárhagslegar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar í þeim tilgangi að greiða fyrir losun um takmarkanir á fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum og þar með gera Seðlabankanum kleift að bregðast við hættu á neikvæðum áhrifum á gengis- og peningamál.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (nauðasamningar).

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt og er liður í fyrirætlunum stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Megin efnisbreytingar þess eru af tvennum toga. Annars vegar eru ýmsar breytingar sem miða að því að einfalda nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja, svo sem með því að í frumvarpi að nauðasamningi verði heimilt að gera tillögu um greiðslu sem háð sé fyrirvara um innlausn eigna og með því að lækka tilskilið hlutfall kröfuhafa sem taka þátt í atkvæðagreiðslu um samþykkt nauðasamnings. Hins vegar er nýmæli þess efnis að kröfu um staðfestingu frumvarps að nauðasamningi skuli fylgja mat Seðlabanka Íslands á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins og að dómari skuli hafna staðfestingu þess meti bankinn það svo að það raski stöðugleika í gengis- og peningamálum eða fjármálastöðugleika. Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á lögum um Seðlabanka Íslands þess efnis að í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta verði bankanum heimilt að veita viðtöku hvers kyns fjárhagslegum verðmætum til að bregðast við hættu á neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum.
    Frumvarp þetta snýr ein­göngu að reglum um slitameðferð fjármálafyrirtækja og heimild Seðlabanka Íslands til að stuðla að stöðugleika í gengis- og peningamálum. Ekki verður séð að lögfesting þess hafi bein áhrif á fjárhag ríkissjóðs.