Ferill 771. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1462  —  771. mál.
Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Páli Val Björnssyni
um afplánun í fangelsi.


     1.      Hversu langur tími líður að meðaltali frá því að dómur er kveðinn upp um fangelsisrefsingu þar til dómþoli hefur afplánun?
    Á árinu 2012 liðu að meðaltali 350 dagar frá því að dómur var upp kveðinn þar til afplánun í fangelsi hófst. Árið 2013 var meðaltalið 367 dagar og 383 árið 2014.
    Á árinu 2012 leið að meðaltali 521 dagur frá því að dómur var upp kveðinn þar til samfélagsþjónusta hófst. Árið 2013 var meðaltalið 537 dagar og árið 2014 575.

     2.      Hversu margir fangar að meðaltali afplána á hverjum tíma refsingu í fangelsum landsins?
Ár 2012 2013 2014
Afplánunar- og gæsluvarðhaldsfangar 148 154 152

     3.      Hvað má ætla að margir þeirra sem afplána refsingu í fangelsi eigi við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða?
    Í nýrri óbirtri rannsókn 1 kemur í ljós að tæplega 60% fanga eiga við vímuefnavanda að glíma (75% þeirra sem skimuðust með athyglisbrest og ofvirkni) og rúmlega 70% eiga sögu um slíkan vanda (81% þeirra sem skimuðust með athyglisbrest og ofvirkni).
    Í rannsókninni kemur enn fremur fram að töluverð aukning virðist hafa orðið á vímuefnavanda íslenskra fanga á síðustu tveimur áratugum. Í rannsókn Jóns Friðriks Sigurðssonar og Gísla H. Guðjónssonar frá 1996 2 sögðust 68% fanga hafa neytt ólöglegra vímuefna en 87% í óbirtu rannsókninni sem að framan getur.

     4.      Hvað má ætla að margir þeirra sem afplána refsingu í fangelsi séu með ofvirkni og athyglisbrest eða skyldar raskanir?
    Í rannsókn á íslenskum föngum (Emil Einarsson, Jón Friðrik Sigurðsson, Gísli H. Guðjónsson, Anna Kristín Newton og Ólafur Örn Bragason, 2009) 3 kom í ljós að helmingur (50%) fanganna uppfyllti skimunarviðmið fyrir athyglisbrest og ofvirkni (AMO) í æsku og rúmur helmingur af þeim hópi, eða 60%, sýndi enn einkenni AMO þegar þeir tóku þátt í rannsókninni. Einnig kom í ljós að marktækt fleiri fangar sem uppfylltu skimunarviðmið fyrir AMO greindust með félagskvíða, vímuefnavanda og andfélagslega persónuleikaröskun en hinir sem ekki uppfylltu skimunarviðmið.
    Í áðurnefndri rannsókn Jóns Friðriks Sigurðssonar o.fl. greindist 31% fanga með AMO. Í þeirri rannsókn var notast við geðgreiningarviðtal þar sem notuð eru strangari viðmið en með skimunarlistum eins og notaðir voru í rannsókn Emils Einarssonar o.fl. Niðurstöður beggja rannsóknanna eru eftir sem áður samhljóða.

     5.      Hversu margir sálfræðingar, félagsráðgjafar, námsráðgjafar og sérfræðingar í meðferð við fíkn starfa í fangelsum landsins?
    Sálfræðingar: 2.
    Félagsráðgjafar: 2.
    Námsráðgjafi: 1.
    Sérfræðingar á meðferðargangi á Litla-Hrauni: 2.
    Sálfræðingarnir og félagsráðgjafarnir sinna um 600 skjólstæðingum þegar allt er talið, þ.e. föngum í fangelsum, þeim sem veitt er reynslulausn og þeim sem sinna samfélagsþjónustu.
Neðanmálsgrein: 1
1     Jón Friðrik Sigurðsson, Ingi Þór Eyjólfsson, Ingunn S.U. Kristiansen, Jónas Haukur Einarsson, Baldur Heiðar Sigurðsson, Halldóra Ólafsdóttir, Susan Young og Gísli H. Guðjónsson, óbirtar niðurstöður. Verið er að ljúka gagnasöfnun í þessari rannsókn, en hér er vísað í niðurstöður úr tveimur ritgerðum sálfræðinema við Háskóla Íslands, meistararitgerð Ingunnar S.U. Kristiansen (2013) og BS-ritgerð Inga Þórs Eyjólfssonar (2015).
Neðanmálsgrein: 2
2     Sigurdsson, J.F. & Gudjonsson, G.H. (1996). Illicit drug use among Icelandic prisoners prior to their imprisonment. Criminal Behaviour and Mental Health, 6, 98–104.
Neðanmálsgrein: 3
3     Einarsson, E., Sigurdsson, J.F., Gudjonsson, G.H., Newton, A.K. and Bragason, O.O. (2009). Screening for Attention Deficit Hyperactivity Disorder and co-morbid mental disorders among prison inmates. Nordic Journal of Psychiatry, 63:5,361–367.