Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1428  —  206. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um opinber fjármál.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar (GÞÞ, AME, KG, SÁA, SBS, ValG).


     1.      Við 3. gr.
                  a.      Á undan 1. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Afkoma: Heildarafkoma eða rekstrarafkoma.
                  b.      Á eftir 5. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Heildarafkoma: Mismunur heildartekna og heildargjalda samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.
     2.      Við 1. tölul. 2. mgr. 5. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig skal áætla töluleg markmið um útgjaldavöxt og skuldir, að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum, hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
     3.      Við 7. gr.
                  a.      Við 1. tölul. bætist: þar til skuldahlutfall er orðið 0%.
                  b.      Orðin „og við­skipta­skuldum“ í 2. tölul. falli brott.
                  c.      Í stað „45%“ í 2. og 3. tölul. komi: 30%.
     4.      13. gr. orðist svo:
                  Ráðherra skipar þrjá menn í fjármálaráð samkvæmt tilnefningu Alþingis og jafnmarga til vara. Formaður skal tilnefndur sérstaklega og skipaður til fimm ára en aðrir til þriggja ára í senn. Ekki má skipa sama mann til setu í fjármálaráði oftar en tvisvar í röð.
                  Fjármálaráð er sjálfstætt í störfum sínum og setur sér starfsreglur. Þeir sem skipaðir eru í fjármálaráð skulu vera óvilhallir og hafa þekkingu á opinberum fjármálum. Formaður fjármálaráðs skal hafa lokið fram­haldsnámi á háskólastigi á fræðasviði sem lýtur að hlutverki ráðsins.
                  Hlutverk fjármálaráðs er að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem talin eru í 2. mgr. 6. gr. og skilyrðum 7. gr. Álitsgerðir fjármálaráðs skal birta opinberlega.
                  Eigi síðar en fjórum vikum eftir að tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu eða fjármálaáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi, eða tillaga til þingsályktunar um breytingu á gildandi áætlunum, skal fjármálaráð senda Alþingi umsögn sína um hana.
                  Stjórnvöld skulu leggja ráðinu til þær upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru og ráðið óskar eftir og tryggja því að öðru leyti viðunandi starfsskilyrði.
                  Ráðherra ákvarðar greiðslur til þeirra sem sitja í fjármálaráði.
     5.      Við 19. gr.
                  a.      3. málsl. 2. tölul. orðist svo: Fjárveiting í varasjóð fyrir hvert málefnasvið skal nema að hámarki 2% af fjárheimildum til málefnasviðsins.
                  b.      Lokamálsliður 2. tölul. falli brott.
     6.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Í stefnunni skal sérstaklega fjallað um fyrirhuguð útboð vegna framkvæmda og vöru- og þjónustukaupa yfir viðmiðunarmörkum laga um opinber innkaup.
     7.      Við 28. gr.
                  a.      Í stað orðanna „tveggja vikna“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: viku.
                  b.      Á eftir orðinu „ríkisstjórn“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: og fjárlaganefnd Alþingis.
     8.      Í stað orðanna „Hver ráðherra skal skrá ársáætlanir ríkisaðila“ í 4. mgr. 32. gr. komi: Hver ríkisaðili skal skrá ársáætlanir.
     9.      Orðin „að staðaldri“ í 1. mgr. 33. gr. falli brott.
     10.      Við 40. gr.
                  a.      Í stað „10%“ í 3. mgr. komi: 25%.
                  b.      Við 3. mgr. bætist: eða veltu þeirra stofnana sem fjármagnaðar eru með eigin tekjum.
     11.      Á eftir 41. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Styrkveitingar.

                  Hverjum ráðherra er heimilt að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Gera skal grein fyrir útgjöldum vegna slíkra styrkja í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga skv. 19. gr. og í ársskýrslu viðkomandi ráðherra skv. 62. gr.
                  Gera skal skriflegan samning um einstakar styrkveitingar, nema um sé að ræða minni háttar styrki, og skulu framlög samkvæmt þeim háð skilyrðum um fullnægjandi skýrslugjöf um framvindu verkefna og reikningsskil.
     12.      Við 3. mgr. 42. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeirri starfseiningu eða stofnun er heimilt, að höfðu samráði við ráðherra, að færa afnot, umsjón og rekstur eigna til ríkisaðila með sérstöku samkomulagi.
     13.      3. og 4. málsl. 4. mgr. 43. gr. falli brott.
     14.      Í stað orðanna „rekstrar- eða húsaleigu“ í 4. mgr. 45. gr. komi: leigu.
     15.      Í stað orðanna „Ráðherra skal tryggja eftirlit með“ í 2. mgr. 48. gr. komi: Ráðherra hefur eftirlit með því.
     16.      Í stað orðanna „veitt umsögn“ í 2. mgr. 62. gr. komi: tekið ákvörðun.
     17.      Fyrri málsliður 67. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.
     18.      1. málsl. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I orðist svo: Þrátt fyrir ákvæði 68. gr. gilda ákvæði laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, um uppgjör ríkisreiknings til og með 2016.