Ferill 804. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1569  —  804. mál.




Svar


um­hverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um aðgerðaáætlun um loftslagsmál.


     1.      Hvað veldur því að á síðasta ári kom ekki út skýrsla um aðgerðir í loftslagsmálum frá samstarfshópi um loftslagsmál eins og verið hafði árin þar á undan?
    Formaður nefndarinnar ákvað að bíða með útgáfu skýrslunnar því von var á nýjum losunartölum frá 2013 snemma árs 2015. Væntingar um það hafa þó ekki staðist, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Skýrslan er nú nær fullbúin í lokadrögum, sem eru í yfirlestri, en gert er ráð fyrir að hún komi út í ágúst nk.

     2.      Hefur samstarfshópinn skort fjármagn eða umboð til að sinna störfum sínum frá því að núverandi ríkisstjórn tók við?
    Ársskýrslur samstarfshópsins byggjast annars vegar á nýjum losunartölum frá Um­hverfisstofnun og hins vegar á innleggi frá meðlimum samstarfshópsins varðandi einstakar aðgerðir. Miðað hefur verið við að birta skýrsluna eftir að nýjustu losunartölur liggja fyrir, sem er yfirleitt í apríl. Formaður nefndarinnar lagði til að fresta útgáfu, þar sem von var á nýjum losunartölum fyrr en venjulega á árinu 2015. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir, en engu að síður er skýrslan í lokadrögum nú og verður gefin út sem sam­eigin­leg skýrsla fyrir 2014 og 2015. Tryggja þarf að skýrslan geti framvegis komið út árlega, enda gefur hún mikilvægar vísbendingar um þróun losunar og framgang aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Ráðuneyti sem eiga fulltrúa í samstarfshópnum koma öll að þessu verkefni og þurfa þau að skila sínu framlagi en framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar hvílir á herðum margra ráðuneyta. Krafa um upplýsingagjöf og skýrslugerð í loftslagsmálum hefur aukist mjög á undanförnum árum af hendi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins, auk íslenskra stjórnvalda, en það starf er á fárra höndum.

     3.      Er ástæða þess að umrædd skýrsla hefur ekki komið út tengd skorti á eftirfylgni ríkisstjórnarinnar við tíu lykilaðgerðir aðgerðaáætlunarinnar og ýmsum öfugvirkandi aðgerðum hennar, svo sem lækkun kolefnisgjalds og breytingu á tekjuákvæði loftslagssjóðs?

    Skýringar á töfum við skýrsluna 2014 eru gefnar hér að framan. Engar grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á kolefnisgjaldi. Við gildistöku laga um gjaldið var fjárhæð þess miðuð við 50% af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði Evrópusambandsins en 2011 hækkaði það viðmið upp í 75% og ári síðar upp í 100%. Frá árinu 2013 hefur gjaldið tekið verðbreytingum í takt við aðrar krónutölubreytingar á sköttum. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um greiðslur til sjóðsins. Tekjur sjóðsins áttu helst að koma frá uppboðum á losunarheimildum, sem íslenska ríkið fær í sinn hlut, en ekki hefur tekist að halda uppboð vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um fyrirkomulag uppboða. Þessi mál eru alveg ótengd skýrslugerð samstarfshópsins.